20.02.1956
Neðri deild: 73. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (1547)

62. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka fjhn. og sérstaklega þeim tveim hv. þm., er skipa minni hl., fyrir afgreiðsluna á þessu máli. Þykir mér vænt um, að þetta mál skuli nú loks hafa fengið afgreiðslu í nefndinni og geta þess vegna legið hér fyrir, og er ég fyllilega samþykkur þeirri afgreiðslu, sem hv. minni hl. hefur á því haft.

Ég held, að það sé um leið nauðsynlegt, að við reynum að gera okkur nokkuð vel ljóst, hvernig málið horfir nú. Ég skal þar fyrst fara inn á spurninguna um hlutaféð og það, sem hér var komið inn á áðan viðvíkjandi því, hvort ef til vill mundi þurfa einhverja eignarnámsheimíld í sambandi við það.

Í lögunum eins og þau eru nú, 13. gr., er heimilað að leita eftir þátttöku félaga um hlutafjárframlög, og ef þessi 13. gr. er felld burt, þá er þessi heimild þar með brott fallin og grundvöllurinn fyrir Áburðarverksmiðjunni h/f, þ.e. hlutafélaginu, er þar með brott fallinn. Það, sem ríkissjóður gerir með ákvæði 2. gr. í mínu frv., er að gefa hluthöfunum kost á að innleysa þeirra bréf. Það, sem þá getur gerzt næst, er sem sé tvennt: Þessir menn gætu farið í skaðabótamál við ríkissjóð, vitnandi í yfirlýsingar ráðherranna um eign á verksmiðjunni og annað slíkt, og hef ég alltaf bent á, að sá möguleiki væri fyrir hendi. Þeir gætu farið í slíkt skaðabótamál og heimtað, að þeirra hlutabréf væru virt á miklu meira en t.d. nafnvirði, og annað slíkt og skírskotað þar í stjórnarskrána. Það gæti líka gerzt annað, að þessir hluthafar vildu ekki innleysa þessi hlutabréf, og þá gæti komið til kasta Alþingis aftur, að Alþingi t.d. vildi heldur fara að taka þetta eignarnámi.

Nú held ég satt að segja, ef maður ræðir þetta mál alveg „praktískt“, að þeir hluthafar, sem þarna eiga hlut að máli nú, mundu gjarnan, eins og hv. 9. landsk., frsm. minni hl., kom hér inn á áðan, verða við því að selja sín hlutabréf og þætti gott að fá þau innleyst á nafnverði að viðbættum 6% ársvöxtum. Mín skoðun er sú, þannig að að öllu leyti mundu þessar tvær lagagreinar duga til þess að leysa það „praktíska“ vandamál, sem í sambandi við þetta stendur, sem sé að fá með góðu móti þá, sem nú eiga þessi hlutabréf upp á 4 millj. kr., til að selja þau ríkinu fyrir nafnverð að viðbættum 6% ársvöxtum. Ég álít, að það sé í senn sanngjarnt gagnvart þeim aðilum, sem í þetta hafa lagt, og um leið eðlilegt fyrir ríkissjóð að tryggja sér þannig ótvíræða eign á þessu og afstýra öllum frekari deilumálum og málshöfðunum, sem kynnu að koma seinna meir út af eignarréttinum á þessari verksmiðju.

Alþingi hefur búið til grundvöllinn fyrir þetta hlutafélag með 13. gr., og það getur kippt þeim grundvelli undan á þennan hátt. Hitt er gefið, að þessir aðilar geta átt sinn skaðabótarétt, en ég býst við, að það, sem mundi vera drýgst í þeirra kröfum um skaðabætur, væru yfirlýsingar tveggja ráðherra Framsfl. í þinginu um, að þetta hlutafélag ætti verksmiðjuna, sem hins vegar, eins og ég hef margoft tekið fram, stangast við lög, stangast við 3. gr. laganna.

Ég held þess vegna, að hvað snertir „praktíska“ lausn á þessu máli dugi þessi 2. gr. alveg. Ég álít hins vegar mjög nauðsynlegt, að við ræðum þetta hérna, því að við skulum reyna að koma okkur niður á það, sem eðlilegt er og raunhæft í þessum málum, áður en lengra er komið.

