15.12.1955
Neðri deild: 35. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. fjhn. tók fram, var n. ekki alveg á einu máli um öll atriði, sem á góma ber í till. þeim, sem þó eru fluttar f. h. nefndarinnar allrar. Um ýmis atriði, sem þar var vikið að, var mjög mikið rætt í n., og vildum við hv. 9. landsk. þm. haga nokkrum atriðum á annan veg en kemur fram í till. fjhn., eins og þær liggja fyrir á þskj. 201. Við höfum þess vegna leyft okkur að flytja brtt. um nokkur atriði sem minni hl. nefndarinnar. Hafa þær verið afhentar til prentunar og munu fá þingskjalsnúmer 207, en hins vegar er prentun ekki lokið. Leyfi ég mér því á þessu stigi að lýsa þeim sem skriflegum brtt. og mun afhenda þær hæstv. forseta að loknum þessum orðum mínum, sem ég vil segja þeim til meðmæla.

Við viljum gera eina breytingu við 14. gr. frv., þann lið, sem fjallar um laun rektora og skólameistara menntaskólanna. Þeir hafa um mörg undanfarin ár verið í sama launaflokki og prófessorar, og þykir okkur rétt að halda þeirri reglu og leggjum til, að laun þeirra verði ákveðin í IV. launaflokki.

Við 15. gr. gerum við 4 brtt. Eru þær um laun landsbókavarðar, þjóðskjalavarðar og þjóðminjavarðar og enn fremur forstöðumanna og deildarstjóra náttúrugripasafnsins. Laun safnvarðanna þriggja, landsbókavarðar, þjóðminjavarðar og þjóðskjalavarðar, hafa um alllangt undanfarið bil verið samsvarandi fjölmörgum, ef ekki flestum þeirra embættismanna, sem nú eiga að taka laun samkvæmt IV. fl., og þykir okkur því eðlilegt, að þeirri reglu verði haldið og laun þeirra verði framvegis ákveðin í IV. fl. Hér er um gömul, virðingarmikil og mikilvæg embætti að ræða, sem við teljum rétt að hækki um launaflokk, fyrst á annað borð einhverjir voru fluttir upp úr V. fl., en þann launaflokk hafa þessir embættismenn skipað fram að þessu. Við leggjum einnig til, að forstöðumaður og deildarstjórar náttúrugripasafnsins taki laun samkv. V. fl., en í till. meiri hl. er gert ráð fyrir því, að aðeins forstöðumaðurinn taki laun samkvæmt V. fl., en deildarstjóri og sérfræðingar samkvæmt VI. fl. Við teljum rétt að gera deildarstjórana hér jafna forstöðumanninum, enda um algerlega sambærileg störf að ræða. Forstöðumennskan flyzt þar milli þessara þriggja deildarstjóra, sem um er að ræða, frá ári til árs, þannig að allir verða þeir forstjórar eitt ár af hverjum þremur. Okkur þykir eðlilegt, að þessi störf séu gerð jöfn í launaflokki deildarstjórum hjá atvinnudeild háskólans, en samkvæmt till. meiri hlutans og raunar launamálanefndarinnar, sem starfaði að undirbúningi frv., eiga deildarstjórar atvinnudeildar að hljóta laun skv. V. fl. Okkur þykir ekki eðlilegt, að deildarstjóra náttúrugripasafnsins sé skipað einum flokki lægra. Sérfræðingar hjá náttúrugripasafni ættu hins vegar að vera í VI. fl. eins og sérfræðingar hjá atvinnudeild.

