04.11.1955
Efri deild: 13. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (1649)

82. mál, lax- og silungsveiði

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, frv. til laga um lax- og silungsveiði, var að vísu útbýtt hér í þessari hv. d. síðast á þinginu í fyrra, en það var á síðustu dögum þingsins og var aldrei nein framsaga haldin um það á því þingi. En þó hófst þá strax samstarf milli landbn. þessatar d. og landbrn. um meðferð á málinu, eins og ég mun síðar koma inn á, og þess vegna er það, að ég vil flytja nokkra framsögu varðandi þetta mál, eins og það hefði ekki verið lagt fyrir þingið áður.

Það þarf ekki mörgum orðum um það að fara, að lax og silungur eru einhver dýrmætustu hlunnindi okkar lands og hafa verið það allt frá því að sögur hefjast og byggð hófst hér í þessu landi. Svo er sagt í okkar fornu fræðum, að ár hafi allar verið fullar af fiskí, þegar landnám hófst hér. Hvað sem um það er, þá er víst, að geysimikil fiskgengd bæði af laxi og silungi hefur verið hér í ám þá, en með tímanum hafa þessi hlunnindi mjög þorrið vegna ofveiði og vegna þess, að menn kunnu ekki að vernda þau á hinn rétta hátt. Ég hygg, að allir séu sammála um, að full nauðsyn og sjálfsagt sé að vernda þessi dýrmætu náttúruauðæfi sem allra bezt, vernda þau fyrir ofveiði, vernda þau gegn algerri eyðileggingu, sem því miður hefur átt sér stað í mjög mörgum veiðivötnum. Þau hafa verið barin upp, ef svo mætti að orði kveða, þ.e.a.s. veiðin hefur verið upprætt úr þeim. Öll löggjöf um þetta efni stefnir að sjálfsögðu að því að hindra slíka ofveiði, gera ráðstafanir til þess, að þessi náttúruauðæfi haldist, bæði til gagns fyrir íbúa landsins og sömuleiðis til skemmtunar, getum við sagt, sem er annar stór þáttur í þessum málum og ekki á heldur að telja lítils virði.

Mér finnst við eiga nú, af því að það er ekki gert í grg. frv. að neinu ráði, að gefa örstutt yfirlit um aðgerðir Alþingis frá fyrstu tíð varðandi þessi mál. Það skal verða gert í eins stuttu máli og unnt er, en mér virðist ekki óeðlilegt, að það geymist í Alþingistíðindunum nú, meðan Alþ. er að vinna að því frv., sem hér liggur fyrir og væntanlega afgreiðir það, ekki kannske endilega í þeirri mynd, er frv. hefur nú, að öllu leyti, en að frv. verði afgreitt, vonandi á þessu þingi, eða þá a.m.k. mjög fljótlega. En þá virðist mér alls ekki óeðlilegt, að það sé lauslega skýrt frá þeim aðgerðum, sem áður hafa verið gerðar varðandi þetta mál.

Ég hygg og hef það eftir fróðustu mönnum í þessum efnum, að ákvæði um lax- og silungsveiði hafi í raun og veru verið í gildi svo að segja strax eftir að Alþ. var stofnað í upphafi. Í Grágás eru ákvæði um samveiði, skiptingu veiði, og þar er að finna einnig fyrstu drög til friðunar á laxi og silungi, a.m.k. laxi. En í Járnsíðu og síðar í Jónsbók voru hliðstæð ákvæði. Og ákvæði í þessum lagabálkum hafa fyrst og fremst verið ætluð til að jafna veiði og jafnframt að koma í veg fyrir yfirgang, þannig að einn landeigandi gengi á rétt annars um þessa hluti, svo að það er nokkurn veginn ljóst, að forfeðrum okkar hefur tiltölulega fljótt orðið algerlega ljóst, að það varð með lögum að vernda þessi hlunnindi og koma á réttarskipan um þessi stórfelldu náttúruauðæfi, sem hér voru í þessum efnum.

