06.01.1956
Neðri deild: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (2879)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Hannibal Valdimarsson:

Ég vil ekki trúa því enn þá, að hæstv. ríkisstj. gefi engin svör um þetta mál. Það eru óvenjulega vel setnir ráðherrastólarnir í dag, það eru fjórir ráðherrar hér viðstaddir, það vantar aðeins tvo, það er óvenjulegt, og þetta mál er þess eðlis, að það getur ekki verið, að þeir tveir ráðherrar, sem fjarverandi eru, sitji inni með alla vitneskjuna um þetta mái. Þetta mál er þess eðlis, að hæstv. ríkisstj. hlýtur öll að hafa um það fjallað, og hver einn einasti ráðherra getur þess vegna áreiðanlega gefið þingheimi einhverja vitneskju um málið.

Það getur því ekki verið annað en að annaðhvort sé hér eitthvað á seyði, sem eigi að þegja um, eða það sé orðin nú upptekin stefna hjá hæstv. ríkisstj. að þegja við öllum meiri háttar málum, sem Alþingi óskar eftir að fá vitneskju um, og hvorugt er viðunandi.

Tíminn, blað utanrrh., segir, að hann hafi það eftir góðum heimildum, að í þessari till. frá Efnahagssamvinnustofnun Evrópu sé það efni, að brezkir togaraútgerðarmenn felli niður bann sitt gegn löndun fisks úr íslenzkum togurum, en í staðinn á Ísland að heita því að færa ekki út fiskveiðatakmörk sín úr þeim 4 mílum, sem þau eru nú. Morgunblaðið orðar þetta á óheppilegri hátt, segir ekki frá efni till., en talar í allri sinni frásögn um landhelgi Íslands og landhelgislínuna, en bæði blöðin segja frá þessu í tilefni af því, að í gær eða fyrradag hafi verið fundur með fulltrúum brezku ríkisstj. og öllum greinum fiskiðnaðarins og niðurstaðan sé sú, að Bretar hafi tilkynnt, að þeir vilji fallast á þessa lausn málsins. Þetta er það, sem við fáum út úr stjórnarblöðunum.

Við erum ekki að biðja um neitt annað en að fá vitneskju um það, hver sé aðdragandi þessa máls, þessarar tillögu, sem hér er efnislega skýrt frá, og hvernig málið standi nú. Það er eingöngu vegna mikilvægis málsins, sem ég bið um þetta, og mér þætti það allalvarlegt, ef nokkuð það væri búið að gera í þessu máli, sem bindi okkur við 4 sjómílna fiskveiðilínuna, friðunarlínu, en það er áfangi, sem íslenzka þjóðin hefur látið í ljós nú þegar að hún vilji ekki una við og geti ekki unað við vegna atvinnuástands í heilum landshlutum.

Ég varð undrandi í gær, þegar færzt var undan því af hæstv. forsrh. að ræða sjávarútvegsmálin, eins og þau standa í dag, og ég hefði talið fulla ástæðu til þess, að þingmenn hefðu bara einn og einn úr sætum sínum risið upp og mótmælt þeim undirtektum hæstv. forsrh. að neita að ræða um það mál. En ég er enn meira undrandi í dag, ef enginn ráðh. fæst til þess að gefa góðfúslega upplýsingar um þetta mál. Þögnin er eitt af því versta núna, af því að grunsemdir vakna um það og hafa þegar vaknað, vegna fyrri frétta líka, að eitthvað sé búið að gera í þessu máli, sem þjóðin megi ekki fá að vita um fyrr en um seinan.