06.01.1956
Neðri deild: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (1675)

85. mál, mannanöfn

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður um þetta mál að sinni, það gefst kannske tækifæri til að ræða það nánar síðar.

Það er vissulega alveg rétt, sem hér hefur verið á bent og hæstv. menntmrh. sæddi um, að þessi nafnamál eru orðin mikið vandræðamál hér hjá okkur. Þau hafa verið til umræðu hér þing eftir þing í sambandi við nafnbreytingu þeirra erlendu manna, sem fengið hafa íslenzkan ríkisborgararétt, og í framhaldi af þeim umræðum hefur svo verið í það ráðizt af hæstv. menntmrh., sem er víssulega lofsvert, að láta endurskoða þessi lög, og er frv. það, sem hér er fram komið, árangur þeirrar endurskoðunar.

Það væri auðvitað hægt að ræða langt mál um þessi nafnamál yfirleitt, en það skal ég ekki gera. Það eru aðeins örfá atriði, sem ég vildi minnast á í sambandi við þetta frv. á þessu stigi málsins.

Það var á það bent af hæstv. ráðh., að meginkjarni þessa máls og sú hlið þess, sem líklegust er til að valda ágreiningi, er það ákvæði, að hér eftir verði mönnum heimilað að taka upp íslenzk ættarnöfn, með þeim takmörkunum, að það skuli vera háð samþykki dómsmrn., hverjir fái að taka upp slík nöfn, og væntanlega verður farið í því efni eftir tillögu sérstakrar nefndar, sem um það verði látin fjalla. Ég veit ekki, hvort allir hv. þm. hafa kynnt sér tillögur, sem fram komu á sínum tíma frá ættarnafnanefndinni svokölluðu, sem sett var á laggirnar, að ég held, eftir lögunum frá 1913 og átti að finna upp ættarnöfn og hvaða ættarnafnareglum ætti að fylgja. Ég minnist þess, að ég las grein eftir Árna Pálsson prófessor, mjög skemmtilega grein, sem ef til vill ýmsir hv. þingmanna hafa lesíð, þar sem hann tók nokkuð til meðferðar niðurstöður þessara virðulegu sérfræðinga, sem um þetta höfðu fjallað. Auk þess sem þessi grein er skemmtileg, eins og vænta mátti frá hálfu þess manns, sem hana ritaði, var þar mjög skilmerkilega tætt niður álit þessarar svokölluðu ættarnafnanefndar og bent á, hvílík fáránleg heiti kæmu út, ef ætti að fylgja þeim reglum, sem þar var getið um. Nú skal ég ekkert um það segja, hvort þeir ágætu menn, sem kynnu að verða í nýrri ættarnafnanefnd, fylgdu þeim reglum, sem þar voru fram settar, en þær reglur áttu að hafa það til síns ágætis að falla vel í íslenzkt mál, en ég segi bara: Hamingjan hjálpi okkur, ef ætti að fara að lögleiða ættarnöfn eins og slík, sem þar var bent á að rétt væru samkvæmt lögum íslenzkrar tungu.

Ég verð að láta þá skoðun mína í ljós, að ég tel vera mjög varhugavert að fara að löggilda heimild til að taka upp ný ættarnöfn. Það er víssulega rétt, að það hefur verið erfiðleikum bundið að framkvæma lögin um bann gegn ættarnöfnum og fjöldi nýrra ættarnafna verið tekinn upp, en mér finnst þó ekki, að það mál sé komið á það stig, að það geti réttlætt að bera fram eða lögfesta það á Alþingi, að þessi ættarnöfn öll skuli vera lögleg, þ.e.a.s., það er nú ekki einu sinni lögfest, því að eins og hv. 1. landsk. benti á, eru ekki lögfest þau ættarnöfn, sem ólöglega hafa verið upp tekin, og mundi væntanlega verða að fá leyfi rn., til þess að þau yrðu lögleg. En mér finnst a.m.k. ákaflega erfitt að sætta sig við þá tilhugsun, að vegna þess að lög hafi verið brotin í þessu efni, þá verði nú að beygja sig fyrir lögbrotunum og löggilda ættarnöfnin eða löggilda þá venju, sem lögbrotin eiga að hafa löghelgað.

Við þekkjum auðvitað fjöldamörg lög, sem hafa verið brotin á margvíslegan hátt. Það er t.d. ekkert launungarmál, að skattalög eru ákaflega brotin, og ég held þó, að fæstum komi til hugar að löggilda skattsvik, þannig að þótt hér sé við margvíslega erfiðleika að stríða, verði fyrst og fremst að reyna að finna leiðirnar til þess að framkvæma l., því að ég get ekki skilið annað en það sé með ýmsum ráðum hægt a.m.k. að orka mjög í þá átt, að það sé hægt að framkvæma bannið gegn ættarnöfnunum.

Nú er mér ekki kunnugt um, hvort eða hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar af þeim yfirvöldum, sem eiga að fjalla um þessi mál, til að koma í veg fyrir, að ólögleg ættarnöfn væru tekin upp, en það virðist a.m.k. augljóst, að það ætti í öllum opinberum skýrslum, manntali og með öðrum þeim ráðum, sem opinberir aðilar hafa yfir að ráða, að vinna gegn ættarnöfnunum með því, að þar séu ekki tekin upp þau ættarnöfn, sem ólögleg eru, heldur nöfn manna skráð þar svo sem löglegt er. Er ekki að efa, að það gæti mjög orkað í þá átt að vinna gegn ættarnöfnunum, ef þau væru hvergi viðurkennd á opinberum vettvangi.

