26.10.1955
Sameinað þing: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í D-deild Alþingistíðinda. (2667)

32. mál, húsnæðismálastjórn

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það er rétt, eins og hv. fyrirspyrjandi, 1. landsk. þm., gaf í skyn, að þessari fsp. var ekki svarað á næsta miðvikudegi eftir að hún var fram borin, og skal ég gjarnan bera fram afsökun vegna þess. En það er nú svo um mál, sem eru í sköpun eins og þetta, að það getur verið dálítið erfitt alveg fyrirvaralaust að svara þeim þannig, að verulegt gagn sé að, og voru þær upplýsingar, sem ég óskaði eftir að fá, ekki allar til reiðu, þegar þetta hefði átt að vera tekið hér á dagskrá síðasta miðvikudag.

Ég vil minna á það þegar í upphafi, að þegar spurt er um framkvæmdir í þessu þýðingarmikla máli og hvað búið sé að gera í því, þá er ekki hægt að skýra frá neinu um framkvæmdir á heilu ári. Einn þriðji ársins var liðinn, þegar lögin voru staðfest, og enn eru eftir meira en tveir mánuðir af árinu. Það má því alls ekki, ef hv. fyrirspyrjandi og aðrir menn vilja vera réttsýnir og dæma eftir því, leggja málið þannig fyrir, að hér sé hægt að gefa skýrslu um það, hvernig heilt ár taki sig út í sambandi við það, sem hér er um að ræða. Hér er í raun og veru ekki nema um rúmlega hálft ár að ræða, frá því að lögin voru staðfest og til þess tíma, sem nú er. Ég tel rétt að taka þetta fram, áður en ég kem að hinum einstöku fsp., sem fyrir liggja.

Skal ég þá leyfa mér að snúa mér að fyrirspurnum hv. 1. landsk. Fyrsta fyrirspurn hans hljóðar þannig:

„Hversu mikið fé hefur húsnæðismálastjórn fengið til umráða samkv. lögum nr. 55 frá 1955 ?“

Þessu vil ég svara á þennan hátt: Eins og frá var skýrt í grg. fyrir frv. ríkisstjórnarinnar til laga um húsnæðismálastjórn, veðlán til íbúðabygginga og útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, var samið við bankana um, að þeir keyptu bankavaxtabréf í A-flokknum að upphæð 20 millj. kr. í ár og annað eins næsta ár. Enn fremur tók Landsbankinn að sér að ábyrgjast sölu vísitölubréfa allt að 20 millj. kr. hvort árið um sig. Loks var ráðgert að fá sem flesta aðila aðra til þátttöku í hinu almenna lánakerfi, og var það Landsbankinn, sem tók að sér að hafa forgöngu um það á allan hátt.

Nú á þessu stigi standa þessi mál þannig: Tryggð hefur verið sala 26 millj. kr. af bankavaxtabréfum A-flokks á þessu ári, og kemur það allt til úthlutunar hjá húsnæðismálastjórn. Af þessari upphæð leggja bankarnir fram 20 millj. kr., varasjóður hins almenna lánakerfis 2½ millj. kr. og tryggingafélög í kringum 3½ millj. kr., en þau munu auk þess veita allmikil lán beint til húsbyggjenda. Þegar við þessa upphæð bætast samsvarandi B-lán, sem verða a. m. k. 10.4 millj. kr., hefur húsnæðismálastjórn til ráðstöfunar á þessu ári 36.4 millj. kr., miðað við þessar tölur. Að sjálfsögðu verður reynt að selja hin nýju verðbréf sem mest, og geta því þessar tölur ekki talizt endanlegar nú.

Það er einn megintilgangur hins almenna veðlánakerfis, að sem flestar lánsstofnanir og sjóðir hér á landi starfi eftir samræmdum reglum. Hefur verið unnið að því að fá tryggingafélög, sparisjóði og lífeyrissjóði til þátttöku, og sæmilegur árangur hefur þegar náðst. En það er það, sem Landsbankinn tók að sér að gera og er nú þegar að starfa að, og að vissu leyti er því verki hans ekki neitt svipað því lokið enn, eins og gefur að skilja. Enn er því framkvæmd laganna svo skammt á veg komið, að ekki er hægt að gefa neinar ákveðnar tölur um þessa hlið málsins nú á þessu stigi. B-lánsfé að upphæð tæpar 10 millj. kr. verður til ráðstöfunar á móti A-lánum veittum af öðrum aðilum en veðdeildinni.

