31.10.1955
Neðri deild: 13. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (1539)

62. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þetta mál, sem ég flyt hér og hef flutt áður, varðar alla framtíð okkar í efnahagsmálum og þá stefnu, sem þjóðin ætlar sér að taka í þeim málum, og ég held, að það sé þess vegna mjög nauðsynlegt, að hv. þm. geri sér góða grein fyrir því, hvað um er að vera. Þó að þetta frv. sé ekki langt, þá felst í því alveg ákveðin mörkun á stefnu viðvíkjandi elnu af stærstu fyrirtækjum þjóðarinnar og á hvern hátt eigi að reka það fyrirtæki.

Frv. fer fram á það í fyrsta lagi, að 13. gr. laganna sé felld niður.

Með 13. gr. laganna, eins og nú er, er heimilað að reka áburðarverksmiðjuna sem hlutafélag. 1. mgr. 13. gr. laganna hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórninni er heimilt þrátt fyrir ákvæði 2. gr. að leita eftir þátttöku félaga og einstaklinga um hlutafjárframlög til stofnunar áburðarverksmiðjunnar og leggja fram til hennar hlutafé úr rekstrarsjóði áburðarsölu ríkisins, allt að einni millj. kr. Ef slík framlög nema minnst 4 millj. kr., leggur ríkissjóður fram hlutafé, sem þá vantar til, að hlutaféð verði alls 10 millj. kr., og skal verksmiðjan þá rekin sem hlutafélag.“

Þannig er 1. mgr. í 13. gr., og það eina, sem hún að einhverju leyti breytir, er 2. gr. í lögunum, þar sem ákveðið var annars, að ríkið legði fram fé til stofnunar áburðarverksmiðju. Hins vegar stendur 3. gr. þessara laga að öllu leyti óhögguð, og hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verksmiðjan er sjálfseignarstofnun, er lýtur sérstakri stjórn. Verksmiðjuna má hvorki selja né veðsetja, nema heimild sé veitt til þess af Alþingi.“

M.ö.o. er alveg skýrt tekið fram, að áburðarverksmiðjan sjálf er þjóðareign, er eign ríkisins, er sjálfseignarstofnun á sama hátt og t.d. Landsbankinn eða aðrar slíkar eru sjálfseignar stofnanir.

13. gr. var svo til komin, að þegar þetta frv. til laga um áburðarverksmiðju var til umræðu á þinginu 1948–49, var það upphaflega lagt fyrir í þeirri mynd, sem það hafði alltaf verið í frá upphafi, þegar um áburðarverksmiðju var hugsað, að áburðarverksmiðjan væri eingöngu eign ríkisins eins, og þannig var það líka þegar þetta var lagt upphaflega fyrir af hálfu ríkisstj. þá. Við síðustu umr. í efri deild, eftir að málið var búið að ganga í gegnum neðri deild, kom þar fram brtt. og það á síðustu dögum þingsins, þar sem lagt var til að bæta við 13. gr., og sú till. var samþ. þá gegn atkvæðum okkar sósíalista og fleiri, og við mjög flausturslega eina umr. í Nd. voru áburðarverksmiðjulögin þannig breytt samþykkt. Ég býst við, að allur þorri þingmanna hafi yfirleitt ekki gert sér ljóst, hvað í þessari breytingu, sem þarna var verið að gera, átti að felast af hálfu vissra manna.

Nú lít ég svo á, hvað sem kann að hafa vakað fyrir þeim, sem báru fram tillöguna um hana, og þeim, sem siðan hafa um málið fjallað, sérstaklega ráðherrum Framsfl., að 13. gr. ákveði einvörðungu, að hlutafélagið, sem þarna skuli stofna, eigi að annast rekstur verksmiðjunnar, enda tekið skýrt fram: „og skal verksmiðjan þá rekin sem hlutafélag“ — en ákvæði 3. gr. um eign ríkisins á verksmiðjunni standi algerlega óhögguð. Þetta veit ég að hefur verið skilningur bæði Sósfl. og Alþfl., þegar þetta mál hefur komið á undanförnum fimm árum til umræðu, bæði í fjhn. og hér á þingi, m.ö.o., að hlutafélagið Áburðarverksmiðjan h/f sé eingöngu rekstrarfélag, sem eigi ekki áburðarverksmiðjuna, heldur annast rekstur hennar, en verksmiðjan sjálf sé sjálfseignarstofnun, sem hlutafélagið yfirleitt getur alls ekki ráðstafað á þann hátt, sem hlutafélög annars geta ráðstafað sínum eignum.

Rúmu ári eftir að þessi lög voru sett í gegn, var af hálfu eins ráðherra Framsfl. gefin sú yfirlýsing á Alþingi, að þetta hlutafélag, Áburðarverksmiðjan h/f, ætti áburðarverksmiðjuna og að hluthafarnir í Áburðarverksmiðjunni, þ. á m. einkahluthafarnir, sem þar eiga 2/5 af hlutafénu, ættu með tímanum, þegar þessi áburðarverksmiðja borgaði sig niður, að eignast 2/5 af áburðarverksmiðjunni, ef ekki yrðu gerðar neinar aðrar ráðstafanir í þessu efni.

