27.01.1956
Sameinað þing: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

1. mál, fjárlög 1956

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Á þskj. 298 á ég eina litla brtt. Hún er um það, að framlag á 15. gr. til Tónlistarfélags Ísafjarðar, sem er núna í frv. 20 þús. kr. og hefur verið nú um nokkur ár, verði hækkað upp í 50 þús. kr.

Mér barst fyrir viku eða svo bréf frá forráðamönnum Tónlistarfélags Ísafjarðar, þar sem þeir skýrðu mér frá því, að þeir hefðu snúið sér til hæstv. menntmrh., hv. þm. N-Ísf. (SB) og hv. þm. Ísaf. (KJJ) og beðið þá að beita sér fyrir því, að þessi hækkun fengist til Tónlistarfélags Ísafjarðar, sem rekur myndarlegan tónlistarskóla. Þessi tónlistarskóli á Ísafirði hefur haft fleiri nemendur en nokkur annar tónlistarskóli hefur haft utan Reykjavíkur. Þetta byggist á sérstökum dugnaði skólastjórans, Ragnars H. Ragnars söngkennara, sem annast söngkennslu bæði í barnaskóla Ísafjarðar og gagnfræðaskóla Ísafjarðar og hefur auk þess tekið að sér það hlutverk fyrir Tónlistarskóla Ísafjarðar að annast forstöðu þess skóla og bera hann uppi ásamt öðrum kennslukröftum, sem hann hefur til þess fengið.

Það er alveg áreiðanlegt, að það er samróma álit Ísfirðinga, að þessi menntastofnun hafi verið mikils virði fyrir bæinn, en Tónlistarfélag Ísafjarðar er í miklum fjárhagsvandræðum út af rekstri hennar, hefur færzt það í fang m. a. að kaupa allstórt og myndarlegt hús handa skólanum til þess að stunda þar kennslu í hinum ýmsu tegundum hljóðfæraleiks, og þetta, greiðsla á kennslulaunum til stundakennara og skólastjóra og að standa undir þessari húseign, gerir það að verkum, að þessi 20 þús. kr. styrkur, sem að undanförnu hefur verið greiddur til Tónlistarfélags Ísafjarðar, hefur hrokkið mjög skammt til þess að standa undir þessari miklu starfsemi og þýðingarmiklu, og hafa þó verið tekin mjög há kennslugjöld af nemendum. Allt þetta kemur fyrir ekki, skuldir safnast á Tónlistarfélagið þrátt fyrir þetta.

Ég veit, að það muni verða haft á móti þessari till., að tónlistarskólarnir annars staðar í hinum smærri bæjum hafi ekki nema 20 þús. kr. fjárveitingu og þess vegna sé erfitt að taka þennan eina bæ út úr vegna tónlistarskólahaldsins þar. En sannleikurinn er sá, að þetta er ekki sambærilegt. Hinn frábæri dugnaður Ragnars H. Ragnars og myndarskapurinn við rekstur þessa skóla að öllu leyti er sérstæður, og tónlistarskólarnir, hvorki á Akureyri né í öðrum kaupstöðum landsins, eru neitt sambærilegir við þennan skóla, hvorki um fjölbreytni í kennslu né nemendafjölda. Þess vegna er ekki nema sjálfsagt að verðlauna þetta með nokkru hærri fjárveitingu úr ríkissjóði en til hinna kaupstaðanna í sama skyni.

Ég mæli þess vegna mjög eindregið með því, að þessi fjárveiting verði veitt, sem sé, að framlagið til Tónlistarfélags Ísafjarðar vegna tónlistarskólans þar hækki úr 20 þús. í 50 þús. kr., og vona, að boðskapur minn um þetta og óskir berist frá hinum tómu stólum til þeirra, sem eiga að sitja í þeim.