Þetta er það, sem ég vildi taka fram varðandi fyrstu fsp. hv. 1. landsk. Önnur fsp. hljóðar þannig:

„Hversu margar umsóknir um lánsfé hafa húsnæðismálastjórn borizt, og hversu há er upphæð þeirra samtals?“

Húsnæðismálastjórn hefur svarað þessu þannig:

Alls hafa borizt 2470 umsóknir, en sótt hefur verið um lán út á 2690 íbúðir. Umsóknarupphæðin er samtals um 222 millj. kr. Þessar tölur gefa þó ekki rétta mynd af þeirri tölu og upphæð umsókna, sem húsnæðismálastjórn hefur úr að velja á þessu ári. Fjöldamargar íbúðir, sem sótt er um lán út á, uppfylla alls ekki þau skilyrði, sem sett eru í lögum og reglugerð um hin nýju lán, og ýmsir munu hafa fengið eða eiga von á lánum annars staðar. Um þetta liggja þó ekki fyrir enn þá tölulegar upplýsingar. Hins vegar liggur fyrir sundurgreining umsókna eftir því, hversu langt framkvæmdirnar eru komnar, og er hún eins og hér segir:

1) Teknar hafa verið til afnota 588 íbúðir, þar af 11, svo að vitað er, fyrir 20. maí 1954, en ekki má lána til íbúða, sem teknar voru í notkun fyrir þann tíma. Meginhluti þessara íbúða mun hafa verið tekinn í notkun áður en lög um húsnæðismálastjórn o. fl. gengu í gildi.

2) Fokheldar voru 869 íbúðir, en sú upphæð mun að sjálfsögðu hækka þó nokkuð fram að áramótum.

3) 655 íbúðir voru ekki fokheldar.

4) Ófullnægjandi upplýsingar voru um þetta atriði viðvíkjandi 578 íbúðum, en úr því verður líklega bætt af mörgum umsækjendum nú áður en langt líður.

Þessar tölur, sem ég hér hef nefnt samkvæmt upplýsingum frá húsnæðismálastjórn, sýna, hversu gífurleg eftirspurn er nú eftir lánsfé til íbúðabygginga í landinu og hvílíkur fjöldi húsa er nú í byggingu. Auk þess hafa svo hlaðizt á húsnæðismálastjórn fjöldamargar umsóknir vegna íbúða, sem lokið var við á síðasta ári, og vegna íbúða, sem ekki koma til greina um lán fyrr en á næsta ári, eða þegar þær eru komnar miklu lengra áleiðis en enn er.

Þá kem ég að þriðju spurningu hv. fyrirspyrjanda:

„Hvers vegna hefur húsnæðismálastjórn enn þá engin lán veitt?“

Hann tók það sjálfur fram í sinni framsöguræðu, að það hefði einhvers staðar verið getið um, að lánveitingar væru byrjaðar, og það mun rétt, að þær eru í byrjun, ég vil ekki segja meira. Það er búið að veita einhver lán. Og ég held, að hv. fyrirspyrjandi hafi viljað snúa þessari fsp. þannig við, að ég segði þá, hvað mörg lán hún sé búin að veita. Því get ég ekki svarað. Ég er ekki á hverjum degi í húsnæðismálastjórn og get ekki svarað því daglega, hvað hún veitir mörg lán á þessum degi eða hinum. Ákvörðun um lánveitingar er í byrjun, og það verður að nægja í þessu sambandi.