Ég mótmælti þessum yfirlýsingum viðkomandi ráðherra, strax og þær komu fram, og lýsti því yfir, að ég áliti þær vera í algerri mótsetningu við lögin sjálf, svo að ég tali ekki um þjóðarhagsmuni. Ég hef síðan flutt þetta frv. nokkrum sinnum til þess að freista að fá alveg fyrir það byggt, að hægt verði að skoða áburðarverksmiðjuna sem einkafyrirtæki. Og til þess að taka af öll tvímæli um það, vegna þess að það er auðséð, að eins og lögin eru nú, er litið á þetta mismunandi augum, lagði ég til og legg til nú í þessu frv., að 13. gr. laganna, sú sem fjallar um þetta sem hlutafélag, rekstrarhlutafélag, sé felld niður. Því legg ég til í 2. gr. frv., að ríkissjóður skuli kaupa hlutabréfin í rekstrarfélaginu Áburðarverksmiðjunni h/f og borga eigendum þeirra 6% ársvexti af upphæðinni frá þeim tíma, sem þeir hafa eignazt þessi hlutabréf.

Ég álít, að það sé nauðsynlegt, að Alþingi taki hér í taumana, og ég vil minna á, að það virðist hafa vakað fyrir ýmsum aðilum í sambandi við þá stefnu, sem tekin var, þegar 13. gr. var samþykkt, og þá stefnu, sem fólst í yfirlýsingum ráðherra Framsfl., að breyta áburðarverksmiðjunni algerlega í einkafyrirtæki, og ég þarf raunverulega ekki að fara í neinar grafgötur um, hvaðan þær till. muni runnar. Það er alveg auðséð, að Alþjóðabankinn, sem hafði nokkuð með áburðarverksmiðjuna að gera og lán til hennar og sömuleiðis til Sogsvirkjunarinnar, hefur auðsjáanlega frá upphafi stefnt að því að reyna að knýja fram, að áburðarverksmiðjan yrði einkafyrirtæki, yrði hlutafélag einkaaðila. Og það er vitanlegt, enda hefur því ekki verið mótmælt, að hann hafi reynt að fá hinu sama áorkað um sementsverksmiðjuna, þótt það hafi mistekizt. Ég mun máske seinna koma að þeim afskiptum, sem Alþjóðabankinn hefur haft um þau kjör, sem Sogsvirkjunin var látin veita áburðarverksmiðjunni.

Það, sem þó sýndi greinilegast, að fyrir Alþjóðabankanum vakti að gera áburðarverksmiðjuna að einkafyrirtæki, voru afskipti hans af þessum málum, þegar Framkvæmdabankinn var stofnaður. Í því frv. um Framkvæmdabankann, sem lagt var fyrir Alþingi, og það frv. var undirbúið og að miklu leyti búið til af fulltrúa Alþjóðabankans, sem hann hafði sent hingað upp til Íslands, amerískum manni, var ákveðið, að Framkvæmdabankinn skyldi fá sem eina af þeim eignum, er yrðu stofnfé, hlutabréf ríkisins í Áburðarverksmiðjunni h/f.

Sá maður, sem síðan varð framkvæmdastjóri Framkvæmdabankans, dr. Benjamín Eiríksson, lýsti því síðan yfir, aðspurður á fundi fjhn. Ed., hvað meiningin væri að gera með hlutabréf ríkisins í Áburðarverksmiðjunni h/f, ef frv. yrði samþykkt eins og það var og Framkvæmdabankinn fengi þau til eignar og yfirráða, að vísu með nokkrum skilyrðum. Hann lýsti því yfir, að það væri sín meining, að það ætti að selja þessi hlutabréf ríkisins einkaaðilum. Þá átti ríkið 6 millj. kr. í hlutabréfum í Áburðarverksmiðjunni h/f, en einstakir aðilar 4 millj., þannig að ef þetta áform, sem auðsjáanlega var runnið undan rifjum þeirra manna, sem Alþjóðabankinn sendi hingað til Íslands til þess að semja frv. um Framkvæmdabankann, hefði verið framkvæmt á þann hátt, sem framkvæmdastjóri Framkvæmdabankans hugsaði sér, þá hefði það þýtt, að hlutabréf ríkisins í þessu fyrirtæki hefðu verið seld einkaaðilum og það vafalaust fyrir það, sem hann kallaði sannvirði, að öllum líkindum nafnverð eða 6 millj. kr. Hefði þetta verið framkvæmt, þá hefði það þýtt, að öll hlutabréfin upp á 10 millj. kr. hefðu eftir nokkurn tíma komizt í hendur einkaaðila, og hefði maður þá tekið gilda þá yfirlýsingu ráðherra Framsfl. hér á Alþingi, að þetta hlutafélag ætti áburðarverksmiðjuna, þá þýddi það þar með, að einkaaðilar voru búnir með því að eignast 10 millj. kr. í hlutafé að eignast áburðarverksmiðjuna, fyrirtæki, sem kostaði 130 millj. kr.

Það var þess vegna auðséð, til hvers refirnir voru skornir í öllum þessum aðgerðum. Það átti að sölsa undir einkaauðmagnið stærsta atvinnufyrirtæki ríkisins í landinu. Það, að það tókst að koma í veg fyrir þetta þá, stafar vafalaust m.a. af því, að þetta var síðasta þing fyrir kosningar, og ríkisstj. mun ekki hafa þótt það hentugt, eftir að afhjúpað var, hvað þarna vekti fyrir, og eftir þessa miklu hreinskilni af hálfu framkvæmdastjóra Framkvæmdabankans. Þess vegna fékkst breyting á þessum ákvæðum hér á Alþingi, og það var tekið út úr lagafrv., að Framkvæmdabankinn skyldi fá hlutabréf ríkisins í áburðarverksmiðjunni til eignar. En þetta sýndi, hver meiningin var, að það var meiningin að sölsa undir einkaauðvaldið stærsta atvinnufyrirtæki ríkisins. Eingöngu óttinn við fólkið og kosningarnar gerði það að verkum, að þá var horfið frá þessu.

