03.11.1955
Sameinað þing: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (2853)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem mig langaði til þess að beina til hæstv. viðskmrh.

Ég verð að segja, að mér komu þessar upplýsingar hv. 2. þm. Reykv. á óvart. Ég hafði ekki heyrt um þessa staðreynd, fyrr en hann skýrði frá henni hér áðan í ræðustólnum. Hitt kom mér enn meir á óvart, að þessar staðreyndir skyldu vera framandi fyrir hæstv. viðskmrh., og dettur mér þó ekki í hug að vefengja þau ummæli hans, að honum hafi verið þetta ókunnugt eins og mér og væntanlega einnig flestum öðrum hv. þingmönnum. En það vil ég undirstrika sérstaklega, að það er furðulegt ástand, ef það getur gerzt, að jafnmikilvægar ákvarðanir og hér er um að ræða séu teknar án þess að ríkisstj. hafi hugmynd um. Það virðist ekki vera mikið trúnaðarsamband á milli þessarar voldugu stofnunar, sem hefur með innflutningsréttindi bátaútvegsins að gera, og hæstv. ríkisstjórnar, þegar slíkt getur gerzt.

Það, sem mig langar til að spyrja hæstv. —viðskmrh. að í þessu sambandi, er eftirfarandi: Ef þetta er rétt, að sölunefndin hafi stöðvað sölu á B-skírteinum, telur ríkisstj. það vera heimilt samkv. þeim reglum, sem um málið gilda? Getur nefndin haldið fast við þessa ákvörðun sína, hafi ákvörðun þegar verið tekin? Það er atriði, sem hæstv. ráðh. ætti að geta upplýst eða hlýtur að hafa ákveðna skoðun um og sannarlega skiptir þingheim og allan almenning miklu máli.