Frá því að Jónsbók gekk í gildi og þangað til 1867 má segja að tiltölulega hljótt hafi verið um veiðimálin á Alþ., en það ár sendu 147 menn úr Mýra- og Hnappadalssýslu Alþ. bænaskrá um, að það tæki laxveiðimálin til meðferðar, þar sem laxveiði hafi farið í vöxt á undangengnum árum vegna nýhafins útflutnings á laxi og hlýðni við ákvæði um laxveiði væri þá minni en áður var, eins og segir í þessari bænaskrá þeirra.

Samþ. var á Alþ. þetta sama ár frv. til tilskipunar um friðun á laxi á Íslandi. Þetta frv. var í sjálfu sér á ýmsan hátt hið merkilegasta og hefur að nokkru leyti markað tímamót í störfum Alþ. um að friða og vernda þessi auðæfi. Í þessu frv. voru ákvæði um árlega friðun á laxi, um vikufriðun, friðun á gönguleiðum og friðun á smálaxi. Þá voru þar og ákvæði um bann við notkun vissra veiðitækja. Þar voru ákvæði um ákveðna möskvavídd, um frágang á fyrirstöðum, þar sem einhvers konar kistur eða slík veiðitæki voru, um lengd veiðivéla út í á, um sölubann á laxi utan veiðitíma, um refsiákvæði og um ófriðun sels í veiðiám og ósum þeirra. En þetta merkilega frv., sem borið var fram og AIþ. samþykkti og Íslendingar stóðu því að, fékk þau örlög, að stjórnin neitaði um staðfestingu á frv., og það varð af þeim ástæðum aldrei að lögum. En það sýnir engu að síður, hve langt menn þá voru komnir að skilja nauðsyn á mjög miklum friðunarráðstöfunum í þessu efni.

Aðeins nokkrum árum síðar, árið 1871, lagði stjórnin fyrir Alþingi nýtt frv. um laxveiði. Það líktist í aðalatriðum frv. frá 1867, en gekk þó skemmra um friðun en það í ýmsum greinum. Í því var þó eitt sérstaklega merkilegt nýmæli, að 60 faðma bil skyldi vera milli lagna eftir endilangri á, mætti aldrei hafa þær þéttari. Þessu frv. var eitthvað breytt af Alþ. og síðan samþykkt, en það fékk ekki staðfestingu konungs frekar en frv. frá 1867. Aðeins tveim árum síðar, 1873, er enn lagt fyrir Alþ. nýtt frv. um laxveiði, og það gekk enn skemmra í friðunarákvæðunum en frv. frá 1871. Frv. þessu var vísað frá, og mun það hafa verið gert m.a. vegna þess, hve friðunarákvæði þess voru ófullkomin, og alþm. hefur virzt af áður fenginni reynslu, að það tæki varla að taka málið til meðferðar á Alþ. þá, eins og farið hefði með þetta að undanförnu.

Árið 1875 er enn lagt fram frv. um laxveiði, og er þá flm. þess 1. þm. Þingeyinga. Líktist frv. um margt frv. frá 1873, og ákvæði um friðun gengu á engan hátt lengra en í því frv. T.d. voru í því frv. engin ákvæði um vikufriðun. En í þessu frv. kemur inn eitt merkilegt nýmæli, og það er um stjórn veiðimála, þar sem amtsráðum er heimilt að fengnum till. hreppsnefnda og sýslunefnda að breyta fyrri ákvæðum laganna eða kveða nánar á um veiði. Frv. var nú samþ. á Alþ., og er það samþ. sem viðaukalög við landsleigubálk Jónsbókar, 56. kapítula, um friðun á laxi. Þetta frv. er svo staðfest sem lög 11. maí 1876.

Á næstu árum koma fram ýmsar brtt. við þetta frv., sem þarna var samþykkt. T.d. ber þm. G-K., Grímur Thomsen, 1879 fram slíkt frv. En það dagaði uppi á þinginu, og varð aldrei neitt úr því. Árið 1881 er þetta laxamál enn til umr., og var þá borið fram frv., sem í ýmsum höfuðdráttum líktist lögunum frá 1876, þeim lögum, sem þá giltu, en voru þó nokkur nýmæli í. En konungur neitaði um staðfestingu á þeim lögum, sem Alþ. afgreiddi þá, og var málið því úr sögunni um sinn.

