30.01.1956
Efri deild: 55. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

103. mál, sauðfjársjúkdómar

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það var með hálfum hug, að ég bar fram brtt. á þskj. 279, þó að ég telji, að hún styðjist við fyllstu sanngirni. Það voru bornar fram brtt. í Nd., og þeirri hv. deild þóknaðist ekki að fallast á þær brtt., sem þar voru gerðar. Önnur þeirra var um að greiða allan mismuninn á meðaltalsverði keyptra líflamba og meðaltalsniðurlagsverði á fullorðnu fé, en síðan var þessi brtt., sem ég ber hér fram, borin fram við 3. umr.

Ég flyt þessa till. fyrir mjög ítrekaðar áskoranir þeirra bænda í mínu kjördæmi, sem hafa orðið að slátra fé sínu af þeim ástæðum, sem við vitum, vegna sjúkdómanna, og þeir telja sannast að segja, að þær bætur, sem gert er ráð fyrir í 38. gr. frv., séu algerlega óviðunandi, og það er ein ástæðan til þess, að ég ber þessa brtt. fram.

Það eru að mínu áliti ýmsir gallar á þessum ákvæðum eins og þau eru í frv., því að í 38. gr., 1. málslið, þar sem þessar skaðabætur eru ákveðnar, er ekki gert ráð fyrir einu atriði, sem er mjög veigamikið. Það stendur þar, að ríkissjóður skuli greiða fjáreigendum afurðatjónsbætur, sem svari 3/4 lambsverðs á bótaskylda kind, og síðan, að framleiðsluráð landbúnaðarins eigi að ákveða það með hliðsjón af meðalvænleik o. s. frv. Það, sem bent hefur verið á, er það, að þessar bætur, sem þarna eru ákveðnar, geta orðið mjög misjafnar, gætu komið misjafnlega niður. Ég sé ekki, að það sé gert ráð fyrir því að gera mun á t. d. bónda, sem hefur haft 100 veturgamlar gimbrar, og má þess vegna gera ráð fyrir, að hann fái, ef í meðallagi gengur, um 70 lömb, en svo er bóndi, sem búinn er að koma upp fé sínu fyrir nokkru og er með ær á bezta aldursskeiði, og það má gera ráð fyrir því, að undan þessum ám fái hann við skulum segja 140 lömb, helmingi meira en hinn, sem er með veturgamalt fé, en bæturnar eiga að vera þær sömu. A. m. k. vildi ég gjarnan fá upplýst hjá nefndinni, hvort það er ætlunin að skilja frv. á þennan veg, sem virðist verða að skilja það, því að það sjá allir, að þetta atriði skiptir verulegu máli. Enn fremur verður skaðinn tvöfaldur fyrir þá, sem eru með fullorðið fé, vegna þess að til frálags verður þetta fullorðna fé miklu lélegra en veturgamlar eða tvævetra ær, þannig að hann verður fyrir tvenns konar skakkaföllum. Hann fær raunverulega helmingi minni bætur fyrir það afurðatjón, sem hann verður fyrir, bóndinn, sem er með uppkomnar ær, og verðið, sem hann fær fyrir þær ær, sem hann slátrar, verður miklu minna en hjá hinum.

Þess vegna gæti þetta ákvæði, sem ég fer hér fram á að verði samþykkt, orðið til nokkurra bóta. Eins og þarna stendur, er gert ráð fyrir því að greiða hálfan mismun á meðaltalsverði keyptra líflamba og meðaltalsniðurlagsverði á fullorðnu fé, einnig eftir mati framleiðsluráðs, og það má gera ráð fyrir því, að frálagsverð ánna verði um 200 kr., en meðaltalsverð keyptra líflamba er um 400 kr. Þarna er 200 kr. munur, og hér er um að ræða helminginn af því, 100 kr. Það var upplýst undir umr. í Nd. og viðurkennt, að þessar uppbætur mundu nema um það bil einni millj. til viðbótar þeim uppbótum, sem ákveðnar eru í frv.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða frekar um þetta mál að sinni. Vildi ég gjarnan fá þær upplýsingar, sem ég óska hér eftir að fá frá hv. landbn., sem mér er tjáð að hafi athugað þetta mál og ekki getað fallizt á brtt. þá, sem ég hef borið hér fram. En ég tel rétt, að hún gangi samt til atkv., því að frá mínu sjónarmiði er réttlátt, að þessi brtt. gangi fram. Bæturnar, eins og þær eru ákveðnar í 38. gr., einkum fyrir þann hóp manna, sem ég sérstaklega bendi á, eru allt of lágar.