27.03.1956
Sameinað þing: 50. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (2360)

181. mál, umbætur í sjávarútveginum

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Till. sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 467, gerir ráð fyrir því, að Alþ. kjósi 5 manna mþn. til þess að athuga, hvaða tæknilegar og viðskiptalegar umbætur væru líklegastar til þess að bæta hag útgerðarinnar og þar með að draga úr aðstoð þeirri, sem ríkið hefur í vaxandi mæli þurft að veita þessari atvinnugrein.

Það er þarflaust að fara hér að rekja vandamál útvegsins almennt. Það er hér áður margrætt og öllum hv. þm. kunnugt, að þar hefur verið við vaxandi erfiðleika að stríða, sem hafa leitt það af sér, að Alþ. hefur orðið að gera sérstakar ráðstafanir um aukna aðstoð til þessa undirstöðuatvinnuvegar í þjóðfélaginu.

Það má að vísu segja, að það sé oft nokkuð villandi um það talað að styrkja sjávarútveginn, þegar þess er gætt, að sjávarútvegurinn gefur þjóðinni meginhlutann af útflutningsverðmætum hennar, og það liggur í augum uppi, að afkoma þjóðarinnar á hverjum tíma hlýtur að miðast við afkomu framleiðsluatvinnuveganna. Það mætti því nánast segja, að það væri í ríkara mæli, sem hefði orðið að afhenda sjávarútveginum aftur það fé, sem af honum hefði verið tekið í þjóðarbúið umfram það, sem hann getur raunverulega af hendi látið sem beinan afrakstur af þessari starfsemi.

En hvað sem þessu líður, blasir hitt við augum og verður ekki fram hjá því gengið, að þessar fjárveitingar hefur orðið að auka mjög og nú nýlega orðið að gera sérstakar ráðstafanir, sem hafa haft í för með sér miklar skattaálögur á þjóðina, til þess að koma í veg fyrir, að útflutningsframleiðslan stöðvaðist.

Þessar staðreyndir hljóta að valda því, að menn beini að því huga, hvort úrræði séu fyrir hendi til þess að bæta með einhverju öðru móti afkomu þessarar atvinnugreinar og þar með draga úr þessum miklu beinu fjárveitingum til hennar.

Ég hygg, að óhætt sé að fullyrða, að útvegsmenn, bæði bátaútvegsmenn og togaraútgerðin, hafi að undanförnu haft fullan hug á því að taka ýmsar nýjungar til afnota í atvinnuveginum, með það í huga að koma þar að betri hagnýtingu, og jafnframt, að það hafi verið leitazt við að reka þessa atvinnugrein eftir föngum hagkvæmt. Engu að síður eru ýmis atriði í þessu máli, sem gefa bendingu um það, að e. t. v. mætti koma hér við betri rekstri á ýmsum sviðum og auknum sparnaði, og enn fremur það, að mjög skjótar nýjungar gerast í sjávarútvegi eins og í öðrum atvinnugreinum. Og það mætti ætla, að það mundi vera líklegra til árangurs, ef opinber aðili rannsakaði þetta eða gerði á því heildarathugun, hvaða nýjungar helzt kæmu hér til greina, heldur en þó að einn og einn atvinnurekandi á þessu sviði gerði með þetta tilraunir, enda oft og tíðum um slíkar nýjungar það að segja, að tilraunir með þær eru það dýrar, að naumast er hægt fyrir einstakan útgerðarmann að leggja út í slíkt.

Í þessari till. felst í rauninni þetta tvíþætta verkefni, sem n. þeirri, sem um getur, er ætlað að athuga, annars vegar að rannsaka, hvaða nýjungar kynnu að vera tiltækilegar til að bæta rekstrarafkomu útvegsins, og í annan stað að rannsaka einnig gaumgæfilega, hvernig hagað er rekstri útvegsins og þeirra stofnana, sem í tengslum við hann eru og njóta opinberrar aðstoðar, til þess að það liggi ljóst fyrir þjóðinni, sem hún enda á fulla kröfu til, að ekki sé um að ræða, að hærri kröfur séu gerðar um aðstoð til handa þessari atvinnugrein en brýnasta þörf er á.

Fjvn. hefur tekið mál þetta til athugunar og telur, að hér sé um mál að ræða, sem sé þess virði, að það sé gaumgæfilega athugað og að þessi rannsókn fari fram, sem till. gerir ráð fyrir. Leggur því n. einróma til, að till. verði samþ. svo sem hún liggur fyrir á þskj. 467.