Hv. þm. V-Húnv., frsm. meiri hl., talaði um, að það væri ekki mikil hætta í því fólgin, þótt þetta hlutafélag stæði áfram; ef það væri gróði, þá fengju þeir ekki nema 6% úthlutað. En ég vil benda honum á einn hlut: Ef gróði er af verksmiðjunni, þá er fyrst greidd niður verksmiðjan, því næst þessi 6%, þannig að ef gróði er af henni, þá eignast smám saman þessir einkahluthafar, sem eiga 2/5 af hlutafénu, þessa verksmiðju, sem kostaði 130 millj. kr., og þeir fá fyrir sitt 4 millj. kr. hlutafé 2/5 af 130 millj. kr. Þeir eignast tífalda eign móts við það hlutafé, sem þeir leggja fram, ef verksmiðjan er gróðafyrirtæki og ef lögum er framfylgt, og ég vil benda hv. þm. V-Húnv. á það, að jafnvel þó að honum fyndist, að ekki væri nú gróðavænlegt í augnablikinu, þá má hann muna, að ef svo heldur áfram sem nú horfir á Íslandi um gengislækkanir á 5–10 ára fresti og jafnvel skemmri fresti, þá verður þess ekki langt að bíða, að fyrirtæki eins og áburðarverksmiðjan þarf ekki að bíða nema ein 20 ár, þangað til hún er orðin örugg eign og öruggt gróðafyrirtæki þeirra, sem hafa eignazt hana með þessu móti. Það er þess vegna rétt að athuga þann þátt í þessu.

Hvað hinn möguleikann snertir, sem hv. frsm. meiri hl. minntist á, ef tap yrði á verksmiðjunni, þá skal ég koma nánar inn á það síðar. En viðvíkjandi till. meiri hl. um að vísa þessu til ríkisstj. vil ég mínna hann á, að raunverulega er ríkisstj. búin að hafa þetta mál í nokkur ár til athugunar. Ég hef að vísu ekki haft tíma síðan áðan til þess að ganga alveg úr skugga um það, en einhver till. eða tilmæli, sem þáverandi þm. Alþfl., Stefán Jóh. Stefánsson, kom hér fram með síðasta árið sem hann sat á þingi, var samþykkt hér um að fela ríkisstj. að endurskoða þessi lög. Ríkisstj. hefur haft aðstöðu til að gera slíkt, svo að það er ekki um það að ræða.

Ég held, að við þm. þurfum sjálfir að gera okkur ljóst, hvað við viljum í þessu máli, og í því sambandi er rétt að koma nú þegar inn á spurninguna um þessa verksmiðju og hennar rekstur. Það sjá allir, hvað við blasir, ef gróði er af verksmiðjunni. En hvað verður, ef það er tap á henni? Verksmiðjan hefur nú verið rekin að fullu í það langan tíma, að það ættu að liggja þar fyrir nokkrir reikningar. Þeir eru að vísu ekki opinberir enn þá, en munu þó vera til, og eins og hv. þm. vita, á að afskrifa verksmiðjuna samkvæmt lögunum og það allmikið, til fyrningarsjóðs 21/2% af kostnaðarverði húsa, lóða og annarra mannvirkja, 71/2% af kostnaðarverði véla og annarra áhalda og til varasjóðs 3% af kostnaðarverði framleiðslunnar, og það er svo fyrir mælt, að allar þessar afskriftir skuli ganga fyrir, áður en gróði er útborgaður eða vextir af hlutafé, og þegar þetta mál var rætt sérstaklega í Ed., þegar breytingin var gerð, þessi 13. gr. sett inn í, þá var greinilega tekið fram, að þetta hlutafé, sem meiningin væri að fá, ætti að vera fyrsta áhættuféð.

Nú vil ég leyfa mér að spyrja, — það væri gott, ef einhver ráðherrann væri hér viðstaddur, en það eru máske aðrir, sem þekkja svo til: Hefur í þeim reikningum verksmiðjunnar, sem þegar hefur verið gengið frá, nokkur afskrift farið fram? Hefur nokkuð verið afskrifað? Hefur lagagreinunum um þetta verið fullnægt? Ég held ekki. Ég held, að það hafi ekkert verið afskrifað enn sem komið er. Og það þýðir, að verksmiðjan hefur raunverulega gengið með tapi, og það tap hefði nú þegar átt að ganga út yfir hlutaféð. Hefur það verið látið gera það? Nei, það hefur ekki verið látið gera það. Það hefur ekki verið reiknað neitt tap og þess vegna ekki heldur verið afskrifað neitt af hlutafénu. Hefur þá verksmiðjan getað raunverulega framleitt á sama verði og hægt er að fá áburðinn erlendis frá? Hún hefur ekki getað það. Við stöndum frammi fyrir því og við verðum að horfast í augu við þetta. Það blasir við, að eigi að fara að lögum, þá eigi nú þegar að byrja að afskrifa þetta hlutafé, sem þarna hefur verið lagt í og samkvæmt yfirlýsingu þeirra, sem börðust fyrir að fá 13. gr. inn, átti að vera fyrsta áhættuféð.

