26.03.1956
Neðri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

162. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Þetta frv,. sem hér liggur fyrir, er nú ekki svo sem nýtt að efni til, en ég var í landbn., þó að hv. frsm. meiri hl. n. tæki það nú ekki fram, algerlega mótfallinn því. Í fyrsta lagi er ég mótfallinn því, að það virðist ekki þurfa neitt annað, ef einstaklinga eða hópa manna langar til þess að ná í einhvern hluta af ríkiseignum, en að hafa hugkvæmni til þess að bera það fram, þá er hér á hinu háa Alþ. algerlega ugglaust fylgi þess, og finnst mér þetta afskaplega röng stefna, því að í raun og sannleika á hið háa Alþ. að athuga og vernda eignir ríkisins.

Viðvíkjandi þessu frv., sem hérna liggur fyrir, er það dálitið nýtt á móti öðrum jörðum, sem einstaklingar hafa viljað fá keyptar af ríkinu og hafa fengið á undanförnum árum, því að það hefur aldrei staðið neitt á því. Það venjulega er, að það sé til þess, að þeir fái ábúðarjarðir ellegar að þeir fái landspildur til ræktunar, en þessar tvær jarðir eru hvor tveggja eyðijarðir og eftir umsögn landnámsstjóra ekki til þess að vera ræktunarlönd.

En það er annað í þessu máli, að a.m.k. önnur þessara jarða liggur að heiðalöndum, og ég held, að það sé ákaflega vafasöm stefna, að jarðir, sem eru komnar í eyði og eru aðallega sem beitilönd og liggja að almenningi eða afréttarlöndum, séu seldar einstaklingum, enda kemur það fram í þessu, að jafnvel hefur ekki sézt jafneinkennilega orðað um sölu jarða og umsagnir og er í þessu frv. Með leyfi hæstv. forseta, langar mig nú til þess að lesa hérna upp frv. og svo úr grg. og taka jarðirnar fyrir sína í hvoru lagi.

Fyrst er það að selja ábúanda Kleppustaða í Hrófbergshreppi í Strandasýslu eyðijörðina Aratungu í sama hreppi fyrir það verð, sem dómkvaddir menn meta. Svo kemur grg.: „Elín Sigurðardóttir, kona Björns Sigurðssonar, ábúanda og eiganda Kleppustaða í Hrófbergshreppi, hefur með bréfi, dags. 27. apríl 1955, til sýslumannsins í Strandasýslu farið fram á að fá keypta eyðijörðina Aratungu í sama hreppi. Jörð þessi er gömul kirkjuhjáleiga. Um þessa jarðarsölu segir sýslumaðurinn m.a.: „Tel ég þau Kleppustaðahjón vel að því komin að fá jörðina keypta, enda er engum hægara að nytja hana en þeim.“ Þá eru þetta orðin hjón. Ábúandinn á að fá keypta jörðina, konan sækir um söluna, og þegar sýslumaðurinn mælir með því, þá eru það ábúendurnir. Hvernig stendur á þessu, að það er ekki maðurinn þá eða hjónin bæði, sem sækja um þetta? Mig langaði til að vita það hjá formanni landbn. Það hefur eitthvað þótt athugavert við þetta, og það koma símskeyti til að segja um hreppsnefndina, sem ég ætla að lesa upp, með leyfi forseta:

„Hreppsnefnd Hrófbergshrepps er því samþykk, að lagaheimild verði veitt til sölu jarðarinnar Aratungu. — Oddviti Hrófbergshrepps.“

Ekkert nafn. Oddvitinn skrifar undir, en ekkert nafn. Er það ábúandinn á Kleppustöðum, en konan sækir um að fá Aratungu keypta? Ja, mér finnst dálítið undarlegur og dálítið vafasamur þessi feluleikur um þetta. Konan sækir um að fá keypta jörðina, sýslumaðurinn bendir á, að ábúandinn hafi vel til þess unnið að fá hana keypta, og einmitt þessi jörð, eftir því sem landnámsstjóri segir, er ekki til ræktunar, en hún er gott beitiland, og hún liggur fremst í dal, og manni finnst eftir þessu, þar sem maður er ókunnugur þar, að hún liggi að afréttarlöndum. Er það heppilegt fyrir bændur í einni sveit, ef jörð leggst í eyði og liggur að heiðalöndum, að selja einum einstaklingi, sem gæti náttúrlega, ef þetta væri mikils virði, girt landið af? Ég held, að það yrði a.m.k. ekki til bóta fyrir sveitina í heild.