En svo er það árið 1885, að laxamálið er enn tekið upp á Alþ., og er það þá 2. þm. G-K., Þorkell Bjarnason, sem flutti frv. um friðun á laxi. Nefnd, sem fjallaði um þetta mál, samdi nýtt frv., er líktist meira lögunum frá 1876, og var það samþ. með nokkrum breytingum. Þetta frv. hlaut staðfestingu konungs 19. febr. 1886. Það er þetta frv., sem gildir síðan sem heildarlög hartnær hálfa öld, eða til ársloka 1932. Í lögunum voru ýmsar merkilegar nýjungar, svo sem um 36 stunda vikufriðun. Skemmsta lengd milli veiðivéla skyldi vera 30 faðmar, ádráttarveiði takmörkuð, veiði með stingum og krókum bönnuð. Einnig voru þar allmörg ákvæði varðandi samveiði fleiri eigenda, sem saman áttu veiði.

Ég ætla nú ekki að fara að rekja það nákvæmlega, en það er hægt að segja, að mjög oft hafi verið bornar fram till. úr þessu til breytinga á löggjöfinni frá 1886. Strax á þingunum 1889 og aftur 1891 voru flutt frv. um laxveiðimál. Þar var lagt til að nokkru leyti að herða á friðunarákvæðunum og ýmislegt fleira, einnig um útrýmingu sels. Frv. frá 1889 dagaði algerlega uppi, og frv. frá 1891 náði ekki staðfestingu. Úr því má segja, að næstu 10 ár hafi Alþ. ekki sinnt þessum málum að því er virðist að neinu ráði.

Upp úr aldamótunum, 1901, er lagt fram frv. um laxveiði, sem Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur hafði samið með hliðsjón af frv. frá 1891. Það gekk nokkru lengra um friðun en í eldri löggjöf, en frv. varð ekki útrætt á þinginu og varð því ekki að lögum.

Það er víst óhætt að fullyrða, að fram á fyrsta tug þessarar aldar, 20. aldarinnar, hafi eingöngu verið hugsað um lagasetningu varðandi laxveiðar og útrýmingu óvinar hans, selsins. En árið 1909 voru fyrst sett lög um friðun silungs, og hlutu þau nafnið „lög um samþykktir um friðun silungs og veiðiaðfarir í vötnum“. Þau voru staðfest af konungi 30. júlí 1909 og voru í gildi til 1932, þegar allsherjarlöggjöfin var þá sett. Í þessum lögum var til dæmis veitt heimild til að gera samþykktir um friðun og veiði silungs, ef 3/5 veiðieigenda æsktu þess. Þar voru almenn ákvæði um friðun vatnasilungs að nokkru leyti. Frv. um útrýmingu sels var lagt fyrir Alþ. 1912 af 1. þm. Árn., Sigurði Sigurðssyni, og var það samþykkt og staðfest af konungi. Lögin voru heimildarlög og giltu til 1932, þegar löggjöfin kom þá.

Má nú telja, að hljótt hafi orðið um laxveiðimálin á Alþ. þar til 1917, að fram komu tvö frv. um laxveiði. Annað var um heimíld handa ríkisstjórninni til að veita einkarétt til laxveiða í Faxaflóa frá netlögum út að landhelgislínu. Það frv. var fellt. Hitt var frv. til laga um laxveiði og var þá flutt af 1. þm. Reykv., Jörundi Brynjólfssyni, og þm. N-Þ., Benedikt Sveinssyni. Voru mörg merk nýmæli í þessu frv., og gengu flm. mun lengra í till. sínum en áður hafði verið gert. T.d. var lagt til, að vikufriðun yrði 84 stundir í viku, og það einkennilega er, að það er einmitt þessi vikufriðun, sem lögð er til nú í þessu nýja frv., sem hér liggur fyrir, því að hún hefur ekki verið svo löng í þeirri löggjöf, sem gilt hefur frá 1932. Í þessu frv. voru svo ákvæði um laxastiga og stjórn veiðimála. Frv. var ekki útrætt á þingi, en var vísað til ríkisstjórnarinnar og kom aldrei fram aftur.