Ég þarf ekki að láta segja mér neitt um, hvernig með þetta mundi farið eins og nú er háttað stjórnarfari í landinu. Ég geri ráð fyrir, að það, sem raunverulega verði gert, verði eitt af tvennu: annaðhvort að áburðarverðið til bænda verði haft hærra en þeir gætu fengið áburðinn fyrir erlendis frá og þeir þannig látnir borga þetta eða ríkissjóður verði látinn borga með áburðinum, en það væri ekki farið að afskrifa hlutaféð. Væri ekki óeðlilegt, að t.d. hæstv. landbrh., þegar verið er að ræða um stærsta fyrirtæki ríkissjóðs, eða meiri hl. fjhn., sem vill halda þessu formi áfram, hefði nokkuð kynnt sér og verið til í að ræða hér um þetta. Ég er þess vegna hræddur um, að það, sem gert yrði í þessu, væri, að á kostnað ríkissjóðs eða á kostnað bænda yrði því ástandi haldið, að einstakir aðilar ættu svona mikinn hluta af verksmiðjunni og smám, saman yrði þannig á einn eða annan hátt á kostnað almennings þessum einstöku hluthöfum gefinn eignarréttur á 2/5 hlutum af verksmiðjunni.

Þetta er mál, sem ómögulegt er að komast hjá að ræða. Hér er um að ræða stærsta fyrirtæki, sem ríkið á, fyrirtæki, sem kostar meira en við höfum lagt í nokkurt annað fyrirtæki á Íslandi, sem ríkið á eitt, eins og ég álit að það eigi þetta. Og það er ekki aðeins vegna áburðarverksmiðjunnar sjálfrar, eins og hún nú er og eins og hún er rekin, sem nauðsynlegt er fyrir okkur að athuga þetta. Þetta er mál, sem hlýtur að koma upp hjá okkur í sambandi við allt, sem við ræðum um stóriðju hér á Íslandi, allt, sem við ræðum um að hagnýta okkar miklu auðlindir, fossana, til þess að gerbreyta atvinnulífinu í okkar landi með því að koma upp stóriðju í krafti orku þeirra.

Það mundu kannske einhverjir vilja segja, að það hafi verið rangt að ráðast í áburðarverksmiðjuna, vegna þess að hún borgi sig ekki og við getum fengið áburð annars staðar frá. Ég álít síður en svo. Það eru tvær villur, sem ég álít að hafi verið gerðar við stofnun áburðarverksmiðjunnar og við þurfum að læra af og við sósíalistar vöktum athygli á þá strax og höfum gagnrýnt. Það er í fyrsta lagi það, að áburðarverksmiðjan var höfð of lítil. Það þurfti að byggja miklu stærri verksmiðju. Og rekstrarkostnaður miklu stærri verksmiðju hefði orðið miklu lægri á hverja smálest áburðar, sem framleidd var.

Um það var mikið rætt í þessari hv. deild, þegar lögin voru samþykkt, og ég benti þá á, hve hættulegt það væri og hve mikil skammsýni það væri, og sama gerði hv. 6. þm. Reykv. (SG), sem þá var frsm. minni hl. landbn., að ætla að byggja aðalorkuna, sem áburðarverksmiðjan þurfti að fá, rafmagnið, á afgangsrafmagni þáverandi fyrirhugaðrar Sogsvirkjunar í staðinn fyrir að hugsa fyrst um, hvað þarf áburðarverksmiðja að vera stór, til þess að hún geti borið sig fyllilega vel og verið samkeppnisfær við erlendar verksmiðjur, og þegar maður er búinn að komast að niðurstöðu um það, þá að athuga, hvað þarf sú virkjun að vera stór, og hvar þarf hún að vera, sem á að standa undir og veita orkuna til slíkrar áburðarverksmiðju. Í staðinn var farið alveg öfugt að, eins og við gagnrýndum hérna þá. Fyrst var spurt: Hvað verður afgangs við virkjun nr. 2 í Soginu, þá virkjun, sem var verið að hugsa um þessi árin? — og síðan stærð áburðarverksmiðjunnar sniðin eftir því. Það var sem sé engin framsýn, engin hugsun um sjálfan rekstur verksmiðjunnar, sjálfan rekstrargrundvöllinn, um nauðsynina á því að hafa þarna virkilega stóran rekstur á alþjóðlegan mælikvarða, en ekki bara stórrekstur á íslenzkan mælíkvarða.

