03.11.1955
Sameinað þing: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (2273)

65. mál, fræðsla í þjóðfélags- og þjóðhagsfræðum

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Barð. taldi, að þessi till. bæri vitni um það. að Alþ. virtist ekki hafa mikið að gera. Við efrideildarmenn höfum orðið varir við það undanfarna daga, þó að við séum undir stjórn þessa ágæta þingmanns og hann sé viðurkenndur dugnaðarmaður, að við höfum ekki haft ýkjamikið að gera. En ég fullyrði þó, að þessi till. er alls ekki borin fram sökum þess, að við séum þar að útvega þinginu verkefni til að leika sér að, heldur er till. borin fram í fullri alvöru.

Hv. þm. Barð. fann þessari till. margt til foráttu og benti á, að hennar væri ekki þörf að hans áliti, því að það væri ekki annað en að fyrirskipa skólum landsins að taka upp kennslu í þeim efnum. sem till. fjallar um. En undarlegt er það, að hans flokkur hefur þó talið nauðsyn á því ár eftir ár að halda uppi námskeiðum til þess væntanlega að fræða menn frá sínu sjónarmiði um þessi mál, þannig að það virðist svo sem hv. þm. hafi ekki talið fræðslu skólanna fullnægjandi í þessum efnum. Það mætti að vísu herða á ákvæðum um skyldu skólanna. En í því sambandi langar mig til, þó að það ætti að vera óþarfi, að lesa 1. mgr. till., og hún er svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa þriggja manna nefnd, einn eftir tilnefningu Háskóla Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands og einn eftir tilnefningu Stéttarsambands bænda, til þess að kanna, hversu bezt verði komið við aukinni fræðslu fyrir almenning í þjóðfélags- og þjóðhagsfræðum, svo sem um ýmsa þætti þjóðskipulags-, efnahags-, félags- og verkalýðsmála.“

Hér er ekkert sagt um það, með hvaða hætti þetta eigi að vera. Nefndin á að kanna það. Það gæti vel verið, að þessi n. kæmi einmitt með tillögur um að taka upp aukna fræðslu í skólum landsins, öllum alþýðuskólum, því að þessi fræðsla þarf að vera fyrir allan almenning, en ekki einhverja útvalda. Það er ekkert í till., sem kemur í bága við það, að n. hafi fulla heimild til að gera tillögu um slíkt. Að vísu er önnur mgr. till. þannig: „Nefndin athugi, hvort námskeiðum um þessi efni verði ekki komið við á vegum Háskóla Íslands.“ Það stendur ekki í Háskóla Íslands, heldur á vegum Háskóla Íslands.

Bæði hv. þm. Barð. og eins hv. 3. landsk. þm. voru sammála um það, að menn hefðu nú ekki almennt í landinu aðstöðu til þess að sækja námskeið í háskólann. Við flm. áttum alls ekki við það, að slík námskeið þyrftu endilega að vera í háskólanum. Það mun vera svo úti um heim, að háskólar gangast fyrir námskeiðum víðar en í sínu húsnæði. Námskeið í þessum fræðum, sem Háskóli Íslands gengist fyrir og stjórnaði og legði sína fræðimenn til, til þess að fræða fólkið þar, gætu t. d. verið vestur í Ísafjarðarsýslu, í Barðastrandarsýslu og í Húnavatnssýslu og hvar sem væri, þyrftu ekki endilega að vera í háskólanum. Þó að till. yrði samþ. af þinginu, þá er þetta allt opið. Það er nefndarinnar að gera tillögur um það, hvernig þessari fræðslu, sem allir ræðumenn virðast vera sammála um að sé nauðsynleg, yrði bezt fyrir komið.

Hvað snertir skólana, að þessi fræðsla fari eingöngu fram í þeim, þá vék ég að því í minni fyrri ræðu, að það eru a. m. k. nokkur vandkvæði á því, að fullnægjandi fræðsla um þessi mál fari fram í skólunum. Og ég hygg, að annaðhvort sé hún léleg ellegar einhverjar aðrar ástæður til þess, að hún ber þar ekki mikinn árangur, því að það hef ég sjálfur orðið var við, að margt af fólki, sem ég hef átt tal við og heyrt tala, og ekki sízt ungt fólk, því miður verð ég að segja, sem þó er almennt séð vel að sér, kann t. d. tungumál, kann bókstafareikning og annað slíkt, veit furðulega lítið margt hvert um, hvaða störf fara fram á Alþingi, hvert er hlutverk Alþingis og hvernig stjórnarskipan landsins yfirleitt er. Þetta er nú sá sorglegi sannleikur, og ég efast ekkert um, að allir hv. alþm. hafa orðið varir við þetta, jafnvel þó að þetta sé sæmilega gefið fólk og vel að sér almennt séð.