Við 18. gr. frv. gerum við 3 brtt., efnislega séð 2. Hin fyrri þeirra er sú, að póstafgreiðslumenn skuli hækka um einn launafl., þ. e. a. s. úr X. í IX. launafl., þegar þeir hafa gegnt starfi í 10 ár. Fyrir þessari till. má færa mörg og að því er ég tel hiklaust sterk rök. Í þessu launalagafrv., eins og það liggur fyrir nú, er mikil breyting gerð á X. launaflokknum, eins og hann var samkvæmt launalögum samþykktum 1945. Fjölmargir starfshópar hafa verið fluttir upp úr þessum X. fl. og upp í IX. fl., meira að segja fjölmennustu hóparnir, sem X. launafl. skipuðu, svo sem barnakennarar. Í fyrstu till. fjhn. var gert ráð fyrir því, að barnakennarar skyldu geta flutzt upp í IX. fl. eftir 10 ára starf. Er það sannarlega eðlilegt, og vil ég sízt hafa á móti því. En við meðferð málsins var hlutur barnakennaranna leiðréttur enn frekar og þeir allir fluttir upp í IX. fl., til þess að enginn greinarmunur skyldi gerður á þeim mönnum, sem þetta starf annast. Það er sjálfsagt að búa sem bezt að þeim mönnum og starfsskilyrðum þeirra, sem annast eiga menntun og uppeldi æskulýðsins, barnanna. Og þess vegna höfum við, sem skipum þennan minni hluta, hv. 9. landsk. þm. og ég, stutt að þessari breytingu, eftir því sem við höfum mátt. En við teljum sporin ekki stigin að fullu í réttlætisátt, ef aðrir, sem sambærilegir geta kallazt og verða að kallast við barnakennarana, eru þá ekki líka látnir njóta einhvers sannmælis. Og það tel ég hiklaust að eigi við um póstafgreiðslumennina. Þeir voru ein þeirra stétta, sem skipað var í X. fl. launalaganna 1945, sem áður höfðu notið hæstra launa, en eiga nú að vera ein þeirra sárafáu stétta, sem skildar eru eftir í X. fl., því að ekki aðeins barnakennararnir hafa verið fluttir upp um heilan flokk, upp í IX. fl., heldur hafa einnig menn í sömu stofnun og póstafgreiðslumenn starfa í verið fluttir upp í IX. fl., ef þeir hafa gegnt störfum í 10 ár, og á ég þar við símritarana. Fyrir 1945 voru póstafgreiðslumenn betur launaðir en símritarar, m. a. vegna þess, að þeir hafa haft og hafa enn nokkra fjárhagslega ábyrgð með höndum. Það verður að kallast óeðlilegt, að starfsmannahópar innan sömu stofnunar, sem fyrir 1945 voru misjafnir í launum, en voru gerðir jafnir í launum 1945, skuli nú aftur verða gerðir misjafnir, en þannig, að hlutfallinu sé snúið við, þ. e. a. s., að póstafgreiðslumenn, sem voru hærri fyrir 1945, skuli nú eftir 10 ár, á árinu 1955, vera gerðir lægri en þeir, sem þeir voru fyrir ofan áður. Sú peningaábyrgð, sem póstafgreiðslumennirnir í mörgum tilfellum bera, gerir það hiklaust réttlætanlegt m. a., að þeir séu ekki skildir eftir, þegar jafnmiklar breytingar eru gerðar í X. fl. og raun er á. Höfum við í minni hl. því lagt til, að þeim verði veittur sá réttur að flytjast upp um einn flokk, upp í IX. fl., eftir 10 ára starf. Það er engin goðgá og skapast ekkert nýtt misrétti með því að samþ. þessa till., vegna þess að hliðstæð regla gildir nú þegar um ýmsa aðra fjölmennustu starfshópana, sem gert er ráð fyrir að taki laun eftir X. fl., svo sem t. d. lögreglumenn. En um Reykjavíkurlögregluna gildir það samkv. sérstökum samningi við Reykjavíkurbæ, að þeir starfsmenn eru fluttir upp um einn launaflokk eftir 10 ára starf. Auk þess er þess að geta, að þar er vinnu hagað í vöktum, sem greidd er sérstök aukaþóknun fyrir. Um einn mjög fjölmennan starfsmannahóp í þessum launaflokki, þ. e. a. s. tollverðina, er þess enn fremur að geta, að þeir hafa fengið raunverulegar kjarabætur á þann hátt að vera greitt álag á kaup sökum vaktavinnu, svo að segja má, að af öllum þeim fjölmennu starfsstéttum, sem nú skipa X. fl., séu póstafgreiðslumenn þeir einu, sem engar kjarabætur hafa fengið enn og ekki er gert ráð fyrir að fái neinar kjarabætur samkv. frv., eins og það nú liggur fyrir. Þess vegna vil ég mjög fastlega mæla með þessari brtt. okkar minni hlutans sem fullkomnu sanngirnismáli, að póstafgreiðslumönnum verði veittur sá réttur að hækka um launaflokk eftir 10 ára starf.

