11.11.1955
Neðri deild: 17. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (1421)

9. mál, matsveina- og veitingaþjónaskóli

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það tekur því naumast að halda langa ræðu um þetta litla frv. eða nokkra ræðu; það fjallar einungis um, að matsveina- og veitingaþjónaskólinn skuli hér eftir heyra undir menntmrn., en ekki samgmrn.

Þannig stendur á, að mér hefur verið falið með forsetaúrskurði að fara með matsveina- og veitingaþjónaskólann og stýrimannaskólann, sem samgmrh. að því leyti. Við meðferð þessara mála hef ég hins vegar sannfærzt um, að það fer mun betur á því, að þau séu meðhöndluð í menntmrn., því að þar eru þeir menn, sem kunnugastir eru skólamálum, útvegun kennara og rekstri skóla. Þess vegna hef ég talið heppilegt að bera fram breytingu varðandi bæði lögin um matsveina- og veitingaþjónaskóla og lögin um stýrimannaskóla, þannig að berum orðum sé tekið fram, að menntmrn. fari með mál þessara skóla. Það haggar ekki því, að hægt er að láta hvaða ráðh. sem er með forsetaúrskurði fá málin til meðferðar.

Þessi breyting er í samræmi við það, sem ákveðið var á síðasta þingi um iðnskóla. Þeir höfðu áður heyrt undir iðnmrh., en þá voru þeir lagðir undir menntmrn. Hins vegar þótti óeðlilegt að taka meðferð þessara skóla undan þeim ráðh., sem hafði með mál þeirra farið og undirbúið lögin um iðnskólana, og þess vegna var forsetaúrskurðinum breytt og núverandi iðnmrh. gerður menntmrh. að þessu leyti. Það má segja, að að því leyti hafi breytingin í fyrra á iðnskólunum ekki megnað að færa til á milli ráðherra meðferð málsins. Hins vegar hygg ég, að það sé ótvírætt, að hvað sem ráðherranum líður, sem hverju sinni fjallar um þessi mál, þá hafi um þessa skóla reynzt heppilegra að láta þá heyra undir sama ráðuneyti og flestir aðrir skólar gera, þ.e.a.s. menntmrn. Það eru þá hinir föstu starfsmenn þar, sem undirbúa málin í hendur þeim ráðherra, sem hverju sinni er falin meðferð málsins.

Vegna fyrirspurnar, sem fram kom í Ed. um það, hvort ég mundi beita mér fyrir því, ef þessi frv. yrðu samþ., að breyting yrði einnig á búnaðarskólum og húsmæðraskólum í sveitum, sem nú heyra undir landbrn., lýsti ég því þar afdráttarlaust yfir, að vitanlega kæmi mér ekki til hugar að bera fram slíka breytingu. Það er annar maður, landbrh., sem fer með mál þessara skóla, og mér er með öllu ókunnugt um þeirra málefni og hef ekki hugsað mér að gera neinar brtt. um meðferð þeirra.

Þetta vildi ég að lægi alveg ljóst hér fyrir, svo að það yrði ekki til truflunar á afgreiðslu þess litla máls, sem nú er til umræðu.