30.01.1956
Sameinað þing: 33. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

1. mál, fjárlög 1956

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ekki kemur mér það á óvart, þó að hv. 2. landsk. þm., Brynjólfur Bjarnason, sé óánægður með það, ef samvinna skyldi takast með lýðræðissinnuðum andstæðingum íhaldsins. Hann veit, að hann og aðrir ráðamenn flokks hans eiga ekki heima í þeim hóp. Hann má sjálfum sér um kenna. Hann hefur sýnt og sannað í ræðum sínum, ritum og framkvæmdum, að honum og flokknum, sem hann stýrir, er ekki treystandi til heils hugar þátttöku í slíku samstarfi. Alþjóðakommúnisminn, vilji stjórnar erlends stórveldis, er hans leiðarljós. Slíkur áttaviti hentar ekki eða hæfir íslenzku þjóðinni. Hann vill gefa í skyn gegn betri vitund, að „hægri kratar“, sem hann kallar, mundu taka upp samvinnu við íhaldið eftir kosningar. Hann veit, að þetta er tilbúningur, en margur hyggur mann af sér. Hvað liður samningum hans við íhaldið um að standa saman um kosningar í síldarútvegsnefnd, og hvað liður þeim tengslum, sem þar hafa verið á milli fyrr og siðar? Hitt kemur mér nokkuð á óvart, ef hv. 8. landsk. þm., Bergur Sigurbjörnsson, hefur nú gert Brynjólf Bjarnason að sínu leiðarljósi og ætlar að fylgja honum í gegnum þykkt og þunnt og afneitar þar með loforðum sínum til sinna kjósenda.

Ég skal svo víkja mér að eldhúsverkunum.

Í höfuðmálgagni ríkisstj., Morgunblaðinu, segir svo s. l. laugardag: „Nú er hið tilgangslausa hringskeið verðbólgufársins að renna til enda. Það er að koma fram, sem spáð var, að sú hringavitleysa mundi verða fáum til góðs.“ Þetta er dómur þessa ágæta blaðs um stefnu, störf og framkvæmdir hæstv. ríkisstj.: Hringavitleysa, sem fáum hefur orðið til góðs. Þennan dóm kveður blaðið upp sama daginn sem ríkisstj. loks gerir þjóðinni grein fyrir bjargráðum sínum útgerðinni til handa og leggur fram frv. á Alþ. um yfir 200 millj. kr. viðbótarskattaálögur á almenning ofan á þá skattabyrði, sem fyrir er. Hitt er svo fullkomið öfugmæli, eins og allir sjá, að hringskeið verðbólgufársins sé að renna á enda. Afleiðing þessara nýju skatta hlýtur að verða stórfelld verðhækkun, lækkun verðgildis krónunnar, vaxandi verðbólga og gróðabrall, aukinn framleiðslukostnaður, unz útgerðin stöðvast á ný. Með samþykkt þessa frv. er nýju verðbólgufári hleypt á stað. Fróðir menn telja víst, að sú minnsta hækkun vísitölunnar, sem hægt sé að búast við, um leið og skattahækkunin kemur fram í verðlaginu, sé 7 stig, sem fljótlega hljóti að fara upp í a. m. k. 10 stig. Ég óttast, að þessi áætlun byggist á allt of mikilli bjartsýni. Mér virðist allt benda til þess, að hún verði stórum meiri. Sér þá hver maður, hvert stefnir. Það er beint áframhald á þeirri braut, sem hæstv. ríkisstj. hefur fetað til þessa með þeim árangri, sem ljóst er.

