28.03.1956
Neðri deild: 99. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í C-deild Alþingistíðinda. (1776)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég var því miður sökum annarra skyldustarfa fjarverandi á fundi hv. fjhn., sem haldinn var í morgun, svo að ég tók ekki þátt í afgreiðslu n. á málinu. Ég hef þó gerzt aðili á þessum fundi að þeirri brtt., sem lýst hefur verið af formanni fjhn. og flutt er af okkur þremur í n., honum, hv. 9. landsk. þm. og mér. Þá till. þarf ég því ekki að ræða, þar sem hann hefur gert grein fyrir henni, en nokkur orð vildi ég segja um málið i heild, þar sem mér gafst ekki tilefni til þess að láta það koma fram í nefndinni.

Mér finnst málið sjálft vera merkilegra og eiga skilið ýtarlegra frv. en það, sem lagt hefur verið fyrir hv. Alþ. af höfundum þess. Hér er sannarlega um mikilsvert mál að ræða. Til þess ber brýna nauðsyn að gera ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Sú öfugþróun hefur átt sér stað í efnahagsmálum þjóðarinnar, einkum hina síðustu tvo áratugi, að miðpunktur atvinnulífsins hefur um of færzt til Suðvesturlands. Þyngdarpunkturinn í atvinnulífi þjóðarinnar hefur raskazt og flutzt um of til höfuðstaðarins og hins nánasta nágrennis hans, þannig að hinir aðrir landshlutar hafa orðið útundan og atvinnuskilyrði og lífskjör þar af þeim sökum orðið rýrari en heppilegt er fyrir heildarþróun þjóðarbúskaparins og fyrir heilbrigt þjóðlíf í landinu. Það er því víssulega vel til fallið að fela góðum mönnum, greindum og duglegum að rannsaka þetta mál og leggja till. fyrir hið háa Alþingi, en ég hefði kosið, að þessar till. hefðu orðið rækilegri en þetta frv. ber vitni um. Að vísu er ýmislegt gott og ýmislegt nýtt i þessu frv., en það má segja, að það nýja í frv. sé ekki gott og hið góða í frv. sé ekki nýtt, svo að þetta frv. mun afar litlum tímamótum valda, því miður.

Kjarni frv. er í raun og veru sá, að skipa skuli nefnd til þess, eins og segir í 1. gr. frv., að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með rannsóknarstörfum, áætlanagerð og fjárhagslegum stuðningi til framkvæmda og eflingar atvinnulífi í þeim landshlutum, sem við erfiðasta aðstöðu búa, í því skyni að draga úr fólksfækkun í þeim landshlutum. Annar aðalhluti frv. er síðan það, að stofna skuli sjóð, sem sjá skuli fyrir stofnfé á ákveðinn hátt. Ég skal ekki draga í efa, að þörf sé á rannsóknarstörfum, áætlunargerð og fjárhagslegum stuðningi til framkvæmda úti um hinar dreifðu byggðir landsins. Í því sambandi vil ég aðeins minna á það, sem ekki hefur enn komið fram í þessum umræðum, að Alþ. hefur nú nýlega, eða árið 1953, samþ. löggjöf, þ.e. lögin um Framkvæmdabanka Íslands, þar sem einmitt er gert ráð fyrir því, að Framkvæmdabankinn skuli hafa með höndum að ýmsu leyti skyld störf því, sem hér er um að ræða, og í raun og veru á víðari grundvelli en hér er um að ræða.

Með löggjöfinni um Framkvæmdabankann var viðurkennt, að nauðsynlegt og eðlilegt væri, að höfð yrði nokkurs konar heildarstjórn á peningamálunum og fjárfestingunni, og jafnframt var sú breyting gerð síðar á framkvæmdabankalögunum, að Framkvæmdabankanum var falið að annast gerð þjóðhagsreikninga og þjóðhagsspádóma. Framkvæmdabankinn hefur komið á fót sérstakri hagdeild, sem einmitt hefur það verkefni með höndum að annast þjóðhagsreikningana og gera áætlanir fram í tímann um fjárfestingu á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins og í hinum ýmsu landshlutum.

Í löggjöfinni um Framkvæmdabankann segir í 7. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Bankinn á að vera ríkisstj. til ráðuneytis í fjárfestingarmálum.“ Enn fremur segir, að hann eigi að annast rannsóknir í sambandi við fjárfestingarþörf atvinnuveganna og greiða fyrir gagnlegum nýjungum í framkvæmdum og atvinnurekstri og í síðasta lagi að greiða fyrir atvinnuframkvæmdum á þeim stöðum, er skortir framleiðslutæki, en hafa skilyrði til framleiðslu. M.ö.o.: Framkvæmdabankanum er sérstaklega falið að vera til ráðuneytis í fjárfestingarmálum, annast rannsóknir í sambandi við fjárfestingarþörf atvinnuveganna og að greiða fyrir atvinnuframkvæmdum á þeim stöðum, er skortir framleiðslutæki, en hafa skilyrði til framleiðslu. Síðar var sú skylda lögð á Framkvæmdabankann að annast þjóðhagsskýrslugerð, einmitt til þess að auðvelda bankanum og öðrum bönkum að sinna þessu hlutverki. Hér er það hins vegar gert að höfuðtilgangi jafnvægisnefndar að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með rannsóknum, áætlunargerð og fjárhagslegum stuðningi til framkvæmda og eflingar atvinnulífi í landshlutum, sem við erfiða aðstöðu búa. Ég sé því ekki betur en að hlutverk jafnvægisnefndar sé í grundvallaratriðum það sama sem Alþingi fól Framkvæmdabankanum fyrir skömmu að annast, svo að hér er því um tvíverknað að ræða.

