15.02.1956
Sameinað þing: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í D-deild Alþingistíðinda. (2785)

138. mál, framkvæmd launalaga

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Fsp. sú, sem hér er til umr., er á þskj. 282, og hefur hv. 8. þm. Reykv. borið hana fram. Að mínum dómi brýtur þessi fsp. að ýmsu leyti í bága við þingsköpin, 31. gr. þeirra, og það sama má segja sjálfsagt um ýmsar aðrar fsp., sem hér hafa verið bornar fram, að þær brjóta í bága við þingsköpin, þótt þeim hafi verið svarað. En ég vil nota þetta tækifæri til þess að benda þingmönnum á, að ef þeir ætlast til þess, að fyrirspurnatími verði að gagni, þá verða þeir að halda sér við þingsköpin. Annars verður úr þessu hálfgerður skrípaleikur, sem leiðir til þess, að þessi góði réttur þingmanna til að gera fyrirspurnir verður að lokum að engu í framkvæmdinni. Það er ekki vafi á því, að þessi fsp. brýtur í bága við þingsköpin, því að þar segir, að fyrirspurnir skuli vera skýrar og um afmörkuð atriði og mál, og sé við það miðað, að hægt sé að svara þeim í stuttu máli. Það er fullvíst, að þessi fsp. uppfyllir alls ekki þessi skilyrði. Samt sem áður mun ég ekki skorast undan að svara henni, að því leyti sem hægt er að finna út, hvað fyrir hv. fyrirspyrjanda vakir. En ég vildi ekki láta hjá líða að benda á þetta atriði.

Fyrsti liður fsp. er þannig: Er það rétt, að ýmsir embættismenn hafi undanfarin ár fengið greiddar úr ríkissjóði utan launalaga og án heimildar o. s. frv., eins og það er nánar tilgreint í fsp.?

Það er þá fyrst um það að geta, að ég svara hér saman fyrsta og öðrum lið, en 2. liður er um það, hver embætti hafi notið slíkra fríðinda o. s. frv. Ég svara þessu því saman.

Það er spurt um þrenns konar greiðslur, þ. e. a. s. risnu, húsaleigustyrk og bílastyrk. Ég svara hverju atriði fyrir sig, þó að ég með því brjóti þingsköpin, svo sem ekki er hægt að komast hjá að gera, því að hér er spurt um fimm ára greiðslur, sem vitanlega leiðir það af sér, að þessu verður ekki svarað í stuttu máli.

Þessir opinberir starfsmenn hafa undanfarin fimm ár haft risnufé sem hér segir: Biskup Íslands 1951 6000 kr., 1952 6000 kr., 1953 6000 kr., 1954 10000 kr., 1955 10000 kr. Ráðuneytisstjórar átta hafa haft samtals 19200 kr. eða 2400 kr. hver, jafnt í þessi fimm ár, og aðalendurskoðandi hefur haft

2400 kr. risnufé á ári. Forsetaritari hefur haft 2400 kr. risnufé 1953, 1954 og 1955. Rektor háskólans hefur haft 7500 kr. risnufé árin 1951–53 og 10000 kr. risnufé 1954 og 1955, og rektor menntaskólans í Reykjavík 6000 kr. í risnufé 1951 og 6000 kr. 1952, 10000 kr. 1953, 1954 og 1955. Skólameistarinn á Akureyri hefur haft 6000 kr. 1951, 6000 kr. 1952 og 10000 kr. hvert áranna 1953–55, en skólameistari á Laugarvatni hefur haft 10000 kr. í risnufé 1954 og 10000 kr. 1955. Forseti hæstaréttar hefur haft 5500 kr. 1951–54, en 10000 kr. 1955, og forseti Íslands 70000 kr. fjárveitingu í fjárlögum 1951, 1952, 1953, 1954 og 1955, en risna hans hefur annars verið greidd, að því er ég bezt veit, eftir reikningi, þótt fjárveiting hafi verið tiltekin 70000 kr.

