19.01.1956
Efri deild: 43. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (1706)

116. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal viðurkenna það fyrst og fremst, að ég er ekki enn þá búinn að átta mig til fulls á því, hvort ég á að fylgja þeim nýju stefnumiðum, sem fram koma í þessu frv., eða ekki. Það, sem ég kalla ný stefnumið í frv., er fyrst og fremst þetta: Á að skipa með lögum, hvernig hinar einstöku stéttir í þjóðfélaginu komi fyrir sig sem beztum upplýsingum viðvíkjandi leiðbeiningum í sínu starfi, til þess að það geti orðið sem mest til þjóðnytja? Tvær aðrar stéttir hafa gert slíkt, bændurnir fyrst með stofnun Búnaðarfélagsins, sem fyrst náði yfir suðuramtið og vann þá alhliða að því að gefa upplýsingar og leiðbeiningar fyrir bændurna. Um aldamótin var Búnaðarfélagi suðuramtsins breytt í Búnaðarfélag Íslands, sem þá var gefið víðtækara starf og látið líka hafa með höndum ýmiss konar tilraunastarfsemi, ýmiss konar verzlun, svo að bændurnir gætu fengið fleiri vörur en þá var verzlað með í landinu. Vörur eins og kerrur, gafflar, skóflur o.fl. slík verkfæri voru þá pantaðar frá Búnaðarfélagi Íslands. Ekki einu sinni skófla fékkst þá í búð. Þær voru pantaðar hjá Búnaðarfélagi Íslands fyrstu starfsárin, sem það starfar, o.s.frv. Eftir því sem verkaskipting óx og aðrir menn fara að koma og verzla með ýmislegt, sem áður hafði ekki sézt í búðum, minnkar smám saman þetta starf hjá Búnaðarfélagi Íslands, svo tekur ríkið sjálft að sér allar tilraunirnar, og eftír stendur svo Búnaðarfélagið sem félagsskapur bænda, styrktur af ríkinu til að veita þeim leiðbeiningar. Svipað er með Fiskifélagið. Það er líka byggt til þess að veita þeim, sem við fiskinn fást, leiðbeiningar. Nú kemur þriðja stéttin, iðnaðarstéttin, og það er reynt hér á þingi hvað eftir annað að fá hana til þess að standa saman og koma upp iðnaðarstofnun; reynt að fá alla, sem vinna að iðnaði, bæði þá, sem vinna að verksmiðjuiðnaðinum, og þá, sem vinna að handiðnaðinum, til að sameina sig um eina stofnun og mynda eitt allsherjarfélag á sama grundvelli og hinar stéttirnar. Það heppnast ekki, og lagði þm. Barð. sig þó fram í því. Stofnunin verður til, en iðnaðarmennirnir fylkja sér ekki utan um hana, eins og hinar stéttirnar hafa gert um sín félög. Stofnunin var sett upp af Alþingi, og þannig starfar hún.

Nú er fyrsta spurningin fyrir mig: Á að fara inn á þá braut að ákveða þetta með lögum? Á að fara inn á þá stefnu að ákveða allan svona félagsskap, sem myndast meðal einstakra stétta þjóðfélagsins, með lögum, landslögum, og lofa honum ekki að hafa meira eða minna frjálsræði um, hvernig hann starfar innan sinna eigin vébanda? Ég er ekki búinn að átta mig á því til fulls, og það er ein ástæðan til þess, að ég vil fresta frv. Ég veit ekkert, hvort það yrði nokkuð betra, þó að Alþ. setti lög um það, hvernig ætti að skipa störfum hjá hinum tveimur stóru stéttarfélögunum, Búnaðarfélaginu og Fiskifélaginu, sem eru sams konar og þetta. Þeim eru báðum falin af ríkinu ýmiss konar störf, sem þau eiga að gera fyrir það, og það má vel vera, að það gæti verkað betur, ef þau störfuðu eftir landslögum. Ég þori ekki að segja um það. Ég er ekki búinn að skapa mér ákveðna skoðun um, hvort heppilegra er. En ef við teljum það nauðsynlegt og heppilegt og betra til þess að ná jákvæðum árangri fyrir heildina að skipa þeim með landslögum, þá eigum við náttúrlega að samþykkja þetta frv. og svo koma með frv. á eftir um hin tvö, Búnaðarfélagið og Fiskifélagið. Það er alveg gefið, að við eigum að gera það. Ef maður segir a, segir maður líka b, og ef maður kemst að þeirri niðurstöðu, að það sé heppilegra að skipa þessum félagsskap, stéttarfélagsskap, fræðslustéttarfélagsskap í landinu, með sérstökum lögum frá Alþingi, þá eigum við að gera það og láta mennina svo bara vera undir yfirstjórn ríkisvaldsins og engu ráða sjálfa um, hvernig samtökin starfa, nema þá að einhverju leyti í gegnum stjórn, sem þeir þó kjósa ekki sjálfir, eftir tillögu þm. Barð., sem vill láta Alþ. skipa stjórn og lög ofan frá.

