03.11.1955
Sameinað þing: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (2570)

67. mál, vegagerð og vegaskattur á bíla

Flm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur, hv. 1. þm. Árn. og ég, að bera hér fram á þskj. 74 till. til þál. um, að athugaðir verði möguleikar fyrir vegagerð í stórum stíl, sem grundvallist að verulegu leyti a. m. k. á vegaskatti bíla. Efni þessarar till. er að fela ríkisstj. að láta athuga, hvort ekki sé tiltækilegt og æskilegt að hefja vegagerð í allstórum stíl með varanlegu slitlagi, malbikuðu eða steyptu, á hinum fjölförnustu leiðum á þann hátt, að kostnaðurinn við vegagerðina yrði endurgreiddur að meira eða minna leyti með skatti af bílum, sem fara um veginn.

Ástæðan fyrir því, að þessi till. er fram komin, er sú, að á sumum vegum í grennd við höfuðstaðinn er orðið svo erfitt umferðar, að oft og tíðum má heita nær ófært, og það þrátt fyrir mjög mikið viðhald á þessum vegum. Hér er við engan að sakast út af fyrir sig, heldur er um það að ræða, að umferðin um þessa vegi af þeirri gerð, sem þeir eru, er orðin meiri en þessir vegir þola. Það er alveg það sama sem á sér stað með þá og ef of mikil áreynsla er lögð á einhvern byggingarhluta. Ef lagt er á hann meira en burðarþoli hans nemur, þá brestur hann, og mjög svipað er þessu háttað með vegina, að umferðin um suma vegi hér er orðin meiri en vegir af þessari gerð þola. Afleiðingin af þessu hefur svo orðið sú, að viðhald veganna, þó að eytt sé í það mjög miklu fé og fari fram svo að segja daglega allt árið um kring, verður aldrei með þeim hætti, að umferð um veginn geti talizt sæmileg. Þetta leiðir svo aftur til þess, að kostnaður ríkissjóðs við viðhaldið á vegunum og slit þeirra, sem um vegina aka í bílum, verður hvort tveggja miklu meira en þyrfti að vera, ef vegurinn væri í því ástandi, sem hann ætti að vera. Sömuleiðis verður aksturinn fyrir þá, sem um vegina fara, ákaflega leiðinlegur og erfiður, svo að þeir skirrast við það í lengstu lög að fara þessa vegi, nema því aðeins að þeir eigi mjög brýnt erindi.

Ráðið til þess að bæta úr þessu ástandi er það og það eitt að gera þessi vegi úr garði með svokölluðu varanlegu slitlagi, annaðhvort malbikuðu eða steyptu, sem er þannig úr garði gert, að það geti tekið á móti þeirri umferð, sem um veginn er ætlað að fara. Þetta er aftur mjög kostnaðarsamt fyrirtæki, og þó að um þetta hafi verið rætt löngum og í mörg ár, þá hefur ekkert orðið úr, vegna þess að fé hefur ekki verið fyrir hendi til þess að ráðast í þessa mannvirkjagerð.

Það mætti hugsa sér að gera þetta kannske á tvennan hátt: Annars vegar með tiltölulega smáum árlegum framlögum úr ríkissjóði, sem þá yrði til þess, að vegagerðin dregst óhóflega lengi, og tel ég það að heita má útilokað vegna þess, hvað það tæki langan tíma. Einnig mætti hugsa sér þá aðferð við það að fá upphæðina í einu lagi sem lán og gera veginn þá í einu, en greiða síðan skuldina niður á nokkuð löngum tíma, eftir því sem lán fengist með góðum niðurgreiðslukjörum, og þá var það, sem okkur flm. datt í hug, hvort ekki væri hægt að létta undir, einmitt ef þessi leið yrði farin, með því að leggja nokkuð af kostnaðinum eða allan kostnaðinn á þá bíla, sem um vegina fara.

