21.10.1955
Neðri deild: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í C-deild Alþingistíðinda. (1813)

22. mál, landkynning og ferðamál

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Það var eitt atriði í ræðu hv. 5. landsk. (EmJ), sem ég vildi gjarnan víkja að, og það var, að hann sagðist muna vel eftir því, að staðið hefði hörð deila á sínum tíma, einkanlega um það leyti sem lögin um ferðaskrifstofu ríkisins voru í þinginu, um það, hversu hátt gjald hafi verið tekið af erlendum ferðamönnum, sem hingað komu, sérstaklega með skemmtiskipum, því að það voru stærstu hóparnir. Hið háa gjald var fyrir þær skemmtiferðir, sem þeir höfðu hér í landinu. Þetta var alveg rétt. Það var tekið hátt gjald af þessum ferðamönnum. En það gjald var ekki tekið af innlendum aðilum, heldur af skipafélögunum sjálfum. Ég vil leiðrétta þetta, ekki sízt vegna þess, að ferðaskrifstofa ríkisins hefur tekið á móti nokkrum erlendum ferðamannaskipum síðan ófriðurinn hætti, og ég veit ekki til, að ferðaskrifstofan hafi haft nokkur áhrif í þá átt að lækka þetta verð, sem erlendu skemmtiferðaskipin eða skemmtiferðafélögin taka af farþegum sínum. Ég er ekki að segja ferðaskrifstofunni þetta til lasts, vegna þess að hún ræður ekkert við þetta. Henni kemur þetta í raun og veru ekkert við, vegna þess, eins og það var skýrt á sínum tíma, að félögin taka þetta fyrir ýmsa þjónustu aðra en þá að aka viðkomandi farþegum til Geysis og Gullfoss eða til Þingvalla.

Ég vil svo aðeins að endingu taka það fram, sem tekið var hér að vísu fram af framsögumanni frv., að hv. 5. landsk. getur ekki bent á nein gild rök fyrir því, að ríkisfyrirtæki eins og ferðaskrifstofan geti unnið að nokkru leyti betur að þeim málum en gert yrði með frjálsu skipulagi.