28.10.1955
Neðri deild: 12. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í C-deild Alþingistíðinda. (1878)

44. mál, jarðræktarlög

Flm. (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Það er nú í þriðja sinn, sem því máli er hreyft hér á Alþ. af okkur þm. Þjóðvfl. að veita nokkurn styrk til skjólbeltaræktunar í landinu. Í fyrsta skipti, sem við fluttum frv. um þetta mál, fékkst það ekki afgreitt. Á síðasta þingi fluttum við svo brtt. við frv. til l. um breyt. á jarðræktarlögunum, sem lá hér fyrir, þess efnis, að styrkur væri veittur til að rækta skjólbelti eða koma upp skjólbeltum í ræktunarlöndum. Sú brtt. var felld og það meira að segja tvívegis, því að við fluttum fyrst till. um nokkuð háan styrk, og þegar sú till. hafði verið felld, fluttum við aðra till. um lægri styrk til þessarar ræktunar, en sú till. var einnig felld. Þetta eru þá helztu afrek Alþingis Íslendinga í þessu máli fram á þennan dag.

Nú höfum við þm. Þjóðvfl. ráðizt í það að flytja þetta frv. einu sinni enn, í því trausti, að nú mundi blása byrlegar um framkvæmd málsins og afgreiðslu en hingað til.

Þegar þetta frv. var flutt fyrst á þinginu 1953, fylgdi því allýtarleg grg., þar sem skýrt var frá því í megindráttum, hver hagur þjóðarheildinni mundi að því verða, ef hér væri komið upp skjólbeltum í ræktunarlöndum. Þar var frá því greint, að reynslan sýndi, þar sem slíkum skjólbeltum hefði verið komið upp, að uppskeruauki vegna þeirra næmi a.m.k. 25% á ári, og jafnframt var tekið fram, að uppskera yrði, auk þess að vera meiri, miklu árvissari en ella og þó alveg sérstaklega þegar köld sumur gengju yfir.

Nú skal ég láta nægja að vísa til þessarar grg. hér. Hún var prentuð á þskj. 368 á þinginu 1953.

Ég skal játa það, að ég er ekki mikill vísindamaður í þessum efnum, en það eru til menn í þessu landi, sem hafa allmikla reynslu og allmikla þekkingu á þessum málum. Og í sambandi við þetta frv. vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkur ummæli eftir einn slíkan mann, hinn merka ræktunarfrömuð Klemenz Kristjánsson á Sámsstöðum. Í ársriti Skógræktarfélags Íslands fyrir árið 1955, sem er nýlega komið út, segir hann svo um tilraunir sínar með skjólbelti á Sámsstöðum í Fljótshlíð m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Af því að ég hef undanfarin 15 ár átt nokkuð við ræktun skjólbelta, ætla ég hér í fáum orðum að skýra frá reynslu minni, þó að hún leysi ekki allan vanda við þetta mál.“

Síðan greinir hann frá því, á hvern hátt þessari ræktun hafi verið hagað, hve margföld skjólbeltin hafi verið, hvernig land hafi verið undirbúið, hvernig áburður hafi verið notaður, hve mikið, og frá árangrinum, sem hann segir að sé mjög góður og þó mismunandi eftir því, hversu vel sé um skjólbeltin annazt. Síðan segir svo:

„Hvað kosta skjólbelti á hektara? Vert er að gera sér ljósa grein fyrir þessu atriði. Ef rækta á skjólbelti á hverri jörð, t.d. 10–15 hektara, þarf að velja land, sem liggur vel við sól og er gott til ræktunar. Beltin þurfa að