Samkvæmt frv. til fjárlaga fyrir yfirstandandi ár, sem hér liggur fyrir, og brtt. meiri hl. fjvn. má telja víst, að heildarupphæð fjárlaganna verði nokkuð yfir 650 millj. kr. Það er um 140 millj. kr. hærri upphæð en í fjárlögum síðasta árs. Tekjurnar voru þá hins vegar áætlaðar svo varlega, að þær höfðu 31. des. farið yfir 113 millj. kr. fram úr áætlun, og allt bendir til þess, að þær nálgist 650 millj. kr. eða því sem næst sömu upphæð og þær verða áætlaðar á fjárlögum þessa árs. Samt sem áður hefur hæstv. ríkisstj. krafizt enn nýrra skatta í ríkissjóð. Síðastliðinn laugardag samþykktu stuðningsflokkar hennar nýjan „bandorm“, sem hækkar vörumagnstoll og verðtoll um fjórðung, bílaskatt og hjólbarðaskatt um helming og benzíntoll um 70%, auk annarra smærri atriða. Þessara nýju skatta er ekki þörf, til þess að fjárlögin verði hallalaus. Krafa ríkisstj. um samþykkt „bandormsins“ stafar því eingöngu af því, að hún vill hafa umframtekjur til ráðstöfunar til að mæta öðrum útgjöldum en fjárlögin ákveða, þ. e. a. s. taka sér sjálfri fjárveitingavald. Þennan hátt hefur ríkisstj. haft á undanfarin ár og þannig fengið til umráða nær því 300 millj. kr. á síðustu 3 árum umfram tekjuáætlun fjárlaganna.

En þær 650 millj. kr., sem teknar eru inn á fjárlögin, eru ekki nema nokkur hluti af þeim álögum, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt og hyggst að leggja á landsfólkið. Bátagjaldeyrisálagið, sem er áætlað um 110 millj. kr., er beinn skattur á landsmenn, þótt fjárhæðirnar renni ekki í ríkissjóð, heldur til útgerðarinnar. Og nú hefur hæstv. ríkisstj. lagt fyrir Nd. frv. um nýjar skattaálögur til svokallaðs framleiðslusjóðs og áætlar sjálf upphæð þeirra ekki minna en 140 millj. kr. á þessu ári.

Samtals nema því skattaálögur þær, sem ætlaðar eru til aðstoðar sjávarútveginum og ekki mega sjást í fjárlögum, samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar 250 millj. kr. á árinu. Sé þessari upphæð bætt við fjárlagaupphæðina, 650 millj., verður heildarupphæð samkvæmt áætlun ríkisstj. nokkuð yfir 900 millj. kr. En enginn vafi leikur á því, að skattar þessir og tollar fara mjög mikið fram úr áætlun, sennilega, ef miðað er við reynslu undanfarinna ára, ekki minna en 20%, og verða því talsvert yfir 1000 millj. kr. á árinu, eða nokkuð á annan milljarð. Til samanburðar má geta þess, að verðmæti allrar framleiðslu þjóðarinnar árið 1954 var talið um 2900 millj. kr., eða tæpir þrír milljarðar. Sennilega hafa verðmætin eitthvað aukizt að krónutölu síðan, en flest bendir til, að skattabyrði sú, sem ríkisstj. og Alþ. nú skammta þjóðinni, nemi rétt í kringum þriðjungi af verðmæti allrar framleiðslu þjóðarinnar á ári.