Árið 1923 komu fram tvö mál, er vörðuðu laxveiði. Annað var um ófriðun sels í Ölfusá og hitt um undanþágu fyrir laxveiðieigendur í Ölfusá frá vikufriðun. Fyrra málið var fellt, en hið síðara samþykkt. Undanþágan frá vikufriðun var þó ekki lengi í gildi, því að samþykkt var á Alþ. árið eftir að fella hana aftur niður. En á þinginu 1921 kom fram frv. til vatnalaga, það hafði lengi verið í meðförum áður, stórt mál og mikið, og í þessu frv. var kafli um veiði í vötnum. Í gildi voru þá enn ákvæði landsleigubálks Jónsbókar um þetta efni. En í þessu frv. voru tvö merk nýmæli, annars vegar var ákvæði um, að ekki mætti skilja veiði frá landi, hins vegar, að netlög skyldu upp tekin í veiðivötnum. Frv. gekk ekki í gegn á þessu þingi og ekki heldur á þinginu 1922, en 1923 var það samþ. og staðfest.

Á þingunum 1928 og 1929 voru þrjú frv. varðandi veiðimál til umr. Frv. voru um ófriðun sels í Ölfusá, fiskræktarfélög og um friðun á laxi. Frv. um fiskræktarfélög hlaut samþykki Alþ. og var staðfest, en lög um fiskræktarfélög voru um margt merkilegt nýmæli. Í þeim voru fyrstu ákvæði í íslenzkum lögum um ræktun fisks í veiðivötnum, en áður höfðu lög aðeins náð til aðgerða, sem miðuðu að því að vernda fiskstofnana fyrir ofveiði. Þá er og þar tekið upp það nýmæli að miða félagssvæði við heil vatnakerfi í stað þess að miða við lögsagnarumdæmi, eins og gert var í lögunum frá 1886 og einnig í lögunum um silungsveiði frá 1909, og að veiðieigendur sjálfir skyldu hafa veg og vanda af félögunum án afskipta sýslunefnda, eins og ætlazt var til í þessum áðurnefndu lögum.

Setning laganna um fiskræktarfélög var upphaf að nýrri lagasetningu um veiðimál, enda var þá tími til kominn að taka löggjöf um veiði til endurskoðunar, þar sem lög um laxveiði voru orðin nær hálfrar aldar gömul og ástand hér á landi hafði tekið stórkostlegum breytingum á öllum sviðum, frá því að lögin voru sett. Auk þess vantaði löggjöf um margar hliðar veiðimála. Með bættum samgöngum jukust möguleikarnir á sölu á laxi og silungi, með þeim afleiðingum, að veiðin jókst fyrir aukið veiðiálag, þ.e. meiri og betri veiðitæki. Áhugi manna fyrir skipulagsbundinni veiði og fiskrækt fór því vaxandi. Um og eftir 1920 hófu Fiskifélag Íslands og Búnaðarfélag Íslands afskipti af veiðimálum. Árið 1925 fékk Búnaðarfélagið hingað austurriskan vatnalíffræðing til rannsóknar á vatnafiski og veiðivötnum. Tveimur árum síðar tóku þessi félög upp samvinnu sín í milli um veiðimál og réðu þá Pálma Hannesson, síðar rektor, til starfa að sumrinu til við rannsóknir vatna og leiðbeiningar um fiskrækt. Forráðamönnum þessara mála varð það fljótt ljóst, að veiðilöggjöf hér á landi væri bæði ófullnægjandi og úrelt, og þyrfti ný og ýtarleg veiðilöggjöf að koma í hennar stað. Eftir tillögu Pálma Hannessonar lagði nefnd þessara félaga til við atvmrh., að skipuð yrði n. til að semja frv. til nýrrar veiðilöggjafar, og í nóv. 1929 var sú n. skipuð til að semja frv. til laga um „allt það, sem að veiði í vötnum og ám lýtur“, eins og fram er tekið í skipunarbréfinu. Í nefndinni áttu sæti Pálmi Hannesson, sem var form., Jörundur Brynjólfsson alþm. og Ólafur Lárusson prófessor. Nefndin skilaði áliti sínu í frumvarpsformi, og var frv: lagt fyrir þingið 1930 undir nafninu: „Frv. til laga um lax- og silungsveiði“. Í frv. voru færð saman ákvæði um veiðimál, sem áður höfðu verið í fimm sérstökum lögum. Þeim ákvæðum var breytt og aukið stórlega við þau og ákvæðum um nýjar hliðar veiðimálanna bætt inn. Frv. var í 14 köflum, er fjölluðu um orðaskýringar, veiðirétt, skrásetningu veiðivatna, merkingu veiðarfæra og veiðiskýrslur, friðun á laxi og göngusilungi, friðun vatnasilungs, veiðitæki og veiðiaðferðir, fiskvegi og aðra mannvirkjagerð í veiðivötnum, fiskræktarfélög og ófriðun sels, stjórn veiðimála og eftirlit, styrkveitingar til fiskræktar, matsgerðir og skaðabætur, refsiákvæði og réttarfar og svo loks niðurlagsákvæði. Margt mjög merkra nýmæla var í þessu frv. Skulu hér aðeins nefnd þau helztu, svo sem bann við veiði í sjó á laxi, friðun göngusilungs, friðun vatnasilungs, ákvæði um mannvirkjagerð í veiðivötnum, um stjórn veiðimála og veiðieftirlit, styrkveitingar til fiskræktar, matsgerðir og skaðabætur og ýmislegt fleira.