vera þvert á vindátt, sem tíðust er og hörðust á hverjum stað. Ætla má, að tvö belti með 50 metra á milli, 100 metra löng, nægi til þess að veita mikilvægt skjól á hektara. Beltin væru þá höfð 3–5 metra breið, þ.e. þrjár til fimm raðir. Ef tvö belti eru á hektara, eitt fimm raða og annað þriggja raða, mundu fara 800 plötur á hektara, miðað við eins fermetra vaxtarrými. Ef reiknað er með, að hver planta kosti kr. 1.50, yrði plöntukostnaður á hektara kr. 1200.00. Gróðursetningu og jarðvinnslu reikna ég kr. 850.00 á hektara, umhirða og áburður í 10 ár kr. 300.00 á ári. Samtals verður þetta 5050 kr. á hektara auk vaxta af þessari upphæð. Að 10 árum liðnum ætti beltið að vera farið að gera talsvert gagn, og eftir þeim athugunum, sem ég hef gert á mjölsöfnun korntegunda, skilaði skjólbeltið kostnaðarverði sínu i aukinni uppskeru á næstu 5–7 árum. Eftir 17 ár frá gróðursetningu ætti beltið þá að hafa skilað öllum kostnaði við ræktun þess. Kemur þá sem hreinn ágóði sú uppskeruaukning, sem beltunum fylgir á ókomnum árum. Þess skal geta, að vitanlega verður að girða vel það land, sem skýla á með lifandi trjágróðri, því að búfénaður má ekki að neinu ráði ganga um skjólbeltaland fyrstu ár ræktunarinnar.

Áhrif skjóls hafa verið rannsökuð nokkuð á Sámsstöðum síðan 1945 og til þess notað það skjólbelti, sem gróðursett var vorið 1940. Þessum athugunum hefur verið þannig hagað: Byggi, höfrum og vorhveiti hefur verið sáð með sama áburði, sáðtíma og í sams konar jarðveg á skjóllaust land og í skjóli við trjábelti, þrjá metra vestur frá belti. En samanburðurinn er síðan gerður á þúsund korna þyngd kornsins þau fimm sumur, sem þessar athuganir hafa farið fram. Útkoman eða árangurinn hefur þá orðið þessi:“

Árið 1945 er þungi kornanna frá 17–44% meiri á skýlda landinu en því óskýlda. Árið 1946 er hann um 17% meiri, árið 1952 17 til 50% meiri uppskera af skýlda landinu en því óskylda, 1953 10–29% meiri uppskera af skýldu landi en óskýldu, og árið 1954 er uppskeran frá 10–95%o meiri á skýldu landi en óskýldu.

Svo segir Klemenz Kristjánsson einnig: „Tölurnar sýna, að korntegundir, ræktaðar í skjóli, hafa alltaf verið mjölvisríkari en á skjóllausu landi. Gildir þetta alveg sérstaklega, ef sumrin eru köld, eins og 1945 og 1952. Þá hefur skjólið algerlega bjargað þroskuninni. Árið 1952 nær vorhveitið ekki fullum þroska í skjóli, en það er vegna þess, að þá hafði ég ekki rétt afbrigði, amerískt hveiti, fremur seinþroska, en hin árin sænskt afbrigði.

Það má áreiðanlega fullyrða, að skjólbelti um kornrækt væri mikil öryggisráðstöfun fyrir þá framleiðslu, og álít ég, að þessar athuganir bendi ótvírætt til þess. Mikill ávinningur væri það, ef hvert býli ætti skýlt svæði, þó ekki væri meira en 1–2 hektarar, til þess að rækta garðjurtir, kartöflur og korn. Því stærri ræktunarsvæði sem skýlt væri með skjólbeltum, þeim mun verðmeiri væri jörðin frá framleiðslusjónarmiði, og kemur fegurðin við beltin í uppbót.

Hér á landi er talsverður árferðismunur. Kartöflur ná ekki góðum vexti í öllum árum. Má ætla, að hér á Suðurlandi láti nærri, að meðaluppskera og betri verði 2–8 ár af hverjum 10. Með því að rækta skjólbelti mundi þetta verða á annan og hagstæðari veg. Uppskeran yrði meiri í skjóli í köldum árum en nú er, og ávinningurinn af ræktun skjólbelta kæmi ræktuninni á traustan grundvöll.

