27.10.1955
Neðri deild: 11. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í C-deild Alþingistíðinda. (1864)

37. mál, olíueinkasala

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Í tilefni af ummælum í ræðu hv. 3. landsk. þm. (HV), þar sem hann margtók það fram, að frv. okkar þm. Þjóðvarnarflokksins um olíuverzlun ríkisins væri mjög líkt að efni og uppbyggingu og þar væri á engan hátt neinu raskað frá frv. Alþfl. um olíueinkasölu ríkisins og að við þm. Þjóðvfl. hefðum verið að seilast eftir því að taka upp mál, sem Alþfl. væri búinn að þráflytja hér og ætti, vil ég leyfa mér að taka fram örfá atriði.

Í fyrsta lagi vil ég lýsa yfir, að mér þykir leitt, að hv. 3. landsk. þm. skyldi viðhafa þessi ummæli. Þau sýna annað tveggja, að hann hefur ekki lesið frv. okkar þm. Þjóðvfl. eða vill ekki viðurkenna staðreyndir, þó að hann sjái þær svartar á hvítu fyrir framan sig. Þessi frumvörp eru nefnilega bæði að uppbyggingu og ýmsu efni mjög ólík og mjög óskyld.

Út af því atriði, að við höfum verið að hnupla einhverju frá Alþfl., vil ég taka það fram, að fyrsti landsfundur Þjóðvfl., sem haldinn var nokkrum mánuðum eftir að flokkurinn var stofnaður, setti það á stefnuskrá flokksins sem eitt af aðalbaráttumálum hans að taka upp ríkisverzlun með olíu, og okkar frv. er flutt í samræmi við þá stefnulýsingu.

Þegar frv. hv. þingmanna Alþfl. var hér til umr. á fyrsta þingi, sem við þm. Þjóðvfl. sátum, þ.e. á þinginu 1953, lýsti hv. 8. þm. Reykv. því mjög skilmerkilega í umræðum um það frv., að frv. Alþfl. væri að okkar áliti svo gallað, að það væru engin tök að fylgja því án þess að gera á því mjög veigamiklar efnisbreytingar. Ég mun hér í örfáum orðum leitast við að finna þessum orðum stað og sýna fram á, að svona liggur í þessu máli.

Fyrsta athugasemd, sem ég vil gera í þessu sambandi, er það, að hv. 3. landsk. þm. sagði, að þetta frv. hefði verið flutt hér fyrst á þingi 1946 og síðan óbreytt síðan. Í frv., sem Alþýðuflokksþingmennirnir fluttu 1953, var þó ekki gert ráð fyrir að kaupa olíuflutningaskip. Á því þingi, 1953, fluttum við þm. Þjóðvfl. frv. um kaup á olíuflutningaskipum, og á næsta þingi á eftir tóku þingmenn Alþfl. þetta ákvæði inn í frv. sitt, ef ég man rétt.

Í öðru lagi vil ég taka það fram og játa það. að ég var mjög lengi að átta mig á því, hvernig gæti á því staðið, að frv. hv. þingmanna Alþfl. væri jafnilla úr garði gert og jafnóaðgengilegt og það er. Það tók mig langan tíma að komast að niðurstöðu í því máli. Loks fann ég það þó, og ástæðan var sú, að svo hefur verið kastað höndum til þessa frv., að það er að mestu leyti orðrétt uppskrift á lögum um tóbakseinkasölu ríkisins. Þar er sáralitlu breytt nema nafninu á fyrirtækinu. Það er sett olíueinkasala í staðinn fyrir tóbakseinkasala. Og þó að það að sanna þetta og leiða rök að því kosti mig að vitna í einstakar greinar í frv., sem ég veit að ekki er ætlazt til við þessa umr., þá verð ég þó að gera það.

Það er þá í fyrsta lagi í 7. gr. frv., þar sem ákveðið er, hvernig fara skuli með þær vörur, sem til eru í landinu, þegar einkasalan tekur til starfa. Þar er sagt, að ríkisstj. sé heimilt að taka þessar vörur og hún skuli ákveða með reglugerð, hvort gjald skuli greitt af þeim í ríkissjóð. Þetta stendur svona í lögunum um tóbakseinkasölu ríkisins, og er það mjög eðlilegt. Þegar þau lög voru sett, var verzlun með tóbak frjáls. Kaupmenn áttu þá miklar birgðir af þessum vörum. En með lögunum um tóbakseinkasölu ríkisins var ákveðið að leggja mjög hátt gjald á tóbak, aukagjald, og þess vegna þurfti að vera ákvæði í lögunum, sem heimilaði ríkisstj. að leggja þetta einkasölugjald á það tóbak, sem tekið væri af þeim verzlunum, sem fyrir voru í landinu. Ef sama ætti að gera hér við þær olíubirgðir, sem fyrir væru í landinu, þegar olíueinkasalan tæki til starfa, þá þýddi það það, að hækka ætti olíuna mjög verulega í verði, leggja á hana einkasöluálag og gera hana að gróðavöru. einkasölugróðavöru, svipað og tóbak og áfengi. Þetta kemur að sjálfsögðu ekki til greina og stangast þar að auki algerlega á við grg. frv. sjálfs, þar sem einmitt er sagt, að þessa ráðstöfun eigi að gera, að setja á stofn olíueinkasölu, til þess að gera olíuna ódýrari.