Að öðru leyti vil ég taka það fram vegna fsp., eins og hún liggur fyrir á þskj., að það, að ekki hafi fyrr verið farið að veita lán en þetta, stafar vitanlega af því, að það er nokkuð langur aðdragandi að því, eins og ég veit að jafnvitur og fróður maður og hv. fyrirspyrjandi er, veit, þegar tekið er upp kerfi eins og þetta og þarf raunverulega að skapa það að nýju með reglugerðum og með ýmsum öðrum ráðstöfunum, að hægt sé að byrja útlánin sjálf, frá því að lögin hafa verið sett og ákveðin. Auk þess vil ég svo taka það fram, að það varð að ráði hjá húsnæðismálastjórn og í samráði við ráðuneytið, að það skyldi settur alllangur umsóknarfrestur, frá því að búið var að semja þær reglugerðir, sem nauðsynlegar voru, og ekki skyldi farið að veita nein lán fyrr en sá umsóknarfrestur væri liðinn, þannig að allir umsækjendur, sem sótt hefðu á þeim auglýsta tíma, hefðu sömu aðstöðu til þess að geta fengið lán af þeim ástæðum. Hefur þetta m. a. orðið til þess að tefja það, að hægt hafi verið að hefja ákvörðun um útlánin.

Ég á þá eftir fjórðu fsp., sem hljóðar þannig: „Hvenær er talið, að húsnæðismálastjórn geti hafið lánveitingar, og hversu mikið fé er gert ráð fyrir, að hún muni þá hafa til umráða?“

Þetta er að nokkru leyti, að því er mér virðist, beint áframhald og að sumu leyti sama fsp. og sú þriðja. En það, sem ég get sagt um þetta, er það, að úrvinnsla umsókna og gagna þeirra, sem þeim hafa fylgt, hefur að sjálfsögðu kostað mikla vinnu, sérstaklega þegar nýir menn koma til starfa og jafnmikil aðsókn er að eins og hér hefur verið um að ræða. En eins og ég hef þegar tekið fram um síðustu fsp. og hv. fyrirspyrjandi hefur viðurkennt, er úthlutun lána nú þegar hafin, og húsnæðismálastjórn segir, að nú sé verið að framkvæma virðingu fyrstu íbúðanna. En afgreiðsla lánanna mun hefjast 1. nóv. Og úthlutun á því fé, sem til umráða verður fyrir áramót, mun vart lokið fyrr en í desember, eins og einnig hlýtur að verða.

Ég hef nú hér til viðbótar fengið alveg nýjar upplýsingar, að miðað við 24. okt. hafi þá verið búið að úthluta 2.7 millj. kr. og af því muni vera um 1.7 millj. kr. í Reykjavík og hitt úti á landi. En eins og gefur að skilja, segja þessar tölur í sjálfu sér ekki neitt út af fyrir sig, því að þetta er í byrjun, eins og ég tók fram áðan, og tel ég ekki rétt að nefna það öðru nafni á þessu stigi málsins.

Ég vænti, að hv. fyrirspyrjandi sætti sig við þessar upplýsingar á þessu stigi málsins. Ég skal vera reiðubúinn, verði ég í sæti félmrh. upp úr áramótum, að gefa þá nýjar upplýsingar, sem gilda þá fyrir þann hluta ársins, sem þessi löggjöf hefur staðið yfir, en á þessu stigi sé ég mér ekki fært að gefa frekari upplýsingar. Ég vil aðeins nefna það, sem mjög skýrt er tekið fram í grg. fyrir frv., eins og það var flutt í fyrra, að þar var getið um samkomulag, sem gert hefði verið við Landsbanka Íslands um þetta mál, og frv. var byggt á því samkomulagi. Landsbankinn er að vinna að þessu máli á þeim grundvelli, sem þar var lagður, og hann hefur þegar uppfyllt ýmislegt af því. En margt er enn nokkuð óljóst, t. d. um það, hvernig hægt verður að koma fram viðskiptum við lánsstofnanir, við skulum segja aðra banka fyrst og fremst hér í Reykjavík, en einnig við sparisjóði og aðrar lánsstofnanir úti um land, hvað þetta atriði snertir. Ég tel tæplega hægt að heimta það, að bankinn geti nú strax skýrt frá því í öllum atriðum, hver sá árangur verður. Hitt veit ég með vissu, að það er unnið að þessu, eftir því sem mögulegt er, og er sjálfsagt á sínum tíma að gefa hinu háa Alþ. frekari upplýsingar um það, hvernig málin standa, þegar þetta fyrsta ár eða þessir 2/3 hlutar af fyrsta árinu eru liðnir frá því, að þessi löggjöf var sett.