Þessu er ég ekki búinn að átta mig á enn. Þá er ég ekki heldur búinn að átta mig á því, hvort sú skipting, sem núna er t.d. milli rannsóknaráðsins og atvinnudeildarinnar annars vegar og Iðnaðarmálastofnunarinnar hins vegar, er eðlileg. Atvinnudeildinni er ekki ætlað að brjóta upp á nýjungum eða öðru þess háttar. Það er ekki í hennar starfsskrá eða lögum um hana að neinu leyti. Það á aftur rannsóknaráðið að gera. Atvinnudeildinni er ætlað að vera í þjónustuafstöðu. Hún er stofnun, sem starfar fyrir aðrar stofnanir til að gefa upplýsingar. Henni er ætlað að efnagreina fyrir þá bændur, sem þess óska, fyrir Búnaðarfélagið o.s.frv., og það hefur reynzt þannig, að allir telja sig ekki geta notað hana og hafa því ekki notað hana. Við hliðina á henni er komið upp efnarannsóknum fyrir sjávarútveginn. Við kaupum tvenn dýr tæki til að gera sömu rannsóknirnar, af því að aðrir, þeir, sem ráða í Fiskifélaginu, láta rannsóknardeildina ekki gera það, sem henni annars er ætlað að gera, heldur gera það sjálfir. Innan atvinnudeildarinnar eru komin upp sértæki eins og bæði í jarðfræðideildinni og matvælarannsóknardeildinni, þannig að þau eru nú til í tvennu og þrennu lagi í landinu. Ég er ekki viss um, að þetta sé heppilegt. Við höfum áreiðanlega ekki það fé yfir að ráða, að við höfum ástæður til að leggja nokkur hundruð þús. í að hafa sömu tækin á mörgum stöðum, þegar við getum afkastað því öllu með einum. En svona hefur klofningin eða þróunin orðið. Nú á að koma hér enn upp ein stofnun, sem á að gera það sama og hinar. Ég á eftir að fá sannfæringu fyrir nauðsyn þess að eiga t.d. þrenn tæki til fiskrannsókna, sitt í hverri stofnun, þegar hægt er að komast af með ein. Þegar þau eru þrenn, eru þau aðeins notuð dag og dag, einu sinni í viku. Ég er ekki búinn að sjá, að það sé heppilegt eða þess sé þörf.

Það er þannig núna, að það er mikið skilið að sjálft rannsóknarstarfið og tilraunastarf og almenn þjónusta, svo sem efnagreining o.fl. Rannsóknaráðið var stofnað í tvennum tilgangi. Ég man vel umræðurnar um það, þegar það var stofnað. Það var stofnað í tvennum tilgangi, annars vegar að hafa forustu í rannsóknum á öllu, sem lyti að náttúruauðæfum landsins, og hins vegar að hafa eftirlit með öllum útlendingum, sem kæmu til landsins til þess að gera hér ýmiss konar athuganir á náttúru þess á einu og öðru sviði, og þetta tvennt var því ætlað, rannsóknaráðinu. Þetta hefur það reynt að gera. Annaðhvort er það þá af því, að menn treysta því ekki til að gera þetta, eða þá, ja, ég veit ekki af hverju, að nú er ætlazt til þess, að þessi stofnun taki að sér annað verkefni þess. Það getur verið, að þetta sé betur komið í höndum þessarar stofnunar en rannsóknaráðsins. Ég veit það ekki. En þá á bara ekki að vera að halda rannsóknaráðinu áfram. Ef við ætlumst til þess, að þessi stofnun taki við starfi rannsóknaráðsins, þá er engin ástæða til þess. Ég man ekki, hvaða fé því er ætlað í fjárlögum, ég gæti trúað, að það væru svona 200 þús. kr., 300 þús. kr. eða eitthvað svoleiðis. Við þurfum alls ekki að láta tvær stofnanir rannsaka það sama, t.d. hvernig við eigum helzt að koma því fyrir að vinna þungt vatn. Það er alveg nóg að hafa eina. Hvor þeirra það á að vera, legg ég engan dóm á. Ég er þess vegna ekki heldur búinn að átta mig á þessu, hvor þeirra það á að vera. En ég held, að það sé heldur til ills að ákveða með lögum, að tvær stofnanir skuli gera það, það bætir ekkert samvinnuna á milli þeirra stofnana, sem til eru, að ætla tveimur að gera sama verkið, sömu rannsóknirnar.

