23.11.1955
Sameinað þing: 17. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (2115)

55. mál, alþýðuskólar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal ekki ræða efnislega um þá till., sem hér liggur fyrir, og skal játa, að ég man ekki nákvæmlega, hvernig orð féllu um svipaða tillögu í fyrra, sem var þó nokkuð annars eðlis. En mér þykir rétt að vekja athygli á því, að samkvæmt yfirlýsingu hv. frsm., sem einnig er 1. flm., felst nokkuð annað í till. en berum orðum segir. Með leyfi hæstv. forseta, segir í till.: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að undirbúa löggjöf um stofnun eins eða fleiri æskulýðsskóla með lýðháskólasniði“ o. s. frv. Samkvæmt þeirri yfirlýsingu, sem hv. frsm. gaf hér áðan, felst ekki annað í þessu en að ríkisstj. láti fara fram athugun á því, hvort heppilegt sé að gera þessar ráðstafanir. Ég hef ekkert á móti því að láta slíka athugun fara fram, ef það er ósk hv. Alþingis. Hitt get ég auðvitað ekki skuldbundið mig til að gera, að leggja fram frv. um málið, ef ég að athugun lokinni kemst að þeirri niðurstöðu, að það sé óheppilegt að breyta skólalöggjöfinni í þá átt, sem till. ætlast til. Ég hefði að vísu fremur kosið, að till. væri öðruvísi orðuð, að það væri beint tekið fram í till., að einungis væri um athugun að ræða af hálfu ríkisstj. En eftir hina ótvíræðu yfirlýsingu hv. frsm. tel ég ekki ástæðu til að setja þetta miður heppilega orðalag fyrir mig og hef ekkert við till. að athuga með þessum skilningi, en játa, að ég hefði talið hitt orðalagið eðlilegra, og vil nú skjóta því til hv. frsm., hvort ekki væri réttara að fá málið tekið út af dagskrá og nefndin breytti orðalagi till. í samræmi við yfirlýsingu hans sjálfs.