Þetta er það risnufé, sem við höfum fram að telja. Að öðru leyti hefur risna að sjálfsögðu verið greidd samkv. reikningum, eins og venja hefur verið frá fyrstu tíð.

Allar þessar greiðslur, sem ég hef nú lesið varðandi árið 1955, eru heimilaðar í fjárlögum fyrir viðkomandi ár og langflestar þeirra alveg sérstaklega tilgreindar sem fjárlagaliðir, þannig að hv. fyrirspyrjandi hefði ekki þurft annað en að nenna að lesa fjárlögin til þess að komast að raun um, hvaða risna var greidd í þeim tilfellum. En til viðbótar er rétt að taka það fram, að risna ráðuneytisstjóra og ríkisendurskoðanda er ekki sérstakur fjárlagaliður, heldur innifalin í lið, sem heitir: Annar kostnaður ráðuneyta. En hinir liðirnir allir eru tilgreindir, að því er ég bezt veit, sérstaklega hver fyrir sig í fjárlögunum.

Um b-liðinn eða húsaleigustyrkinn er það að segja, að húsaleigustyrkur hefur undanfarið verið greiddur þessum mönnum:

Fjórum deildarlæknum á landsspítalanum, einum deildarlækni á Kleppi og þremur læknum, sem starfa við rannsóknastofu háskólans, 5400 kr. hverjum á ári. Þessar greiðslur hafa að jafnaði verið reiknaðar með í fjárlagaáætlun stjórnarnefndar ríkisspítalanna og því fjárveiting til sjúkrahúsanna á hverju ári áætluð með tilliti til þessara greiðslna, svo sem fylgigögn frv. til fjárlaga bera með sér.

Þá hefur í fjárlögum undanfarin ár verið liðurinn: Húsaleiga forsætisráðherra 3000 kr. í grunn á ári. Það er gömul hefð að greiða þennan húsaleigustyrk. Lengi var það svo, að forsrh. hafði frítt húsnæði.

Í fjárl. 1955 var gert ráð fyrir húsaleigu handa biskupi 24000 kr. og húsaleigustyrkur greiddur samkv. því. Í fjárl. 1955 er enn fremur gert ráð fyrir 40 þús. krónum til greiðslu á húsaleigustyrk til nokkurra presta, sem ekki hafa embættisbústað, hefur verið sérstaklega veitt.

Á árinu 1955 var greiddur húsaleigustyrkur til rektors háskólans 24000 kr.

Þá má geta þess, að yfirlæknar á sjúkrahúsunum að Vífilsstöðum, Kristnesi og Kleppi svo og deildarlæknar á Vífilsstöðum og Kristnesi búa í húsnæði sjúkrahúsanna án endurgjalds.

Um bifreiðastyrkina er það að segja, að á árinu 1953 kom fram á Alþ. fsp. um það, hverju hefðu numið bílastyrkir til starfsmanna og embættismanna á árinu 1952. Þessari fsp. var svarað á Alþ. hinn 10. febr. 1954 með ýtarlegri skýrslu, sem forsrh. birti þá og er prentuð í Alþingistíðindunum fyrir árið 1952. Má því vísa hv. fyrirspyrjanda þangað varðandi greiðslurnar árið 1952, en síðan hafa bifreiðasamningar verið gerðir sem hér segir á árunum 1953, 1954 og 1955, en við höfum ekki séð ástæðu til að fara að grafa í þessi mál fyrir árið 1951, og verður hver að lá okkur það, sem vill, að okkur þyki það sæmilegt svar við þessari spurningu að vísa til þeirrar skýrslu, sem gefin var 1952, og bæta við bílastyrkjum síðan, sem gerðir eru eftir samningum. Það er nú nokkuð langur listi og væri náttúrlega réttast, að ég afhenti bara fyrirspyrjanda hann, til þess að hann geti birt hann í Frjálsri þjóð, en af því að ég gat þess í upphafi, að ég ætlaði að svara fsp., þó að hún væri brot á þingsköpunum, þá mun ég nú lesa listann, en hann er á þessa lund:

Forstjóri tóbakseinkasölunnar 1953 10700 kr., 1954 10700 kr., 1955 10700 kr. Lyfsölustjórinn 1954 12000 kr., 1955 12000 kr.

