18.11.1955
Sameinað þing: 15. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (2390)

79. mál, milliliðagróði

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég býst við því, að ýmsum fleiri en mér hafi brugðið alleinkennilega í brún, þegar þeir sáu framan í þessa till., sem hér er til umræðu. Menn munu hafa minnzt þess, að fyrir nokkru var boðað með mikilli viðhöfn í Morgunblaðinu, að hæstv. dómsmrh. ætti að mæta á Varðarfundi og leggja út af efninu: Milliliðastarfsemin í íslenzku efnahagslífi. Og ég býst við, að mönnum hafi dottið í hug, hverjar niðurstöður ráðherrans yrðu, þegar hann lagði út af þessu efni. Ég geri ráð fyrir, að menn muni, að hæstv. dómsmrh. skýrgreindi þar loksins það fyrirbæri í íslenzkum stjórnmálum, sem hingað til hefur verið kallað Sjálfstæðisflokkur. Og það er í fyrsta skipti, sem nokkur skýrgreining hefur fengizt á þessu fyrirbæri stjórnmálanna.

Í ræðu sinni, sem prentuð var í Morgunblaðinu, skýrgreindi hæstv. dómsmrh. Sjálfstfl. sem flokk milliliðanna, og hann komst að þeirri spaklegu niðurstöðu, að Íslendingar hefðu alloftast lifað við sult og seyru, eymd og fátækt, á meðan þeir bjuggu við, eins og hann kallaði það, milliliðalaust þjóðfélag, og að velmegun hafi þá fyrst þekkzt í þessu þjóðfélagi, þegar milliliðir fóru að láta til sín taka og mala þjóðinni blessun sína.

Þegar svo fram er borin till. hér á Alþ. af þingmönnum Sjálfstfl. um, að skipa skuli nefnd sérfróðra manna til að rannsaka þátt milliliða í framleiðslukostnaði þjóðarinnar, og þar með gefið í skyn, að þessir milliliðir séu ekki framleiðslunni betri eða þjóðinni nauðsynlegri en sjálf framleiðslan, þá hygg ég, að ýmsum hafi dottið í hug, að oft hafi verið sett met í fláttskap, bæði hér á þingi og annars staðar, en þó mundi þetta nýja fláttskaparmet slá öll hin eldri út. Og af þessari till. og þeim orðum, sem fyrir henni voru mælt, fæ ég ekki betur séð en að þannig sé þessu varið, að hér sé eins og venjulega í baráttu Sjálfstfl. farið eftir reglunni: „Fagurt skal mæla, en flátt hyggja“. Það hefur til þessa verið lífsregla Sjálfstfl. og mun verða enn. Og nú skal ég í örfáum orðum athuga nokkru nánar þessi ummæli.

Við skulum þá byrja á því að gera okkur grein fyrir, hverjir séu milliliðir t. d. í framleiðslu sjávarútvegs. Milliliðirnir í þessari starfsemi eru að sjálfsögðu þeir, sem starfa á milli frumframleiðenda, þ. e. a. s. sjómannanna, og kaupanda vörunnar, þ. e. a. s. kaupandans á erlendum markaði fyrst og fremst. Hverjir eru þessir milliliðir?

Það er að sjálfsögðu ekki ástæða né tími til að telja þá alla upp, en nokkra skal ég nefna. Það eru í fyrsta lagi olíufélögin. Það eru í öðru lagi allir þeir, sem flytja inn rekstrarvörur til sjávarútvegsins og þær vörur, sem hann þarf að nota til að fullgera sína vöru og koma henni á erlendan markað. Og það eru í þriðja lagi þeir, sem flytja vöruna út.

Nú skulum við athuga, hvernig Sjálfstfl. hefur búið að þessum milliliðum og hvernig hann hefur blátt áfram haldið verndarhendi sinni yfir þeim að undanförnu í fullu samræmi við þá skoðun hæstv. dómsmrh., að þetta væru máttarstoðir þjóðfélagsins og að þetta þjóðfélag hefði alltaf lifað við sult og seyru og mundi sennilega alltaf gera, ef ekki væru milliliðir til að mala þjóðinni gull. Sjálfstfl. hefur unnið ýmis afrek á þessu sviði. Hann hefur í fyrsta lagi beitt sér mjög eindregið fyrir að gefa álagningu frjálsa á öllum þeim sviðum, sem hann þorði að gera það. Og hvað þýddi það að gera álagningu frjálsa? Það þýddi auðvitað það, að þeim, sem flutti inn vörur, t. d. handa sjávarútvegi eða hvaða annarri framleiðslugrein sem er, var frjálst að leggja á hana að eigin vild, en það að leggja í síauknum mæli á vöruna, sífellt meira og meira, þýddi að sjálfsögðu það, að minna kom í hlut framleiðandans. Hann hefur einnig beitt sér fyrir því mjög öfluglega að viðhalda einokun á útflutningi sjávarafurða. Það væri langt mál að gera grein fyrir því, hvernig þessi einokun er framkvæmd, en það vitum við allir, að hún er algerlega eftirlitslaus. Einokunarhringarnir, sem flytja út fisk, gefa sjálfir upp, hvaða verð þeir muni fá fyrir fiskinn á erlendum mörkuðum, og það er aldrei rannsakað, hvort þeir fá þetta verð, sem þeir gefa sjálfir upp, eða eitthvert annað verð. Það vita allir, að einokunarhringarnir, sem Sjálfstfl. hefur haldið verndarhendi sinni yfir og flutt hafa út fisk á undanförnum árum, hafa tekið það af útflutningsverði fisksins, sem þeim sjálfum sýndist, og lagt sumt að minnsta kosti í alls konar kostnað erlendis, sem þeir sjálfir vildu, þ. e. a. s. að koma upp eigin dreifingarkerfi. Það vita allir, að þessir hringar eiga víða um lönd miklar eignir í dreifingarkerfi, sem þeir hafa komið upp til að geta skapað sjálfum sér aðstöðu til að selja fiskinn þar í smásölu.