Frv. þetta var ekki afgreitt á þinginu 1930, en það var tekið upp á tveim næstu þingum og var loks afgreitt sem lög frá Alþ. 1932, og voru þau það ár staðfest og skyldu taka gildi frá 1. jan 1933. Í meðförum þings voru gerðar margar breytingar á frv. Markverðasta nýjungin, sem í bættist, var nýr kafli um veiðifélög, sem felldur var inn í það, áður en frv. var lagt fyrir þingið 1931. Þýðing veiðifélaga fyrir veiðimálin í landinu hefur reynzt geysimikil. Þessi félög hafa skipulagt veiðina hvert á sínu félagssvæði, oftast með góðum árangri, og hafa auk þess dregið úr úlfúð milli veiðibænda, en veiðimál eru mörgum tilfinningamál, engu síður en hagsmunamál, og því deiluefni, sem oft verður að útkljá á ýmsan hátt.

Af mikilvægum nýmælum, sem voru í frv., þegar það kom fram 1930, og voru felld í meðförum þingsins, má nefna ákvæðið um skyldu kaupenda að verulegu magni af laxi til að gefa skýrslur um kaupin og ákvæði um bann við fjölgun veiðivéla í straumvötnum frá því, sem verið hafði áður, en fróðir menn telja, að ákvæði af þessu tagi hafi vantað mjög tilfinnanlega í veiðilöggjöfina nú að undanförnu. En með setningu laga um lax- og silungsveiði frá 1932 var mjög merkum áfanga náð í sögu veiðilöggjafarinnar hér á landi. Í stað hinna glompóttu og dreifðu ákvæða um veiðimál kom samfelld og ýtarleg veiðilöggjöf, sem að flestu leyti var sambærileg hliðstæðum lögum á Norðurlöndum, og í sumum atriðum var hún fullkomnari en á öðrum Norðurlöndum.

Frá því að lögin um lax- og silungsveiði voru sett 1932, voru 6 sinnum gerðar breytingar á þeim til ársins 1941. En allar breytingar voru þá felldar inn í lögin frá 1932 um lax- og silungsveiði. Árið 1937 voru samþ. á Alþ. lög um klaksjóð, þ.e. heimild fyrir ríkisstj. til að reisa klakstöðvar og til leigunáms í því skyni. Var hér raunverulega um viðbót við lögin um lax- og silungsveiði að ræða, þó að þessi ákvæði væru nú í sérstökum lögum, en á næstu 11 árum var lögunum frá 1941 og lögum um klaksjóð breytt í sex skipti, svo að á rúmum 20 árum hafa 12 sinnum verið gerðar breytingar á þessari löggjöf. Flestar voru breytingarnar að víssu leyti smávægilegar, en 1954 kom fram frv. til breytinga á veigamiklum ákvæðum í lögunum og mátti vænta fleiri breytinga þá á næstunni. Þá var það, að þeim ráðherra, sem fór með þessi mál, virtist, að tími væri til þess kominn að taka lög þessi í heild til endurskoðunar, og bar í því efni margt til.