Frv. um framleiðslusjóð, þ. e. bjargráðin við sjávarútveginn, hefur átt sér langan aðdraganda. Meðgöngutími hæstv. ríkisstj. hefur orðið býsna langur. Það var alkunnugt þegar á s. l. hausti, að útgerðarmenn bæði togara og vélbáta töldu sér ókleift að hefja veiðar um áramótin að óbreyttu. Ríkisstjórninni var að sjálfsögðu bezt allra um þetta kunnugt. Í nóvember s. l. ákváðu útvegsmenn upp á sitt eindæmi að hækka bátagjaldeyrisálagið úr 60% upp í 70% og 30% í 40%. Að vísu leyfðu þeir hæstv. forsrh. að koma á fundinn, sem þessa ákvörðun tók, og láta bóka mótmæli í gerðabók fundarins, en þeir höfðu orð hans að engu, sinntu mótmælum hans ekki og fóru sínu fram. Mun slíkt algert einsdæmi, að einstakir menn taki þannig í sínar hendur það vald, sem ríkisstj. einni ásamt með. Alþ. ber, þ. e. a. s. ákveða verð á gjaldeyrinum eða setja reglur um verðskráningu hans. Af þessu mátti hæstv. forsrh. glögglega skilja, að hverju fór, að jafnvel flokksbræður hans og kjósendur höfðu misst trúna á stefnu hans og hugðust að knýja fram aðgerðir með veiðibanni. Hefði því mátt vænta þess, að hann léti hraða rannsóknum og athugunum sérfræðinga sinna og leggja skýrslur þeirra og greinargerðir fyrir Alþ., svo að það gæti tekið ákvörðun fyrir áramót um, hvað gera skyldi. Svo var þó ekki. Hæstv. ráðherra kvað álitsgerð sérfræðinganna einkamál stjórnarinnar og neitaði að láta Alþfl. hana í té. Fjárlögum var frestað, engar till. um útgerðarmálin lagðar fyrir Alþ., þm. sendir í jólaleyfi, flotinn stöðvaðist svo um áramótin, verkbanni var snúið á hendur hæstv. forsrh. og ríkisstj. hans af hollvinum hans og mörgum stuðningsmönnum. Liðu svo fullar þrjár vikur, þangað til skipin loks voru leyst úr læðingi með loforðavíxli hæstv. ríkisstj., sem nú á að lögbjóða landsfólkinu að innleysa, um leið og það kaupir matvæli og aðrar nauðsynjar.

Undanfarna mánuði hafa blöð hæstv. forsrh. og flokksmenn hans innan þings og utan flutt þjóðinni þá lærdóma, að allir erfiðleikar útgerðarinnar stöfuðu af kaupgjaldshækkun verkafólks á s. l. vori um 11%. Það, að sú leið var farin til þess að rétta hlut verkamanna í bili að krefjast beinna verulegra kauphækkana, í stað þess, eins og gert var 1952, að knýja fram stöðvun dýrtíðar og nokkra lækkun á milliliðakostnaði, stafaði af því, að hæstv. ríkisstj. valdi sér samstöðu með kommúnistum í verkalýðshreyfingunni, sem lögðu alla áherzlu á hækkaða krónutölu kaupsins. Verðbólgubraskararnir hjá íhaldinu þóttust sjá sér leik á borði, eygja aukna gróðamöguleika með vaxandi dýrtíð og verðbólgu, og reynslan hefur sannað því miður, að þeir hafa séð rétt.

Rök hæstv. ríkisstj. fyrir því, að kauphækkunin s. l. vor hafi steypt útgerðinni í það öngþveiti, sem hún nú er í, eru þau, að kaupgjaldið verði að miðast við afkomu fyrirtækjanna, þess vegna verði að stilla kaupkröfunum svo í hóf, að gjaldgetu útflutningsatvinnuveganna sé ekki ofboðið, en þessa hafi ekki verið gætt.

Því verður vissulega ekki neitað, að til lengdar getur engin þjóð leyft sér að eyða meiru en hún aflar. En hitt er jafnljóst, að fleiri setjast að borði og taka hlut, þegar aflanum er skipt, en verkafólkið og sjómennirnir einir, og eins og skiptunum er nú háttað undir stjórn hæstv. forsrh., yrði litið eftir handa þessum aðilum, þegar þeir, sem hlut taka á þurru landi í viðskiptum við útgerðina, hafa sjálfir skammtað sér sinn hlut. Ég skal taka aðeins tvö dæmi, sem sanna þetta. Togaraútgerðarmenn munu hafa lagt fyrir ríkisstj. útreikninga, sem sýna, að til þess að útgerðin beri sig, þurfi hver togari að fá um 1980 þús. kr. framlag á ári, enda fái þeir um þriðjungi lægra verð fyrir fiskinn en bátaflotinn. Kaupgjald skipshafnarinnar á togara mun hafa verið alls nálægt 2 millj. kr., miðað við fullan úthaldstíma á ári. M. ö. o.: Til þess að togararnir beri sig, þarf skipshöfnin að vinna kauplaust, bókstaflega kauplaust, aðeins vera matvinnungur þann tíma, sem hún dvelst um borð.