Öll þessi meðferð sýnir þess vegna og er glöggt dæmi um, hvernig reynt hefur verið nú undanfarið að ræna frá ríkinu, að ná úr höndum þjóðarinnar auðæfum, sem hún með réttu á, og eru notaðar til þess jafnhliða, svo að ekki sé skarpar að orði kveðið, tvíræðar lagaskýringar af hálfu ráðherra og tilraunir til þess að koma fram hér á Alþingi skemmdarverkum eins og þeim, sem ég gat um. Hins vegar er alveg auðséð, hvað fyrir Alþjóðabankanum og því ameríska auðvaldi, sem á bak við hann stendur, vakir, að láta greipar sópa um eignir íslenzku þjóðarinnar til þess að afhenda þær í hendur einkaaðilum og skapa þannig hér á Íslandi einkaauðvald, sem eigi stærstu stóriðjufyrirtæki þjóðarinnar. Það virðist vera stefna ameríska auðvaldsins í þessu efni að reyna að rækta hér upp einkaauðvald svo að segja eins og í gróðurhúsi til þess að skapa sér hér á Íslandi sterka, volduga og ríka bandamenn í auðmannastétt, sem eigi þá stóriðju, sem Ísland er að skapa sér. Og í samræmi við þetta voru líka þær tilraunir, sem gerðar voru af hálfu Alþjóðabankans til þess að fá sementsverksmiðjuna inn í sama farveginn, þótt þær til allrar hamingju hafi misheppnazt.

Það er þess vegna engum blöðum um það að fletta, að meðferðin á áburðarverksmiðjunni, tilraunin til að koma henni úr ríkiseign og í eign einstakra manna, er hluti af tilraunum ameríska auðvaldsins á undanförnum Marshall-árum til að skapa hér á Íslandi sterkara einkaauðvald en við nokkru sinni höfum þekkt, koma hér upp auðmannastétt, sem ráði yfir voldugustu fyrirtækjum íslenzku þjóðarinnar.

Það mundu hafa verið höfð sterk orð um, ef reynt hefði verið af einhverjum venjulegum manni að ræna 130 millj. kr. úr ríkissjóði og jafnvel þó að minni fjárupphæð hefði verið. En þegar reynt er að ræna úr eign ríkisins fyrirtæki eins og áburðarverksmiðjunni og koma því með tvíræðum lagaskýringum og tilraunum eins og þeim, sem ég gat um áðan, úr eign ríkisins og í eign einstakra manna, þá er hvorki talað um þjófnað né rán. Það er svo fínt farið í hlutina. Og það er kannske ekki alveg út í hött, að á sama tíma sem undirbúið er að skapa á svona þokkalegan hátt stórauðvald, ríkt, voldugt einkasuðvald hér á Íslandi, er í tímariti Landsbankans verið að prédika, að það þurfi að gefa stórauðvaldinu, þeim mönnum, sem eigi stóriðjufyrirtækin, alveg sérstök skattfríðindi á Íslandi, m.ö.o.: um það leyti sem heppnaðist að ræna eignum ríkisins í hendur einstakra auðmanna, eigi líka helzt um leið að breyta þannig skattafyrirkomulaginu, að slíkt einkaauðvald sé skattfrjálst.

Það hefur síðustu árin staðið í járnum, það hefur hvorki þokazt fram né aftur í þessu áburðarverksmiðjumáli, eftir að tilrauninni, sem gerð var í sambandi við Framkvæmdabankann til að ræna henni alveg, var hrundið. Það hefur síðan ekki tekizt að stíga fleiri spor til að gera þetta að einkafyrirtæki, en það hefur ekki heldur tekizt fyrir mér og þeim, sem með þessu frv. standa, að fá fram, að það væru tekin af öll tvímæli af hálfu Alþingis um, hver ætti áburðarverksmiðjuna. Ég vil nú leyfa mér að vona, að hér verði nokkur breyting á, að Alþ. sjái nú, að við svo búið má ekki standa. Áburðarverksmiðjan er nú búin að vera í rekstri sitt fyrsta og rúmlega eitt ár, fullum rekstri, og það er þegar komin reynsla á það, hvert þjóðþrifafyrirtæki áburðarverksmiðjan getur verið og á að vera, og þess vegna má ekki bíða eftir því, þangað til farið er að skrifa hana niður og annað slíkt, að taka ákvarðanir um þetta mál. Þá getur þetta orðið mjög hættulegt og erfitt dómstólamál síðar meir, sem jafnvel gæti bakað ríkinu miklar skaðabótaskyldur gagnvart þeim mönnum, sem nú hafa lagt fram hlutafé í rekstrarfélagið Áburðarverksmiðjuna h/f, þannig að því fyrr sem tekin eru af öll tvímæli í þessu efni, því betra. Þess vegna flyt ég nú þetta frv. enn einu sinni.