Mjög miklar breytingar hafa orðið í þjóðlífinu þau rúm 20 ár, sem liðin eru síðan lögin frá 1932 gengu í gildi, og aðstæður eru því orðnar mjög mikið á annan veg en þá var, en lögin voru vitanlega sniðin þá, eins og gefur að skilja, við yfirstandandi tíma. Viðhorfin í veiðimálum höfðu einnig breytzt. Veiðitæknin hafði aukizt mjög, stangarveiði hefur viða komið í staðinn fyrir netaveiði, félagsleg aðstaða hefur breytzt til mikilla muna, ný viðhorf hafa skapazt í fiskræktarmálum, eldi matfisks er hafið í tjörnum eða vötnum hér á landi, og áhugi fyrir álaveiðum hefur aukizt, svo að aðeins séu nefndar helztu breytingarnar á sviði veiðimála, sem orðið hafa á þessu tímabili. Það var þess vegna, að með bréfi, dags. 21. júlí 1954, skipaði landbrh. nefnd manna til að endurskoða lög um lax- og silungsveiði. Í nefndinni áttu þessir menn sæti: Pálmi Hannesson, sem var skipaður formaður, Björn Ólafsson fyrrv. ráðherra og alþingismaður, Gizur Bergsteinsson hrd., Gunnlaugur Briem skrifstofustjóri og Þórir Steinþórsson bóndi og skólastjóri í Reykholti, og skyldi nefndin hafa mjög náið samstarf við veiðimálastjóra um öll þessi mál. Nefndin yfirfór öll ákvæði íslenzkra laga um lax- og silungsveiði og kynnti sér jafnframt löggjöf ýmissa erlendra ríkja um veiðimál, einkum Norðurlanda og Stóra-Bretlands. Athugun þessi leiddi í ljós, að heppilegast væri að endursemja lögin um lax- og silungsveiði frá 1941, eins og þeim var þá steypt saman, frekar en að gera brtt. við þau, þar sem breyta þurfti mjög miklu og auka við þau. S.l. vor skilaði nefndin áliti sínu í frumvarpsformi, eða seint á þeim vetri, og frumvarpið var þá lagt fyrir Alþingi aðeins áður en það lauk störfum, eins og hv. alþm. muna. Það varð samkomulag um það milli hv. landbn. þessarar deildar og landbrn., að heppilegt væri að nota sumarið til þess að kynna frumvarpið sem bezt öllum þeim aðilum í landinu, sem mests hefðu að gæta í þessum efnum og vildu fylgjast með því. Varð það því að ráði samkv. till. landbn., að ráðuneytið sendi 78 aðilum frv. með ósk um, að það yrði athugað óg látnar yrðu í té upplýsingar um, hvernig það líkaði. Sérstaklega kæmu fram athugasemdir um þau atriði frv., sem þeir aðilar væru móthverfir á einn eða annan hátt. Þetta var nú gert, og fylgir hér listi yfir þá, sem frumvarpið var sent, sem að sjálfsögðu verður látinn í hendur þeirrar nefndar, sem fær frv. hér til meðferðar nú. Hitt skal ég taka fram, að fá svör hafa borizt og ekki komið fram mótmæli enn. Það kunna að koma svör nú á næstunni, og það a.m.k. ýtir á eftir. þegar þessir aðilar vita, að nú er frv. á ný komið til meðferðar Alþ., ef þeir hafa einhverja sérstaka ástæðu til að vilja gera athugasemdir við það í því formi sem það er. En þessir aðilar, sem hér er um að ræða, voru sýslunefndir í þeim sýslum, þar sem um sérstök veiðihlunnindi er að ræða, sem eru nú víst flest sýslufélög að meira eða minna leyti, og svo fiskræktarfélög, veiðifélög, Landssamband íslenzkra stangveiðimanna, stangveiðifélög og svo allmargir einstaklingar, sem þetta var sent einnig.

