16.12.1955
Neðri deild: 36. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

126. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að segja, að mikið dæmalaust ber þetta hjal þessara þm. vott um annað tveggja, heilaga einfeldni eða gersamlega óvenjulega hreinskilni í málflutningi. Ég býst nú við hvað suma þeirra varðar, að þetta sé af því, að þeir eru óstjórnvanir og óvanir að glíma við annað en málæðið í sjálfum sér. Orðaflaumur streymir út án nokkurrar hliðsjónar af, hvort rök standa að baki þeirra fullyrðinga.

Ég skal fyrst aðeins víkja örfáum orðum að því, sem hv. 11. landsk. sagði í sambandi við þingfrestunina, en síðar koma að útgerðarmálunum.

Hv. 11. landsk. sagðist ekki hafa verið í neinum samningum um þingfrestun, hins vegar hefði hann verið að semja um útvarpsumr. Ég þurfti að sjálfsögðu ekki beint við hann að semja um þingfrestun, mér var nóg að hafa þingfl. ríkisstj. þar að baki ákvörðun ríkisstj. En eitt af því, sem þessi hv. þm. lagði áherzlu á, svo að ég segi ekki megináherzlu, sem er það sanna, var, að þessar útvarpsumr. féllu niður gegn því, að þm. fengju þá að fara heim. Ja, hann má hrista af sér hausinn upp á það. Annars er þetta karp náttúrlega að því leyti þýðingarlítið, að mér er alveg sama, hvort þessi þm. vill meðganga sannleikann í þessu tilfelli, það er sjálfsagt oft tregða á, að hann geri það.

Hv. 11. landsk. þm. sagði, að ríkisstj. hefði auðvitað vitað, að stöðvunin var fram undan, stöðvun flotans, togararnir hefðu fengið smávægilegan styrk, eins og hann orðaði það, algerlega ófullnægjandi, á síðasta ári. Ja, þeir fengu þann styrk, sem hann lagði til. Hann lagði til, að þeir fengju 950 þús. kr. á ári, og ætlaði þar af þeim sjálfum að hlutast til um niðurfærslu ýmissa útgjaldaliða, auk þess sem í þessu var talin fyrning. Togararnir fengu af ríkisvaldinu það, sem með þurfti.

Hv. þm. sagði, að hann hefði aldrei gert annað varðandi stöðvun togaranna en að samþ. till., sem maður, sem hann taldi umboðsmann minn, hefði borið fram um það, að togararnir fylgdu ákvörðunum Landssambandsins. Þetta er kannske of lítið snertandi kjarna málsins til þess, að ég eigi að eyða tíma þingsins til að vera að tala um það. En vitaskuld hlaut ég sem ráðh. í ríkisstj. að reyna að spyrna gegn því, að togaraeigendur tækju ákvörðun um að stöðva veiðar, enda þótt bátarnir tækju ákvörðun um að hefja ekki veiðar, þannig að ef þessi maður, sem hann nefndi og er form. Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, hefði við mig rætt eða að mínum vilja farið eða í mínu umboði mætt þar, þá hefði hann auðvitað aldrei borið fram till. um, að togararnir stöðvuðu sínar veiðar. Og það er eðli málsins, að þessi hv. þm. er staðinn að því að fara þar rangt með staðreyndir.

Kjarninn er sá, að togaraeigendur höfðu haft í hyggju — það var aldrei endanlega lokið ákvörðun um það — að stöðva veiðar um áramót, þegar stjórn félagsins kom á minn fund og fékk um það vitneskju, að ríkisstj. í fyrsta lagi vænti þess að geta haft um þetta einhverjar till. snemma í janúar eða a. m. k. í janúarmánuði og hefði í hyggju að bera fram till. um lausn vandamála togaranna samtímis því, sem borin væri fram till. um lausn vandamála bátaflotans. Þegar stjórn félagsins heyrði þetta, þá veit ég a. m. k., að sumir töldu hyggilegast frá eiginhagsmunasjónarmiði togaranna að hætta við stöðvunina. Þegar þessi hv. friðarins engill, hv. 11. landsk., fékk af því fregnir, þá bað hann um í fyrsta lagi að fá afhentan þann tryggingarvíxil, sem hann hafði lagt fram til þess sem viðurlög, ef hann gerðist svikari við þessar sínar samþykktir, og hafði í hótunum um að fara úr félaginu. Þegar ég frétti það, sagði ég: Farið hefur fé betra og hélt, að það væri togaraútgerðinni alveg meinlaust, þó að hann væri utan við hana, því að ég held, að hann hafi gert henni lítinn greiða, en margan grikk, að flækjast þar með sínar fölsku tillögur.

