07.03.1956
Sameinað þing: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (2217)

171. mál, endurbætur á aðalvegum

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til þess að þakka fjvn. fyrir afgreiðslu þessa máls og með hverjum hætti hún hefur afgreitt það. Ég tel, að því máli, sem hér um ræðir, hafi skilað allverulega áleiðis í þeirri mynd, sem það nú er komið.

Við höfum nú á tveimur þingum, sjálfstæðismenn eða flm. þáltill. á þskj. 29, flutt tillögur um að rannsaka og hefjast handa um að gera aðalakvegi landsins úr varanlegu efni, og eins og fram kemur í skjölum þessa máls, hafa bæði fyrr og síðar verið margvíslegar till. um þetta mál á döfinni, og einnig er nú í meðferð fjvn. sameinuð önnur till. í þessu máli, sem flutt var á þskj. 74.

Það er trú mín, að þegar nú verður hafizt handa í ríkari mæli en áður, að samþykktri till. eins og hún er nú orðuð af fjvn„ sé þess að vænta, að þessum málum muni geta skilað mikið áleiðis. Það hafa á síðari árum orðið miklar stökkbreytingar bæði varðandi umferðina og tæknina, og það er full ástæða til þess að ætla, að svo kunni einnig að verða í nánustu framtíð. Í ágætum álitsgerðum vegamálastjóra, sem hann hefur látið fjvn. í té, koma fram ýmsar upplýsingar og ábendingar í þessu máli, en það kann einnig að reynast svo, að það sé enn í dag margt dulið, sem í allra nánustu framtíð muni koma í ljós í þessum málum og gera auðveldari framkvæmd þessa mikilvæga máls heldur en okkur er nú ljóst. Það er ósköp eðlilegt, að það komi fram bæði hjá fjvn. og vegamálastjóra í hans upplýsingum, að kostnaðurinn sé, eins og nú horfir, gífurlega mikill við að gera helztu akvegina úr varanlegu efni, en að sjálfsögðu má spyrja, eins og reyndar kemur fram bæði í grg. frsm. nefndarinnar, hv. þm. Borgf., og í álitsgerð vegamálastjóra: Hvað kostar það mikið að gera ekki þessar kostnaðarsömu framkvæmdir? Og um það fá menn nokkrar hugmyndir, þegar hugleitt er hið gífurlega mikla viðhald á ökutækjunum. Kemur fram í álitsgerð vegamálastjóra, að rekstrarkostnaður þeirra, sem stafar að sjálfsögðu ekki nema að nokkru leyti af hinum lélegu vegum, sé í heild á ári um 250 millj. ísl. króna. Á þetta lögðum við flm. till. á þskj. 29 sérstaka áherzlu, að með því að bæta stórum vegina með varanlegum slitlögum og á annan hátt, mundi sparast fé, sem ella fer í súginn, við það, að rekstrarkostnaður flutningstækjanna eða viðhaldskostnaður þeirra mundi stórum lækka.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, enda hefur hv. frsm. fjvn., þm. Borgf., gert mjög ljósa grein fyrir málinu, eins og það nú er komið. Ég tel, að fjvn. hafi farið skynsamlega að ráði sínu við að sameina þær tvær till., sem hún gerir, og við flm. væntum okkur góðs af því, að þetta mál verði nú tekið kannske fastari og öruggari tökum en áður hefur verið. Við höfum fyllilega viðurkennt, eins og fram kom í grg. okkar fyrir till. okkar á sínum tíma, að þróun þessara mála hafi á ýmsan hátt verið ör hjá okkur á undanförnum árum, enda þótt okkur hafi fundizt ástæða til að festa sérstaklega sjónir við þá hlið málsins, sem hér um ræðir, og gera betur í nánustu framtíð, ef þess væri nokkur kostur, en fram að þessu hefur verið gert.