Þetta hefur verið varið af Sjálfstfl., og það hefur verið reynt að telja fólki trú um, að þetta væri ákaflega skynsamleg, eðlileg og heppileg ráðstöfun. En ég spyr: Hvernig mundi Íslendingum falla það, ef erlendir menn vildu ekki selja þeim vörur, nema þeir mættu sjálfir koma upp eigin dreifingarkerfi í okkar landi og banna íslenzkum mönnum að selja erlendar vörur á Íslandi, allt með það fyrir augum að reyna að ná sem mestu í sinn vasa, og hafa sjálfir í sínu heimalandi algerlega frjálsar hendur um að ákveða það, hve miklu af þessum auði, sem þeir fengju á Íslandi, þeir skiluðu þjóð sinni eða greiddu skatta af? En þetta er kjarni einokunarverzlunar á Íslandi í útflutningsverzluninni.

Sjálfstfl. hefur haldið verndarhendi sinni yfir öllum þessum milliliðum, og hann gerir það enn. Þess vegna hlýtur manni að verða það á, þegar sami flokkur kemur hér og biður um rannsókn á þessari milliliðastarfsemi, að hugsa sem svo: Þetta er fláttskapur einn og ekkert annað. Þetta er til að sýnast og ekkert annað. Þetta er flutt í blekkingarskyni, en til einskis annars.

Og enn skal ég bæta við einni sönnun í þessu efni. Í niðurlagi till. er svo að orði komizt, að það skuli leitazt við að hraða þessari rannsókn svo, að álitsgerð liggi fyrir, er næsta reglulegt Alþingi kemur saman. Og hv. 1. flm. þessarar till., hv. þm. N-Ísf., undirstrikaði það í ræðu sinni, að þetta þyrfti að gera og þetta yrði að gera, en hann teldi, að ekki mundi vera hægt að ljúka rannsókninni fyrr en í október n. k.

Ég er sannfærður um, að hv. þm. N-Ísf. er ekki svo algerlega fákunnandi um þessi mál, að hann viti ekki, hvert óhemjuverk hér þyrfti að vinna, ef þessa till. ætti að framkvæma eitthvað nálægt orðalagi hennar, ekki sízt þar sem því er nú við bætt, að þessi n. skuli afla sér ýtarlegra gagna um sams konar ástand víðs vegar í öðrum löndum og bera þetta allt saman, saman. Mér dettur ekki í hug, að hv. þm. N-Ísf. sé svo fákunnandi um þessa hluti, að hann viti ekki eða geti ekki gert sér nokkurn veginn grein fyrir því, að hér væri ekki um mánaðavinnu að ræða, heldur áravinnu, ef hún ætti að vera nákvæm og ýtarleg, eins og hann lagði mikla áherzlu á, því að hann sagði m. a. orðrétt svo: „Þessi rannsókn er gagnslaus, ef hún er ekki ýtarleg.“ Og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Undir það vil ég taka. Þessi rannsókn er gagnslaus, ef hún er ekki ýtarleg. En þessi rannsókn getur ekki orðið ýtarleg, nema það sé einhver skynsamlegur tími ætlaður til hennar, og einmitt það, að hér er ekki ætlaður neinn skynsamlegur tími til að framkvæma þessa rannsókn, sýnir það, að flutningsmenn ætlast ekki til þess, að hún sé ýtarleg. Þeir ætlast þvert á móti til þess, að hún sé flaustursleg úr hófi fram og að því einu sé slegið föstu, að ræða Bjarna Benediktssonar, hæstv. dómsmrh., hafi við rök að styðjast, hún sé rétt, niðurstöðurnar, sem hann komst að, séu öldungis hárréttar, milliliðirnir séu undirstaða velgengninnar í íslenzku þjóðfélagi, en ekki framleiðsla þjóðarinnar.

Ég hef hér aðeins nefnt örfá atriði til þess að sýna fram á, að ég þykist hafa ástæðu til að gruna flutningsmenn þessarar till. um fláttskap. Auðvitað gæti ég nefnt mörg fleiri atriði og mörg fleiri dæmi, en þess ætti ekki að gerast þörf. Það er of auðvelt að sjá í gegnum þá grímu, sem Sjálfstfl. er hér að draga á andlit sitt.

