19.10.1955
Sameinað þing: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (2140)

40. mál, kjarnorkumál

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Sú alþjóðaráðstefna um hagnýtingu kjarnorkunnar til friðarþarfa, sem haldin var í ágústmánuði í sumar að tilhlutan Sameinuðu þjóðanna, verður vafalaust talin með merkustu viðburðum ársins. Á ráðstefnu þessari munu hafa verið fulltrúar frá rúmlega 70 ríkjum. Vísindamenn margra þjóða lögðu þar fram skýrslur um rannsóknir, sem unnið hefur verið að á síðustu árum, og mun þar hafa verið birt margt og merkilegt viðkomandi kjarnorkurannsóknum, sem áður var haldið vandlega leyndu.

Stóru þjóðirnar hafa á síðustu árum varið miklum fjármunum til rannsókna á þessu sviði og kjarnorkuver hafa verið reist og eru í smíðum. Íslendingar hafa að sjálfsögðu ekki möguleika til að framkvæma kostnaðarsamar rannsóknir, en þeir tóku þó eins og aðrar þjóðir í félagsskap Sameinuðu þjóðanna þátt í ráðstefnunni í sumar með því að senda fulltrúa þangað. Hafa þeir íslenzku fræðimenn, sem voru á ráðstefnunni, birt opinberlega í blöðum nokkuð um það, sem þar kom fram. Af þeim og öðrum frásögnum er ljóst, að aðrar þjóðir vinna nú að merkilegum rannsóknum í þessum efnum og framkvæmdum, sem fyllsta ástæða er til fyrir okkur Íslendinga að fylgjast vel með og reyna að hagnýta okkur eftir því sem unnt er.

Það er álit þeirra íslenzkra manna, sem mesta þekkingu hafa á þessum hlutum, að ýmsar nýjar uppgötvanir vísindanna mætti nota hér á landi í þágu atvinnuveganna. T. d. hefur annar þeirra eðlisfræðinga, sem áttu sæti á ráðstefnunni af Íslands hálfu, látið uppi, að framleiðsla á þungu vatni við jarðhita kynni að geta orðið arðvænlegur atvinnuvegur hér á landi. Rætt hefur verið um fleiri nýja möguleika til arðvænlegrar stóriðju hér.

Á síðasta þingi var kosin milliþn. til að gera till. um nýjar atvinnugreinar og hagnýtingu náttúruauðæfa. Virðist sjálfsagt, að sú nefnd athugi þessa og aðra nýja möguleika til að koma hér upp stórum iðnaðarfyrirtækjum. En ýmislegt nýtt hefur komið fram einmitt í sambandi við kjarnorkuráðstefnuna í sumar, sem fyllsta ástæða er til fyrir okkur að gefa gaum, en ekki er hægt að telja að sé á verksviði mþn., sem kosin var á síðasta þingi. Svo er t. d. um notkun tilbúinna geislavirkra efna til ýmiss konar rannsókna í þágu atvinnuveganna og til sjúkdómsgreiningar og lækninga. Hér er um svo merkilegar nýjungar að ræða, að fyllsta ástæða er fyrir okkur ekki síður en aðrar þjóðir að athuga til hlítar, hvort og hvenær unnt er að hafa gagn af nýjungunum hér á landi. Við höfum því nokkrir þm. leyft okkur að flytja till. um þetta mál, sem liggur hér fyrir á þskj. 45.

Þar er lagt til, að ríkisstj. verði falið að láta fara fram rækilega athugun á því, hverjir möguleikar eru til hagnýtingar kjarnorku og geislavirkra efna hér á landi í þágu atvinnuveganna og til lækninga. Enn fremur er stjórninni falið að gera ráðstafanir til, ef hún kemst að þeirri niðurstöðu við athugun málsins, að það sé hagkvæmt, að sérstök stofnun verði látin fylgjast með nýjungum í þeim efnum og falið að hafa með höndum rannsóknir og forgöngu um framkvæmdir, eftir því sem gagnlegt þykir og viðráðanlegt er. Það getur að sjálfsögðu komið til mála, að heppilegt þyki að fela það stofnun, sem nú er til, t. d. rannsóknaráði ríkisins, að fylgjast með þessum nýjungum, en hitt getur einnig komið til mála, að sett verði á fót einhver sérstök stofnun, sem hafi þetta verkefni með höndum. Við flm. ætlumst til þess, að hæstv. ríkisstj. taki til athugunar, hver aðferð sé heppilegust í því efni.

Ég mun ekki lengja mál mitt um þetta. Það er ekki heldur mikils fróðleiks að vænta frá ólærðum mönnum um þessi viðfangsefni vísindanna. En till. er fram borin til að vekja athygli á þessu stóra máli, og allir ættum við að geta orðið sammála um nauðsyn þess fyrir okkur að fylgjast sem bezt með nýjungunum og hagnýta okkur þær svo fljótt sem unnt er.

Ég legg til, að till. þessari verði vísað til síðari umr., þegar þessari er lokið, og til nefndar. Og þó að það geti verið álitamál, til hvaða nefndar till. á að fara, þá held ég þó, að ég leggi til, að það verði allshn., sem fái till. til athugunar. Þó að framkvæmdir í þeim efnum, sem hér er um að ræða, kunni að kosta fjárframlög, þegar þar að kemur, eins og fastlega má gera ráð fyrir, þá mundi hæstv. ríkisstj. að sjálfsögðu afla sér heimildar til fjárframlaga í því sambandi, þegar málið er komið á það stig, að þörf sé fyrir slíkar heimildir. Annars geri ég það ekki að neinu ágreiningsefni, ef aðrir teldu heppilegra, að till. færi til fjvn., en legg til að svo stöddu, að allshn. fái till.