02.12.1955
Sameinað þing: 19. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (2401)

79. mál, milliliðagróði

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef hlustað á allar þær ræður, sem hafa farið fram um þessa stórmerkilegu till., sem liggur hér fyrir á þskj. 86, og verið nokkuð undrandi yfir sumum þeim ummælum, sem hér hafa komið fram og ekki hvað sízt frá hv. 8. landsk. (BergS) bæði nú í dag og fyrr um þetta mál.

Því verður tæplega neitað, að sjálft málið er afar merkilegt og þarf að takast allt öðrum tökum en það hefur verið tekið hér, m. a. af hv. 8. landsk., ef það á að verða nokkur árangur af niðurstöðunni. Hér er ætlazt til þess, að Alþingi kjósi 5 manna nefnd sérfróðra manna til þess að rannsaka þátt milliliða í framleiðslukostnaði þjóðarinnar, þannig að úr því fáist skorið, hvort hann sé óhóflega mikill, og þá einnig að bera hann saman við milliliðakostnað í öðrum löndum. Ég tel út af fyrir sig, að það sé ekkert höfuðatriði í þessu máli, hvernig samanburðurinn verður við önnur lönd, heldur verði að leggja á það megináherzlu að fá úr því skorið, hvort milliliðakostnaður hér í voru landi sé óhæfilega mikill og hvort hægt sé að lækka hann á einn eða annan hátt til hagsbóta fyrir framleiðendur. Ég tek mjög undir, að þetta sé nauðsynlegt, en tel, að orðalag till. ætti að verða nokkru víðtækara, þannig að hún ætti að fela beint í sér, að það ætti að athuga meira en milliliðagróðann í framleiðslukostnaði þjóðarinnar, og tek ég þar m. a. undir orð hv. 1. þm. Eyf., þegar hann skaut því fram hér, hvort ætti ekki einnig að athuga milliliðagróða í byggingarkostnaðinum, því að það er sýnilegt, að húsnæðiskostnaður er einn sá liður, sem hefur einna mest áhrif á framleiðsluna í landinu, og hann fer að sjálfsögðu eftir því, hve byggingarkostnaðurinn er mikill. Það er alveg vafalaust, að milliliðagróðinn í byggingarkostnaði hér á landi og sér í lagi hér í Reykjavík er svo stórkostlegur, að hann slær sjálfsagt öll met, og er alveg sama, hvort þar koma að sjálfstæðismenn eða Alþýðuflokksmenn eða hvaða flokka menn sem er. Það er vitað, að húsverð hér hækkar um 50–80–100 þús. kr. á hverja íbúð frá hinu eðlilega kostnaðarverði, allt eftir því, á hvaða stigi íbúðin er seld. Það fer ekkert á milli mála, að þegar menn byggja sér sjálfir íbúð hér, muni hún geta orðið allt að því 100 þús. kr. ódýrari en hún verður, ef þeir eiga að kaupa hana fullgerða af öðrum, 40 þús. kr. ódýrari en ef þeir kaupa hana fokhelda, og hér er að sjálfsögðu einhver óþarfa milliliðagróði. Það þarf ekkert síður að rannsaka það en hvað annað. Ég fagna því þess vegna, að till. kemur fram, og álít, að það hefði átt að taka miklu betur undir þetta mál frá þeim mönnum, sem hér hafa rætt hana, a. m. k. af hendi Þjóðvfl., en gert hefur verið. Ég vildi því vænta þess, að sú nefnd, sem fær þetta mál til athugunar, athugi gaumgæfilega, hvort ekki eigi að koma fram miklu ákveðnara orðalag um rannsókn beint í sjálfri tillgr.

En það var ekki eingöngu þess vegna, að ég stóð hér upp, heldur vegna hins, að hér hefur komið fram í öllum umræðunum, bæði hjá þeim, sem hafa mælt gegn till., og sumpart nokkuð hjá þeim, sem hafa mælt með henni, að það sé vafasamt, hvort till. sjálf beri í sér það vald, sem slík nefnd þarf að hafa. Ef ætlazt er til þess, að valdið sé gefið beinlínis með þessari þáltill., þá er sýnilegt, að þáltill. dugir ekki. Þáltill. getur ekki gefið neitt rannsóknarvald. Það verða að vera lög, sem fyrirskipa ákveðnum mönnum að gera ákveðið verk, sem valdboð þarf til. En það vill svo til, að samkvæmt lögum, sem enn gilda, sýnist mér, að þetta vald sé í höndum ákveðinna manna. Það stendur í lögum nr. 45 frá 1952, um viðauka við lög nr. 35 27. apríl 1950, um verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdóm, í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Verðgæzlustjóri skal fylgjast með verðlagi í landinu. Heimild hans til öflunar upplýsinga í því skyni samkvæmt 9. gr. l. nr. 35/1950 gildi einnig um þær vörur, sem ekki eru háðar ákvæðum um hámarksálagningu.“