Þá leggjum við enn fremur til, að sömu reglur skuli gilda um bréfbera, þannig að þeir hækki um launaflokk eftir 10 ára starf. Starf bréfberans er vandasamt, mjög erfitt og erilsamt, en mjög lágt launað. Það er gert ráð fyrir því, að þeir taki nú laun eftir XII. launaflokki. Mér finnst engin sanngirni mæla með því, að við þá reglu verði fast haldið, enda eru laun í þeim launaflokki sannast að segja svo lág, að þau verða varla talin lífvænleg. En bréfberarnir sinna mjög vandasömu starfi, sem mikla nákvæmni og alúð þarf til þess að rækja vel, þar sem mikið ríður á, að þeim fatist aldrei í störfum sínum, og þegar um er að ræða útburð á ábyrgðarbréfum, póstávísunum og því um líku, þá bætist einnig fjárhagsábyrgð við. Starfið er sem sagt svo ábyrgðarmikið, að laun samkvæmt XH. launafl. virðast engan veginn svara til eðlis starfsins. Málakunnátta nokkur er einnig nauðsynleg, þegar svo mikil skipti eru við útlönd eins og hér á sér stað. Til þess að geta lesið í sundur hinn mikla erlenda póst, sem hingað berst, og skilað bréfunum til rétts viðtakanda, er slík kunnátta nauðsynleg, að laun samkvæmt XH. launafl. virðast ekki meta vanda starfsins fyllilega. Þess vegna höfum við lagt til, að bréfberar skuli njóta þess réttar að færast upp um launaflokk eftir 10 ára starf.

Fleiri breytingar hefðum við kosið að gera á liðnum um póstinn, en eftir þær ýtarlegu umr., sem fram hafa farið í n. um þetta mál, töldum við þó að rækilega athuguðu máli rétt að takmarka okkur við þessar brtt., hafa þær ekki fleiri en nokkur von mætti til teljast að gætu náð fram að ganga í þessari hv. deild.

