03.02.1956
Neðri deild: 62. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

109. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Í gildandi lögum um fólksflutninga með bifreiðum er svo ákveðið, að sérstakt leyfi þurfi að hafa til þess að mega annast fólksflutninga gegn borgun í bifreiðum, sem stærri eru en svo, að þær rúmi 6 farþega. Þegar gildandi lög voru sett, voru yfirleitt ekki stærri leigubifreiðar til á bifreiðastöðvum en fyrir 5–6 farþega. Nú er þetta breytt þannig, að á ýmsum bifreiðastöðvum eru nú til bifreiðar, sem rúma 7–8 farþega. Því er nú óheimilt að annast akstur til fólksflutninga á slíkum bifreiðum án sérstaks leyfis. Það verður þó að álíta, að ekki sé rétt að leggjast gegn þessari þróun, sem orðið hefur um samgöngutæki. Þess vegna er lagt til með frv. þessu, að takmarkið, sem í lögunum er miðað við 6 farþega bifreiðar, verði 8 farþega bifreiðar. Þannig mundi, ef frv. verður að lögum, heimilt að aka hinum stóru nýju stöðvarbifreiðum eins og 6 manna bifreiðum eftir gildandi lögum án sérleyfis. Þó mundi ekki vera heimilt frekar en nú að halda uppi auglýstum föstum ferðum með þeim án sérleyfis.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um frv., því að aðrar smávægilegar breytingar, sem það felur í sér, eru skýrðar í grg. á þskj. 130. — Ég óska svo, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. samgmn.