En ég vil jafnframt gera það að umtalsefni. þótt það sé ekki alveg beinlínis í sambandi við þetta mál, að það eru önnur opinber fyrirtæki álíka stór, sem verða svo að segja að standa undir áburðarverksmiðjunni á sinn hátt, og þess vegna er líka nauðsynlegt að taka ákvarðanir um þeirra vegna, hver eignarháttur skuli vera á áburðarverksmiðjunni í framtíðinni. Ég á þar með við Sogsvirkjunina. Áburðarverksmiðjan og hennar rekstur byggist á aflinu frá Sogsvirkjuninni, og Sogsvirkjunin er eign ríkisins og Reykjavíkurbæjar, er m.ö.o. þjóðnýtt fyrirtæki, opinber eign. Það er mjög eðlilegt, að Sogsvirkjunin sem opinber eign sé látin hjálpa ríkisfyrirtæki, þjóðarfyrirtæki, öðru eins og áburðarverksmiðjunni, með því að gera því kleift að starfa. En það er ekki jafneðlilegt, að Sogsvirkjuninni sem ríkis- og bæjarfyrirtæki sé stefnt í stórhættu með því að láta hana þjóna undir einkafyrirtæki, ef litið yrði á áburðárverksmiðjuna þannig. Það hlýtur þess vegna að skapa allólíka afstöðu um það, hvaða skyldur eigi að leggjast ríkis- og bæjarfyrirtæki eins og Sogsvirkjuninni á herðar gagnvart áburðarverksmiðjunni, hvort menn líta á áburðarverksmiðjuna sem einkafyrirtæki eða ríkisfyrirtæki.

Í hinni upphaflegu áætlun um kostnað við rekstur áburðarverksmiðjunnar, áætluninni, sem gerð var og lögð fyrir Alþ. 1947, þ.e. löngu fyrir gengislækkun, var, ef ég man rétt, reiknað með því, að kostnaður áburðarverksmiðjunnar af rafmagni væri um 3 millj. kr. Og ég held mér sé óhætt að fullyrða, að það sé það eina úr hinni upphaflegu áætlun um rekstur áburðarverksmiðjunnar, sem hefur staðizt. Áburðarverksmiðjan borgaði á síðasta ári fyrir allt það rafmagn, sem hún fær frá Sogsvirkjuninni, 3 millj. og 100 þús. kr.

Það var nýlega gert að umtalsefni í einu dagblaðanna hér í Reykjavík, í Alþýðublaðinu, að Sogsvirkjunin mundi vera ríkt fyrirtæki og hafa nóg fé til þess að halda áfram virkjunum, svo framarlega sem hún seldi áburðarverksmiðjunni rafmagn á svipuðu verði og hún selur öðrum iðjufyrirtækjum. Að vísu er þar við að athuga. að Sogsvirkjunin selur engu öðru iðjufyrirtæki, heldur selur hún áburðarverksmiðjunni, Reykjavíkurbæ, Hafnarfjarðarbæ og rafmagnsveitum ríkisins rafmagnið í heildsölu, eins og ákveðið er eftir lögunum, með því ákveðna álagi, sem þar er til tekið, 5%, en síðan eru það Reykjavíkurbær, Hafnarfjarðarbær og aðrir aðilar, sem selja áfram til annarra iðjufyrirtækja rafmagnið og þá í smásölu til þeirra með sinni álagningu, sem er ekki há.

Það er hins vegar ekki nema eðlilegt, að menn geri sér alveg ljóst, að á þeim samningum, sem áburðarverksmiðjan hefur við Sogsvirkjunina, byggist tilvera áburðarverksmiðjunnar og hennar rekstrarmöguleikar. Og ég held, að það sé rétt hjá mér, að það verð, sem áburðarverksmiðjan fær á rafmagninu frá Sogsvirkjuninni, sé svipað og stórar norskar áburðarverksmiðjur fá og þurfa að reikna sér fyrir sitt rafmagn.

Á síðasta ári fékk áburðarverksmiðjan um 86 millj. kwst. frá Sogsvirkjuninni, og þegar hún verður í fullum gangi, má búast við, að það fari upp í um 120 millj. kwst. Og það, sem gerir verðið eins lágt og það er, er, að þetta er svo að segja öll umframorka Sogsvirkjunarinnar, sem veitt er í áburðarverksmiðjuna, og þess vegna rafmagnið reiknað svo lágt; fyrir utan þau föstu 4000 kw., sem áburðarverksmiðjan borgar sama verð fyrir og Reykjavíkurbær eða Hafnarfjarðarbær, fær hún allt það, sem fram yfir er, raunverulega fyrir 1–2 aura kwst.

Nú er mér nokkuð kunnugt um, hvernig við horfði, þegar var verið að koma þessum samningum á milli Sogsvirkjunarinnar og áburðarverksmiðjunnar. Mér var kunnugt um, að Alþjóðabankinn knúði þar mjög skarpt á, vegna þess að hann féllst ekki á að veita áburðarverksmiðjunni lánin, sem hún átti að fá hjá honum, fyrr en búið væri af hálfu Sogsvirkjunarinnar að gera slíkan samning við áburðarverksmiðjuna, að Alþjóðabankinn væri ánægður með þann samning og áliti hann tryggan grundvöll.

