21.10.1955
Neðri deild: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í C-deild Alþingistíðinda. (1808)

22. mál, landkynning og ferðamál

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. er um landkynningu og ferðamál og var lagt fyrir síðasta Alþ. Því var þá vísað til samgmn., og skilaði hún áliti í tvennu lagi, þannig að meiri hl. lagði til, að málinu yrði vísað til stjórnarinnar, en minni hl. mælti með samþykkt frv. — Það er rétt að rifja hér upp í stórum dráttum, hvert er efni þessa máls og tilgangurinn með flutningi þess.

Meginefni frv. er að koma nýrri skipun á þessi þýðingarmiklu mál, landkynningu og ferðamál. Fyrir nokkrum árum eða áratugum voru miklar deilur um það bæði hér á landi og eins annars staðar í nágrannalöndum, hvort það væri rétt að gera landið eða löndin að ferðamannalöndum og reyna að auka ferðamannastraum. Hér á landi voru sumir þeirrar skoðunar, að þetta mundi leiða til aukinna erlendra áhrifa og gæti stefnt í háska þjóðerni okkar og jafnvel sjálfstæði, það væri litt samboðið Íslendingseðlinu að eiga að þjóna útlendum ferðamönnum í stórum stíl, þeim sem hingað kynnu að koma sér til skemmtunar og upplyftingar.

Ég las nýlega grg. um þróun þessara mála í Noregi, þar sem teknar voru til meðferðar þessar sömu mótbárur, sem þar voru uppi fyrir 50 árum gegn því að gera Noreg að ferðamannalandi. Og í þessari grg. er skýrt frá því, að þessar gömlu mótbárur séu nú með öllu niður kveðnar, og ég ætla, að svo muni einnig reyndin vera orðin eða verða á næstunni hér. Það er sú gerbreyting orðin á nú á síðustu áratugum í þessu nágrannalandi okkar, að ferðamannastraumur þangað hefur stóraukizt og fyrirgreiðsla og móttaka erlendra ferðamanna er orðin þýðingarmikill atvinnuvegur og liður í þjóðarbúskap Norðmanna. Ég býst við, að það fari eins og hér og að menn komist að niðurstöðu um, að það sé ekki aðeins skaðlaust fyrir Ísland að kynna það og auka hingað straum erlendra ferðamanna, heldur sé það stórfellt og þýðingarmikið mál bæði menningarlega og viðskiptalega, og það sé gersamlega ástæðulaust að óttast um menningu okkar, tungu og þjóðerni, þótt við förum að eins og margar aðrar þjóðir og reynum að kynna landið og greiða fyrir ferðamönnum, sem hingað vilja koma.

Það, sem hér veldur mestu um, hversu tiltölulega lítið er um komu erlendra ferðamanna hingað, er auðvitað gistihúsaskorturinn. Og vissulega er það varhugavert að örva menn mjög til ferðalaga hingað, meðan Íslendingar geta ekki tekið á móti gestum sómasamlega. Þetta þarf að haldast í hendur, annars vegar umbætur hér innanlands, fyrst og fremst í gistihúsamálunum, og hins vegar landkynningin út á við. Nú er það megintilgangurinn með þessu frv. að reyna að koma nýrri skipun á þessi mál og nýrri hreyfingu, þannig að verulegar umbætur fáist bæði inn á við og út á við.

Með þessu frv. er svo ákveðið í 1. gr., að stofna skuli ferðamannaráð Íslands. Það á að vera skipað sjö mönnum, tveir þeirra kosnir af Alþ., en fimm þeirra tilnefndir af sérstökum fyrirtækjum og félögum, sem ætla má að hafi einna mestan áhuga og jafnvel beinna hagsmuna að gæta í auknum ferðamannastraumi. Að sjálfsögðu er ætlazt til þess og beint ákveðið í 8. gr. frv., að ríkisstj. hafi yfirstjórn ferðamálaráðs, yfirstjórn landkynningar og ferðamála yfirleitt.

Margar þjóðir hafa glímt við það, hvernig eigi að hafa skipan þessara mála, svo að sem beztur árangur náist. Ég ætla, að í meginatriðum sé þetta með tvennum hætti. Í sumum löndum, t.d. Ítalíu, Spáni og nokkrum öðrum, er sú skipan höfð, að sérstakt ráðuneyti hefur veríð stofnað til að hafa yfirstjórn þessara mála. Í öðrum löndum Evrópu, og þau eru miklu fleiri, er skipunin hins vegar sú, að ráð eða stofnun, hálfopinber og í sambandi við aðila, sem hafa mestan áhuga og hagsmuni i þessum málum, hafi yfirstjórn þessara mála.