Þá höfum við flutt eina brtt. við 21. gr. frv., sem er um laun gagnfræðaskólakennara. Samkv. frv., eins og það er nú, er gert ráð fyrir því, að gagnfræðaskólakennarar taki laun samkvæmt VIII. launafl. Hér er þó vægast sagt um blekkingu að ræða, um blekkingu, sem veldur því, að langflestir þeir, sem lesa frv., halda, að gagnfræðaskólakennarar fái raunverulega þau laun, sem gert er ráð fyrir í VIII. fl., þ. e. 35400 kr. hámarkslaun í grunn. En þetta er misskilningur vegna þess, að í 21. gr. laganna er ákvæði um, að öll árslaun kennara og barnaskólastjóra skuli vera miðuð við 9 mánaða kennslutíma minnst, en lækka um 1/12 hluta heildarlauna, þ. e. lækka um mánaðarlaun, fyrir hvern mánuð, sem kennslutíminn er skemmri. Til er reglugerð, ekki lagaákvæði, heldur reglugerð, sem Björn Ólafsson menntmrh. setti á sínum tíma og kveður svo á, að gagnfræðaskólar og gagnfræðaskólar einir skuli teljast átta mánaða skólar. Samkvæmt því hefur launagreiðslum til gagnfræðaskólakennara ávallt síðan verið hagað þannig, að þeim hafa verið greidd laun samkvæmt VIII. fl., að frádregnum að vísu hingað til 1/9, — meira en mánaðarlaunum, — sem nú á þó að breytast í 1/12, þ. e. mánaðarfrádrátt. Gagnfræðaskólakennarar hafa því undanfarin ár alls ekki fengið laun samkvæmt VIII. fl., heldur VHI. fl. að frádregnum 1/9 árslauna og á nú að vera VIII. fl. að frádregnum 1/12 árslauna. En þessi munur þýðir flokksmun og liðlega það, þannig að samkv. ákvæðum frv., eins og það er nú, hafa gagnfræðaskólakennarar lægri laun en barnakennarar, þar sem þeirra raunverulegu laun eru eilítið lægri en laun samkvæmt IX. launafl. Að vísu er þess að geta, að þeim er ekki skylt að vinna nema 8 mánuði. En þessi mánuður, sem þeim sparast, en er þó ekki fullur mánuður, miðað við aðalkennara, eins og ég skal koma að á eftir, er þeim tiltölulega lítils virði, því að hann bætir í tiltölulega litlu skilyrði kennaranna til þess að afla sér aukatekna með vinnu á sumrum. Þeir yrðu allir saman reiðubúnir til þess að vinna í 9 mánuði til að inna af hendi sams konar vinnu og barnakennarar og aðrir framhaldsskólakennarar í 9 mánuði, ef þeim væri á því gefinn kostur. En reglugerðarbókstafurinn býður í rauninni, hvort sem þörf væri fyrir kennarana eða ekki, að þeim skuli ekki greidd laun samkvæmt þeim launaflokki, sem þeir eru settir í, heldur með mánaðarfrádrætti. Þetta er eitt þeirra mála, sem mest hafa verið rædd í hv. fjhn. nú á milli umr. Enginn, sem um þetta mál hefur fjallað, hvorki í fjhn. beggja deilda né heldur í milliþn. um launamál, hefur viljað bera á móti því, að þetta ástand sé óviðunandi. En menn hefur greint nokkuð á um, hversu langt skyldi ganga til þess að bæta úr þessu. Það er ekki verjandi ástand, að raunveruleg laun kennaranna í gagnfræðaskólum séu lægri en laun kennara í barnaskóla, jafnvel þó að starfstími þeirra sé talinn — sé talinn, segi ég og undirstrika það — einum mánuði styttri, sérstaklega þegar tillit er tekið til þess, að til gagnfræðaskólakennaranna eru í lögum um gagnfræðanám frá 1948 gerðar allmiklar menntunarkröfur. Þeir eiga að hafa annaðhvort kennarapróf eða stúdentspróf og eins til tveggja ára háskólanám til viðbótar í þeirri grein, sem þeir kenna, og auk þess vera færir um að kenna fleiri en eina grein. Það eru gerðar kröfur til gagnfræðaskólakennaranna um allt að tveggja ára sérnám til viðbótar, og það á að launa með því að greiða þeim lægri laun en barnakennurum og réttlæta það með því einu, að þeir hafa að nafni til nokkru styttri starfstíma. Þetta er svo hróplegt ranglæti, að gersamlega óverjandi er, enda hefur enginu, sem um þetta mál hefur fjallað á hinn síðara stigi málsins, viljað verja það, jafnvel þótt málið hafi komið svona frá 2. umr.

Það, sem meiri hl. n. hefur viljað gera í málinu, er það eitt að samþykkja viðbót við 21. gr. um, að ef kennarar vinni önnur störf í þágu skólans en þeim sé ætlað samkv. stundaskrá, sem samin er í samræmi við kennsluskyldu þeirra, þá megi taka tillit til þeirra aukastarfa, þegar árlegur kennslutími, sem launin eru miðuð við, er ákveðinn. Hér er m. ö. o. verið að gefa undir fótinn um það, að einstakir kennarar skuli sækja á við skólastjóra sína, við fræðslumálastjóra, við ráðherra, um að fá einhverja óákveðna vinnu metna til fjár, þannig að þeir fái nokkurs konar launauppbót. Ég tel þetta vera slíkt öryggisleysi fyrir stéttina í heild, að ekki sé við það unandi. Hér er auk þess svo mjög gefið undir fótinn um mismunun á kennurunum eftir dugnaði þeirra eða getu til þess að ota sínum tota og eftir mati yfirmanna þeirra, fræðslumálastjóra eða ráðherra, að óviðunandi er að samþykkja greinina þannig. Um mál eins og þessi eiga að gilda skýrar og ótvíræðar reglur. Starfsmenn eiga að vita, hver er réttur þeirra, og þá . um leið, hver er skylda þeirra. En að vera að samþykkja reglur fyrir fjölmennar stéttir, stéttir, sem skipta hundruðum, þar sem það á að ráða laununum, hversu duglegir menn eru að ota sínum tota og hvert mat yfirmenn leggja á meira og minna óljós atriði, svo sem hér er um að ræða, tel ég ekki viðunandi.

