05.12.1955
Efri deild: 25. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

12. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur ekki orðið sammála um þetta frv. Hv. þm. Barð. (GíslJ) gefur út sérstakt nál. og leggur til, að frv. verði vísað frá með rökst. dagskrá, sem ég skal aðeins nefna síðar. Hv. 4. þm. Reykv. (HG) var ekki viðstaddur, þegar n. afgreiddi málið, en við hinir 3 nm. leggjum til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.

Þetta mál er mjög einfalt; það er aðeins um það að fella niður frá áramótum næstu þá skerðingu dýrtíðaruppbótar, sem verið hefur á hærri launum. Þetta mun kosta ríkissjóð fé að vísu, en meiri hl. n. lítur svo á, að þetta sé að verða óhjákvæmilegt. Auk þess mun hæstv. ríkisstj. hafa gefið fyrirheit um það á. m. k. að leggja þetta til við Alþ. og haft til þess a. m. k. eitthvert fylgi, sem hún vissi um. Með því að ákveða laun misjöfn, eins og gert er í launal., viðurkennir ríkisvaldið, að það eigi að vera viss munur á launum eftir því, hver staðan er, hvað ábyrgðarmikil hún er og kannske líka að einhverju leyti hve há hún er eða virðuleg. En ef sá háttur er hafður á, sem verið hefur, að full kaupgjaldsvísitala er greidd á lægri launin, en ekki á hærri launin, þá raskast auðvitað það hlutfall, sem löggjöfin með setningu launal. hefur ætlazt til að væri á milli hinna einstöku flokka, þannig að munurinn verður minni á hærri launum og lægri en til var ætlazt. Þess vegna er það auðvitað alveg rökrétt, ef dýrtíðaruppbót er greidd á laun á annað borð, að hún sé á öll launin, hvort sem þau eru há eða lág, því að ef það er ekki gert, verður að líta á hana sem fátækrahjálp, en ekki dýrtíðaruppbót í venjulegri merkingu þess orðs. Hitt er svo annað mál, að það má játa, að þeir, sem hærra eru launaðir, þola betur en hinir að öllum líkindum, að þeirra dýrtíðaruppbót sé skert.

Um álit hv. minni hl. skal ég ekki ræða, fyrr en hann hefur gert nánari grein fyrir afstöðu sinni. Þó vil ég nú þegar benda á, að annað meginatriðið í dagskrártill. fær ekki staðizt að mínu áliti, þar sem vísað er til, að það liggi fyrir þinginu frv. til nýrra launalaga, því að ákvæðin um dýrtíðaruppbót hafa alltaf verið í sérstökum lögum og eru það nú, og í sjálfu launalagafrv. er gert ráð fyrir því, að til séu lög um verðlagsuppbót. 23. gr. frv. hljóðar svo:

„Á laun samkv. 1. gr. laga þessara skal greiða verðlagsuppbót eins og hún er ákveðin á hverjum tíma samkv. lögum.“

Að öðru leyti skal ég að sjálfsögðu ekki ræða um álit minni hl., fyrr en frekar heyrist frá honum.