Samkvæmt áætlun ríkisstj. er gert ráð fyrir að leggja togurunum sem framlag um 66 millj. kr. á næsta ári. Segjum, að 1400 manns séu á togaraflotanum. Til þess að hægt væri að komast af án þessara styrkveitinga, þyrfti að lækka kaup hvers einasta manns á togurunum um a. m. k. 47 þús. kr. á ári. Slíkt dettur vitaskuld engum í hug, jafnvel ekki hæstv. ríkisstj. Allir sjá, að það verður enginn togari hreyfður.

Eitt ágætt stjórnarblað, Tíminn, skýrði frá því nýlega og hafði eftir merkum flokksmanni, að bátagjaldeyrisálag og styrkir til vélbátaútgerðarinnar mundu nema samtals á þessu ári um 180 millj. kr. Hann áætlaði afla bátaflotans um 180 millj. kg. aðstoðin nemur því sem svarar 1 kr. á hvert kg af fiski. Segjum, að fiskverðið verði um kr. 1.30 á kg. Þá greiðir almenningur með sköttum og álögum 10/18 hluta af öllu fiskverðinu. Segjum enn fremur, að afli skiptist til helminga milli útgerðarmanna og sjómanna. Þó að sjómennirnir fengju engan eyri í hlut eða kaup, mundi samt vanta verulega á, allt að því 3/13 af fiskverðinu, að útgerðin gæti borið sig.

Svona er þá hag útgerðarinnar komið eftir sex ára björgunarstarfsemi hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar. Og enn flytja blöð ríkisstj., sérstaklega Sjálfstfl., þjóðinni þær kenningar, að kaupgjaldið eigi að miðast við greiðslugetu útflutningsatvinnuveganna og að sú 10–11% hækkun á kaupi, sem varð á s. l. ári, sé höfuðorsök erfiðleika sjávarútvegsins. Allir, sem líta réttum augum á þessi mál, sjá, hvílík reginfjarstæða þetta er.

Hæstv. forsrh. flutti þjóðinni nýársboðskap um áramótin að vanda. Innihald hans var í stuttu máli þetta: Ég sá fyrir um síðustu áramót, eftir að ég hafði setið í 5 ár í ríkisstj., hvert stefndi. Ég varaði þjóð mína við hættunni. Ég varaði verkalýðssamtökin við afleiðingum kauphækkunar. Þjóðin fór ekki að mínum ráðum. Ég þvæ mínar hendur, þeirra er sökin — og Landsbankans, segir svo hæstv. dómsmrh. í Morgunblaðinu. — Hitt nefndi hæstv. forsrh. ekki, að hann var með öllu ófáanlegur til þess að verða við áskorunum Alþfl. um að draga úr milliliðagróða og umframtekjum ríkissjóðs til þess að stöðva og lækka dýrtíðina og draga þann veg úr beinum kauphækkunum. Ekki nefndi hann heldur það, að í skjóli ríkisstj. hans hafa fjárgróðamenn notað kauphækkun verkafólksins sem skálkaskjól fyrir algerlega óeðlilegum og óréttmætum verðhækkunum. Og ekki gat hæstv. forsrh. þess heldur, að þrátt fyrir stöðugan og sívaxandi hallarekstur útgerðarinnar eða kannske réttara sagt vegna hans hefur gróði einstakra manna og fyrirtækja og stétta orðið meiri en dæmi eru til nokkru sinni áður. Árið hefur verið sannkallað veltiár fyrir verðbólgubraskarana, sem hæstv. fjmrh. nefnir svo, fyrir milliliði og fasteignaeigendur. Fyrir nokkrum árum seldi Kveldúlfur Eimskipafélagi Íslands eignir sínar, hús og lóð við Skúlagötu, fyrir 12 millj. kr., sem þá þótti hátt verð og var það. En nú alveg nýlega hefur Reykjavíkurbær keypt lóðarskika við Aðalstræti andspænis húsi Morgunblaðsins fyrir 2 millj. og 400 þús. kr. Ég nefni þetta dæmi aðeins sem eitt dæmi af ótalmörgum til þess að sýna, hverjar risaupphæðir er um að ræða, þegar metinn er landhlutur gróðamannanna við skiptin á þjóðartekjunum.

