19.10.1955
Sameinað þing: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (2885)

Tollgæslumál

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það þarf áreiðanlega ekki að hvetja mig í þessu efni, því að ef nokkur maður í landinu hefur áhuga á því að koma í veg fyrir smygl, þá er það áreiðanlega ég og það af skiljanlegum ástæðum. En hér er á marga lund við ramman reip að draga, og skal ég ekki fara mjög út í það nú, eins og ég sagði áðan, því að málið kemur allt fyrir síðar. Skal ég búa mig undir að geta þá gefið nánari upplýsingar um þessi efni. Ég vil aðeins segja út af því, sem hv. 1. landsk. þm. (GÞG) sagði, þar sem hann talaði um, að það væri mikið af vörum, sem væru auðsjáanlega tollsviknar, að þetta gæti verið rétt, að mikið sé af slíkum vörum, en ég hef þráfaldlega rekið mig á, að menn hafa sagt við mig: Þarna eru vörur, sem við álítum að hljóti að vera tollsviknar, því að þessar vörur eru yfirleitt ekki leyfðar. — Ég hef gert gangskör að því, að þetta væri athugað, en þá hefur oftast nær komið upp úr dúrnum, að málið er alls ekki svo einfalt, vegna þess að þessar vörur gætu verið komnar inn með réttu móti. Oftast nær er það svo, að svarið er, þegar búið er að athuga málið, að vörurnar gætu verið það, og þá skilst mér, að þeir, sem þessi mál hafa með höndum, standi ráðalausir uppi, vegna þess að mönnum er ekki skylt að sanna, að þeir hafi greitt tollinn. Yfirleitt er tollgæzlulöggjöfin byggð á því, að tollgæzlan fari fram, þegar varan kemur inn í landið, en ekki í búðunum, eftir að varan er komin inn.

Því fer náttúrlega víðs fjarri, að öll sú vara sé tollsvikin, sem sumir álíta að sé það, þegar þeir ganga um bæinn og líta í gluggana. Það er svo frjáls innflutningur hér nú, að það eru tiltölulega mjög fáar vörutegundir, sem eru algerlega bannaðar og ekki geta verið í búðunum með eðlilegum hætti. Sem sagt, það hefur gengið ákaflega illa að eltast við vörurnar í búðunum. Við munum leggja til, að sett verði lagaákvæði til styrktar því starfi og þá ekki síður varðandi sjálfa tollgæzluna, sem sagt eftirlit með því, að varan komist ekki inn í landið ótolluð.