Ég hef ekki gert mér nákvæmlega grein fyrir því, hvað kostnaðurinn við þessa vegagerð mundi verða mikill, en ég hygg, að það sé ekki langt frá sanni að segja, að kostnaðurinn mundi verða 1½–2 millj. kr. á hvern km vegar. Ef við tækjum veginn til Keflavíkur, sem er sá vegurinn, sem ég hef fyrst í huga í þessu sambandi, þá er hann frá Hafnarfirði, þaðan sem malbikun endar, um 40 km, og mundi hann þá kosta 60–80 millj. kr. Umferð um þennan veg mun nú vera eitthvað á annað þúsund bílar á dag. En ef gert væri ráð fyrir, að um veginn færu 2000 bílar á dag, og reynslan hefur alls staðar verið sú, að umferð hefur mjög aukizt, þegar vegakerfi hefur verið bætt á þennan hátt, þá þyrfti, ef maður vildi láta kostnaðinn allan vera borinn uppi af bílunum, leggja á hvern bíl, sem um veginn fer, ca. 10 kr. gjald, og fengjust þá um 20 þús. kr. á dag á þann hátt, þ. e. a. s. yfir árið um 7½ millj. kr., og ætti það að geta farið langt til þess að borga það lán, sem tekið væri til þess að leggja veginn.

Þetta fyrirkomulag tíðkast mjög víða erlendis, og ég hef orðið var við, að þar er sums staðar a. m. k. vegagerð haldið uppi í stórum stíl einmitt á þennan hátt, að á hvern einasta bíl, sem um veginn fer, er lagt fast gjald, sem ekki er tekið fyrr en vegurinn er kominn í það horf, sem hann á að vera, og bílstjórar, sem um veginn fara, kvarta ekki yfir því, af því að þeim þykir æskilegra að borga þetta gjald en að fara um veginn eins og hann var áður og bæði eyða tíma og peningum til viðgerða á bíl sínum, sem þarf að gera vegna þess, hve hann fer illa á hinum gamla og ófullkomna vegi.

Nú veit ég ekki, hvernig á þetta mál er litið hér, en mér finnst, að þetta gæti vel komið til athugunar. Þessir vegir, sem eru svo dýrir, eru allir í kringum Reykjavík, og kemur væntanlega ekki til mála, a. m. k. ekki fyrst um sinn, að fara í vegagerð af þessu tagi annars staðar en hér í nágrenninu. Ef þessi vegagerð væri kostuð úr sameiginlegum sjóði landsmanna, sem að verulegu leyti er þá tekinn af bílstjórum á öllu landinu með benzínskatti, en svo á annan hátt úr sameiginlegum sjóði ríkisins, þá mundu menn, hvar sem þeir væru á landinu og hvort sem þeir notuðu þennan nýja veg eða ekki, þurfa að greiða sinn hluta kostnaðarverðsins. En ef aftur þessi leið væri farin, þá mundu þeir, sem veginn nota, greiða gjaldið fyrst og fremst, og ætti það að vera talið sanngjarnt.

Till. fer ekki fram á annað en að þetta mál verði athugað. Það ríkir á þessum vegum reglulegt ófremdarástand, að því er snertir viðhald þeirra, sem er eðlilegt, vegna þess að vegurinn, eins og hann er nú, er alls ekki ætlaður fyrir þá umferð, sem nú þarf um veginn að fara, og þyrfti þó að vera meiri og mundi vera meiri, ef vegurinn væri sæmilegur.

Við flm. leggjum bil í till., að þetta mál verði athugað og að hæstv. ríkisstj. kynni sér, hvort þetta mundi vera hægt og hvort þetta mundi vera æskilegt, sem sagt að undirbúa málið og leggja síðan tillögur sínar fyrir þing síðar.

Ég ætla, að það orki ekki tvímælis, að hér er um erfitt vandamál að ræða, og þetta er a. m. k. ein af þeim till., sem athuga ber í sambandi við lausn þess.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta meira, en leyfi mér að leggja til, að till, verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.