Ég verð að vera fáorður um síðasta bjargráð hæstv. ríkisstj., frv. um framleiðslusjóð. Aðrir muni gera því máli fyllri skil. Því er haldið fram, að tilgangur frv. sé sá að skila útgerðinni aftur því fé, sem oftekið sé af henni. Samkv. frv. á að leggja 140 millj. á nauðsynjar og neyzluvörur almennings ofan á þá tolla og skatta og álögur, sem fyrir eru, og þær 60 millj., sem á var bætt s. l. laugardag. Féð á ekki að endurheimta hjá þeim, sem grætt hafa á töpum útgerðarinnar undanfarin ár. Heildsalar og aðrir milliliðir, sem fengið hafa gjaldeyrinn til umráða og rakað saman fé með óskammtaðri álagningu á vörurnar, sem þeir keyptu fyrir hann, eiga engu að skila aftur. Þvert á móti, þeir hafa fengið nýjan tekjustofn, 200 millj. kr. nýja tolla til þess að leggja á til viðbótar. Segjum, að meðalálagningin sé innan við 40%, sem er sennilega of lágt. Það þýðir samt 80 millj. kr. tekjuauka a. m. k. fyrir þessa stétt. Ekki er heldur gert ráð fyrir því, að stóreignamenn, sem hafa haft margra milljóna króna gróða af verðhækkun fasteigna, skili neinu aftur, ekki heldur olíufélögin né þeir aðrir, sem mest hafa grætt á viðskiptum við útgerðina og gert sér verðbólguna að féþúfu. Nei, það eru launþegarnir, almenningur í landinu, sem hefur rétt til hnífs og skeiðar, það eru þeir, sem eiga að inna endurgreiðslurnar af hendi, það eru þeir, sem eiga að innleysa loforð ríkisstj. Engar skýrslur eða greinargerðir um raunverulegan hag vélbátaútgerðarinnar fylgja frv., ekki heldur um afkomu eða efnahag hraðfrystihúsa, vinnslustöðva eða annarra fyrirtækja, sem skipta við útgerðina, ekki heldur um ástæður eigenda bátanna og eign þeirra í slíkum fyrirtækjum eða aðrar eignir. Rannsókn og álitsgerð sérfræðinganefndarinnar á þessum atriðum virðist vera eins og óttalegur leyndardómur, sem ríkisstj. er ráðin í að fela og fela sem vandlegast fyrir Alþingi og öllum, sem þar sitja. Sama er um till. Þær eru sami óttalegi leyndardómurinn, sem enginn má fá vitneskju um. Hitt er þó furðulegast, að samkv. frv. er svo ráð fyrir gert, að aðstoðin, um 250 millj. kr., verði látin í té án nokkurra skilyrða af hálfu ríkisvaldsins, annarra en þeirra, að vinnslustöðvarnar greiði ákveðið verð. Að öðru leyti skal féð látið af hendi skilyrðis- og eftirlitslaust, án tillits til raunverulegra þarfa þeirra, sem við taka, eða hvort rekstri fyrirtækjanna er vel hagað eða illa. Hæstv. forsrh. telur sig mikinn andstæðing þjóðnýtingar. Hann beitir sér nú fyrir sérstakri tegund þjóðnýtingar, þjóðnýtingu tapsins og aukningu og verndun einkagróðans.

