19.01.1956
Efri deild: 43. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (1708)

116. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég býst nú við, að ég geti verið stuttorður, enda var það svo, að hv. þm. Str. (HermJ), frsm. minni hl., hafði litið við mig að tala og átti það helzt þá að vera af því, að málflutningur minn hafi verið þannig, að það væri tæplega þess virði að eyða orðum að því að mótmæla.

Ég tek þetta ekki svo. Ég tek það miklu heldur á þann veg, að hv. þm. Str. hafi ekki treyst sér til að mótmæla því, sem ég sagði hér áðan í ræðu minni, en það er siður margra, að þegar þá skortir rök, þá segja þeir: Ja, þetta er nú bara ekki svaravert. — Og aðalástæðan til þess, að honum fannst tæplega hægt að ræða við mig um þetta, var sú, að ég minntist á það hér áðan, að ég hefði talað við einn mann úr atvinnumálanefnd, sem ekki vildi kannast við, að það hafi verið hans meining að óska eftir frestun á málinu, heldur aðeins um eitt atriði í frv., og ég get nefnt þennan mann. Það er Magnús Jónsson, hv. 2. þm. Eyf., og ég veit, að hann kannast við þetta. Ég var alls ekki að búa þetta til, en mér fannst þetta líta dálítið illa út, þegar jafngrandvar maður og hv. 2. þm. Eyf. vildi ekki kannast við, að hann ætti hlutdeild að bréfinu eins og það er orðað. — Nóg um þetta.

Á það, hvernig atvinnumálanefnd starfaði, hef ég ekki lagt neinn dóm. Ég sagði, að það gæti komið eitthvað gott út úr því, það gæti líka orðið alveg ónýtt, það sem kæmi. Hitt er svo ekki nema ágætt, að það hefur komið hraði í störf n., eftir að Morgunblaðið innti eftir því hjá form. n., að hann færi að starfa, og það var ekki nema ágætt, að form. fékk kipp og fór að kalla saman fundi, eftir að hann var minntur á það.

Ef ég á að minnast eitthvað á það, sem hv. 1. þm. N-M. (PZ) sagði hér áðan, þá fannst mér það athyglisvert, að hv. þm. hafði ekki gert sér grein fyrir því, hvort heppilegra væri, að stofnanir starfi eftir lögum eða ekki eftir lögum frá Alþ., heldur lögum, sem þær sjálfar setja sér, t.d. eins og Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélagið. Búnaðarfélag Íslands hefur starfað og þróazt um áratugi, og ég viðurkenni það, að Búnaðarfélagið hefur gert ákaflega marga góða hluti á þessum tíma. Hitt veit ég, að hv. 1. þm. N-M., búnaðarmálastjóri. getur verið mér sammála um, að margt hefði mátt betur fara hjá Búnaðarfélaginu en gert hefur undanfarin ár. Segi ég það ekki Búnaðarfélaginu til lasts. Ég segi það um leið og ég viðurkenni, að það hefur margt gott gert. Og ég er þeirrar skoðunar, að það gæti verið, að ef Búnaðarfélagið hefði haft þannig fastan ramma til þess að starfa eftir, hefði það ef til vill afkastað meiru og leyst störfin enn betur af hendi en það hefur gert. Um þetta má vitanlega deila og ekki hægt að staðhæfa. En Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélagið eru stéttarfélög. Iðnaðarmálastofnun Íslands er hin~ vegar ekki stofnun stéttarfélags, vegna þess að hún nær til fleiri aðila en aðeins iðnaðarmanna. Eins og að hefur verið vikið, nær Iðnaðarmálastofnunin til verzlunarinnar og fleiri atvinnugreina, og þótt það væri ekki annað en það, að hún nær yfir fleiri atvinnugreinar en iðnaðinn, gæti það verið nóg til þess, að það væru full rök til að setja lög um Iðnaðarmálastofnunina, þótt Fiskifélagið og Búnaðarfélagið hafi getað starfað án þess.

