18.11.1955
Sameinað þing: 15. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í D-deild Alþingistíðinda. (2391)

79. mál, milliliðagróði

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessarar till. leggur til, að henni sé vísað til allshn. þingsins. Hæstv. forseti hefur ákveðið tvær umræður um þessa till., og auk þess virðist mér það ekki vera neitt efamál, að ef till. verður samþ. og nefnd fimm sérfróðra manna fer að starfa að því máli, sem till. fjallar um, þá muni það hafa allmikinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð. Mér finnst því réttara, að þessari till. verði vísað til hv. fjvn. en allshn., þó að ég skuli að vísu játa það, að vísað hefur verið til allsherjarnefndar þingsins máli, sem enn síður átti að vísa þangað en þessu og var hreint utanríkismál, en það skeði nú ekki á þessu þingi, heldur í fyrra eða hittiðfyrra. Ég geri því það að till. minni, að þessari þáltill. verði vísað til hv. fjvn.

Ég skal nú ekki, þó að ég sé kominn hér í ræðustólinn, tala mikið um efni þessa máls, og sízt af öllu mun ég fara í nokkra sálfræðilega könnun um það, hvað flm. muni ganga til að flytja hana eða þeim flokki, sem þeir eru í. Ég álít, að það sé töluvert hæpið, að menn þykist sjá þannig í gegnum huga annarra manna, að þeir geti sagt um það alveg fyrir víst, hvað einum og öðrum gangi til að gera eitt eða annað. Ég skal ekki fara út í það. En ef svo skyldi fara, að till. hv. 1. flm. um að vísa málinu til allshn. yrði samþ., sem ég tel ekki rétt að gera að vísu, þá vildi ég gjarnan, af því að ég á sæti í þeirri nefnd, spyrjast fyrir um tvö atriði viðvíkjandi þessari tillögu.

Fyrra atriðið er það, hversu víðtæk rannsókn það sé, sem hv. flm. hugsa sér í þessu efni. Hér er talað um þátt milliliða í framleiðslukostnaði þjóðarinnar. Það er ákaflega oft litið svo á í daglegu tali, að framleiðsla sé yfirleitt ekki annað en sjávarútvegur, landbúnaður og kannske að einhverju leyti iðnaður. Ég vildi gjarnan vita, hvort eingöngu er átt við þetta. En nú er vitað mál, að það er margt fleira, sem hefur áhrif á tilkostnað framleiðslunnar en beinlínis það, hvað hreinar framleiðsluvörur kosta. Við skulum segja byggingarkostnaður. Há húsaleiga kallar á hærra kaup þeirra, sem við framleiðsluna vinna, og einnig á meiri framleiðslukostnað að því leyti, að það er flest framleiðsla, sem á einhverju húsnæði þarf að halda. Er hér m. a. átt við það að rannsaka byggingarkostnað, hvort hann þarf að vera eins gífurlegur og hann er, og í því sambandi má benda á, að byggingarkostnaður er ákaflega misjafnt eftir því, hvaða landshluta er um að ræða? Mér er alveg fullkunnugt um, að það er miklu hærri byggingarkostnaður t. d. hér í Reykjavík en á Akureyri. Hef ég aldrei fengið fullnægjandi skýringu á því, hvernig á slíku stendur.

Hin spurningin, sem ég vildi beina til hv. flm., er um það, hvernig þeir hugsa sér, að þessi nefnd framkvæmi sitt starf. Þessi nefnd er, að því er mér skilst, valdalaus. Til þess að geta framkvæmt starfið þarf hún að hnýsast í reikninga fyrirtækja, að mér skilst.

Það er ekki víst, að allir vilji góðfúslega gefa fullnægjandi upplýsingar um sinn tilkostnað. Þar af leiðandi er það, að mér hefði sýnzt það vera vænlegra til árangurs að skipa nefnd samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka þessi atriði. Að vísu er það rétt, sem hv. 1. flm. sagði, að meðal þingmanna eru ekki svo sérfróðir menn um þetta efni kannske, að hægt sé að skipa í deild nefnd sérfróðra manna, eingöngu þingmanna. Þó skal ég ekki segja um það. Hann nefndi, að hér í Alþingi væri einn hagfræðingur, en sérfræði í þessum málum er nú fleira en aðeins hagfræði. Hér eru t. d. menn, sem eru mjög fróðir um útgerð, og líka aðrir, sem eru fróðir um landbúnað, o. s. frv. En jafnvel þótt það væri, að ekki væri til nógu mikil sérþekking meðal þingmanna til þess að skipa rannsóknarnefnd samkvæmt stjórnarskránni, þá væri hægðarleikur að ákveða það, að nefndin gæti tekið sér sérfræðinga til aðstoðar, og þá held ég, að þetta mætti sameina. Um þetta vildi ég gjarnan fá upplýsingar, um leið og málið fer til nefndar, sérstaklega ef það á að fara til þeirrar nefndar, sem ég á sæti í og flm. stakk upp á.