Það er rétt, að hann hafi þetta frá mér sem kvittun fyrir því, sem hann var hér að bera á mig í þessum efnum. Það þýðir ekki fyrir þennan flokk óeirða og ofbeldis að vera með þennan helgisvip yfir sér hér. Formaður flokksins segir: Í guðsbænum látið ekki þingmenn fara heim, heldur ljúkið málunum. — Hv. 11. landsk. hefur einn möguleika og einn vettvang til að sýna innræti sitt, og það er í þessum félagsskap, sem hann er meðlimur í og ræður yfir togurunum. Og þar bölsótast hann og bröltir eins og tarfur í flagi, ef á að hindra, að togararnir leggi upp. Þar er innrætið, og þarna er hreinskilnin.

Það, sem er meginkjarni í þeirri ádeilu, sem hér er höfð í frammi á ríkisstj., er, að ríkisstj. bæri undir öllum kringumstæðum þann 16. des., eins og hv. 2. þm. Reykv. af heilögum fjálgleik kvað að orði, að hafa tilbúnar till. um úrlausn á vandamálum útvegsins. Annað er slík goðgá, að slík stjórn á að bera það mikinn kinnroða og hafa það velsæmi, að hún segi af sér og komist hjálparlaust úr stólunum.

Ég veit ekki, hvort þessir menn hafa reynt að gera sér nokkra grein fyrir þeim vanda, sem við er að etja. Ég sagði frá því áðan, að vandinn er sá að reyna að ganga úr skugga um, hverjar eru þarfir útvegsins. Við höfum fyrir þremur mánuðum eða a. m. k. fyrir tveimur og hálfum mánuði heimtað um þetta skýrslur, sem byggjast á afkomu ársins, sem nú er að liða. Útvegsmenn halda því fram, að það þýði ekki að miða við árið, sem leið, og það er rétt. Það verður þá að miða við árið, sem er að líða, og það er líka rétt, að svo miklu leyti sem nokkuð er hægt að miða við. Og það er ekki hægt að segja til um árið, sem nú er að líða, það er hægt að byrja rannsókn, það er hægt að byrja að skoða nýju sjónarmiðin, en það er ekki hægt að fá úrslitin, fyrr en nokkuð er liðið á þennan mánuð og jafnvel ekki fyrr en undir áramót. Þetta er vandinn, sem við er að etja. Ég veit ekki, hvort hv. 11. landsk. á frystihús, má ég biðja hann að grípa fram í. Rekur hann frystihús? (LJós: Já.) Má ég þá spyrja hann, hvort hann sé búinn að skila frá sínu frystihúsi reikningum um afkomuna? Er hann búinn að skila reikningum um afkomu síns frystihúss á árinu 1955? (LJós: Nei.) Ég bjóst við því. Vill hann ekki skreppa heim og skrifa þá reikninga, svo að ég viti, hvað hann hefur grætt eða tapað, svo að okkar sérfræðingar geti dæmt um, hvað þarf að bæta upp hjá útveginum? Þarna situr annar frystihúsaeigandi, hv. þm. Snæf. (SÁ). Er hann búinn að skila? Má ég spyrja hann? (Gripið fram í.) Ætli að hann svari ekki neitandi? Ég veit það ekki. Þetta er vandinn, sem við er að etja. Það eru kannske fleiri frystihúsaeigendur hér. Ég hlutaðist til um það nýverið, að þeim væri skrifað og bent á, að það væri búið viku eftir viku að ganga á eftir þeim, og fyrr en fyrir lægju skýrslur frá þeim, væri ómögulegt fyrir neina ríkisstj. að mynda sér hugmynd um, hvað þyrfti að bæta útveginum þannig að rekstrargrundvöllur væri, og ég sagði: Þið skuluð þá fá að vita það svart á hvítu frá ríkisstj. landsins, að það eruð þið, sem berið ábyrgð á því, að bátaflotinn og togaraflotinn liggja í höfn. — Þarna situr sökudólgurinn. Hann hefur sagt, að hann fáist ekki til að skila. Hinn hefur ekki sagt neitt um það. Ég veit það ekki, en ég veit, að ef skýrslurnar eru komnar, þá er það a. m. k. ekki fyrr en í gær. Við höfum heyrt frá sumum frystihúsum að þau geti borgað 45 aura eða upp í 50 aura fyrir fiskinn. Við höfum heyrt, að sjómennirnir ætli að heimta kr. 1.47. Ég veit ekkert, hvað stendur á bak við þetta. Það munar bara einni krónu, sem ríkissjóður á þá að leggja fram á kíló af þorskinum. Nú á ég að segja: Já, auðvitað. — Ég er í ríkisstj., og ég get fengið skammir frá stjórnarandstæðingum, ef ég hef ekki mínar till. alveg tilbúnar. Ég á þess vegna að koma til þings og segja: Króna á kílóið af þorski. — Og þeir segja: Rök. — Ja, rök, hvað varðar mig um rök? Sjómennirnir vilja 1.47, og frystihúsin segjast geta borgað 50 aura og rökin koma mér ekkert við. Ég á bara að standa fyrir svörum, bátarnir mega ekki bíða, og ég fæ skammir frá höfðingjunum á þingi, ef ég hef ekki allt tilbúið.