Það er auðvitað alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði hér, að það ber brýna nauðsyn til þess að íhuga það þá vendilega, ef menn vilja ekki löggilda ættarnöfnin, hvaða leiðir eigi að fara til þess að framfylgja banninu gegn þeim, og þess er mjög að vænta, að sú hv. nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, íhugi það, hvaða úrræði þar væru tiltækilegust. En ég tel það geta verið strax til leiðbeiningar fyrir hv. n., að fram komi viðhorf það, sem ríkjandi er í hv. þd. til ættarnafnanna yfirleitt. Ég vildi því ekki láta hjá líða að taka það hér fram sem mína skoðun, að það megi ekki hverfa inn á þá braut að löghelga ættarnöfn, heldur miklu fremur, að það eigi að stefna að því að útrýma öllum ættarnöfnum úr málinu, vegna þess að það er auðvitað alveg rétt, að það er a.m.k. ákaflega erfitt að neita mönnum um að taka upp ættarnöfn, ef heilum hóp landsmanna er leyft að halda ættarnöfnum. Og það á ekki að vera neitt meiri erfiðleikum bundið að banna ættarnöfn, t.d. með þeim fyrirvara, sem próf. Alexander Jóhannesson hefur í sínu séráliti, heldur en að lögbjóða, að þeir útlendingar, sem verði íslenzkir ríkisborgarar, skuli algerlega skipta um nafn. Ég sé ekki, að það sé neitt meiri kvöð við menn að gera það og það eigi að vera algerlega vansalaust fyrir hvern mann að kenna sig til síns föður. — Og það er nú eitt í þessu, sem mig hefur undrað hér á landi, og það er, að okkar ágætu kvenréttindasamtök skuli ekki í rauninni hafa risið upp gegn ættarnöfnunum, því að það er eiginlega dálítið einkennilegt að hugsa sér það, að kona skuli geta sætt sig við að týna algerlega nafni sínu við giftingu. Að vísu er það nú svo hér á Íslandi, að hún heldur sínu sérnafni, en erlendis er tíðkað, að það er yfirleitt ekki talað um annað en herra og frú Smith eða eitthvað slíkt, hvað sem það er nú, og það veit enginn lengur, hvað konan heitir, hún er eins og hvert annað fylgifé mannsins. Mér finnst þess vegna, að það væri fullkomlega vert fyrir íslenzk kvenréttindasamtök að taka upp harða baráttu gegn ættarnöfnum í málinu og fá það lögfest, að kona haldi sínu nafni, hvort sem hún er gift eða ógift, og yrði ekki á þann hátt neitt fylgifé mannsins, heldur héldi sínum persónuleika óskertum að því leyti. (Gripið fram í.) Það má kannske deila um það, því að til annars hvors aðilans verður að kenna barnið, svo að það er kannske ekki algerlega hliðstætt mál. En mér finnst nú, auk þess sem ég get ekki ljóslega séð rökin fyrir ættarnöfnum almennt, að þá sé það ákaflega leiðinlegt fyrir okkur Íslendinga, jafnvel þó að við tökum ekki það djúpt í árinni að segja, að það sé stórhættulegt fyrir okkar menningu, þá er það nú samt svo, að mér finnst, að það sé mjög leiðinlegt og eiginlega til hálfgerðrar skammar fyrir okkur Íslendinga, sem höfum fellt í málið þann síð að kenna börn til föður síns, að eiga að fara að hverfa frá þeirri venju og taka upp ættarnöfn, sem hljóta að leiða til þess innan skamms tíma, að það verði allir Íslendingar, sem heita ættarnafni, og þessi þjóðlegi síður, sem Íslendingar hafa nokkra sérstöðu með, alveg felldur niður. Ég held þess vegna, að í lengstu lög a.m.k. verði menn að reyna að sameinast um að finna úrræði til að koma þessum málum í það horf, að ættarnöfnunum verði útrýmt, í stað þess að beygja sig orðalaust fyrir þeim ósið, sem tíðkazt hefur, og þeim lögbrotum, sem framin hafa verið, með því að segja: Ja, það er hvort sem er ekki hægt að halda þessu uppi, og þess vegna er rétt að gefast alveg upp. — Ég segi fyrir mitt leyti, að mér er þessi hugsun mjög ógeðþekk og vildi a.m.k., að reynt væri að sporna sem lengst gegn því, að slíka leið þyrfti að finna. Hitt er annað mál, að það er auðvitað alveg óviðunandi að vera með löggjöf, sem ekki eru einhver úrræði til þess að framkvæma, og þess vegna er það rétt, sem hæstv. ráðh. hér benti á, að það ber auðvitað brýna nauðsyn til, ef menn vilja ekki aðhyllast þá breytingu, sem hér er gerð, að reyna að finna úrræði til að framkvæma bannið gegn ættarnöfnunum. En því er heldur ekki að leyna, sem hv. 1. landsk. einnig benti á, að ég sé ekki, að þetta frv., þó að lögum yrði, geri á nokkurn hátt sennilegt, að það verði frekar hægt að framkvæma þessi lög eða að þetta verði allt saman löglegt, því að það er vitanlega svo, að úr því að ekki hefur verið hægt að sporna gegn því, að menn tækju upp ættarnöfn að eigin geðþótta, þá er ekki líklegt, að það verði frekar farið að sinna því, að menn fari þar eftir tillögum eða samþykkt einhvers ákveðins ráðuneytis. Ef þeim sýnist, að rn. sýni þar óbilgirni, er ósköp hætt við því, að haldið verði áfram nákvæmlega á sömu braut, og ekki sjáanlegt, að það verði neitt auðveldara að framkvæma bannið gegn slíkum ættarnöfnum en það er nú að framkvæma hið almenna bann gegn ættarnöfnum, og það er því mín skoðun, að það beri að stefna að því að útrýma öllum ættarnöfnum úr málinu og um það eigi menn að reyna að sameinast og finna skynsamlegar leiðir að því marki.