Þessar ástæður allar og reyndar margar fleiri eru til þess, að ég tel miklu réttara að fresta málinu núna, enda háir það á engan hátt starfi Iðnaðarmálastofnunarinnar. Ég viðurkenni það alveg fúslega, að ég er ekki búinn að komast að niðurstöðu um það, ég er ekki búinn að gera það upp við sjálfan mig, hvort þessi félög öll eiga að fara undir landslög, starfa eftir landslögum, eða eiga að setja sér sjálf lög og starfa eftir þeim. Ég viðurkenni fúslega, að ég, er ekkert viss um, hvort við erum það fjársterkir, að við höfum efni á því að láta margar stofnanir gutla við sama verkið og enga hafa nóg að gera í því, eða hvort við höfum efni á því að hafa fleiri menn til að rannsaka sama verksviðið. Ég geri alveg eins ráð fyrir, að þótt í staðinn fyrir rannsóknaráð ríkisins, sem nú hefur t.d. verið að rannsaka um bikstein nokkur ár, hve mikið væri til af honum í landinu o.s.frv., vildi þessi stofnun, sem við erum hér að tala um, Iðnaðarmálastofnunin, rannsaka það sama, og hún náttúrlega á að gera það eftir lögunum, ef þau verða sett, þá mundi koma nokkurn veginn það sama út úr því. Væri þá nokkur ástæða til að láta tvo menn fara að gera það? Ég sé það ekki.

Af þessu vona ég, að mönnum sé ljóst, að það, sem fyrir mér vakir með því að vera með því, að samþykkt frv. sé frestað, er það, að ég vil fá að kryfja málin til mergjar. Því er ég ekki búinn að. Ég er ekki einu sinni búinn að átta mig á, hvort aðrar stofnanir, sem eins er ástatt með og þessa hér, eiga að vera undir landslögum eða undir lögum mannanna, sem að þeim standa, og hvort ríkið á að ráða öllu viðvíkjandi stofnuninni eða hvort mennirnir sjálfir, sem að henni standa, eiga að ráða því eins og er, bæði Fiskifélaginu og Búnaðarfélaginu. Ég er ekki heldur búinn að átta mig á því.

Loks er ég ekki búinn að átta mig til fulls á því, hvort á að láta þessa stofnun, sem hér er rætt um í frv., vera að fara inn á svið annarra stétta. Hún er stofnuð fyrir iðnaðarmennina alveg skilyrðislaust og á að veita þeim upplýsingar til þess að létta þeim ýmis störf og gera þau meira þjóðnýt en þau annars kynnu að verða, og það er sjálfsagt. En á hún líka að fara inn á verksvið verzlunarstéttarinnar? Hún er látin gera það. Ekki er hún þó látin rannsaka, hvar þeir geti gert bezt sín innkaup eða þess háttar, en hún á að láta rannsaka allt, sem viðvíkur dreifingu vara hjá verzlunarstéttinni. Eitt af hennar fyrstu verkefnum yrði þá náttúrlega að rannsaka, hvort við þurfum að láta 9.9% af þjóðinni lifa á því að dreifa vörunum meðal landsmanna. Nú má segja, að hver verzlunarmaður lifi að meðaltali á að verzla við 9 menn. Mætti ekki komast af með minna? Hefur stofnunin rannsakað það? Hún er kannske búin að láta rannsaka það, og ef hún kemst að þeirri niðurstöðu, að það sé ekki þörf á því, þá á að gera eitthvað til að fækka því og setja einhverja af þessum mönnum í hagnýtari vinnu. Ég tel vel líklegt, að það geti einn maður dreift vörum til tuttugu, að það þurfi ekki tíundi hver maður að lifa á verzlun í landinu, að það sé alveg nóg, að það sé einn á móti tuttugu. Mér þykir það mjög líklegt.

Ég veit ekki um það, hvort á að láta þessa stofnun fara inn á önnur verksvið en verksvið iðnaðarmannanna. Það er þess vegna ákaflega margt í frv., sem er þess eðlis, að ég er ekki búinn að gera upp við mig, hvernig er haganlegast að koma því fyrir fyrir heildina, og þess vegna legg ég til, að frv. sé ekki samþ. á þessu þingi, heldur frestað. Stofnunin hefur sitt ríkisframlag, og hún hefur sína reglugerð til að fara eftir. Hún getur starfað algerlega eins, hvort sem frv. er samþykkt eða ekki, það breytir ekki nokkrum hlut í starfsemi stofnunarinnar, öðru en því, að hún fær öðruvísi yfirstjórn með því að samþ. frv. heldur en hún hefur núna. Það er eina breytingin, sem það gerir. Að öðru leyti getur hún starfað alveg eins. Þess vegna vil ég fá að bíða með að þurfa að greiða atkvæði um frv. sjálft, þangað til ég er búinn að brjóta til mergjar þessi mörgu vafaatriði, sem mér finnst vera viðvíkjandi frv. og framkvæmd þess og því gagni, sem heildin á að hafa af því.