Ég lét svo nefndina, sem samdi frv., nú í haust, áður en Alþingi kom saman, yfirfara það að nýju. Voru gerðar á því lítils háttar breytingar, eitt nýmæli held ég hafi verið tekið inn í það, en yfirleitt voru það frekar leiðréttingar en verulegar breytingar, og í formi, sem það hafði eftir þá endurskoðun, er frv. flutt nú að nýju. Ég vil geta þess í þessu sambandi, að nefndin tók til meðferðar, hvort ekki væri hægt að gera hér eitthvað til að örva álaveiði. Áll er allmikill hér sunnanlands a.m.k. — við vitum ekki nákvæmlega um útbreiðslu hans — og sums staðar víst það mikill að talið er, að það geti vel borgað sig að veiða hann engu síður en víða erlendis. Þetta hefur aldrei verið gert, og sennilega kunnum við Íslendingar ekki að éta íslenzkan ál. Okkur þykir áll góður, þegar við komum út, og rífum hann í okkur þar. En ég vildi sérstaklega óska eftir því, að nefndin ræddi þetta mál við veiðimálastjóra og þá kannske aðra nefndarmenn, því að þeir voru með lauslegar till., sem þeir hefðu helzt hugsað sér að bætt væri inn í frv. sem sérstökum kafla varðandi álaveiði, en það var dálítið hrátt, og þótti ekki rétt á þessu stigi að setja það inn í frv., en þeir hafa nokkrar upplýsingar um þetta. Ég vildi aðeins nefna það. Þetta er nú víst orðin nokkuð löng framsaga.

Ég skal svo brátt láta máli mínu lokið, en vil þó, áður en ég hætti, með örfáum orðum aðeins nefna meginbreytingarnar í því frv., sem nú liggur fyrir, frá eldri löggjöf um þetta efni, þó að það náttúrlega komi hér fram við samanburð á eldri lögum og frv.

Helztu breytingarnar, sem ég vildi nefna í þessu sambandi, eru þá fyrst varðandi stangarveiðina. Það er hér lagt til, að þar sem lax og göngusilungur fer um, verði stangarveiði takmörkuð við þrjá mánuði og daglegur veiðitími á stöng verði 12 tímar og stangarveiði megi ekki viðhafa á þeim stöðum í ám, þar sem önnur veiðitæki eru notuð. Þá yrði stangafjöldi í veiðivatni ákveðinn af veiðimálastjórninni. Í raun og veru voru engin takmörk um stangarveiðina varðandi þetta í lögum áður, en það virðist hafa komið í ljós, að það má í raun og veru uppræta lax — kannske silung líka — í ám með stangarveiði einni, ef hún er notuð miskunnarlaust. Það var mönnum ekki eins ljóst fyrir aldarfjórðungi vegna þess, hve sú veiði var þá miklu minna notuð. Þetta eru því ný ákvæði hér, sem eiga að verða til þess, að ekki sé gengið of nærri heldur með stangarveiði.

Í öðru lagi er það varðandi netaveiðina. Hún er takmörkuð nokkru meir en áður. Það er lagt til, að vikufriðun verði lengd um 24 stundir í viku. Hún hefur verið 60 stundir, en nú er lagt til, að hún verði lengd upp í 84 stundir. Lengd lagna verði mæld frá árbakka, þ.e.a.s. ósbakka, lögnum verði ekki fjölgað frá því, sem nú er, og leyfi ráðherra þurfi til að nota girðingar, kistur og ádráttarnet. Þá hafi ráðherra heimild til að fækka lögnum í veiðivötnum, ef veiði þeirra eykst verulega vegna umbóta á veiðiútbúnaði. Nú er mikið um það talað, að ný net, nælonnetin, muni vera miklu veiðnari en þau tæki, sem notuð hafa verið áður, og af þeim geti stafað nokkuð mikil hætta. Það er a.m.k. athugunarmál fyrir staði eins og Mývatn, hvort þau geti ekki orðið allt of veiðifrek og eigi því þátt í jafnvel að uppræta silungsveiðina þar. Ég segi, að það er til athugunar. Þetta er allt svo nýtt, að við vitum ekki, hvað reynslan kennir okkur í þessu. Einnig eru þarna ákvæði um það, að þriðjungur af miðbiki straumvatna og helmingur ósasvæða verði friðaður fyrir föstum veiðivélum, og hið friðaða svæði nefnist gönguhelgi.

Þriðja atriðið, sem ég vildi nefna, er friðunartími fyrir silung í stöðuvötnum, hann verði ákveðinn sér fyrir hvert vatn á þeim tíma, sem hrygning fer þar fram, í stað þess að nú er sami friðunartími fyrir allt landið. Þá verði vald ráðherra til að setja reglur um takmörkun á veiði í stöðuvötnum aukin.