Nú vil ég segja, að það er út af fyrir sig alveg ágætt fyrir Sogsvirkjunina að láta áburðarverksmiðju ríkisins í té rafmagn og sjálfsagt að gera það með þeim beztu skilmálum, sem hugsanlegir eru fyrir Sogsvirkjunina. Það mundi aðeins þýða, að eitt fyrirtæki ríkisins væri að hjálpa öðru, og fyrir Sogsvirkjunina er ákaflega heilbrigt að geta losað sig við allt sitt næturrafmagn, sem annars færi að miklu leyti til ónýtis, og eðlilegt, að það sé gert ódýrt. Samt vil ég minna á, að allmikið af slíku næturrafmagni mætti nota og selja með allgóðu verði til hitunar í ýmsum þeim bæjarhlutum, sem hafa ekki hitaveitu, og þeim sveitabæjum. Engu að síður er það ef til vill ekki það alvarlegasta, þó að Sogsvirkjunin verði að láta áburðarverksmiðjuna fá mjög ódýrt rafmagn, með einu skilyrði þó, og það er, að svo sé um séð, að Sogsvirkjunin hafi alltaf nóg rafmagn til hinnar daglegu notkunar og daglegrar aukningar, sem þarf til nýrra lagninga eins og t.d. um Vesturland og Vestmannaeyjar og til nýrra lagninga í þeim húsum og verksmiðjum og öðru slíku, sem byggt er til viðbótar á þeim svæðum, sem rafmagnið nú þegar nær til. M.ö.o.: Það leggst sú skylda á herðar hins opinbera með því að knýja Sogsvirkjunina til slíkra samninga við áburðarverksmiðjuna eins og gert var, þegar þeir samningar voru gerðir, að það sé alltaf séð um, að ný virkjun geti tekið við, áður en sú gamla er þurrausin.

Eitt af því, sem harðast var sótt, að því er ég held af hálfu Alþjóðabankans þar á bak við, var að fá inn í samningana við Sogsvirkjunina, að samningurinn við áburðarverksmiðjuna væri gerður til 15 ára. Ég áleit það ákvæði ákaflega varasamt fyrir Sogsvirkjunina. Ég áleit, að Sogsvirkjunin sem fyrirtæki yrði að tryggja sig, þar sem vitanlegt er, að hún hefur að engu leyti möguleika til þess að safna neinum sjóðum og á þess vegna einvörðungu undir ríkinu og Reykjavíkurbæ alla sína aukningu, að Sogsvirkjunin gæti því aðeins fallizt á slíka samninga við áburðarverksmiðjuna að binda sig til 15 ára, að hún væri örugg um, að það yrði bætt við Sogsvirkjunina í tæka tíð þeim virkjunum, sem þyrfti til þess að geta haldið eins ódýru rafmagnsverði til áburðarverksmiðjunnar og samið var um og ég sagði frá áðan. Og ég áleit, að þetta væri ekki aðeins nauðsynlegt fyrir stjórn Sogsvirkjunarinnar og Sogsvirkjunina sem fyrirtæki, heldur væri þetta líka nauðsynlegt fyrir áburðarverksmiðjuna, vegna þess að ef Sogsvirkjunin væri sett í þá óþægilegu aðstöðu að geta ekki látið nægilegt rafmagn í té, þá yrði hún að minnka skammtinn við áburðarverksmiðjuna eins og við aðra og draga þannig úr framleiðslu áburðarins.

Nú er það vitanlegt, að ný virkjun við Sogið tekur um það bil þrjú ár, eða virkjun annars staðar, ef ætti að leggja í hana seinna meir. Ég lagði þess vegna til, þegar þessir samningar voru gerðir, að Sogsvirkjunarstjórnin hefði þriggja ára uppsagnarfrest á þessum samningi, svo framarlega sem henni þætti ekki öruggt, að ráðizt yrði í nýja virkjun í tíma, og ég gerði það fyrir mitt leyti að skilyrði fyrir fylgi mínu við samningana, að þessi þriggja ára uppsagnarfrestur yrði samþykktur. Sú till. mín var felld, og ég greiddi þess vegna atkvæði á móti samningunum eins og þeir nú eru.

Ég lýsti þá yfir, bæði hér á Alþingi og annars staðar, að ég áliti, að það mundu hljótast mjög mikil vandræði af, ef ekki yrði fullvirkjað Sogið, þ.e. þriðju virkjun í því ekki lokið veturinn 1956 –57, og þess vegna hefði þurft — og það var mín till. líka hér á Alþingi þá — að tryggja, að hafizt yrði handa, strax eftir að Írafossvirkjuninni var lokið, um virkjunina uppi við Úlfljótsvatn, m.ö.o. sumarið 1953.

Nú hefur að vísu verið undirbúið af hálfu Sogsvirkjunarstjórnarinnar allt hið tæknilega viðvíkjandi þriðju virkjuninni, en fjárhagshliðin er enn í algeru öngþveiti, þ.e. sú hlið, sem hvílir á ríkinu og Reykjavíkurbæ að sjá um. Það þýðir, að frammi fyrir Sogsvirkjuninni stendur sá vandi, þegar þetta dregst svona, að það verður á komandi tveim til þrem árum að fara að taka í vaxandi mæli olíustöðina inni við Elliðaár, setja hana í gang, ekki aðeins á tímum hámarksnotkunarinnar, heldur líka almennt til þess að framleiða með olíu rafmagn handa Reykvíkingum, Hafnfirðingum og Suðurlandsundirlendinu og áburðarverksmiðjunni. Þegar þannig væri komið, mundi Sogsvirkjunin standa í þeirri afstöðu að vera skuldbundin til að selja áburðarverksmiðju ríkisins rafmagn á verði, sem á aukarafmagninu fer niður í 1–2 aura kwst., en framleiða mikið af sínu rafmagni með þeim kostnaði, sem hlýzt af að kynda olíu í varastöðinni og varla verður undir 30–40 aurum á kwst. eða meira. Og veturinn 1958–59, sem sé þrjú ár héðan í frá, væri varastöðin líka þurrausin, þannig að hún gæti ekki heldur framleitt meira rafmagn, þó að hún væri kynt allan sólarhringinn með 30–40 aura kostnaði á kwst. Þetta er það, sem blasir við. Ég þarf ekki að skýra fyrir mönnum, í hvers konar aðstöðu Sogsvirkjunin sem fyrirtæki ríkisins er undir svona kringumstæðum. Þetta mundi beinlínis þýða, að það væri verið að skaða hana stórkostlega, eða þá að hún yrði að hækka stórkostlega allt rafmagn.