Þetta var fyrri vitleysan, sem gerð var, að hafa verksmiðjuna of litla frá upphafi. Önnur vitleysa, sem gerð þar, var að hlaða á þessa verksmiðju, þegar hún var stofnuð, kostnaði, sem náði engri átt að þessi verksmiðja bæri. Þessi verksmiðja átti upphaflega að kosta um 40 millj. kr. Þá var farið út í það eftir boði Alþjóðabankans að lækka gengið hér heima og koma þessari verksmiðju þar með upp undir 100 millj. kr. Síðan var lagður á vélarnar til þessarar verksmiðju söluskattur til ríkissjóðs, þannig að þessi verksmiðja varð að greiða um 25 millj. kr. í söluskatt til ríkissjóðs og í vexti, meðan á byggingunni stóð. M.ö.o. eru lagðar á verksmiðjuna upp undir 25 millj. kr. til þess að ná eyðslufé handa ríkissjóði í sambandi við það, að þessi verksmiðja var byggð, og þetta er látið koma á stofnkostnað verksmiðjunnar þaðan í frá, sem siðan ræður því að miklu leyti, hvað áburðurinn kostar. Það var hægt að komast af með, að þessi verksmiðja kostaði 100–105 millj. kr., en þarna er bætt ofan á 25 millj. kr. kostnaði, sem var vitleysa að reikna þarna inn í og náði ekki nokkurri átt. Síðan veldur þetta því, að verksmiðjan verður miklu dýrari, stofnkostnaðurinn miklu meiri og vextirnir, sem verksmiðjan verður að reikna sér, þess vegna miklu hærri upphæð en eðlilegt væri. Ofan á þetta allt saman bætist svo, að ríkissjóður ákveður að reikna til þessarar verksmiðju 51/2% vexti af sínu fé úr mótvirðissjóði, sem eru allt of háir vextir.

Hvernig lítur þá afkoma verksmiðjunnar út, eins og núna standa sakir? Ef við segjum, að þessi verksmiðja geti framleitt 20 þús. tonn af áburði, blönduðum, á 1600 kr. tonnið, þá gerir það 32 millj. kr., sem er hennar framleiðsla á ári. Hvað verður hún að reikna sér af 130 millj. kr. höfuðstól? Hún verður að reikna sér um 8 millj. kr. í vexti. og ef hún á að standa við afborganir, verður hún að reikna 61/2 millj. kr., eða 141/2 millj. kr. á ári í vexti og afborganir, m.ö.o. helminginn af því, sem öll hennar framleiðsla kostar. Ég held, að flestir, sem athuga þetta, sjái, að með svona skatti til fjármálaauðvaldsins í landinu muni verksmiðjan varla fá risið undir sér, ef helmingurinn af öllum hennar tekjum, helmingurinn af öllu andvirði áburðarins, sem hún framleiðir, á að fara bara í vexti og afborganir.