Ég sé ekki betur en þessi lagagrein gefi verðgæzlustjóra fullt vald til þess að framkvæma hvaða rannsókn sem hann vill og hann telur nauðsynlega til þess að fá upplýst um verðlag og milliliðagróða, því að það er einmitt tekið fram, að þetta sé ekki eingöngu um þær vörur, sem háðar eru ákvörðun um hámarksálagningu. Hér er um opinberan aðila að ræða, og er sýnilegt, að nefnd sú, sem fær þetta mál til meðferðar, getur snúið sér til verðgæzlustjóra og krafizt þess, að hann upplýsi þessi mál, án þess að nokkrum lögum sé breytt í landinu og án þess að fyrirskipa þetta sérstaklega með öðrum lögum.

Í lögunum, sem vísað er til, nr. 35 1950, stendur einnig, með leyfi hæstv. forseta, í 9. gr.:

„Verðgæzlustjóri og þeir, sem með verðlagseftirlit fara samkvæmt lögum þessum, geta krafið hvern sem er allra þeirra upplýsinga, skýrslna og annarra gagna, er þeir telja nauðsyn í starfi sínu, enda hvílir á þeim þagnarskylda um þau atriði, er þeir komast að í greindu starfi, og er þeim bannað að skýra óviðkomandi frá því, að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um opinbera starfsmenn.“

Hér er svo skýrt ákveðið fyrirmæli í þessum lögum, sem enn eru í gildi, að það er sýnilegt, að sú nefnd, sem fengi þetta starf með höndum samkvæmt þáltill., þyrfti ekki annað en að snúa sér til þessarar opinberu stofnunar og fá þar fullkomna aðstoð. Ég held því, að öll þau orð, sem fallið hafa um það, að nauðsynlegt sé að tryggja nefndinni meira vald en gert er í till., hafi verið óþörf og að nefndin geti fengið hjá þessari opinberu stofnun, sem ég hef bent á, allar þær upplýsingar, sem hún þannig óskar eftir. Hitt er svo sýnilegt, að hvorki verðlagseftirlitið né neinn aðili íslenzkur getur fengið vald til þess að framkvæma rannsókn á þann hátt, sem hv. 8. landsk. minntist á áðan, þ. e. að rannsaka einnig okurhringa erlendis engu síður en innanlands. Ég geri ráð fyrir, að ef Shell í Englandi ætti að fara að taka á móti slíkri nefnd til þess að rannsaka hjá þeim, hvaða okri þeir héldu uppi, þá væri alveg sama, hvaða vegabréf slík nefnd hefði hér frá Alþingi, hún kæmist ekki langt þar. Hverjir aðrir stálhringar, hvort sem það væru t. d. stálhringarnir í Ameríku eða Þýzkalandi eða hvar sem væri og sérhverjir aðrir, t. d. General Motors, mundu sjálfsagt ekki hleypa þessum mönnum inn í sínar bækur til þess að rannsaka, hvort ekki væri hægt að framleiða eða selja ódýrara varahlutina til Íslands eða bílana, svo að það er alveg óþarfi fyrir okkur að hugsa um að gefa nefndinni slíkt vald. En slík ummæli eins og hér voru höfð áðan af hv. 8. landsk. sýna langbezt, hvernig hann hefur hlaupið á hundavaði í þessu máli. Hann hefur verið að nota þetta sem áróðursmál og ekkert annað og ekki komið neitt nálægt kjarna þess, og er þetta bezta sönnunin fyrir því, að svona á ekki að fara með alvarlegt mál.