Samningarnir við áburðarverksmiðjuna eru nú líklega bundnir til 15 ára. Sogsvirkjunin má að vísu takmarka allt rafmagnið, taka upp skömmtun á rafmagni, en þetta er m.ö.o. ástandið, sem nú hefur verið skapað.

Ég hef tekið eftir því í þeim umræðum, sem fram hafa farið um hugsanlegar lánveitingar til Sogsvirkjunarinnar, að hæstv. ríkisstj. hefur sagt, að áður en farið væri að ræða um lán til Sogsvirkjunarinnar, yrðu að ganga fyrir ein þrjú eða fjögur lán, sem ríkisstj. hefur hugsað sér að útvega hjá Alþjóðabankanum. Og ég hef ummæli borgarstjórans í Reykjavík fyrir því, að hann sagði beinlínis í umræðum, sem fram fóru í bæjarstjórn um þessi mál og ég vona að sé nokkurn veginn rétt vitnað í, svo hljóðandi: „Það vita allir, að það er ekki auðsótt mál að fá lán erlendis til framkvæmda á Íslandi nú. Erlendir sérfræðingar líta svo á, að fjárfesting á Íslandi sé of mikil og of ör.“ Ég býst við, að þeir sérfræðingar, sem borgarstjórinn á við í þessu sambandi, séu sérfræðingar Alþjóðabankans, og ég veit, að það hefur, það sem af er, ekki verið talað við aðra en Alþjóðabankann um þetta og máske ofur lítið reynt í Sviss. Það virðist m.ö.o. vera svo sem það sé afstaða Alþjóðabankans og hans sérfræðinga gagnvart Íslandi, sem nú standi í vegi fyrir því, að Sogsvirkjunin í fyrsta lagi geti fengið lán þar, í öðru lagi, að hún fái að reyna annars staðar um útvegun á láni.

Ég álít, að þetta ástand geti alls ekki gengið, og ég vil lýsa því yfir, að ég álít alveg óhjákvæmilegt, að Sogsvirkjunarstjórnin fái af hálfu Alþingis alveg ótvíræða heimild til þess að fara að leita sjálf fyrir sér um að fá lán til þriðju Sogsvirkjunarinnar, ef ríkisstj. heldur uppteknum hætti. Það er sem sagt hægt eftir þáltill. að leyfa Sogsvirkjunarstjórninni sjálfri að reyna að útvega sér lán, en það hefur ríkisstj. ekki viljað gera.

Ég er ekki í neinum efa um, að það er hægt að fá lán fyrir önnur eins fyrirtæki og þau, sem framleiða raforku fyrir þéttbýlasta hluta Íslands. Ég efast ekki um, að það mundi, ef leitað væri eftir, vera hægt að fá lán, jafnvel með 21/2% vöxtum í staðinn fyrir þau 5% og jafnvel þar yfir, sem þeir neyðast til að taka nú, ef við bindum okkur ekki sjálfir á klafa Alþjóðabankans og hans eftirlits um lánveitingar.

Ég vil þess vegna láta það koma greinilega fram, að öll þau vandræði, sem í er komið, bæði viðvíkjandi því, hvernig búið er að draga í meira en tvö ár lánsútveganir handa Sogsvirkjuninni, til þess að hún geti staðið við sínar skuldbindingar gagnvart áburðarverksmiðjunni og öðrum, og hvernig komið er um deiluna um eignina á áburðarverksmiðjunni, er að kenna afskiptum Alþjóðabankans af íslenzkum efnahagsmálum og tilraunum hans til þess að sölsa undir einkaauðvaldið á Íslandi stærstu fyrirtæki landsins og í krafti þess að láta Sogsvirkjunina svo að segja þjóna undir áburðarverksmiðjuna, sem þessi alþjóðabanki vill gera að einkafyrirtæki. Og út frá þessum samningum og yfirstjórninni á lánamálunum er nú verið að koma Sogsvirkjuninni og þar með allri rafmagnsframleiðslunni hér í vandræðaástand. M.ö.o.: Af því að við Íslendingar höfum verið hlekkjaðir við þennan ameríska banka um lánsútveganir og stjórn á okkar lánamálum, er komið í algert óefni um það, sem er ein af höfuðundirstöðunum undir rekstri alls iðnaðar, svo að ég tali ekki um heimilishald, á Suðvesturlandi, þ.e. rafmagnsframleiðsluna. Hæstv. ríkisstj. hefur hagað sér þannig að knýja fyrst Sogsvirkjunina til þess að gera slíka samninga við áburðarverksmiðjuna sem ég nú hef lýst og síðan að bregðast henni á eftir um þá útvegun lánsfjár, sem hún óhjákvæmilega þurfti á að halda, ef hún átti að geta staðið við sínar skuldbindingar og ekki að eiga á hættu að fara bókstaflega á höfuðið eða að verða að leiða efnahagslegt vandræðaástand yfir þjóðina.

Nú gæti maður sagt, að út af fyrir sig, ef áburðarverksmiðjan væri alveg ótvírætt þjóðarfyrirtæki og þjóðareign, væri ekki nema eðlilegt, að Sogsvirkjunin, sem líka er þjóðareign, yrði að þola súrt og sætt með henni. En þetta mundi allt saman líta öðruvísi út, ef svo væri litið á, að áburðarverksmiðjan væri einkafyrirtæki, því að þá væri hér beinlínis verið að ræna þjóðarfyrirtæki, Sogsvirkjunina, til ágóða fyrir slíkt einkafyrirtæki.