Að athuguðu máli töldum við flm. þessa frv. réttara að fara síðar nefndu leiðina, ekki að stofna a.m.k. að svo stöddu sérstakt ráðuneyti i þessu skyni, heldur að stofna þetta ferðamálaráð, þar sem fyrst og fremst tilnefna fulltrúa þeir aðilar, sem áhuga og hagsmuna hafa að gæta, en Alþ. og ríkisstj. hafi þar veruleg afskipti af, og æðsta ráð i málunum séu að sjálfsögðu í höndum ríkisvaldsins.

Þessir aðilar, sem hér er gert ráð fyrir að tilnefni í ráðið, eru Eimskipafélag Íslands, og er það vegna þess, að Eimskipafélagið hefur með höndum að langsamlega mestu leyti flutning farþega og ferðamanna að landinu og frá sjóleiðis. Að vísu eru fleiri aðilar, sem stunda siglingar, en farþegaflutningurinn er að langsamlega mestu leyti í höndum þessa félags, og af þeirri ástæðu leggjum við til, að Eimskipafélag Íslands tilnefni einn mann. Annar aðili er félag sérleyfishafa, þ.e. þeirra, sem annast rekstur langferðabíla á innanlandsleiðum, og vegna þess, hve þeir eru hér stór aðili, þótti rétt að gefa þeim samtökum kost á að tilnefna mann. Þriðji aðilinn er svo Ferðafélag Íslands og Ferðamálafélag Reykjavíkur. Ferðafélag Íslands hefur starfað hér í rúman aldarfjórðung. Það hefur að vísu ekki þann tilgang að örva erlenda ferðamenn til að koma til landsins, heldur fyrst og fremst að greiða fyrir ferðum íslenzkra manna um landið, að kynna íslenzku þjóðinni sjálfri fegurð landsins og náttúru þess. Á þessu sviði hefur Ferðafélag Íslands unnið stórmerkilegt starf. Hér er hins vegar nýstofnað ferðamálafélag í Reykjavík, sem hefur það hlutverk að bæta aðstöðu til móttöku erlendra ferðamanna og greiða fyrir þeim málum í hvívetna. Þetta er félag áhugamanna, hliðstætt þeim, sem eru starfandi í öllum okkar nágrannalöndum. Hér er gert ráð fyrir, að þessi tvö félög komi sér saman um tilnefningu eins manns. Fjórði aðilinn er svo samband veitinga- og gistihúsaeigenda, en í þeim efnum þarf, eins og ég gat um, ef til vill stærsta átakið á næstu árum og áratugum, þ.e.a.s. að bæta úr gistihúsaskortinum. Í fimmta lagi eru svo flugfélögin tvö, Flugfélag Íslands og Loftleiðir, en þessi íslenzku flugfélög annast að langsamlega mestu leyti flutning farþega loftleiðis til landsins og frá því, og er því ætlazt til, að þau sameiginlega tilnefni einn mann í ráðið.

Meginhugsunin með skipun þessa sjö manna ferðamálaráðs er sem sagt þessi: Um leið og Alþ. tilnefnir tvo menn, séu þessir aðilar, sem mest fjalla um málin og mestra hagsmuna hafa þar að gæta, fengnir til að leggja til menn í ráðið, og er þá þess að vænta, að þar verði lifandi og vakandi áhugi fyrir starfinu.

Í 3. gr. frv. segir um hlutverk ferðamálaráðs, og skal ég aðeins rekja það hér í stórum dráttum. Það er fyrst gert ráð fyrir, að ráðið hafi umsjón og eftirlit með öllu, sem lýtur að ferðamálum. Það er skylda þess að bæta ástand þessara mála í hvívetna. Það á að annast kynningu lands og þjóðar á erlendum vettvangi, að sjálfsögðu í samráði við þau rn., sem hér koma helzt til greina, en það er fyrst og fremst utanrrn., sem um leið hefur yfirstjórn allra sendiráðanna, í öðru lagi viðskmrn. og í þriðja lagi samgmrn. Í 3. tölul. þessarar greinar segir, að ráðið skuli gera áætlanir og tillögur um skipan gistihúsamála í landinu. Það er einkum um það, hvar sé mest nauðsyn á nýjum gistihúsum og með hverjum hætti þeim verði komið upp. Í 4. tölul. þessarar sömu greinar, 3. gr., er gert ráð fyrir, að ráðið hafi eftirlit með hvers konar starfsemi varðandi þjónustu og fyrirgreiðslu ferðamanna, eftirlit með aðbúð og umgengni á gisti- og veitingastöðum o.s.frv. Í 5. tölul. segir, að ráðið hafi eftirlit með bifreiðaakstri og bifreiðakosti, sem ætlaður er til aksturs erlendra ferðamanna; í 6. lið, að ferðamálaráðið skuli efna til námskeiða fyrir túlka og veita þeim starfsréttindi að loknu tilskildu prófi; i sjöunda lið, að ráðið taki við stjórn og rekstri ferðaskrifstofu ríkisins. Í áttunda tölulið er svo almennt ákvæði um, að ferðamálaráðið skuli vera til ráðuneytis Alþingi og ríkisstj. um öll þau mál, sem að framan greinir, og bera fram tillögur um þær framkvæmdir og umbætur, sem ráðið telur nauðsynlegar á hverjum tíma.