Í 8. gr. frv. segir, að olíueinkasalan skuli leggja 10–40% á vöruna. Þetta er ekki alveg orðrétt tekið upp úr lögunum um tóbakseinkasölu ríkisins, þar sem allt miðast við einkasölugróða. því að þar stendur nefnilega 10–50% á vörurnar. Hér á að leggja á 10–40%. Ef ég man rétt, er sú álagning, sem nú er heimiluð á olíur, um 4%, svo að hér skýtur nokkuð skökku við. Það virðist þá eftir frv., að það eigi að gera þetta að tekjulind fyrir ríkissjóð, í stað þess að í grg. segir, að það eigi að lækka olíuverðið frá því, sem nú er.

Í þriðja lagi eru fleiri mótsagnir í þessu frv. Í 10. gr. er ákveðið, hvernig skuli ráðstafa þeim ágóða, sem verða kann af olíusölunni. Þar er svo fyrir mælt, að hann skuli alls ekki renna í ríkissjóð, honum skuli varið til þess að gera olíuna ódýrari, lækka olíuverðið. Það er ekkert nema gott um það ákvæði að segja. En í 12. gr. kemur svo ákvæði, sem algerlega stangast á við þetta. Þar stendur nefnilega um olíuvörur, sem fluttar yrðu inn í heimildarleysi og gerðar upptækar, að þær skuli afhendast einkasölunni til ráðstöfunar. Andvirðið telst meðal tekna hennar og rennur í ríkissjóð. Þá eru flm. allt í einu farnir að gera ráð fyrir því, að ágóði eða tekjur olíuverzlunarinnar renni í ríkissjóð, sem þeir í 10. gr. ákveða að skuli ekki vera.

Hv. 3. landsk. sagði, að þetta frv. væri búið að flytja hér ár eftir ár á þingi síðan 1946. Ég sagði áðan, að það hefði verið mjög kastað til þessa frv. höndunum og það mjög óvandvirknislega unnið og óskilmerkilega. Og hér er til viðbótar eitt atriði, sem sannar það, því að annaðhvort er þetta hér í 13. gr. einhver meinloka eða þá bara hreint og beint prentvilla, sem búin er að standa ár eftir ár, því að þau þrjú ár, sem ég hef séð þessi frv., er 13. gr. alltaf svo orðuð, með leyfi hæstv. forseta:

„Með brot út af málum þessum skal fara sem almenn lögreglumál.“

Ef það væri alvara að hafa þetta svona, þá dytti manni fyrst i hug, að flutningsmenn litu ekki á þetta eins og frv. að lögum, heldur eins konar allsherjar málaferli, gegn olíufélögunum væntanlega, því að svona hef ég ekki séð neinar frumvarpsgreinar orðaðar, heldur „með mál út af brotum gegn lögum þessum“ o.s.frv., og það er allt annað en „með brot út af málum þessum“.

Mýmörg fleiri atriði eru í þessu frv., sem þannig er ástatt um og sýna, að þetta frv. er allt annars eðlis en frv. það, sem við flytjum. Eitt atriði er t.d. mjög þýðingarmikið f þessu sambandi, en það er það, að í 4. gr. frv. þeirra hv. þm. Alþfl. segir, að heimilt skuli ríkisstj. að taka eignarnámi eða leigunámi hverja þá fasteign eða tæki, sem nú eru notuð hér á landi til verzlunarrekstrar með benzín, ljósaolíu, hráolíu og brennsluolíu. Þetta þýðir það, að því er ég fæ bezt séð, að ríkisstj. sé heimilt, ja, mér skilst helzt að taka allt kerfið eignarnámi. Og ekki sé ég, hvernig það fengi nú bætt reksturinn, svona í svipinn a.m.k., að halda uppi öllu því óhófi, sem þar er, allri þeirri óeðlilegu og óþörfu fjárfestingu, sem þar er. Ekki mundi það létta undir með ríkissjóði að þurfa að kaupa allar þessar eignir á matsverði og þurfa svo e.t.v. ekki að nota nema þriðjunginn af þeim. Þar að auki er ekkert ákvæði um það, að olíufélögin skuli sitja við sama borð í þessu efni. Samkv. þessu frv. væri ríkisstj. — ég skal ekki segja, hvernig það yrði túlkað — e.t.v. heimilt að taka eignir eins olíufélags, en alls ekki skylt að taka neitt af hinum. Menn sjá, hvernig það gæti orðið í framkvæmd, ef nægilega óprúttin ríkisstj. færi með völd og ætti að framkvæma þetta. Þá er ekkert ákvæði um það, hvernig ríkissjóður skuli borga þær fasteignir, sem hann tæki þannig eignarnámi. Samkv. þessu frv. gætu olíufélögin, sem eignirnar væru teknar af, krafizt þess, að ríkissjóður snaraði summunni út á einum og sama degi. Í okkar frv. er hins vegar gert ráð fyrir því, að ríkissjóður borgaði það, sem hann tæki eignarnámi og teldi sig þurfa, og hitt, sem hann væntanlega keypti fyrir miklu lægra verð, fyrir aðeins 30% af matsverði, með skuldabréfum, sem greiddust með jöfnum afborgunum á 20 árum og ættu með þeirri framkvæmd ekki að þurfa að, íþyngja þessari verzlun um of eða gera hana dýrari en nauðsyn væri.

Ég ætla að láta þetta nægja í sambandi við þessi ummæli hv. 3. landsk. þm., sem mér þótti mjög leiðinlegt að hann skyldi viðhafa hér og hann hefði vafalaust getað komizt hjá.