Þarna þarf að breyta til. Ég veit, að ef þetta skakka skipulag verður látið halda sér svona, þá verður rétt strax farið að ræða um það hér á Alþingi, hvort ríkið eigi að styrkja áburðarframleiðsluna, hvort það eigi að leggja sérstaka skatta á almenning til þess að styrkja áburðarframleiðsluna eða hvort það eigi hins vegar að beygja bændur undir það að borga mun hærra verð fyrir innlenda áburðinn en þann útlenda. Ég man að vísu eftir, að núverandi hæstv. viðskmrh. lýsti því yfir fyrir síðustu kosningar, að íslenzkir bændur mundu með ánægju borga hærra verð fyrir innlendan áburð en fyrir útlendan áburð. En ég er efinn í, að sú ánægja verði óblandin, og satt að segja finnst mér, að íslenzkir bændur hefðu átt rétt á því, hefðu getað krafizt þess af sínum forráðamönnum, að þegar stofnað yrði til áburðarframleiðslu á Íslandi, þá væri það gert með þeirri fyrirhyggju og með þeirri framsýni, að áburðarvinnslan ætti fyllilega að geta staðizt samkeppni við útlendan áburð. Og það hefði fyllilega verið hægt, ef frá upphafi hefði verið tekið tillit til þeirra tillagna og til þeirrar gagnrýni, sem sett var fram í góðri meiningu af hálfu okkar sósíalista, okkar till. um að hafa verksmiðjuna stærri. okkar till. um að hafa vextina lægri, okkar till. um að sleppa fyrirtækjum eins og áburðarverksmiðjunni og Sogsvirkjuninni við söluskatt af vélunum til þeirra.

Þegar menn eru að hugsa um að koma upp stóriðju á Íslandi, sem eigi að standa undir sér og eigi að vera samkeppnisfær, þá verða menn að horfast í augu við erfiðleikana, sem eru í sambandi við það, skipuleggja þetta þannig, að það sé vit í því. Stóriðja á Íslandi þarf að geta staðizt samkeppni á alþjóðlegan mælikvarða. Það dugir ekki að fara þar inn á sömu brautina og gert hefur verið bæði með landbúnaðinn og sjávarútveginn.

Ég held þess vegna, að það eigi ekki að vísa þessu máli frá nú, það eigi þvert á móti að ræða þetta vandamál mjög alvarlega. Ég veit, að það eru skiptar skoðanir á meðal stjórnarflokkanna um þetta mál. Ég veit, að fjölmargir þm. Sjálfstfl. muni vera á því, að ríkið eigi áburðarverksmiðjuna eitt. Þeir hafa ekki dregið dul á það, þegar ég hef, t.d. meðan ég átti sæti í fjhn., rætt það við þá. Og því fyrr sem tekin er ákvörðun um það, að ríkið eigi áburðarverksmiðjuna eitt og leysi hluthafana út, því betra.

Ég vil benda þeim mönnum, sem eru „móralskt“ ábyrgir fyrir því að hafa fengið þessa hluthafa, sem eiga nú þarna hlutafé, þessar 4 millj. kr. í rekstrarfélaginu, á, að það er ekki að vita, að það standi áfram til boða að fá þau skilyrði, sem ég hér legg til að Alþingi bjóði, að leysa út þeirra hlutabréf með 6% vöxtum. Ég vil benda á það, að strax og reikningar t.d. tveggja fyrstu áranna hjá áburðarverksmiðjunni liggja fyrir og það ef til vill sýnir sig, að afskriftir hafi engar verið, en engu að síður sé ekki farið að afskrifa neitt hlutaféð, þá getur hvaða borgari sem er í landinu farið að fara í mál út af því, að lög séu brotin í sambandi við þessa verksmiðju, og það þýðir þá um leið, að það yrði að gera þá kröfu, að hlutaféð væri látið vera það áhættufé, sem var aðalröksemdin í Ed. fyrir því að samþykkja 13. gr., að það væri svo gott að fá þarna inn áhættufé, að fá 4 .millj. í áhættufé, og þá er eðlilegt, að gerðar verði kröfur til þess, að fyrst sé þetta hlutafé látið tapast og afskrifað alveg, og það er eðlilegur hlutur að gera þá kröfu. Hins vegar álít ég, að það, sem hér er lagt til í 2. gr. þessa frv., sé sanngjarnt gagnvart hluthöfunum, miðað við það, að þeir hafa á vissan hátt verið blekktir. Þeir hafa ef til vill flestir gert ráð fyrir því, að þeir væru að eignast hluta í áburðarverksmiðjunni með því að leggja fram þetta hlutafé. Það álít ég hins vegar að þeir séu ekki að eignast, heldur þvert á móti sé verksmiðjan sjálfseignarstofnun, eins og 3. gr. mælir fyrir og 1.-13. gr. ganga út frá, enda hvorki hægt að selja hana né veðsetja, nema heimíld sé veitt af hálfu Alþingis.