Nú vil ég taka fram, að ef við ætlum að skipa þessum málum í samræmi við það, sem tíðkast í flestum löndum Evrópu, ætti ríkið ekki að reka sjálft ferðaskrifstofu með svipuðum hætti og verið hefur. Í flestum Evrópulöndum er skipunin sú, að ferðaskrifstofur eru reknar af einstaklingum eða einkafyrirtækjum, en ekki af opinberum aðila. Hins vegar, eins og ég gat um áðan, er það ríkisvaldið, annaðhvort með sérstöku ráðuneyti eða sérstakri stofnun, sem hefur eftirlit með þessum málum almennt. Hér hefur hins vegar verið sá háttur á hafður, að ferðaskrifstofa ríkisins hefur starfað sem opinbert fyrirtæki, sem ríkisfyrirtæki í nærri tvo áratugi. Hún var stofnuð með lögum frá 1936. Ég skal ekki gera starfsemi hennar að umtalsefni hér. Að ýmsu leyti má vafalaust segja, að hún hafi starfað vel og sýnt áhuga í starfi sínu, en þó brestur mjög á, að hún hafi gegnt því hlutverki, sem hún hefði þurft að gegna í þessum efnum. En að vissu leyti stafar það af því skipulagi, sem hér hefur ríkt í þessum málum. Ferðaskrifstofa ríkisins hefur, auk þess að eiga að hafa forgöngu og fyrirgreiðslu í þessum málum almennt, um leið verið einokunarstofnun, þannig að hún hefur haft einkarétt samkvæmt lögum til móttöku erlendra ferðamanna. Slík skipun, eins og ég gat um, tíðkast hvergi í okkar nágrannalöndum, hvorki á Norðurlöndum né í Vestur-Evrópu.

Með þessu frv. er hins vegar gengið það til samkomulags við þá aðila, sem leggja áherzlu á að halda ferðaskrifstofu ríkisins við, að hún skuli starfa áfram og gegna ýmsum verkefnum, sem þarna eru upp talin í sjöunda tölulið 3. gr., m.a. að skipuleggja ódýrar orlofsferðir og orlofsdvalir, gera sér far um að semja um aíslátt á dvalarkostnaði og fargjöldum með farartækjum ríkisins og einkafyrirtækja fyrir hópferðir, sem farnar eru fyrir orlofsfé, hún skuli leita samvinnu við stéttarfélög launþega, til þess að orlofslöggjöfin geti komið að sem beztum notum. Þetta er í samræmi við núgildandi ákvæði um hlutverk ferðaskrifstofunnar í þessu efni.

Það má segja, að þetta frv. fari fram á tvær breytingar varðandi starfsemi ferðaskrifstofunnar. Önnur er sú, að ferðamálaráð, hin nýja yfirstjórn þessara mála, skuli um leið taka við yfirstjórn ferðaskrifstofunnar, og í öðru lagi, að ferðaskrifstofan verði svipt þeirri einokunaraðstöðu, sem hún hefur haft, þannig að rekstur ferðaskrifstofa verði gefinn frjáls, þó þannig, að til þess þurfi leyfi ferðamálaráðs að setja á stofn skrifstofu.

Ég er sannfærður um það og við allir flm., að ef á að gera verulegt gagn í þessum málum, að gera ferðamannastrauminn hingað að atvinnugrein og móttöku þeirra að atvinnugrein og tekjulind, eins og er orðinn þýðingarmikill þáttur í þjóðarbúskap ýmissa annarra þjóða, þá verður að hafa þennan atvinnurekstur sem frjálsastan, en ekki undir einokun ríkisins.

Varðandi ferðaskrifstofur er gert ráð fyrir í 5. gr. þessa frv., að hver sá, sem óskar að reka ferðaskrifstofu fyrir almenning, skuli sækja um leyfi til ráðherra, að í umsókn skuli hann gera grein fyrir hæfni sinni o.s.frv., og að leitað skuli umsagna ferðamálaráðs, áður en ráðh. veitir slíkt leyfi.