Ég hef komið með þetta Sogsvirkjunarmál hér inn í vegna þess, hve málið er skylt, og vegna þess að ég áleit mér bera skylda til að segja þeim þm., sem um það vilja hugsa, frá því, hvernig standi um þessi fyrirtæki ríkisins.

Nú hef ég í þeim frásögnum, sem ég hér hef haft í frammi um eignina á áburðarverksmiðjunni, byggt á yfirlýsingum tveggja ráðherra Framsfl., hæstv. fjmrh. og annars ráðh., sem nú á ekki lengur sæti í ríkisstj. Ég hef vefengt þessar yfirlýsingar, þegar þær hafa komið fram. Nú hef ég hins vegar séð, mér til mikillar ánægju, að það er ekki skoðun Framsfl. í heild og því síður allra framsóknarþingmanna, að áburðarverksmiðjan sé eign Áburðarverksmiðjunnar h/f, eins og þessir tveir ráðh. Framsfl. álíta. Þvert á móti: Í vor, þegar átti að kjósa í stjórn áburðarverksmiðjunnar hér á Alþ., kom allt annað fram, og það gefur mér tilefni til þess að vona, að hjá hv. þm. sé nú grundvöllur fyrir því, að breyta verði um stefnu og hverfa burt frá þeirri yfirlýsingu framsóknarráðherranna, sem ég hef svo mjög gagnrýnt og álít svo hættulega. Þetta, sem fram kom í vor, var þannig, að 2. marz, þegar átti að kjósa í stjórn áburðarverksmiðjunnar, var þannig tilnefnt í stjórnina m.a. af hálfu Framsfl., að þar var nafn bankastjóra Landsbankans, en bankastjórar Landsbankans eiga, eins og kunnugt er, ekki að eiga sæti í stjórn atvinnufyrirtækis, og þá gaf æðsti maður þingsins, forseti sameinaðs Alþingis, úrskurð um þetta mál, úrskurð, sem mér liggur við að segja, með allri virðingu fyrir hæstv. ráðherrum, að verði að líta á sem þýðingarmeira framlag til skýringar á lögum en yfirlýsingar ráðherranna. Hæstv. forseti sameinaðs Alþingis sagði svo í sínum úrskurði, með leyfi hæstv. forseta:

Hv. 8. landsk. þm. telur, að á A-lista, þar sem stendur nafn Vilhjálms Þórs, sé ekki heimilt að kjósa hann til stjórnarstarfa í áburðarverksmiðju ríkisins“, — ég vil biðja menn, hv. þm., að taka eftir, að forsetinn segir: áburðarverksmiðja ríkisins, — „og vitnar þar til 47. gr. laga um Landsbanka Íslands, þar sem svo er sagt: „Ekki mega bankastjórar hafa embættisstörf á hendi, ekki reka sjálfir atvinnu og ekki vera í stjórn atvinnufyrirtækja.“

Hér er um að ræða kjör af hálfu Alþingis til stjórnarstarfa í þessu fyrirtæki, áburðarverksmiðju ríkisins,“ — ég vek athygli hv. þm. á því, að hæstv. forseti segir aftur: áburðarverksmiðju ríkisins, — „og umboð þeirra manna, er Alþingi kýs, er veitt af hálfu Alþingis, þess opinbera, til þess að ráða af sinni hálfu þessari stofnun, og á því ekki skylt við einkaatvinnufyrirtæki, ég vek athygli hv. þm. á, að forseti segir, að það eigi ekki skylt við einkaatvinnufyrirtæki, heldur er það fyrst og fremst til að ráða þessu opinbera fyrirtæki ríkisins, sem Alþingi með kosningu veitir umboð þeim mönnum, er til þess eru kjörnir.“ Og forseti heldur áfram: „Ég hygg, að ekki sé annað hægt en að gera mikinn greinarmun á þessu tvennu, hvort um atvinnufyrirtæki er að ræða, sem er óháð ríkinu eða er í höndum einstakra manna. Þetta umboð, sem Alþ. veitir, er fyrst og fremst að gæta fyrirtækisins af hálfu þess opinbera.“

M.ö.o.: Þegar þarf að fara að gefa yfirlýsingar úr forsetastól um kosningu manna í stjórn áburðarverksmiðju ríkisins, þá er lögð áherzla á það af æðsta manni Alþ., að þetta sé áburðarverksmiðja ríkisins, þetta sé eign ríkisins, þetta sé opinbert fyrirtæki, þetta sé ekki einkaatvinnufyrirtæki. Ég benti þá strax á það, að þessi yfirlýsing forseta og úrskurður hans stangast algerlega á við yfirlýsingar ráðherranna, sem þeir hafa áður flutt úr ráðherrastóli, og ég vil leyfa mér að taka þessa yfirlýsingu forseta sameinaðs Alþingis sem enn ein rök fyrir réttum skilningi mínum á lögum um áburðarverksmiðju, þar sem tekið er fram í 3. gr. og engu breytt í henni með ákvæðum 13. gr., að áburðarverksmiðjan sé sjálfseignarstofnun.

