27.03.1956
Neðri deild: 97. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í C-deild Alþingistíðinda. (2022)

192. mál, hnefaleikar

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Með nál., sem birt er á þskj. 607, er birt bréf frá Íþróttasambandi Íslands. Mælir stjórn þess gegn samþykkt frv. Ekki eru þó færð bein rök gegn því í bréfinu. Kemur fram í bréfinu, að um þetta mál er deilt í íþróttasamböndum nágrannalanda okkar, þ. e. meðal íþróttamanna þar. Ég hef hins vegar séð samróma álit lækna í mörgum löndum, sem ber saman um skaðsemi þessa leiks. Ég hef ekki séð neinn lækni mótmæla þessu í neinu af þeim læknatímaritum, sem ég hef séð. Er ekki vafi á, að læknar eru bærari að dæma um óhollustu þessa leiks og þá áverka, sem fylgja í kjölfar hans, heldur en íþróttamenn. Nefndinni hefur því þótt rétt, þrátt fyrir þessi mótmæli Íþróttasambandsins, að mæla með samþykkt frv. Hannibal Valdimarsson hefur þó skrifað undir nál. með fyrirvara, en einn nm., Jónas Rafnar, var fjarstaddur afgreiðslu málsins.