Það hefði verið gaman að svara sumu af því, sem hér hefur verið minnzt á, en ég ætla ekki að þreyta hvorki hv. þm.hæstv. forseta á því. Ég vil þó ekki ljúka máli mínu hér án þess að bera fram þá spurningu, hvert sé hlutverk milliliða yfirleitt. Eru það óþarfari menn í þjóðfélaginu en aðrir þjóðfélagsþegnar? Hver góður milliliður gerir sér að skyldu að reyna að ná eins hagkvæmu verði fyrir sitt land og hægt er, ef það er um útflutningsvörur að ræða, og reyna að kaupa eins ódýrt og hægt er inn, ef um innflutningsvörur er að ræða. Og sannarlega væri miklu nær og betra fyrir þjóðina að gera meiri kröfur til þessara manna, áður en þeir fengju yfirleitt réttindi til þess að vera milliliðir í landinu, bæði um menntun og annað, heldur en að halda uppi sífelldum áróðri á þessa menn, því að það er áreiðanlegt, að á því veltur yfirleitt afkoma landsins, hvernig þetta starf er leyst af hendi, og gildir það alveg sama um, hvort maðurinn er í þessum pólitíska flokknum eða hinum. Drenglyndur, vitur, vel menntaður og góður milliliður er landinu miklu betri maður og miklu betri þegn en margir aðrir, um það verður ekki deilt. Ég skal koma hér með eitt einasta dæmi, sem sýnir, hvað það er nauðsynlegt einmitt, að í þetta veljist góðir menn, og hvað það er fjarstætt að binda sig eingöngu við það, hvort þessir menn geti haft meiri eða minni ágóða af sínu starfi.

Mér er persónulega kunnugt um, að ekki alls fyrir löngu gat einn af þeim mönnum, sem sjálfsagt mundu verða stimplaðir hér á Alþingi sem milliliðir, sem eitthvert skriðdýr á þjóðfélagslíkamanum, eftir því sem mér heyrist vera talað um þessa menn, selt nokkur hundruð smálestir af ákveðinni vöru út úr landinu, sem þurfti útflutningsleyfi fyrir. Hann gat keypt þessa vöru í landinu fyrir 12 sterlingspund hverja smálest, en viðkomandi aðili, sem átti vöruna, gat ekki selt hana öðrum fyrir meira en 9 pund, og hann var ákaflega feginn því að geta selt þetta á þrem pundum hærra verði en hann gat fengið annars staðar. Kaupandinn varð að sækja um útflutningsleyfi og gefa þar upp útflutningsverðið, sem hann hafði samið sjálfur um og var 18 sterlingspund fyrir hverja smálest. En þegar það var upplýst, var honum neitað um útflutningsleyfi. Hann mátti ómögulega græða 6 pund á hverri smálest, og um útflutningsleyfi var neitað í 10 vikur, svo að það var útilokað, að hann gæti selt vöruna, því að þá var útrunninn sá tími, sem hann hafði haft vöruna á hendinni. En þá var útflutningsleyfi gefið til eigandans, sem gat ekki selt vöruna nema fyrir 9 pund, af því að hún hafði fallið á millibilinu. Hver hafði tapað? Eigandinn hafði tapað 9 pundum á hverja smálest, sem flutt var út úr landinu, milliliðurinn hafði ekki fengið neitt, látum það vera, en landið hafði líka tapað. Eigendurnir sem áttu vöruna töpuðu, landið tapaði, bankarnir töpuðu á því að fá ekki hæsta mögulega gjaldeyrisupphæð inn, en eini maðurinn, sem græddi á því þannig, var milliliðurinn, því að það var þó ekki hægt að núa honum því um nasir, að hann væri á eftir einn af þessum mönnum, sem hefðu snuðað landið um þetta fé.

Þetta sýnir, hversu ákaflega er áríðandi, að einmitt í sölu og kaupum séu menn, sem geta gert þetta betur en almenningur í landinu. Ég gæti rætt margt um þetta, en eins og ég sagði, skal ég ekki þreyta hv. þm. á því. Ég vil þó að síðustu aðeins benda á, að milliliðastarfið er nú einmitt fyrir þennan mikla áróður komið í hendur fólksins sjálfs að ákaflega miklu leyti. Samband ísl, samvinnufélaga hefur orðið sölu svo að segja á öllum íslenzkum landbúnaðarafurðum, og þar kemst enginn annar að. Mér er m. a. kunnugt um það, að ef einhver maður vill fá leyfi til að selja ull út úr landinu og spyr um það hjá Sambandinu, þá fær hann það svar: Við getum sjálfir selt okkar ull. –Og þó að það sé talað um að selja fyrir hærra verð, þá er því ekki heldur sinnt. Þessi vara er svo að segja öll í höndum Sambandsins. Nákvæmlega sama er með frystan fisk. Hann er allur orðinn svo að segja í höndum tveggja aðila, annaðhvort Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, sem ekki tekur nokkru tilboði nokkurs staðar frá, eða í höndum Sambands ísl. samvinnufélaga, sem tekur ekki heldur neinu tilboði nokkurs staðar frá. Saltfiskinn vitum við um, þar er ekki tekið neinu boði neins staðar annars staðar frá. Það er alveg sama, hverjir spyrja. Þetta er alveg nákvæmlega sama, og sama er um lýsið. Þetta er orðið svona með allar vörur. Eina útflutningsframleiðslan á Íslandi, sem enn þá er eitthvað hægt að ræða um að sé á frjálsum markaði, er raunverulega fiskimjöl. Og ég geri ráð fyrir, að allir þessir aðilar hafi bundið þetta í fjötra, af því að þeir telji með réttu eða röngu, að þeim og þeirra aðilum sé bezt borgið þannig. Ég er ekkert að gagnrýna þetta, en svona er málið í dag. Það er óneitanlega dálítið athyglisvert, að það þurfi að vera svona, á meðan þessir aðilar sjálfir hafa þó ekki getað gert betur þessi verk en raun ber vitni um, því að nú liggja í landinu verðmæti á fjórða hundrað milljóna óseld af íslenzkum afurðum, eins og vitað er af þeim skýrslum, sem hafa komið nýlega, og ætti það að vera alvarleg hugvekja til þeirra manna, sem hafa tekið að sér þetta ábyrgðarmikla starf, um að losa eitthvað um þessi höft eða taka upp einhverjar nýjar aðferðir eða velja til sín menn, sem geta gert þetta örara og betur en sýnist vera gert í dag.