Það er vel kunnugt, að flestir þeir aðilar, sem bera skyn á þessi mál og hafa eitthvað um þau fjallað, eru sammála um það, að ein mesta nauðsyn í þessum málum sé að aflétta þeirri einokun, sem hér hefur verið, og eftir því sem ég hef kynnt mér það, þá veit ég þess allmörg dæmi, að erlendar ferðaskrifstofur, sem óskað hafa að greiða fyrir ferðamannahópum hingað, hafa hætt við það af þeirri ástæðu, að þær hafa ekki haft sérstakan áhuga til viðskipta við slíka einokunarstofnun, og í mörgum tilfellum hafa hópar manna hætt við slíkar ferðir vegna þess, að þeir aðilar, sem þeir höfðu haft samband við, höfðu ekki leyfi til þess að veita fyrirgreiðslu hér og urðu að vísa á þessa ríkisstofnun.

Í sannleika sagt ætla ég, að þeir menn, sem mest hafa um þessi mál fjallað á Norðurlöndum og í Vestur-Evrópu yfirleitt, verði flestir undrandi yfir því, að hér í þessu lýðfrjálsa landi, Íslandi, skuli ríkja slík einokun í þessum efnum.

Hitt er svo annað mál, að ferðaskrifstofa ríkisins hefur í umsögn sinni til samgmn. á s.l. þingi lagt eindregið til, að hún fengi að halda þessari einokun, og vil ég segja, að það er ekkert undrunarefni, það er mannlegt. Ég veit þess engin dæmi, að einokunarstofnanir hafi sjálfar óskað þess, að þær væru lagðar niður.

Á síðasta þingi leitaði samgmn. eftir umsögn þriggja aðila, og eru umsagnir þeirra birtar hér með grg. þessa frv. Samband veitinga- og gistihúsaeigenda segist hafa kynnt sér þetta frv. og mælir eindregið með samþykkt þess, telur brýna nauðsyn, að landkynning og ferðamál komi til umræðu á hæstv. Alþingi, þar sem þau mál séu til lítils sóma landi voru og þjóð eins og nú háttar. Í öllum löndum heims, segir Samband veitinga- og gistihúsaeigenda, sem á annað borð vilja snúa sínu rétta andliti að umheiminum, eru ferða- og landkynningarmál nú mjög á dagskrá og margt gert til umbóta, sem meðfylgjandi frv. ætlast til að verði að lögum í landinu.

Ferðamálafélag Reykjavíkur mælir einnig í sinni umsögn eindregið með samþykkt þessa frv., og það er einróma álit stjórnar félagsins, að hér á landi séu svo miklir möguleikar til að gera móttöku erlendra ferðamanna að sérstakri atvinnugrein, sem jafnframt veitir miklum erlendum gjaldeyri inn í landið, ef rétt er á málum þessum haldið, að lagasetning slík sem þessi sé bæði þörf og nauðsynleg. Telur stjórn Ferðamálafélagsins því, að umrætt frv. sé rétt spor í þá átt, að svo megi verða.

Ferðaskrifstofan Orlof sendi sína umsögn, sem einnig er birt þar, og leggur á það áherzlu, að þessi atvinnuvegur sé gerður frjáls, og færir fyrir því rök, sem eru greind í umsögninni.

Ég ætla, að ekki sé þörf á þessu stigi að hafa öllu fleiri orð um meginefni þessa frv. og tilgang. Ég vænti þess, að hv. þdm. fallist á, að landkynning og ferðamál sé þýðingarmikið mál fyrir okkur Íslendinga og að að því beri að stefna að auka og örva ferðamannastrauminn og bæta aðbúnað ferðamanna.

Það má geta þess í þessu sambandi, að í Noregi, sem ég hef einna ýtarlegastar upplýsingar frá, er slík þróun i þessum málum, að 1946 voru það um 190 þús. erlendra ferðamanna, sem þangað komu. En svo vel hefur verið unnið að þessum málum, landkynningar- og ferðamálum, að í fyrra, átta árum síðar, hefur tala erlendra ferðamanna rúmlega fjórfaldazt, er komin upp í 807 þúsundir. Það virðast allir sammála um það þar í landi, að allir aðilar eigi að leggjast á eitt á frjálsum grundvelli til þess að örva þetta, og Norðmenn telja sér þetta þýðingarmikinn atvinnuveg, sem þeir fá mikinn gjaldeyri af, telja það meðal sinna þýðingarmiklu atvinnuvega, sem jafnist í rauninni þjóðhagslega og gjaldeyrislega á við útflutningsatvinnuvegina.

Á síðasta eða næstsíðasta ári var talið, að Norðmenn hefðu í gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum sem svaraði 500 millj. króna.

Á því er enginn vafi, að Íslendingar geta miklu áorkað í þessu efni til aukinna viðskipta og um auknar gjaldeyristekjur með réttum vinnubrögðum.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri að sinni, en vænti þess, að málið fái góðar undirtektir og skilning á hv. Alþingi, og legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. samgmn.