Hv. þm. N-Ísf. sagði í ræðu sinni, að þetta væri fyrsta till., sem flutt væri hér á Alþ. um að rannsaka þátt milliliðanna og starfsemi þeirra í íslenzku þjóðfélagi og að aðrir þm. hefðu látið sér nægja að fara með dylgjur og brigzl um það, að milliliðaokur ætti sér stað í þjóðfélaginu, en ekkert viljað gera til að láta rannsaka það. Nú vil ég benda þessum hv. þm. á, að á síðasta þingi fluttum við þm. Þjóðvfl. hér till. um, að upp yrði tekið verðlagseftirlit og því falið að draga úr milliliðakostnaði og ákveða verðlag í landinu. Þetta var flutt á þeim tíma, þegar það gat ráðið örlögum og réð sennilega örlögum í íslenzku þjóðfélagi, hvort reynt var að snúa við verðbólguhjólinu og fara að lækka og draga úr dýrtíðinni eða spenna hana upp á nýjan leik. Þá hélt hæstv. ríkisstj. að sér höndum og hv. þm. N-Ísf. líka.

Hann mælti ekki eitt orð, þessi hv. þm., þá þessari till. til framdráttar eða stuðnings, og hann hreyfði ekki fingur til þess að koma henni áfram hér í þinginu. En hvað er verðlagseftirlit? Það er fyrst og fremst rannsókn á milliliðagróða. Það er fyrst og fremst rannsókn á því, hvað milliliðirnir taka og hvað þeir þurfa að taka, og það er í öðru lagi ákvörðun á því, að þeir skuli taka ákveðinn hlut, þ. e. a. s. þann hlut, sem rannsóknin leiðir í ljós að sé þeim nægilegur og framleiðslunni ekki um megn.

Þá var enginn vilji hjá Sjálfstæðisfl. til þess að framkvæma rannsókn á milliliðagróðanum, enginn vilji til að draga úr honum, ekki nokkur minnsti vilji, þó að þeir vissu það og sæju og þættust boða það í öðru orðinu, að það gæti og hlyti að ráða örlögum í efnahagsmálum íslenzku þjóðarinnar, hvort þarna var reynt að bregða við fæti og draga úr eða halda áfram að spenna upp og eyðileggja efnahagskerfi þjóðarinnar.

En nú koma þessir sömu hv. sjálfstæðismenn og segja, að það vaki fyrir sér, að þjóðin fái að vita sannleikann í þessum efnum og að flutningsmenn vilji ganga hiklaust til verks, sagði hv. þm. N-Ísf. Ja, það er orðið mikið breytt ástandið í Sjálfstfl., ef þessi ummæli hv. þm. N-Ísf. eru sannleikanum samkvæm, ef sjálfstæðisflokksmennirnir meina þetta í alvöru. Ef þeir flytja þessa till. af einlægni, en ekki fláttskap, þá er ástandið orðið áreiðanlega mikið breytt í herbúðum Sjálfstfl. frá því, sem það var á síðasta þingi. Hins vegar skyldi ég fagna því manna mest, ef svo væri. Ég skal taka kröftuglega undir það með hv. þm. N-Ísf., að það er þörf á slíkri rannsókn sem hér er farið fram á, og það hefur lengi verið þörf á þessari rannsókn í íslenzku þjóðfélagi. Og ég vil benda á þá staðreynd, að Sjálfstfl. hefði um mörg undanfarin ár haft möguleika á því að fá þessa till. eða svipaða till. samþ. hér á Alþingi, ef hann hefði viljað það í einlægni og viljað búa þannig um hnútana, að öruggt væri, að rannsóknin færi fram ýtarlega og án undirhyggju.

En undirhyggja Sjálfstfl. kemur fram í fleiri atriðum en þeim, sem ég hef nefnt hér um starfstíma nefndarinnar og eðli og áhuga Sjálfstfl. á þessum málum. Hún kemur líka fram í skipun n. sjálfrar. Sjálfstfl. veit, að í fimm manna n. getur hann ráðið a. m. k. tveimur mönnum, ef ekki meiri hluta hennar. En þó að hann gæti ekki ráðið nema tveimur, þá veit hann, að annar flokkur, sem hefur litlu minni áhuga á velgengni milliliðanna, nefnilega Framsfl., mundi tilnefna nægilega mikið í nefndina til þess, að þar hefðu þessir tveir flokkar yfirgnæfandi meiri hluta og gætu algerlega haft í hendi sér starf og niðurstöður nefndarinnar. Líka í þessu atriði kemur fláttskapur flutningsmanna fram.

Ég hygg svo, að óþarft sé eða ástæðulaust að fara fleiri orðum um þessa till. á þessu stigi málsins. Ég mun, ef mér sýnist ástæða til, seinna flytja við hana brtt. til að reyna að koma henni í það horf, að hafa mætti einhverja von um, að út úr nefndarstarfinu kæmi heiðarleg og undirhyggjulaus vinna.