En því verður svo ekki neitað, að þetta eru mennirnir, sem eiga framleiðsluna. Bændurnir eiga ullina og Sambandið. Fiskimennirnir eiga fiskinn og Sölumiðstöðina, hvort sem hann er saltaður, hertur eða frystur, og þetta er þeirra eigin vara og þeirra eigin félagsskapur, svo að það er ákaflega erfitt raunverulega fyrir Alþingi að gripa þar inn í og segja: Þið skuluð hafa á þessu einhvern annan hátt. — Hitt er svo alveg ljóst, að ef við rannsókn þessarar till. kemur upp, að eðlilegt sé, að milliliðagróðinn, hvort sem hann er í sambandi við útflutning eða innflutning, geti verið minni en hann er raunverulega, og þá væri kannske einnig hægt að upplýsa, að það mætti nota betur sölumarkaði með því að dreifa sölunni á fleiri aðila, þá yrðu þessir aðilar að láta undan þeim þunga og þeim gögnum, sem þarna kæmu fram. Það er alveg óhjákvæmilegt annað. Og í því ástandi, sem nú er í landinu, þar sem framleiðslan þarf orðið allmikinn styrk frá Alþingi, er ákaflega mikils um vert, að það verði hægt að fá upplýst frá þingkjörinni nefnd, hvort milliliðirnir taka of mikinn gróða fyrir sitt starf eða ekki. Mér skilst því, að málið eigi að ná fram að ganga og það eigi að skipa í þetta menn með víðtækri þekkingu og menn, sem hægt sé að treysta til að upplýsa þessi mál svo fljótt sem unnt er.

Ég get ekki endað mál mitt án þess að benda hér á ummæli, sem komu fram á fyrsta stigi málsins, ég held frá hv. 8. landsk. Ég bið afsökunar á því, ef ég fer rangt með tilvísunina, en það var sagt hér: Hvað mundu landsmenn segja, ef erlendir menn settu hér upp dreifingarkerfi og tækju allan gróðann í sínar hendur í stað þess að láta eigin landsmenn njóta hans? Var það ekki hv. 8. landsk., sem viðhafði þessi ummæli? (Gripið fram í: Þau voru ekki alveg svona.) Kjarninn í þeim var þetta. En ég verð nú að segja það, að mér finnst, að þeir milliliðir, sem hafa gert þetta, séu sannarlega sniðugir náungar og það mjög sniðugir, að taka sjálfir upp dreifingarkerfi í öðrum löndum og láta ekki milliliði annarra landa græða á því, heldur láta okkar eigin íslenzku þjóð njóta þess gróða. (Gripið fram í.) Hann sagði sjálfur, að það hefði verið gert þannig, þeir hefðu sjálfir komið upp dreifingarkerfi í útlöndum, sem er alveg rétt. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur sjálf komið upp dreifingarkerfi og sparað við það fé, er annars færi til annarra landa. Það er það, sem þeir hafa gert. Og þegar menn eru á slíku hundavaði að vera að ásaka Íslendinga fyrir að gera svona vel fyrir sína þjóð, þá er ekki takandi mikið mark á því, sem þeir eru að segja. En ef maður nennti að vera að tína upp það, sem hv. þm. sagði í þessu máli, þá er það flest á þessari línu. Það er ómögulegt að finna út úr því, hvað hann hefur meint, hvorki eitt né annað, nema það hefur gnæft upp úr að reyna að hafa það sem áróðursatriði á einhvern ákveðinn flokk, en þetta mál er miklu alvarlegra en svo, að það eigi að stöðvast eingöngu við það takmark.