Þess vegna höfum við leyft okkur að leggja til í minni hlutanum, hv. 9. þm. landsk. og ég, að við 21. gr. bætist svo hljóðandi ný málsgr., með leyfi hæstv. forseta: „Árslaun gagnfræðaskólakennara skulu þó ekki skert, nema skólarnir starfi skemur en 8 mánuði, en þá skulu þau lækka um 1/12 fyrir hvern mánuð, sem starfstími skólanna er skemmri.“ Við gerum m. ö. o. ráð fyrir því, að gagnfræðaskólakennararnir skuli njóta launa samkvæmt þeim flokki, sem þeir eru settir í, í lögunum, þeir skuli fá þau laun, sem lögin gefa í skyn að þeir hafi, þ. e. a. s. samkvæmt VHI. fl., jafnvel þótt starfstími skóla þeirra sé ekki talinn og sé ekki nema 8 mánuði, að þeir skuli fá full laun samkv. flokknum, samkvæmt því embætti, sem þeir eru skipaðir til þess að gegna, á þeim grundvelli, að það sé ekki á þeirra ábyrgð og sé þeim í sjálfu sér óviðkomandi, hvað yfirvöldin ákveði að skóli þeirra skuli starfa lengi. Það get ég sagt til viðbótar, að þeir mundu allir hiklaust fallast á, að þeim væri gert að skyldu að vinna jafnlangan tíma og menn vinna almennt í öðrum framhaldsskólum og barnaskólum. Við það mundi enginn þessara kennara hafa neitt að athuga. Það er ekki um að ræða, að þeir vilji koma sér undan sams konar vinnu og unnin er í öðrum framhaldsskólum eða barnaskólum. Það er um það eitt að ræða, að þeir vilja fá greidd þau laun, sem launafl. gerir ráð fyrir að þeim séu greidd, án tillits til þess, hvort ráðh. gefur út reglugerð um það, að skóli þeirra sé talinn 8 mánaða eða 9 mánaða skóli. Það er atriði, sem þeir hafa engin skilyrði til þess að hafa áhrif á.

Það, sem gerir þessa till. alveg sérstaklega réttlætanlega, er, að ákvæði 21. gr. frv. og laganna núna, að árslaun allra kennara og barnaskólastjóra séu miðuð við 9 mánaða kennslutíma, og ákvæði reglugerðar Björns Ólafssonar um það, að gagnfræðaskólarnir skuli teljast aðeins 8 mánaða skólar, fá í raun og veru ekki staðizt, ef þau eru borin saman. Það er alls ekki eins mánaðar starfstímamunur á gagnfræðaskólunum og þeim öðrum framhaldsskólum, sem taldir eru 9 mánaða skólar, og barnaskólunum, sem taldir eru 9 mánaða skólar. Þetta er mergurinn málsins. Það getur hver einasti hv. dm. kynnt sér, sem fyrir því vill hafa, að yfirleitt eru framhaldsskólarnir og barnaskólarnir alls ekki fullra 9 mánaða skólar. En engu að síður eru þeir hvað launagreiðslur snertir taldir 9 mánaða skólar. Ég er sízt af öllu að finna að því. Ég álít, að það sé fullkomlega rétt, að barnakennarar og aðrir framhaldsskólakennarar fái laun samkvæmt þeim flokki, sem þeir eru settir í. En það er hróplegt ranglæti að draga heils mánaðar laun af gagnfræðaskólakennurunum fyrir það eitt, að þeirra skólar starfa kannske tveim vikum og ekki fullum tveim vikum skemur en hinir skólarnir, aðeins af því að ráðh. hefur þóknazt að setja í reglugerð, að þessir skólar skuli teljast 8 mánaða skólar. Hér eru m. ö. o. laun stórrar stéttar skert um heils mánaðar laun, miðað við sambærilegar stéttir, þó að hún vinni aðeins í hæsta lagi hálfum mánuði skemur að meðaltali en hinir, sem þó fá heil mánaðarlaun fram yfir þá. Þetta er svo augljóst ranglæti, að úr þessu teljum við að verði að bæta.

Þá hef ég lokið við að lýsa þeim till., sem við hv. 9. landsk. þm. höfum flutt sem minni hluti hv. fjhn.