Loks kem ég að því, sem alvarlegast er og ískyggilegast í sambandi við þetta frv. Engum dettur í hug, sízt hæstv. ríkisstj., að frv. ráði bót á öngþveiti útgerðarinnar. Hér er ekki um lausn að ræða, heldur aðeins frest, stuttan gálgafrest, þangað til nýtt hringskeið verðbólgunnar, verðbólgufársins, ný hringavitleysa, eins og Morgunblaðið segir, rennur sitt skeið út og leiðir til nýrrar stöðvunar útgerðarinnar, sem sennilega verður ekki ýkjalangt að biða. Frv. þetta og fyrirhuguð hækkun fjárl. er í raun réttri fullkomin gjaldþrotayfirlýsing hæstv. ríkisstj. Hún taldi það sitt höfuðverkefni að koma sjávarútveginum á heilbrigðan grundvöll, svo að hann yrði rekinn hallalaust og án aðstoðar. Stjórnin hefur gefizt upp við þetta og lætur nú reka á reiðanum. Í framkvæmd hefur stefna stjórnarinnar verið ómenguð gróða- og verðbólgustefna, sem veldur því, að svo er komið sem komið er. Skefjalaust gróðabrall fjárplógsmanna og einbeiting fjármagnsins að fljótvirkri gróðastarfsemi í stað þess að undirbúa framtíðaröryggi þjóðarinnar hefur mergsogið sjávarútveginn og lagt þúsunda millj. kr. skattabyrði á almenning. Er ekki kominn tími til að láta þjóðina leggja sinn dóm á stefnu hæstv. stjórnar?

Síðustu 6 árin hefur stöðugt sigið á ógæfuhlið. Gengislækkun, bátagjaldeyrir, uppbætur, útflutningsstyrkir og skattar á skatta ofan eru vörðurnar, sem veginn marka. Öfgastefnurnar til beggja hliða hafa ráðið ferðinni, taumlaus gróðafíkn og brask, sem líkist fjárhættuspili, á aðra hlið og fullkomið ábyrgðarleysi á hina. Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnuvegur íslenzku þjóðarinnar. Á honum byggjast allir aðrir atvinnuvegir, öll gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og viðskipti við aðrar þjóðir. Stöðvist hann, riða hinir til falls. Því verður að treysta grundvöll hans.

Ég sé ekki nema eina leið út úr þeim ógöngum, sem nú er í komið. Hún er sú, að hinar vinnandi stéttir við sjó og í sveitum, bændur og verkamenn í þess orðs víðustu merkingu, taki nú saman höndum og myndi öfluga fylkingu lýðræðissinnaðra manna og kvenna, sem vinna vilja gegn gróðastefnu og valdafíkn auðvaldsins og ofbeldis- og einræðisstefnu kommúnista. Allir lýðræðissinnaðir andstæðingar íhaldsins eiga heima í slíkri samfylkingu. Þeir verða að fella niður um sinn allan ágreining um hin smærri atriði og sameinast með fyllstu ábyrgðartilfinningu um það verkefni, sem bráðast kallar að, að lyfta höfuðatvinnuvegi landsmanna úr þeirri niðurlægingu öngþveitis, sem hann nú er kominn í. Bændur og verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn, allir vinnandi framleiðendur hafa í þessu efni sameiginlegra hagsmuna að gæta, hafa sömu skyldur, sömu ábyrgð gagnvart þjóð sinni, sér og sínum. Það er vinna þeirra, atorka og ábyrgðartilfinning, sem framtíð þjóðarinnar byggist á, farsæld hennar og frelsi. Það er þeirra hlutverk eða hagur að tryggja lýðræðið í landinu gegn ásókn auðvalds og kommúnisma. Enginn skyldi ætla, að það væri auðvelt verk að bæta úr þeim mistökum, sem gerð hafa verið, en það er hægt og það verður að gerast, ella er voðinn vís.