Mér þykir það sérstaklega athyglisvert, að það skuli einkum vera Sjálfstfl., sem gerzt hefur forsvarsaðili þessa máls hér, þó að höfundarnir séu að vísu úr stjórnarflokkunum báðum, þar sem ég fæ ekki betur séð en hér sé gert ráð fyrir að koma á fót nefnd, sem hlýtur að verða allmikið nefndarbákn, til þess að annast störf, sem opinberri stofnun þegar er skylt að framkvæma. Hefði sannarlega verið æskilegra, að með einhverjum hætti hefðu a.m.k. verið athuguð lagaákvæðin um Framkvæmdabankann um þessi efni, áður en gengið var frá þessu frv., og það verk þarf að gera.

Af grg. þessa frv. sýnist mér, — ég hef að vísu ekki lesið hvert einasta orð hennar, en hef litið yfir hana, og af henni virðist mér mega draga þá ályktun, að höfundar frv. hafi alls ekki gert sér grein fyrir því, að Framkvæmdabanka Íslands hefur verið falið að annast störf, sem eru algerlega hliðstæð þeim, sem jafnvægisnefndin á að annast samkv. frv. Sú skýrslugerð, sem n. mundi efna til, auðvitað með miklum kostnaði, er þegar í höndum Framkvæmdabankans, og mér finnst það vera undarlegur áhugi fyrir sparnaði í opinberum rekstri og undarleg andstaða við nefndir og nefndabákn að þurfa nú að koma upp nýrri nefnd til þess að annast það, sem opinber stofnun á þegar að gera og hefur starfskrafta til að gera, starfskrafta, sem mjög ólíklegt er að mundu verða látnir hætta störfum, jafnvel þó að þetta frv. næði fram að ganga. Auk þess má á það minna, að starfandi er þingkjörin mþn., þ.e. atvinnumálanefndin, sem hefur með höndum að ýmsu leyti skyld verkefni og hér er gert ráð fyrir að þessi jafnvægisnefnd taki að sér. Það eru því sannarlega ekki nefndir, sem hefur skort til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og ekki heldur embættisbákn í Reykjavík. Það, sem hefur skort, er fjármagn úr Reykjavík og út um hinar dreifðu byggðir landsins. Það hefur skort vilja til þess að stuðla að framkvæmdum úti um hinar dreifðu byggðir, en það verður ekki gert með því að setja eina n. á fætur annarri, allra sízt til þess að vinna að störfum, sem opinber stofnun þegar hefur í hendi sinni. (Gripið fram í.) Það er starfandi við hann sérstök hagdeild, sem er að ganga frá þjóðhagsreikningum fyrir s.l. ár, og verulegur hluti þeirra hefur þegar verið birtur. Á borðum flestra þm. núna liggur nýjasta skýrslan frá Framkvæmdabankanum: Úr þjóðarbúskapnum, með mjög ýtarlegu yfirliti yfir efnahagsmál ársins 1954 og mjög ýtarlegri grein um framtíð landbúnaðarins fram til 1960. Og þetta eru fyrstu niðurstöðurnar, sem birtar hafa verið af þeim miklu rannsóknum. sem Framkvæmdabankinn undir bankastjórn dr. Benjamíns Eiríkssonar hefur nú með höndum, og skýrslurnar allar munu verða birtar á sínum tíma, þegar endanlega hefur verið frá þeim gengið. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að fundartími sá, sem hv. þd. var ætlaður nú, er liðinn, og hv. þm. hefur þannig náð þeim tilgangi sínum að hindra atkvgr. um málið að svo vöxnu máli.) Ég skal ljúka máli mínu á örfáum mínútum.

Til þess að stytta mál mitt og ljúka því á örfáum mínútum, vildi ég aðeins láta þess getið, að ég tel það fé, sem jafnvægissjóði er ætlað í 9. gr., of lítið, til þess að hinn mikli tilgangur frv. geti náðst, en þar er gert ráð fyrir aðeins 5 millj. kr. framlagi á einu ári og enn fremur að jafnvægissjóður skuli fá ýmis útistandandi lán, sem verður að telja mjög hæpið stofnfé til jafnmikilvægra framkvæmda og hér er um að ræða.

Varðandi þær brtt., sem útbýtt hefur verið frá nokkrum hv. þm. á þskj. 604, vil ég segja, að ég er alveg sérstaklega fylgjandi brtt. um, að inn í þetta frv. verði tekin ákvæði um togaraútgerð ríkisins til atvinnujöfnunar og jafnframt hin önnur ákvæði í d-lið brtt. um þátttöku ríkisins í togaraútgerðum bæjar- og sveitarfélaga og um ráðstafanir til aðstöðujöfnunar og um togarasmíðar innanlands og aukningu togaraflotans. Hins vegar finnst mér nokkrum vafa gegna um það, hvort æskilegt sé formsins vegna að taka inn í þetta frv. lagaákvæði um stækkun friðunarsvæða. Ákvæðin um friðunarsvæðin hafa verið reglugerðarákvæði, sett samkv. lögum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, svo að hér mundu í fyrsta skipti verða sett lög um þessi efni. En þó að ég dragi í efa, að heppilegt sé, að þessi ákvæði komi inn í þetta frv., felst í því að sjálfsögðu engin afstaða til efnisinnihalds þessara brtt.