07.02.1956
Neðri deild: 64. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í C-deild Alþingistíðinda. (1726)

116. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Hannibal Valdimarsson [frh.]:

Herra forseti. Ég hafði að mestu leyti lokið ræðu minni, þegar fundi var slitið síðast, og skal þá aðeins nú taka upp þráðinn og víkja að þeim till., sem nú liggja fyrir í sambandi við frv.

Það hefur verið lagt til, að frv. yrði breytt á þann veg, að stjórnin yrði kosin á annan veg en í frv. segir, þ.e.a.s. á þann hátt, að stjórn stofnunarinnar skuli vera skipuð 5 mönnum og 4 þeirra kjörnir í sameinuðu þingi að afstöðnum hverjum alþingiskosningum, í stað þess, að í frv. segir, að stjórnin skuli skipuð 7 mönnum, tilnefndum af ákveðnum félagssamtökum.

Ég felli mig við hvoruga þessa tilhögun og hef áður í ræðu minni gert grein fyrir því, að ég tel það ekki tryggja nægilega hlutleysi þessarar stofnunar og jafnan rétt hins vinnandi fólks og atvinnurekendanna, að hreinn meiri hl. í stjórn stofnunarinnar verði tilnefndur af samtökum atvinnurekenda. Þetta er og í beinni mótsögn við það, sem tíðkast hjá öllum nágrannalöndum, sem við vitum um og hafa slíkar stofnanir. Þar er séð um, að stjórn þessara stofnana sé a.m.k. að jafnmiklu leyti skipuð fulltrúum frá samtökum hins vinnandi fólks eins og frá samtökum atvinnurekendanna, og þá auðvitað langeðlilegast, að oddaaðstöðuna skipi þar fulltrúi frá ríkisvaldinu. Meginverkefni þessara stofnana, iðnaðarmálastofnananna, er að auka framleiðslumagn og framleiðslugæði, og þar er fyrst og fremst undir nánu trúnaðarsamstarfi komið við hið vinnandi fólk í fyrirtækjunum og þess vegna alveg nauðsynlegt, að þess hlutur sé ekki fyrir borð borinn um stjórn þessarar starfsemi.

Það munu vera uppi raddir um það vegna ágreinings um málið að víkja því frá afgreiðslu á þessu þingi, og ef ekki fæst breyting á frv., m.a. að því er snertir skipun stjórnar stofnunarinnar, mundi ég telja réttara að fresta afgreiðslu þessa máls á þessu þingi og láta fram fara rannsókn á hinni margþættu tilrauna- og rannsóknarstarfsemi, sem fer fram í einum 7–8 stofnunum hér á landi, sem flestar grípa hver inn á annarrar verksvið, og þar á meðal ætti svo Iðnaðarmálastofnunin að bætast við og grípa inn á starfssvið ýmissa þessara vísinda og rannsóknarstofnana ofan á allt annað. Ég álit, að þetta sé ekki eins gott og það ætti að vera, hvorki skipulagslega séð né með tilliti til sparnaðarmöguleika. Væri ekki full ástæða til, að atvinnumálanefnd ríkisins, sem hefur verið að kynna sér þessi mál, lyki því að ganga frá sínum till., áður en þetta mál væri afgr., nema þá því aðeins, að algert samkomulag gæti orðið um frv. og efni þess?