Til þess að koma hreyfingu á þetta nytjamál þyrfti að koma löggjöf varðandi stuðning þjóðfélagsins til þeirra, sem rækta skjólbelti. Þessi stuðningur þyrfti aðallega að vera fólginn í styrk til girðinga og svo til plöntukaupa. Með því að styðja þá menn til átaka, sem vilja koma á aukinni ræktunarmenningu, verði auðsóttari þau verðmæti, sem liggja falin í íslenzkri mold. Skjólbeltarækt verður það framtíðarverk, sem stuðlar að öruggri jarðræktarframleiðslu, en slíks er þörf bæði frá fjárhagslegu og menningarlegu sjónarmiði.“

Þetta eru ummæli eins hins merkasta ræktunarfrömuðar hér á landi, Klemenzar Kristjánssonar á Sámsstöðum. Ætla ég, að þau séu eða ættu að vera hv. þingmönnum meira virði en mín orð í þessu efni, þar sem hann er mér meiri fræðimaður um það, sem hér er um að ræða, og sennilega flestum hv. þingmönnum meiri fræðimaður.

Til viðbótar því, sem ég hef nú sagt, skal ég svo aðeins taka þetta fram: Við Íslendingar fengum þá frétt nú nýlega, að danskur maður hefði gefið hlut af eignum sínum til að efla ýmsar merkar nýjungar og ýmis nytjamál á þremur Norðurlöndum. Hann kvað svo á, að Ísland skyldi verða eitt þeirra landa, sem þessa styrks yrðu aðnjótandi, og meira en það, hann óskaði eftir því, að Ísland yrði fyrsta landið, sem styrk fengi úr sjóðnum, ef þess væri nokkur kostur, þ.e.a.s., ef nokkurt það mál fyndist á Íslandi, sem vert gæti talizt að styrkja. Þessi danski Íslandsvinur leitaði til sendiherra okkar, núverandi ambassadors, í Kaupmannahöfn um að taka sæti í sjóðsstjórninni og um það, hvort ekki væri eitthvert það mál á Íslandi, sem væri þess verðugt að hljóta fyrsta styrk úr sjóðnum. Og sendiherra okkar kom það þá helzt í hug, vafalaust eftir ýtarlega umhugsun um málið, að veita styrk til þess að kosta einn Íslending til náms í því að gróðursetja skjólbelti. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að geta gert sér grein fyrir svipnum á hinum erlendu mönnum, sem áttu að taka ákvörðun um að veita þennan styrk, þegar sendiherra Íslands og fulltrúi í sjóðsstjórninni sagði þeim, að hér væru fáir eða engir menn með ýtarlega þekkingu á ræktun skjólbelta og skjólbelti væru svo að segja óþekkt fyrirbæri í íslenzkum landbúnaði.

Sígurður Nordal er kurteis maður, og við skulum vona, að hann hafi ekki sagt frá því, hvaða afrek Alþingi Íslendinga hefur unnið í þessu máli. En við skulum þá jafnframt vænta þess, þegar þannig háttar, að hinir erlendu menn, sem áttu að taka ákvörðun um það, hvort Ísland skyldi teljast verðugt þess að fá þennan styrk, töldu þetta mál nægilega mikils virði til þess, að út á það væri veittur styrkur, að Alþingi sjái sóma sinn í því að gera eitthvað í þessu máli. Það er augljóst, að íslenzkir bændur hafa ekki almennt efni á því að leggja í kostnað, sem er allverulegur, við að koma upp skjólbeltum, þar sem árangurinn af þeim kostnaði og þeirri vinnu, sem í það er lögð, kemur ekki fram fyrr en eftir ein tíu ár. Hér er því allt öðru máli að gegna en með túnrækt. Túnið skilar afurðum þegar á fyrsta ári, getum við sagt, og síðan árlega eftir það, en skjólbeltin þarfnast umönnunar, umhirðu, áburðarkaupa í tíu ár, áður en þau fara að skila nokkrum teljandi árangri í aukinni uppskeru, en síðan verður þessi árangur meiri og öruggari ár frá ári eftir það, og að 17 árum loknum telur Klemenz Kristjánsson að skjólbeltin hafi borgað sig upp og allur ágóði úr því um alla framtíð verði þá hreinn gróði þjóðfélagsins.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri, enda ætti það að vera óþarft, og vil leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.