Ég vil þess vegna alvarlega skora á þá, sem vilja leiða þetta mál, þetta klúður, sem gert var, þegar 13. gr. var sett inn í Ed. á sínum tíma, til lykta á hátt, sem allir mega vel við una, að þeir samþykki þetta frv. Ég efast ekki um, að eins og nú standa sakir mundu þessir einkahluthafar þarna í Áburðarverksmiðjunni h/f, í rekstrarfélaginu, sætta sig við þetta og þykja vænt um að sleppa á þennan hátt. En það getur brugðið til beggja vona. Annars vegar getur það skeð, þegar verksmiðjureikningarnir koma fram og það verður auðséð, að það sé tap, að kröfurnar um, að hlutaféð verði afskrifað sem tapað, verði nokkuð ríkar og þá verði ekki lengur þessi möguleiki fyrir þá. Hins vegar getur brugðið til hinnar vonarinnar; við skulum segja, að það yrðu kosningar í sumar og afturhaldsstjórn mynduð eftir kosningarnar og gengið lækkað, þá náttúrlega færu þessir menn að búast við því, að hlutaféð gæti ef til vill orðið nokkurs virði, ef þeir gætu haldið áfram að vitna í yfirlýsingar vissra ráðherra Framsfl. um, að þeir ættu að eiga hluta í þessari verksmiðju með því að eiga þetta hlutafé. Ég held þess vegna, að einmitt nú sé tíminn til þess að leiða þetta mál til lykta, og ég held, að 2. gr., eins og hún þarna er orðuð, mundi fullnægja því að fá hagkvæma lausn á málinu, fá hluthafana til þess að selja, og þarna er bara tekið fram, að ríkissjóði sé skylt að innleysa á nafnverði. Þeir eru ekki skyldaðir til þess að láta þetta, en hins vegar er náttúrlega hlutaféð, eftir að rekstrarfélagið hefur ekki lengur með reksturinn að gera, orðið mjög lítils virði, nema eins og ég tók fram upphaflega, ef þeir vilja fara í mál við ríkissjóð. Það er ekkert sérstaklega efnilegt fyrir þá, eins og gengið er frá lögunum, þó að þeir þar muni víssulega reyna að hafa stoð í þeim ummælum, sem ég oft áður hef gagnrýnt hér og sýnt fram á, hve dýr gætu orðið ríkissjóði, — þeim ummælum, sem vissir ráðh. Framsfl. hafa látið sér um munn fara um, að áburðarverksmiðjan væri eign þessa hlutafélags.

Ég held þess vegna, að fyrir alla aðila mundu menn sleppa bezt út úr þessu, bæði ríkið og þessir einkahluthafar, ef þetta frv. væri samþykkt nú. Ef hitt skyldi koma fram, að einhverjir hluthafar vildu ekki nota tækifærið til þess að innleysa sín hlutabréf, og það kynni e.t.v. þess vegna síðar meir að þykja ástæða til þess jafnvel að fara að taka þau eignarnámi til þess að firra ríkissjóð öllum hugsanlegum skaðabótakröfum seinna meir, þá er það víssulega mál, sem þá má athuga, þegar það er séð, hvort einhverjir halda fast í að eiga þessi hlutabréf í fyrirtæki, sem hætt væri að starfa, eingöngu með það fyrir augum að ætla að reyna að vinna mál á hendur ríkissjóði með tilvitnun í þessi ummæli ráðherranna, er ég gat um. Ég held, að slíkt yrði mjög tæpt. Ég held þvert á móti, að allir hluthafar mundu með ánægju, eins og nú standa sakir, selja sín bréf, þegar ríkissjóður gæfi þeim kost á að fara að innleysa þau. Og ég vil nú reyna að beina þeirri fsp. til meiri hl. í fjhn., hvað hann álítur. Álítur hann, ef tap er á áburðarverksmiðjunni núna, — og ég segi tap, ef hún getur t.d. ekki staðið við löglegar afskriftir, — að það eigi að fara að afskrifa af hlutafénu svo og svo mikið sem tapað?

Mér finnst það vera mjög erfitt fyrir þá, sem eru valdir að því klúðri, sem er í þessum lögum, að komast hjá því að svara slíkri spurningu, því að það verður að svara henni fyrr eða síðar, fyrir dómstólunum, ef ekki öðruvísi. Ég vil þess vegna eindregið óska þess, að hv. þdm. mættu sjá, að það væri bezt að afgreiða þetta mál á þann hátt, sem minni hl. fjhn. nú hefur lagt til, með því að samþykkja þetta frumvarp.