Hv. þm. Str. var að tala um það hér áðan, að það væri ekki rökvísi hjá mér að tala um, að Iðnaðarmálastofnunin hefði getið sér góðan orðstír, hefði unnið margt gott án laga, úr því að svo fast væri sótt, að hún fengi lög, og það væri fært fram sem höfuðrök fyrir málinu, að það væri nauðsynlegt fyrir stofnunina. Þetta er ekki rökleysa; þetta er rökvísi. Þótt það hafi heppnazt á undanförnum árum undir góðri forustu að láta þessa stofnun blómgast og ná þeim árangri, sem hún hefur þegar gert, þá er óneitanlega miklu tryggara, að stofnunin hafi lög til að styðjast við og starfa eftir, ef vindar blása og að henni ætti að herja. Ég segi líka, að ef sá hugsunarháttur næði meiri hluta í Alþ., sem hv. þm. Str. túlkaði hér áðan, þá væri þessari stofnun mikil hætta búin. Að vísu væri henni hætta búin, þótt hún hefði lög. En seinvirkara væri það og erfiðara fyrir andstæðinga stofnunarinnar að leggja hana að velli, ef hún hefði lög til að styðja sig við, heldur en ef hún starfar, eins og hún starfar nú. eftir starfsreglum, sem ekki styðjast við nein lög, þar sem einn ráðherra gæti breytt reglunum án þess að spyrja Alþ. nokkuð að.

Hv. þm. Str. taldi, að ég hefði verið með óþarfa getsakir í hans garð vegna þessarar stofnunar og vegna iðnaðarmanna. Það er fjarri mér að vera að troða illsakir við hv. þm. Str. að óþörfu. En ég get ekki annað en vakið athygli á því, að þegar hann hér í tveim ræðum talar um, að við höfum ekki starfsfé til þess að láta fleiri stofnanir vinna að hagnýtingu atvinnugreinanna, og hann telur þetta vera meginverkefni Iðnaðarmálastofnunarinnar, þá get ég ekki dregið aðra ályktun en þá af hans orðum, að hann telji vægast sagt þessa stofnun óþarfa, og það er í samræmi við þá rökst. dagskrá, sem hann hefur flutt ásamt hv. 1. þm. N-M.

Eitthvað fór það í taugarnar á hv. þm. Str., að ég minntist á iðnskólalöggjöfina, að hann beitti sér gegn henni á s.l. þingi. og sagði hann þá um leið: Mikið, að hann minnti mig ekki líka á Iðnaðarbankann. Ég get gjarnan gert það, því að ég man vel afstöðu hv. þm. Str. til Iðnaðarbankans, þegar rætt var um þá stofnun. Ég man, að hv. þm. Str. streittist á móti þeirri lagasetningu. Það getur vel verið, að það hafi verið af einskærri löngun til þess að efla iðnaðinn. Það getur vel verið, að það hafi verið vegna þess, að hann vildi efla iðnaðinn og styðja iðnaðarmenn í þeirra viðleitni, að hann streittist gegn því að stofna Iðnaðarbankann, og að það hafi verið vegna þess, að hann vildi endilega efla iðnaðinn, að hann streittist gegn iðnskólalöggjöfinni, og að það sé vegna sérstakrar vináttu við iðnaðinn, sem hann telur aðallega standa að Iðnaðarmálastofnuninni, að hann nú vill fresta löggjöf um Iðnaðarmálastofnunina. Ég skal ekki gera hv. þm. Str. neinar getsakir í þessu efni. Við skulum lofa hv. þdm. hverjum um sig að draga sínar ályktanir. Og við skulum lofa iðnaðarmönnunum sjálfum, án þess að skipta okkur nokkuð af því, að draga sínar ályktanir af þessu tvennu. Ég skal nú ekki eyða lengri tíma, af því að þess gerist ekki þörf. Mér finnst, að hv. minni hl. hafi ekki fært fram nein rök fyrir frestun málsins, engin rök. Hv. 1. þm. N-M. reyndi það og hafði viðleitni til þess og gerði það eins vel og hægt var, en hv. þm. Str. misheppnaðist það algerlega. Þegar þannig stendur á, að minni hl. hefur ekki meira fram að færa máli sínu til stuðnings, held ég, að ekkert geti verið til fyrirstöðu fyrir því, að frv. verði samþ. hér í deildinni.