Ríkisútvarpið: Magnaravörður 1953 11250 kr., 1954 11250 kr., 1955 11250 kr. Verkfræðingur við ríkisútvarpið 1953 6250 kr., 1954 6250 kr., 1955 6250 kr. Umsjónarmaður 1953 3750 kr., 1954 3750 kr., 1955 3750 kr. Útvarpsstjóri 1954 7500 kr., 1955 7500 kr.

Landssmiðjan: Það eru tveir verkstjórar, sem hafa slíkan samning, samtals 15600 kr. 1953, 1954 og 1955.

Forstjóri innkaupastofnunar ríkisins 1953 8000 kr., 1954 8000 kr., 1955 8000 kr. Bæjarfógetinn á Akureyri 1953 5750 kr., 1954 5750 kr., 1955 5750 kr. Bæjarfógetinn í Hafnarfirði 1953 7500 kr., 1954 7500 kr., 1955 7500 kr. Innheimtumaður bæjarfógetans í Hafnarfirði 1954 6000 kr., 1955 6000 kr. Skipaskoðunarstjóri 1953 10200 kr., 1954 10200 kr., 1955 18000 kr. Öryggiseftirlitsstjóri 1953 15000 kr., 1954 15000 kr., 1955 18000 kr. Tveir öryggiseftirlitsmenn 1953 20000 kr., 1954 20000 kr., 1955 23000 kr. Arkitektar hjá skipulaginu, þrír, 1953 13200 kr., 1954 9600 kr., 1955 9600 kr. Ullarmatsmaður 1953 4500 kr., 1954 4500 kr., 1955 4500 kr. Tollverðir utan Reykjavíkur 1953 9500 kr., 1954 12000 kr., 1955 18400 kr. Yfirfiskmatsmenn, 9 talsins, 1953 93480 kr., 1954 101043 kr., 1955 179856 kr. Eftirlitsmenn hjá raforkumálastjóra 1953 (1) 18000 kr., 1954 (2) 44300 kr., 1955 (3) 73545 kr.

Skipaútgerð ríkisins: Forstjóri 1953 8000 kr., 1954 8000 kr., 1955 8000 kr. Eftirlitsmaður 1953 8000 kr., 1954 8000 kr., 1955 8000 kr. Vitamálastjóri 1953 10700 kr., 1954 22000 kr., 1955 22000 kr.

Þá koma flugmál: Gjaldkeri 1953 8400 kr., 1954 8400 kr., 1955 8400 kr. Tveir varðstjórar 1953 9600 kr., 1954 9600 kr., 1955 9600 kr. Verkstjóri 1953 4800 kr., 1954 4800 kr., 1955 4800 kr. Rafvirki 1953 7200 kr., 1954 7200 kr., 1955 7200 kr. Stýrimannaskóli: Skólastjóri 1953 1250 kr., 1954 1250 kr., 1955 1250 kr. Fimm námsstjórar 1953 51750 kr., 1954 51750 kr., 1955 51750 kr. Þjóðminjavörður 1953 5000 kr., 1954 5000 kr., 1955 5000 kr. Níu sérfræðingar í atvinnudeild 1953 44819 kr., 1954 47873 kr., 1955 54421 kr. Skógrækt ríkisins: Skógarverðir 1953 ( 3 ) 25655 kr., 1954 ( 4 ) 26158 kr., 1955 ( 4 ) 35632 kr.