Hv. þm. A-Húnv. minntist á það, að svipuð hugmynd hefði komið fram fyrir um það bil 20 árum, að fræða fólk meira um þessi efni en gert er með því að gefa út tímarit um þjóðfélagsmál. Ef ég man rétt, var sú till. um það, að flokkarnir gæfu í sameiningu út þetta tímarit og hver flokkur hefði þar ákveðið rúm til þess að halda fram sínum málstað. Náttúrlega var til þess ætlazt, að þær umræður færu fram á hóflegan og kurteisan hátt, og ég neita því ekki, að það gæti verið mikil bót að slíku tímariti. En tímarit, sem þannig fjallaði óhjákvæmilega um deilumál flokkanna, yrði ekki alhliða fræðsla um uppbyggingu þjóðfélagsins, og hvergi væri þar sennilega að finna hlutlausa fræðslu um það, heldur yrði lesandinn að bera saman það, sem kæmi frá hinum einstöku flokkum, og reyna svo að finna sannleikann út úr því, en um sjálfan grundvöll þjóðfélagsins yrði líklega lítið í því tímariti. En með þessu er ég þó ekki að segja, að þetta sé ekki góð hugmynd, og ég hygg, að ég hafi verið henni meðmæltur á sínum tíma, að slíkt tímarit kæmi út. En ég tel, að það mundi ekki nægja. Í þessu efni lízt mér fullt svo vel á hugmynd, sem komið hefur fram nú alveg nýlega og verið gerð tillaga um, — liggur fyrir hér á þingskjali, ef ég man rétt, — og það er till. um að gefa út Alþingistíðindin mjög ört, þannig að bæði þingskjöl og umræður verði til sölu fyrir almenning mjög stuttu eftir að t. d. þingræðurnar eru haldnar. Það yrði sjálfsagt til bóta, og gætu margir haft gagn af því og aukið þekkingu sína. Eins er það, að útdráttur úr þingræðum væri hafður með þingfréttum í útvarpi. Það mundi án efa vekja eftirtekt margra. En þetta næði þó aldrei til allra og ekki nægilega margra. Ég hygg, að frekari aðgerða sé þörf.

Ég held, að hv. 3. landsk. þm. hafi misskilið mig í minni fyrri ræðu. Ég talaði aldrei um, að það væri þörf á ráðherraprófi eða heldur þingmannaprófi. Þó að ráðherrar hafi verið misjafnir og auðvitað megi deila um ýmsa þá, sem setzt hafa í það sæti, þá verð ég þó að ætla, að það hafi enginn sá ráðherra verið á Íslandi, sem hafi ekki vitað um helztu atriði viðvíkjandi því, hvernig þjóðfélagið er rekið, og yfirleitt það, sem þessi till. fjallar um. Og ég hygg, að það hafi enginn þingmaður setið á Alþingi enn sem komið er, sem hafi ekki vitað skil á þessu.

Það, sem ég minntist á, voru kjósendurnir, sem eru undirstaðan undir öllu saman. Ég var ekki að stinga upp á neinu prófi, en ég benti aðeins á, að til þess að keyra bíl þyrfti próf og til þess að stjórna litlum bát þyrfti próf, en til þess að leggja grundvöllinn að stjórn landsins, en það gera kjósendurnir, væri ekki áskilin nein sérstök þekking. Ef það færi að sýna sig, að skipaðir væru menn í ráðherrastöður, sem t. d. vissu ekki að Alþingi hefði löggjafarvald og ráðherrarnir og embættismenn, sem undir þá eru settir, framkvæmdarvald og dómararnir dómsvald, þá kynni að vera þörf á því að fara að setja upp ráðherrapróf. Og ef þingmenn væru til, sem vissu þetta ekki, þá kynni að vera þörf á því að setja upp próf fyrir þá. En ég hygg, að enn sem komið er sé ekki þörf á því. En ég fullyrði, að til er fólk í landinu, sem veit þetta ekki, og eru það þó kjósendur til Alþingis.