Ég hef einnig leyft mér að flytja nokkrar brtt. persónulega og skal nú gera grein fyrir þeim að síðustu í örfáum orðum. Ég hef leyft mér að flytja þrjár brtt. við 9. gr. Tvær hinar fyrri eru um það, að bætt verði nýjum lið inn í liðina um borgardómara- og sakadómaraembættin, þ. e. gera ráð fyrir því, að tekin verði upp við bæði embættin ákvæði um einn dómara í V. launafl. Eins og ákvæðin eru nú, eru sakadómari og borgardómari í III. launafl., hafa verið hækkaðir um einn flokk. En dómarafulltrúarnir eru hins vegar í VI. fl. Það er þriggja flokka munur á yfirmönnum stofnunarinnar og næstu undirmönnum. En dómarafulltrúarnir eru margir í báðum embættunum. Störf dómarafulltrúanna hafa á síðari árum breytzt þannig, að nú vinna þeir algerlega sjálfstætt, kveða upp dóma samkvæmt gildandi lögum á eigin ábyrgð, en ekki á ábyrgð sinna yfirmanna. Dómarafulltrúarnir starfa því algerlega sjálfstætt, og í forföllum yfirmanna sinna, sakadómarans og borgardómarans, gegnir einhver þeirra, venjulega sá, sem er elztur í starfi, starfi yfirmannsins. Það er mjög eðlilegt að gera hlut dómarafulltrúanna í heild betri en gert er ráð fyrir að verði samkvæmt frv., og um það mál var allmikið rætt í n. Það hlaut ekki byr, og hef ég því talið algerlega vonlaust að flytja um það brtt. En hins vildi ég freista, að tekið yrði upp ákvæði um það, að einn af dómarafulltrúunum við hvort embættið um sig yrði nefndur dómari og færður upp um einn flokk og yrði þá eins konar varamaður sakadómarans og borgardómarans, og geri þá auðvitað ráð fyrir því, að það verði sá dómarafulltrúinn, sem lengst hafi gegnt embættinu. Tel ég laun slíks manns sízt vera ákveðin of hátt, þó að honum yrði skipað í V. launaflokk. Þetta tel ég í raun og veru vera lágmark þess, sem hægt sé að gera í sambandi við dómarafulltrúastéttina, og hefði talið eðlilegt og réttmætt að gera meira.

Þá hef ég einnig flutt tillögu um, að ríkislögregluþjónar skuli njóta þess réttar að hækka um einn launaflokk eftir 10 ára starf. Þeir eru í X. flokki, en mundu þá eftir 10 ára starf flytjast í IX. launaflokk. Geri ég þessa tillögu til samræmis við það, sem á sér stað með lögregluþjóna hér í Rvík. (Gripið fram í: Hvað eru ríkislögregluþjónar?) Það segir sig nú sjálft, enda er till. um það, en hvaða ástæða er til þess að setja ríkisstarfsmenn skör lægra en bæjarstarfsmenn? Ætti það sízt að heyrast í þeirri stofnun, sem fjallar um mál ríkisins, að ástæða sé til þess að setja starfsmenn ríkisins skör lægra en starfsmenn höfuðstaðarins. Ég tel það sjálfsagt metnaðarmál fyrir ríkið, metnaðarmál fyrir Alþingi, að láta ekki þá starfsmenn, sem Alþingi ákveður laun fyrir, vera skör lægri en þá starfsmenn, sem bæjarstjórn Reykjavíkur getur ákveðið launakjör hjá. Í raun og veru er fullkomlega óeðlilegt, að til skuli vera lögreglumenn í tveim launaflokkum eftir því, hvort þeir kallast ríkislögreglumenn eða bæjarlögreglumenn. Það er misrétti, sem ég tel algerlega óverjandi.

Sama er þá að segja um þá brtt., sem ég hef flutt við 11. gr. og fjallar um tollverðina, þ. e. a. s., að þessi sama reglu, 10 ára reglan, skuli gilda um þá. Þeir eru nú í X. flokki og ættu þá að geta komizt í IX. flokk eftir 10 ára starf. Er það enn gert til samræmis við lögregluþjónana og til samræmis við þá tillögu, sem við hv. 9. landsk. þm. flytjum sem minni hl. n. um póstafgreiðslumennina. Ég rek ekki enn rökin fyrir því, að eðlilegt sé, að þessum starfsmönnum sé veittur kostur á flutningi um einn launaflokk eftir 10 ár, laun í X. launaflokki eru það lág, að fullkomlega er eðlilegt og sanngjarnt, að menn geti eftir 10 ára starf hjá ríkinu notið þess að hækka um einn launaflokk.