Fjórða atriðið er, að helztu breytingar frv. við gildandi lög um fiskræktarfélög og veiðifélög varða stofnun félaga, fundarboðun, atkvgr., frest til að vefengja stofnun félaganna. Þá voru sett skýrari ákvæði en áður um valdssvið fiskræktarfélaga til að setja veiðireglur og um arðskiptingu í veiðifélögum.

Í fimmta lagi er það, að lög frá 1937 um klaksjóð og lög frá 1953 um breytingar á klaksjóðslögunum eru felld inn í frv. með allmiklum breytingum.

Þá er gert ráð fyrir, að ríkissjóður taki þátt í kostnaði við eftirlit með veiði og að ráðherra hafi vald til að skipa veiðieftirlitsmenn, sem kostaðir séu af félögum eða einstaklingum.

Í sjötta lagi er í frv. nýmæli um fiskeldi, m.a. um undanþágu til eldisstöðva frá ákvæðum frv. um veiðiaðferðir, veiðitæki o.fl., um varúðarráðstafanir, sem eldisstöðvum ber að viðhafa við vatnstöku úr veiðivatni, og um styrkveitingar til klak- og eldisstöðva.

Í sjöunda lagi er nýr kafli í frv. um innflutning á lifandi fiski og hrognum þeirra og um nauðsynlegar sóttvarnir til að koma í veg fyrir, að næmir fisksjúkdómar berist til landsins eða breiðist út innanlands í eldisstöðvum eða þá í náttúrunni almennt.

Þetta eru þau sjö ákvæði, sem telja verður að séu merkustu nýmæli eða breytingar frá eldri löggjöf. Það áttunda er svo álaveiðarnar, sem er ekki, eins og ég tók fram áðan, tekið inn í sjálft frv., en óskað er eftir að hv. n. og d. taki til meðferðar.

Ég hef nú í stuttu máli — þó kannske of löngu — reynt að lýsa sögu þessara veiðimála í mjög stórum dráttum frá fyrstu tíð og jafnframt með örfáum orðum minnzt á meginbreytingarnar í þeirri löggjöf, sem er gert ráð fyrir að breyta frá eldri lögum.

Ég þarf ekki að taka það fram, að að sjálfsögðu er ég til viðtals við hv. nefnd, sem fær frv. til meðferðar, hvenær sem er, en þó mun vera miklu betra fyrir hana að hafa sem nánast samstarf við veiðimálastjóra og aðra fróðustu menn í þessum efnum, því að það tel ég mig í raun og veru ekki vera. En ég hygg, að eins og vandað var til löggjafarinnar frá 1932, þar sem ágætir menn störfuðu þá að þessu og þ. á m. einn okkar allra færasti lögfræðingur, Ólafur Lárusson prófessor, þá megi segja, að eins hafi verið vandað til þessarar endurskoðunar. Sátu ágætir lögfræðingar í þeirri nefnd, sem gáðu að þeirri hlið málsins, og svo auk þess fróðir menn á annan hátt, eins og form. nefndarinnar o.fl., svo að ég vænti, að formshlið málsins hljóti að vera sæmilega borgið á allan hátt.

Hitt er mjög líklegt, að það séu skiptar skoðanir um einstök atriði þessa frv. Ég hygg, að aldrei hafi verið borið fram hér á Alþingi frv. um þessa hluti öðruvísi en það hafi skipt nokkuð í tvö horn, enda er það kannske ekki óeðlilegt. Hér er um þannig mál að ræða, bæði hagsmunamál margra einstaklinga og jafnframt mikið tilfinningamál á margvíslegan hátt. Nú er orðið um tvo stóra hópa að ræða. Annars vegar stangveiðimennirnir, sem mjög hafa eflzt upp á síðkastið og leigja veiðivötnin og greiða miklar fúlgur fyrir oft. Hins vegar eru þeir, sem í héruðunum búa og stunda þá veiðina aðallega með netum eða á annan hliðstæðan hátt. Nokkur togstreita er á milli þessara aðila og hlýtur sennilega alltaf að verða, og nauðsynlegt er einmitt, að þess verði gætt í löggjöf eins og þessari, að þar verði sem minnst á hvorugan aðilann hallað í þessu efni.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.