26.03.1956
Neðri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

162. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég vildi segja nokkur orð varðandi það, sem hv. 6. þm. Reykv. (SG) minntist á hérna áðan. Hann sagðist vera yfirleitt mótfallinn því að selja ríkiseignir til einstaklinga, og kemur mér sú skoðun hans ekki neitt á óvart, vegna þess að hann hefur oft getið þess hér áður.

Ég vil geta þess í sambandi við sölu þessara jarða, að hreppsnefndir viðkomandi hreppa hafa mælt með sölunni og einnig sýslumaður, og auk þess hefur landnámsstjóri, sem er einhver kunnugasti maður hér á landi varðandi þörf bænda fyrir jarðnæði, mælt með sölu þessara jarða.

Hv. 6. þm. Reykv. var að tala um, að þarna væri um land að ræða, sem væri inn til dala og því hluti af afréttarlandi, sem fjöldi bænda mundi þurfa á að halda. Ég vil benda honum á, að þarna er fjalllendi út frá hverri jörð og því ekki ástæða til að ætla, að það sé skortur almennt á beitilandi eða afréttarlöndum á þessum slóðum, allra sízt þar sem hreppsnefndin mælir með sölu þessara jarða.

Varðandi það, að umsagnir hreppsnefndar og sýslumanns séu ekki nógu skýrar, vil ég geta þess, að hérna er aðeins um heimild að ræða, og þar sem dómkvaddir menn eiga að meta verð á þessum jörðum, hefur sýslumaður það vitanlega í hendi sér, hvernig þetta verður virt, og getur í gegnum það haft áhrif á þessa sölu, og sömuleiðis mun hreppsnefndin ekki verða algerlega útilokuð frá því að leggja þar hönd að verki, ef einhver ágreiningur kann að rísa upp um sölu þessara jarða. Ef einhver óánægja kynni að vera um þessa hluti heima fyrir, þá er hægt fyrir þann ráðh., sem fer með þessi mál, að heimila ekki söluna, nema því aðeins að fyrir liggi, að það sé nokkurn veginn samkomulag um sölu þessara jarða.

Þá gat hv. þm. þess, að sér fyndist óeðlilegt, að það væri konan, sem skrifaði sýslumanni og sækti um sölu jarðarinnar, en ekki ábúandinn. En það finnst mér ekkert undarlegt, þar sem hér á landi ríkir jafnrétti á milli kvenna og karla, þannig að mér finnst það ekki vera neitt atriði í málinu.

Þegar litið er á þessi mál almennt út frá því séð, að þarna er ekki um nein veruleg nytjalönd að ræða, þá þarf maður ekki að vera neitt hikandi við að samþ. þessi heimildarlög. Það væri annað, ef málið horfði þannig við, að það væru líkur til þess, að þessar jarðir mundu einhvern tíma geta komizt í byggð, að þær hefðu yfir þeim skilyrðum að búa, en svo mun ekki vera eftir þeim umsögnum, sem hér liggja fyrir frá hendi landnámsstjóra, heldur hitt, að þetta eru til þess að gera frekar lítil lönd, sem engar líkur etu til að verði reist á býli síðar, þó að þróunin kunni að breytast nokkuð frá því, sem er í þessum efnum, og því ástæðulaust að ætla, að þarna verði gengið á rétt nokkurra í þessum efnum.

En það er alveg rétt hjá hv. 6. þm. Reykv., að það fylgir engin sérstök umsögn sölu þess skógræktarlands, sem farið er fram á að verði heimiluð samkvæmt þessu frv., sem hér liggur fyrir. En með leyfi hæstv. forseta, vil ég lesa hérna umsögn skógræktarstjóra og hans greinargerð fyrir því máli, sem hann ritar í bréfi þann 10. febrúar í vetur til hæstv. landbrh., þar segir m.a.:

„Ástæðurnar fyrir þessum tilmælum eru þær, sem hér skal greina:

Árið 1938 keypti skógrækt ríkisins jörðina Skriðufell af Búnaðarbanka Íslands til þess að koma á friðun Þjórsárdals, sem var lokið við á því ári. Frá því að þetta gerðist, hefur Jóhann Ólafsson búið á Skriðufelli fram til 1953 eða 1954, er Björn, sonur hans, tók við búi. Þeir feðgar hafa viljað byggja upp jörðina og þegar byggt upp nokkuð af henni, en þar sem skógrækt ríkisins hefur mjög takmörkuð fjárráð til slíkra hluta, hefur hún lítið lagt af mörkum til þessa, a.m.k. á móts við það, sem átt hefði að vera. Samt sem áður hefur skógrækt ríkisins ávallt haft nokkurn kostnað af því að eiga þessa jörð og hafa hana í byggð.

Eftir nákvæma íhugun hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, að bezta lausn á því að vera laus við óþarfa kostnað framvegis ásamt því að leggja ekki hömlur á framtakssemi ungs bónda væri að gefa ábúanda kost á hluta úr jörðinni til fullrar eignar, en án þess að slíkt bryti í bága við friðun dalsins.

Með því að gefa Birni Jóhannssyni kost á að kaupa land jarðarinnar milli Hvammsár, Sandár, Selgils og Þrengslagils mundi aðalskóglendi jarðarinnar vera undanskilið svo og allur Þjórsárdalurinn.“

Mér skilst, að út frá þeim rökum, sem skógræktarstjóri færir fyrir þessu máli, þá sé á allan hátt, bæði fyrir viðkomandi ábúanda og jafnvel skógræktina sjálfa, skynsamlegt að heimila sölu á þessu landi, og ég vil mælast til þess, að hv. þm. samþ. þær söluheimildir, sem hér er farið fram á í þessu frv.