Þá hef ég leyft mér að flytja eina brtt. við 14. gr., en hún er um laun háskólabókavarðar og fjallar um það, að hann skuli fluttur úr V. launafl. upp í IV. launafl., þ. e. a. s. í sama launaflokk og prófessorar. Þegar háskólabókavarðarembættið var stofnað fyrir meira en áratug, voru honum ákveðin laun í sama launaflokki og prófessorar, sem var V. launaflokkur þá. Eftir að þeir hafa verið hækkaðir, er mjög æskilegt, að laun þessa starfsmanns verði einnig hækkuð með sama hætti.

Vegna þess, hve mikið átakamál launamál gagnfræðaskólakennara voru í hv. fjhn., og vegna þess, hversu ríka áherzlu ég legg á, að einhver betri lausn fáist á því máli en felst í till. meiri hl. fjhn., hef ég einnig leyft mér að flytja varatill. við till. minni hlutans um laun gagnfræðaskólakennaranna. Hún er á þá leið að þrengja enn skilyrði þess, að þeir skuli reiknast 9 mánaða kennarar, frá því, sem gert er ráð fyrir í till. minni hl., og binda þann rétt einvörðungu við þá kennara, sem fullnægja skilyrðum laga nr. 48 1946, um gagnfræðanám. Nú annast kennslu í gagnfræðaskólunum menn með tvenns konar menntun, þ. e. a. s. annars vegar stunda kennslu í gagnfræðaskólunum menn, sem hafa sams konar menntun og barnakennarar, þ. e. hafa almenn kennararéttindi, en hins vegar stunda kennslu í gagnfræðaskólunum menn, sem hafa háskólamenntun, mjög margir, sem hafa fullgilt háskólapróf, en einnig mjög margir, sem fullnægja lágmarkskröfum gildandi laga um gagnfræðanám, þ. e. a. s. kennarapróf eða stúdentspróf og eins til tveggja ára nám í viðbót í háskóla í þeirri grein, sem þeir kenna. Þessi kennslustörf stunda því menn með tvenns konar menntun. Framtíðartakmarkið er auðvitað það, þess vegna eru ákvæði laga um gagnfræðanám eins og þau eru, að það stundi engir aðrir kennslu í gagnfræðaskólunum en þeir, sem hafa annaðhvort kennarapróf eða stúdentspróf og eins til tveggja ára háskólanám til viðbótar. En á slíkum mönnum hefur ekki verið völ í nægilega ríkum mæli, og þess vegna hafa verið teknir til kennslu í gagnfræðaskólunum ýmsir menn, sem ekki fullnægja skilyrðum gildandi laga. Nú verð ég að segja, að gagnvart þessari starfsstétt hlýtur það að teljast alger lágmarkskrafa, að þeir menn, sem fullnægja skilyrðum gildandi laga um allt að tveggja ára háskólanám til viðbótar kennaranámi eða stúdentsprófi, séu ekki lægra launaðir en barnakennarar, m. ö. o., að það sé ekki látið valda frádrætti í launum þessara kennara, að þeir hafa lagt það á sig að fullnægja skilyrðum gildandi laga eða jafnvel hafa fullgilt embættispróf. En ef þessi varatill. yrði samþykkt, þá mundi hópurinn, sem reiknaður yrði 9 mánaða kennarar, enn minnka, miðað við aðaltill., þ. e. a. s., þá mundi launaskerðingin aðeins ná til þeirra, sem hafa ekki háskólamenntun eða fullnægja ekki skilyrðum gagnfræðanámslaganna, og það verð ég að segja að er alger lágmarkskrafa varðandi þessa stétt, því að annars verður niðurstaðan sú, að menn með háskólapróf, eða a. m. k. allt að tveggja ára lengri námstíma en barnakennarar, fá raunverulega lægri laun en barnakennarar aðeins vegna þess,að þeir eru taldir kenna einum mánuði skemur, en kenna kannske tveimur vikum skemur.