Því segi ég það, að þetta eru kappar í lagi, þessir karlar, en þeir skilja kannske eitthvað núna, hvað þeir eru að þvæla. Það er erfitt að tala með fullri þinglegri kurteisi við svona fólk. Mér var sagt, að það hefði verið sagt um einn þm. hérna um daginn, að það væri skömm að því, að á Alþ. væri maður, sem vissi svona lítið. Ja, þeim er bara að fjölga, sem vita lítið.

Ekkert man ég nú, hvort sú hágöfuga, hæstv. ríkisstj., nýsköpunarstjórnin, lenti nokkurn tíma í því að hafa ekki till. tilbúnar í útvegsmálum, enda var þá ekki eins ástatt, en eitthvað rámar mig nú í, að einhvern tíma yrðum við síðbúnir með sumt, sem þurfti að gera, og dregur það ekki úr mínu mati á þeirri mætu stjórn. En ég hef bara gaman af að vita það, af því að ég veit, að hv. 2. þm. Reykv. er mjög minnugur maður, hvort hann gæti mér til leiðbeiningar minnt mig á núna á eftir, hvort nokkur ríkisstj. hafi haft tilbúnar till. þann 16. des. um úrræði sjávarútveginum til handa. Ég man þetta ekki, en mig minnir, að það sé ekki.

Ég býst ekki við, að ég geti fengið þá þm., sem hér hafa deilt harðast á ríkisstj., til þess að játa, að þeir hafi beitt stjórnina ósanngirni í þessum ádeilum. En ég vil biðja aðra hv. þm. að vera þess minnuga, að eðli málsins er það, að sérhver ríkisstj. verður ævinlega síðbúin, af því að upplýsingarnar, sem hún verður að byggja á, eru líka eðli málsins samkvæmt síðbúnar. Það er svo örðugt að fá rétta mynd af ástandinu fyrr en svo seint, að af því hljótist einhver stöðvun. Það er þess vegna, sem ég hef lagt ríka áherzlu á, eftir að ég frétti um það, að reyna að hindra, að togaraflotinn stöðvist, en hef rekið mig þar á harðvítuga andstöðu hv. 11. landsk. og kannske ýmissa annarra, og ég veit ekki, hvernig það fer, en eðli málsins er nú þetta.

Ég held, að ég hafi nú í meginatriðum getað komið að þeim kjarna, sem mestu varðar, og hirði ég þá ekki að lengja umr. með mörgu, sem ég skrifaði mér til leiðbeiningar, þegar hv. þm. voru að tala. En út af þeirri kröfu, sem hv. 5. landsk. (EmJ) bar fram og var áréttuð af hv. 2. þm. Reykv. um, að upplýsingar sérfræðinganna, sem kallað var, væru jafnóðum lagðar fyrir þm., þá er bezt, að menn fái rétta mynd af því, sem gerzt hefur.

Ég held, að það hafi verið annaðhvort fyrir þingbyrjun eða alveg í byrjun þings, að ríkisstj. óskaði eftir því við fjóra hagfræðinga, að þeir reyndu að gera sér sjálfum og ríkisstj. til leiðbeiningar grein fyrir ýmsum fyrirbrigðum á sviði athafna- og fjármálalífs þjóðarinnar, en jafnframt var svo hafin vinna þeirrar n., sem á undanförnum árum hefur átt sérstaklega í samningum við útgerðarmennina eða Landssambandið. Nú er það staðreynd, að störfum þessarar síðarnefndu n. seinkaði nokkuð einmitt vegna starfa fyrrnefndu n. Það var ekki talið nauðsynlegt, að báðar væru samtímis að fást við sömu verkefnin, og var talið rétt, að síðari n. biði, þar til fyrir lægju nokkru nánari upplýsingar fyrri nefndarinnar.

Nú heimta menn þessar upplýsingar. Þær eru að sumu leyti í höndum ríkisstj. og að sumu leyti ekki, einfaldlega af þeim ástæðum, sem ég áðan gat um, að upplýsingarnar frá útvegsmönnum og sérstaklega frá frystihúsunum hafa ekki legið fyrir.

Nú segi ég, að menn eins og hv. 2. þm. Reykv. geti tæplega lagt mikið upp úr að fá fróðleikinn frá þessari sérfræðinganefnd. Hann segir um það sjálfur, að það sé ekkert mark takandi á sérfræðingunum og þeir reikni allt til andskotans, eins og hann orðaði það. En ég get tæplega tekið hátíðlega áskoranir þm. um upplýsingar frá mönnum, sem þeir lýsa yfir að sé ekkert að marka hvað segi.