Hins vegar álít ég nú rétt, að Alþ. skeri endanlega úr því sjálft og taki af öll tvímæli um sína skoðun í þessum efnum. Ekki svo að skilja, að ég álíti nein tvimæli þar á. Ég hef alltaf haldið fast við það og álít enn, að áburðarverksmiðjan sé eign ríkisins samkvæmt 3. gr. laganna og hlutafélagið Áburðarverksmiðjan h/f sé aðeins rekstrarfélag. En ég álit, að við eigum fyrir framtíðina að girða algerlega fyrir það, að nokkur tvímæli geti verið þarna um, og þess vegna sé rétt að færa áburðarverksmiðjulögin í það upprunalega horf, eins og þau komu jafnan fram sem frv. hér á Alþ., þar sem verksmiðjan væri alveg tvímælalaust ríkiseign og ríkisrekin. Og ég vil segja það gagnvart þeim einstaklingum, sem eru eigendur í Áburðarverksmiðjunni h/f, að það er aðeins til þess að blekkja þá með því og valda þeim seinna meir máske alls konar miklum erfiðleikum viðvíkjandi þeirri eign, sem þeir eiga þar í hlutabréfum, að vera að draga að taka ákvarðanir um, að ríkið kaupi þessi hlutabréf af þeim.

Svo vildi ég að síðustu óska eftir því, að það komi greinilega fram, sérstaklega af hálfu Framsfl., hver afstaða hans er í þessu máli. Ég hef nokkrum sinnum deilt við hæstv. ráðh. Framsfl. um þetta mál hér á Alþ., og ég held, að það sé alveg nauðsynlegt, að þeir geri Alþ. grein fyrir því, hver þeirra afstaða er í þessu máli. Er það þeirra meining að ætla með sínum yfirlýsingum að reyna að hjálpa til þess að koma áburðarverksmiðjunni úr eign ríkisins í eign einstaks hlutafélags?

Ég vil í því sambandi mínna á, að Alþfl. hefur, frá því að þetta mál fyrst bar hér á góma, tekið sams konar afstöðu og Sósfl. í þessu efni, og á meðan ég átti sæti í fjhn. þessarar d. ásamt núverandi hæstv. forseta Íslands sem fulltrúa Alþfl., vorum við þar~sammála um afstöðuna og skilninginn á þessum lögum. Mér þætti vænt um að heyra, hvort afstaða Alþfl. er ekki óbreytt í þessum efnum og hann standi með því eins og hingað til að verja þetta ríkisfyrirtæki fyrir ágangi og tilraunum einkaauðvaldsins til þess að ná því undir sig. En mér þætti enn þá vænna um að fá þá yfirlýsingu frá Framsfl., að hann væri hættur við að taka þátt í slíkum tilraunum. Hins vegar kann ég ákaflega illa við, að sú aðferð sé höfð þing eftir þing um mál eins og þetta, að það fáist ekki afgreitt frá fjhn. þessarar deildar, m.a. vegna þess, að fulltrúi Framsfl. í þeirri nefnd, form. nefndarinnar, liggi á málinu og hindri afgreiðslu þess. Ég álít það algerlega ófær vinnubrögð af hálfu Alþ. Það hlýtur að vera hægt fyrir menn að manna sig upp til þess að taka afstöðu í máli eins og þessu, hvað menn vilja láta gera með ríkisfyrirtæki, sem kostar 130 millj. kr. og deilt er um hver eigi. Það er algerlega óþolandi af hálfu Alþ. að láta þetta geta verið í tvísýnu. Hér þarf að taka af öll tvímæli. Það mundi verða gert með mínu lagafrv., og það væri líka hægt að gera það á hinn veginn með því að breyta núverandi lögum í þá átt, að það sé þá skýrt, að þetta sé orðið einkafyrirtæki, eign Áburðarverksmiðjunnar h/f.

Fyrrverandi form. Alþfl., Stefán Jóh. Stefánsson, flutti fyrir kosningarnar 1953 þáltill. hér á Alþ. um að skora á ríkisstjórnina að endurskoða þessi lög, og sú till. var samþ. Hann vildi fá úr því skorið, eftir að hann hafði sjálfur tekið f.h. Alþfl. afstöðu með mínu frv., hvernig Alþ. skildi áburðarverksmiðjulögin, og ríkisstjórninni var þá þess vegna falið að leggja fram brtt. við lögin um áburðarverksmiðjuna, sem gerðu þetta alveg ótvírætt. Það hefur ríkisstj. hins vegar aldrei þorað að gera. Það verður að breyta þessum lögum, ef áburðarverksmiðjan á ekki að vera eign ríkisins. Það hefur ríkisstj. aldrei lagt fram till. um. Ég álít þess vegna, að þetta sé alveg óþolandi ástand eins og nú er, þarna verði Alþ. að skera úr, og til þess að fá úr þessu skorið í samræmi við það, sem ég álít hafa verið upphaflega vilja Alþ. í þessum efnum, og það, sem ég álít felast í lögunum, flyt ég þetta frv. Ég vil svo að endingu leggja til, að því sé vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. fjhn. í trausti þess, að fjhn. afgreiði þetta mál, hún verður náttúrlega að ákveða sjálf, á hvern hátt hún gerir það, en það sé ekki lengur látið ganga svo með stærsta atvinnufyrirtæki ríkisins, að það sé hægt að fara að deila um það, það sé jafnvel hægt að fara í mál um það, hver eigi það, rétt eins og það væri einhver gripur, sem einhver hefði misst upp úrvasa sínum,týnt hérna á götunni, og það væri ekki hægt að segja, hver væri nú raunverulegur eigandi hans. Alþ. getur ekki gengið þannig frá málum, að það taki ekki af öll tvímæli um, hvernig er með eignarréttinn á áburðarverksmiðjunni.