Þá flyt ég enn fremur brtt. við 14 gr., sem ég hefði raunar átt að nefna áðan, um laun menntaskólakennara, þar sem gert er ráð fyrir því, að þeir skuli geta flutzt um einn flokk, upp í VI. flokk, eftir 10 ára starf. Ef þetta frv. verður samþ. eins og það liggur fyrir eftir 2. umr. og með brtt. fjhn. á þskj. 201, hafa laun allra kennara í landinu verið hækkuð eitthvað nema einnar kennarastéttar, þ. e. menntaskólakennara. Það hafa verið gerðar breytingar á launum barnakennara, þeir hafa verið fluttir upp um heilan flokk. Um það er ekki nema gott eitt að segja; með því hef ég greitt atkvæði eins og ég held vonandi allir hv. dm. við 2. umr. Nú er gert ráð fyrir því að viðurkenna að einhverju leyti, að ranglæti hafi verið framið gagnvart gagnfræðaskólakennurunum, þar sem fjhn. leggur til, að heimilað sé að veita þeim nokkra launauppbót, sem vonandi verður, ef till. verður samþ. Þó að ég telji hana ekki fullnægjandi, þá leyfi ég mér þó að vona, að það verði í framkvæmd til þess, að allmargir gagnfræðaskólakennarar fái hlut sinn nokkuð réttan. Laun háskólakennara hafa verið hækkuð um einn launaflokk. En ein kennarastétt er eftir, þannig að engin breyting yrði gerð á hennar kjörum, og það er stétt menntaskólakennara. Um það ætti þó ekki að þurfa að fjölyrða, að þeir, sem annast kennslustörf við menntaskólana, gegna mjög ábyrgðarmiklu starfi, þ. e. að búa menn undir stúdentspróf. Hér er um að ræða menn, sem allir hafa háskólamenntun. Munurinn á menntun þeirra og þeim menntunarkröfum, sem gerðar eru til kennara við gagnfræðastigið, eru 3–4 ár. Til þess að geta orðið kennari við menntaskóla, þarf maður að stunda nám 3–4 árum lengur en þeir, sem stunda kennslu við gagnfræðaskólana, þó að þeir fullnægi skilyrðum gildandi laga um gagnfræðanám. En þegar tekið er tillit til hins, að næstum helmingur þeirra manna, sem nú stunda kennslu við gagnfræðaskólana, fullnægir þessum skilyrðum ekki, þá verður munurinn á námstíma menntaskólakennaranna og þeirra, sem kenna við gagnfræðaskólana, helmingi meiri, 5–6 ár, og þess vegna virðist það vera sanngirni, að til þess sé tekið tillit á þann hátt, að þeir geti hækkað um einn launaflokk eftir 10 ára starf.

Síðasta brtt., sem ég flyt, er við 15. gr., um liðinn „húsameistari ríkisins“, að taka upp till., sem húsameistari gerði til fjhn. um það, að einn af arkitektum hans verði hækkaður í flokki, úr VI. flokki upp í V. flokk, og liggja til þess svipuð rök og ég rakti áðan um dómarafulltrúana. Auk þess má benda á, að í flestum stofnunum, sem hliðstæðar geta talizt húsameistaraskrifstofunni, eru yfirverkfræðingar, sem njóta launa samkv. V. launaflokki, hjá síma og fleiri slíkum stofnunum. Yfirmaðurinn, húsameistari, nýtur launa samkv. III. flokki, en næstu undirmenn, arkitektarnir hjá honum, njóta launa samkv. VI. flokki. Það er mjög eðlilegt, að einn af þeim verði eins konar oddviti þeirra og þá eins konar varamaður húsameistara ríkisins í forföllum hans, sérstakur trúnaðarmaður hans, og njóti launa samkv. V. flokki. Ef til vill má deila um það starfsheiti, sem ég hef hér valið honum, kallað hann deildarstjóra, en það er til samræmis við það heiti, sem er í stjórnarráðinu á slíkum trúnaðarmönnum og í fleiri opinberum stofnunum.

Að svo mæltu leyfi ég mér að afhenda hæstv. forseta þessar skriflegu brtt., þar til þær berast úr prentun.