16.12.1955
Neðri deild: 36. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

126. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Umr. þær, sem hér hafa farið fram um það mál, sem nú er á dagskrá, bera glöggt vitni um, hvernig stjórnarfarið er orðið á landi hér.

Tveir hæstv. ráðh., hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., hafa lýst því, að ósamkomulag sé innan ríkisstj. um afgreiðslu fjárl., fyrst og fremst það, hvort átt hefði að afgr. þau nú fyrir jól eða ekki. Þetta er að sjálfsögðu allmikilvægt atriði, og mætti ýmislegt um það segja. En hitt er þó atriði, sem miklu meira máli skiptir, hvernig leystur verður sá vandi, sem að höndum hefur borið í sambandi við útgerð landsmanna. En fátt er gleggra um ástandið á stjórnarheimilinu heldur en það, að nú, þegar komið er rétt að jólum, hefur ekkert verið gert í því stóra máli, að því er virðist, annað en að skipa tvær sérfræðinganefndir, sem kváðu sitja að störfum og ekki hafa skilað neinu áliti, endanlegu a. m. k.

Þetta er í sjálfu sér miklu meira mál en það, hvort fjárlagaafgreiðslu er lokið rétt fyrir jól eða snemma í janúar. Eins og oft hefur verið sagt hér áður, var fyrir löngu vitað um hina erfiðu afkomu útvegsins, fyrir löngu vitað, að þar þurfti að grípa til einhverra ráðstafana. En það er nú, eins og því miður hefur átt sér stað allt of oft áður, þegar vanda hefur borið að höndum varðandi framleiðsluna, að hæstv. ríkisstj. er allt of sein til, og þess vegna verða aðgerðir hennar svo síðbúnar, að af hefur hlotizt mikið tjón fyrir þjóðina. Hæstv. ríkisstj. hlýtur að gera sér það ljóst, því að það veit hvert einasta mannsbarn, að hver vika, sem allur báta- og togarafloti landsmanna er stöðvaður, hver dagur, sem hann er stöðvaður, er mjög dýr fyrir þjóðina. En eins og þessi málsmeðferð hefur verið, er ekki annað sýnna en að bæði báta- og togaraflotinn verði stöðvaður, hver veit hve langan tíma af janúarmánuði. Það veit enginn, hve langur sá tími verður, en það er a. m. k. fyrirsjáanlegt, að það verða margir dagar, sennilega ekki minna en hálfur mánuður til þrjár vikur, og gæti þó jafnvel meira orðið.

Það var ekki laust við, að þeir tveir hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, væru jafnvel hálfhreyknir af því, að ekki sé nú nein deila uppi milli stjórnarfl. um lausn þessara knýjandi vandamála útvegsins. En það var lítil ástæða til hreykni af þessu, þegar upplýst var, að fyrir liggja enn þá engar endanlegar till. frá neinum aðila um þessa lausn, og þar af leiðandi um ekkert að ræða til þess að vera sammála eða ósammála um.

Það mætti ef til vill segja, að það ósamkomulag, sem nú virðist upp komið á stjórnarheimilinu, gæti verið nokkurt ánægjuefni fyrir stjórnarandstöðuna, ef stjórnarandstaðan hugsaði ekki fyrst og fremst um sjálfa þjóðina. En þjóðinni er það vissulega dýrt að sitja uppi með eins dáðlausa ríkisstj. og hæstv. ríkisstj. hefur sýnt sig í þessu máli. Það er vissulega ástæða til að víta þá málsmeðferð að hafa látið dragast eins lengi og orðið er að gera allan nauðsynlegan undirbúning að því, að hægt yrði að leysa vandamál útvegsins. Að sjálfsögðu var það skylda hæstv. ríkisstj. að hafa þá forsjálni, að einhverjar till. gætu legið fyrir nú fyrir áramótin, og að sjálfsögðu hefði hún átt að geta skýrt þingheimi frá þeim till., áður en þingið var sent heim. Nú er auðséð, að um það verður ekki að ræða. Er það vissulega illa farið og getur dregið dilk á eftir sér, ef um verulega stöðvun á skipaflotanum verður að ræða. En þá verður a. m. k. að gera þá kröfu til hæstv. ríkisstj., að hún leggi sig nú alla fram einmitt um hátíðarnar og hafi tilbúnar till. sínar strax þegar Alþingi kemur saman hinn 5. jan.