Svo er það hin jörðin, sem hérna kemur, sú næsta, að selja Guðjóni Guðmundssyni hreppstjóra á Eyri í Ingólfsfirði í Strandasýslu eyðijörðina Engjanes. Að dómi landnámsstjóra er þessi jörð búin að vera alls óræktanleg að mörgu leyti, og hann mælir með, að hún verði seld þess vegna. En eftir því sem er sagt, liggur hún milli Ófeigsfjarðar, alveg niður að sjó milli hreppanna, og er í umsögninni, að það sé ekki hægt að nytja hana nema af búendum í Árneshreppi. Um þetta segir sýslumaður Strandasýslu, með leyfi hæstv. forseta:

„Engar líkur eru til þess, að þessi jörð komist í ábúð, svo að séð verði. Með tilliti til þess, að jörð þessi verður vart nytjuð af öðrum en þeim, sem búa í Árneshreppi, vil ég eftir atvikum mæla með því, að Guðjón hreppstjóri fái hana keypta.

Hreppsnefndin í Hrófbergshreppi befur samþykkt, að leitað verði lagaheimildar til að selja jörðina Aratungu.“

En svo kemur um hina jörðina: „Hreppsnefnd Árneshrepps hefur og samþykkt, að leitað verði lagaheimildar til að selja eyðijörðina Engjanes, með þeim fyrirvara þó, að jörðin verði ekki seld án vitundar hreppsnefndarinnar.“

M.ö.o.: Hreppsnefndarmönnunum í Árneshreppi finnst það varhugavert, að einum einstaklingi sé selt þetta, enda setja þeir það í símskeyti, sem þeir senda hv. þm. Str., sem ég, með leyfi forseta, vil lesa upp:

„Hreppsnefnd Árneshrepps samþykkti á fundi sínum í gær, að lagaheimild verði veitt til sölu eyðijarðarinnar Engjaness í Árneshreppi, enda verði jörðin ekki seld á vitundar hreppsnefndarinnar.“

Ég er efins í því, þó að margt hafi verið gert hér um jarðasölu á Alþingi, að það hafi nokkurn tíma verið með þessum fororðum, sem þarna eru. Og í öðru lagi: Þetta er alveg ný leið, sem farið er inn á, þ.e. að selja einstaklingum beitiland þeirra jarða, sem eru að fara í eyði og liggja þannig, að það mundi verða líklegt, að það væri hreppsbúunum öllum til góðs, að þær væru ekki seldar, nema þá ef hreppurinn keypti þær. Og ég er viss um, að það er víða svo á landinu, að þegar um svona jarðir er að ræða, sem eru að fara í eyði, nálægt afréttarlöndum eða almenningi, þá er það fráleit stefna að selja þær einstaklingum.

Það þriðja, sem er í þessu frv., get ég nú verið stuttorður um. Það hefur ekki þótt þurfa mikils við, að það er heimilað skógrækt ríkisins að selja Birni Jóhannssyni bónda á Skriðufeill land jarðarinnar Skriðufells milli Hvammsár og Sandár. Hefur þetta bara verið flutt sem brtt. og engar umsagnir með.

Mér fannst, að ég yrði að gera grein fyrir því, að ég vildi ekki fylgja þessu máli, vegna þess að mér finnst, jafnlítið og gert hefur verið að því að leggja fram rök fyrir því að selja, hvort sem það eru jarðir eða stofnanir í opinberri eigu, að Alþingi sé of liðugt að samþykkja slík mál.