Fiskiðjuver ríkisins: Forstjóri 1953 6000 kr., 1954 6000 kr., 1955 6000 kr. Framkvæmdastjóri sölu setuliðseigna 1953 12000 kr., 1954 12000 kr., 1955 12000 kr. Umsjónarmaður 1953 18000 kr., 1954 18000 kr., 1955 18000 kr. Verðgæzlustjóri í Reykjavík 1953 12000 kr., 1954 15000 kr., 1955 15000 kr. Verðgæzlumaður á Akureyri 1953 2700 kr., 1954 3600 kr., 1955 3600 kr.

Skólabúið á Hvanneyri 1953 14700 kr., 1954 14700 kr., 1955 14700 kr.

Þá eru átta ráðuneytisstjórar, sem hafa samninga upp á 1954 60000 kr., 1955 60000 kr. Ríkisendurskoðandi 1953 5600 kr., 1954 9600 kr., 1955 9600 kr. Þjóðleikhússtjóri 1953 7200 kr. 1954 7200 kr. 1955 7200 kr.

Veðurstofa: Loftskeytamaður 1953 2300 kr., 1954 ekkert, 1955 7200 kr. Deildarstjóri í varnarmáladeild 1953 4750 kr., 1954 18000 kr., og tveir fulltrúar sömu fjárhæðir. Skattstjórinn í Reykjavík 1953 3000 kr., en ekkert 1954 eða 1955. Rektor menntaskólans í Reykjavík 1953 7200 kr., 1954 7200 kr., 1955 7200 kr. Skólameistari á Laugarvatni 1954 8000 kr., 1955 8000 kr. Rektor háskólans 1955 7500 kr. Skólastjóri kennaraskólans 1955 7500 kr. Skólastjóri málleysingjaskólans 1955 7500 kr. Berklayfirlæknir 1954 14400 kr., 1955 14400 kr. Hagstofustjóri 1954 7500 kr., 1955 7500 kr.

Póstur og sími: Fimm verkstjórar 1953 66250 kr., 1954 66250 kr. Sjö verkstjórar 1955 86875 kr. Bæjarsímastjóri 1953 11250 kr., 1954 5625 kr., 1955 11250 kr. Stöðvarstjóri 1953 11250 kr., 1954 11250 kr., 1955 11250 kr. Bílaumsjónarmaður 1953 11250 kr., 1954 11250 kr., 1955 11250 kr. Varðstjórar tveir 1953 20625 kr., 1954 22500 kr., 1955 22500 kr. Birgðastjóri 1953 11250 kr., 1954 11250 kr., 1955 11250 kr. Símamenn 1953 (4) 38750 kr., 1954 (4) 38750 kr., 1955 (3) 27500 kr. Umdæmisstjóri 1953 4375 kr., 1954 4375 kr., 1955 5250 kr. Yfirverkfræðingur 1953 6250 kr., 1954 6250 kr., 1955 6250 kr. Eftirlitsmaður 1953 11250 kr., 1954 11250 kr., 1955 15000 kr. Póstmeistari 1953 5000 kr., 1954 5000 kr. Fulltrúar tveir 1953 18750 kr., 1954 18750 kr., 1955 18750 kr. Tengingamaður 1953 11250 kr., 1954 11250 kr., 1955 11250 kr. Verkfræðingur 1953 15000 kr., 1954 15000 kr. 1955 15000 kr. Símvirki 1953 11250 kr., 1954 11250 kr., 1955 11250 kr. Fulltrúi í umferðarmálaskrifstofu 1955 10000 kr. Fulltrúi á póststofu 1955 10000 kr.

Hér eru taldir allir þeir samningar, sem gerðir hafa verið um bílastyrki samkvæmt því, sem fyrir liggur í fjmrn., og ég treysti því, að ekki hafi verið gerðir samningar, án þess að þeir séu þar lagðir fyrir, en það er skylt að leggja þá þar fyrir samkv. reglum, sem um þessi mál gilda.

Þá skal ég geta þess líka, að nokkrum embættum fylgja full afnot af bifreið, og hef ég ekki talið það hér upp, vegna þess að það er spurt aðeins um bílastyrki, húsaleigustyrki og risnu.

Þá stendur í 3. liðnum: Hver eru þau hliðstæð embætti samkv. launalögum, þ. e. í sömu launaflokkum, sem hafa ekki notið slíkra fríðinda?

Ég verð að biðja menn að virða mér til vorkunnar, þó að ég svari þeirri spurningu á þá lund, að hv. fyrirspyrjandi eigi mjög auðvelt með það sjálfur að sjá með samanburði við launalög og launaskrár, þegar hann hefur nú fengið þessar upplýsingar, hverjir það eru, sem ekki koma þarna til greina. Ég get varla ímyndað mér, að hann hafi ætlazt til þess, að ég færi að lesa upp alla starfsmenn ríkisins, sem ég hef ekki nefnt í sambandi við greiðslu á bílastyrk.

Þá er 4. liður: Hvaða embættismönnum eru ætluð slík fríðindi sem um getur í 1. lið fyrirspurnar þessarar eftir gildistöku hinna nýju laga?

Þetta á sem sagt við húsaleigustyrkina, bílastyrkina og risnuna. Ég vildi svara á þá lund, að ég geri ráð fyrir, að svipuðum reglum verði að fylgja um greiðslur þær, sem hér hefur verið gerð grein fyrir, eftir setningu launalaganna og giltu fyrir gildistöku þeirra. Ég geri ekki ráð fyrir, að launalögin hafi út af fyrir sig nein áhrif á þessa risnuliði, sem ég hef nefnt, húsaleiguna eða samningana um bílastyrki.

Þá er loks 5. spurningin: Hvaða reglum er fylgt við veitingu slíkra fríðinda eins og um er spurt?

Vafalaust hefur risnufé verið látið fylgja þeim embættum, sem áður eru greind í svarinu, vegna þess að yfirvöldunum hefur þótt sem þessum störfum hlyti að fylgja sérstakur risnukostnaður.

Húsaleigustyrkur til þeirra lækna, sem taldir eru hér að framan, hefur verið greiddur af þeirri ástæðu, að menn hafa sannfært sig um, að ella mundu læknar alls ekki fást til þess að starfa við ríkisstofnanirnar. Það hefur verið hreint mál. Það er á allra vitorði, að kjör þau, sem hið opinbera hefur getað boðið læknum, standast hvergi nærri samanburð við tekjur „praktiserandi“ lækna, og þess vegna hefur verið gripið til þess í samráði við Alþingi sjálft að veita þessi hlunnindi til læknanna.

Um bifreiðastyrkina gildir nú reglugerð frá 10. febr. 1953, en þar er gert ráð fyrir því, að þegar hagkvæmt þykir að semja við opinberan starfsmann um að nota bifreið hans sjálfs í sambandi við starf hans, þá sé gerður um það skriflegur samningur við ráðuneyti það, sem viðkomandi stofnun heyrir undir, enda samþykki fjármálaráðuneytið samninginn. Í framkvæmd þessarar reglugerðar hefur vafalaust verið leitazt við að meta þörf fyrir ferðalög í þágu starfsins og samanburður gerður á því, hvort hagkvæmara þætti að gera samning við starfsmanninn um þóknun fyrir að nota hans bifreið eða stofnunin ætti bifreið eða sá háttur væri á hafður að kaupa bifreiðar hverju sinni, er á þyrfti að halda. Mun óhætt að telja, að fyrsta leiðin, að semja við starfsmanninn, sé í mörgum tilfellum hagkvæmust, og hefur í vaxandi mæli verið stefnt að því í seinni tíð að fækka þeim bifreiðum, sem opinberar stofnanir eiga sjálfar og reka sjálfar og menn hafa ótakmörkuð afnot af, og reynt í staðinn fyrir það að gera samninga við bifreiðaeigendur í hópi starfsmanna um afnot af bifreiðum þeirra í þágu starfsins. Bifreiðasamningum hefur því fjölgað á síðari árum, síðan nýjar reglur voru settar um þetta, en bifreiðum ríkisins sjálfs hefur fækkað.