25.01.1957
Neðri deild: 45. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Ólafur Thors:

Herra forseti. Það er ekki margt, sem ég þarf að víkja að eftir seinni ræðu hæstv. sjútvmrh. Hann sagði, að meginatriðið í minni ræðu hefði verið að færa rök að því, að það væri rétt, að S.Í.F. hefði einkasöluaðstöðu. Ég svaraði ummælum úr hans ræðum um þetta, og auk þess gerði ég sjálfur grein fyrir, að ég væri fjölorðari um þessa hlið málsins af því, að ég hefði meiri þekkingu á henni, en gerði jafnframt grein fyrir, að það sama, sem ætti við um saltfiskinn, ætti að verulegu leyti einnig við um hraðfrysta fiskinn og saltsíldina.

Hæstv. ráðh. sagði, að engum aðila yrði veitt einkaaðstaða, og það var í tilefni af þeirri fullyrðingu hans, sem ég var að leiða athygli að því, að ég teldi hættulegt, ef síldarútvegsnefnd væri að því leyti afnumin eða hennar vald rýrt, að samkeppni á því sviði varðandi útflutninginn væri hættuleg, og að alveg hið sama gilti um saltfiskinn og gildir raunar, þó að í minni mæli sé, um hraðfrysta fiskinn.

Hæstv. ráðh. sagði, að mér ætti að vera kunnugt um mikil kærumál í þessum efnum, og sagði, að einhver aðili hefði verið að kæra framkvæmdina. Ég segi eins og er: Ég hef ekki heyrt neitt um það, og ég kannast ekki við, að á mínu borði hafi legið neitt um það, þegar ég fór úr embættinu. Það getur vel verið, að einhverjir aðilar, sem eru óánægðir, hafi talið blása byrlegar, þegar hann var setztur í stólinn, um slíkar kærur, einkum varðandi saltfiskinn, vegna þess að hans blað hefur mjög ráðizt á þá skipan, sem þar hefur ríkt. En ég hefði gaman af að vita, hverjir það eru, sem kærðu. Eru það innlendir framleiðendur, eða eru það erlendir menn, eða eru það einhverjir menn, sem vilja fá að flytja út fiskinn, en eru ekki framleiðendur? Og vænti, að hann svari því.

Hæstv. ráðh. sagði, að Samband ísl. samvinnufélaga hefði heimtað rétt sér til handa, og mér ætti einmitt að vera kunnugt um það og hlyti þess vegna að vita, að óánægja ríkti meðal framleiðenda. Ég viðurkenni það, eins og ég sagði í minni frumræðu, að Sambandið fór fram á rétt, en það fór fram á, að það eitt fengi réttinn, en enginn annar. Það var skýrt tekið fram, að þeir vildu fá réttinn, en meina öðrum þess að njóta sama réttar, og Sambandið hafði það ár, sem það fór fram á þessi sérréttindi sér til handa, aðeins um 3% af framleiðslumagninu, þó að það árið áður hefði 16%.

Hæstv. ráðh. sagði, að mér ætti að vera kunnugt um, að þessu máli hafi lokið með því, að Sambandinu hefði verið falin fisksala í vissum löndum. Þetta er mjög villandi blær og raunar efnislega skökk mynd af því, sem gerðist. Sambandið fékk söluumboð á vissum stöðum, en það er auðvitað S.Í.F., sölusamlag íslenzkra framleiðenda, sem ræður öllu um söluna, magnið, verðlagið og allt, sem máli skiptir. Hér blandar hæstv. ráðh. saman annars vegar umboðsmanninum eða umboðsmennskunni og hins vegar þeim, sem er eigandi fisksins.

Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh., sem nú er að tilkynna, að það sé þjóðarnauðsyn, að það séu fleiri en einn, sem fari með sölu á þessum fiski: Hvað lagði hann til sjálfur, þegar Sambandið fór fram á þessi réttindi? Man hann það? Var hann þá á þeirri skoðun, að það væri nauðsynlegt, að það væru fleiri en einn, sem væru að selja? Eða var hann algerlega andvígur því? Ef hann var andvígur því þá, hvers vegna er hann þá orðinn hlynntur því núna? Hvað hefur skeð á þeim tíma, sem síðan hefur liðið? Og ég segi það, að ég man ekki betur en að ráðh. væri algerlega andvígur því.

Hæstv. ráðh. nefndi sem sönnun fyrir óánægju, að einstakir aðilar hefðu viljað fá söluumboð. Það er ekki nema eðlilegt: Ég segi fyrir mig, að ég mundi þiggja það, ef ég fengi söluumboð í einstökum löndum fyrir sölusamlagið. Það skarar hver eld að sinni köku í þeim efnum. Ef menn geta fengið arðvænleg umboð, þá þakka menn fyrir það, og ég er ekkert hissa á því, þótt togaraeigendafélagið hafi óskað eftir því.

Hæstv. ráðh. færði það enn fram sínu máli til sönnunar, að erlendir aðilar hefðu kvartað. Ég er Ekkert hissa á því, þó að einstakir erlendir aðilar hafi kvartað. Ég hef einmitt haldið fram, að það séu íslenzkir hagsmunir, sem hér eiga að ráða. Og þó að þeir stundum eigi samleið með erlendum hagsmunum, þá eiga þeir það ekki alltaf, það gefur auga leið um það, en það eru þeir íslenzku, sem eiga að ráða. Mér finnst gæta grundvallarmisskilnings í öllum málflutningi ráðh., að svo miklu leyti sem hann er ekki alveg í rökþrotum, um það, eins og hann kemst að orði, að Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda og síldarútvegsnefnd og þeir, sem fara með sölu hraðfrysta fisksins, megi út af fyrir sig vera ánægðir, það eigi ekki að ganga neitt á þeirra hlut, þeir megi selja eins og aðrir, og ef allir framleiðendur vörunnar séu sammála og vilji vera í einu samlagi, þá fái auðvitað engir aðrir að flytja út. Ég er nú ekkert hissa á því, að ef allir, sem eiga síld, vilja selja í einu samlagi, þá fái þeir að selja síldina, og ef allir, sem eiga saltfisk eða hraðfrysta fiskinn, vilja selja í einu samlagi, þá fái þeir að selja saltfiskinn eða hraðfrysta fiskinn. Þetta liggur í hlutarins eðli. En meginatriðið, sem hér er verið að deila um, er það: Verður það heildinni af framleiðendum til bölvunar, eða verður það til blessunar, ef aðili, sem ræður yfir litlu magni, eða aðilar, sem ráða yfir litlu magni, fá að skjóta fleyg inn í starfsemi þeirra, sem fara með umboð heildarinnar og flestra útgerðarmanna? Mín skoðun hefur verið sú og er sú og ég færði rök að henni, að a.m.k. á meðan einkasala ríkir hjá neytendum og þar sem hún ríkir, þá sé á þessu stór hætta, og raunar miklu víðar. Við erum hér að tala um kerfi. Við erum ekki að tala um, hvort það sé nógu gott fyrir útgerðarmanninn Lúðvík Jósefsson að fá að njóta sömu kjara og útgerðarmaðurinn Ólafur Thors, við erum ekki að tala um það. Við erum að tala um, hvort sé sjálfum heildarhagsmununum betra, að það kerfi ríki, að einn haldi á sölu afurðanna, einkum þar sem um einkasölu er að ræða í kaupendalöndunum, eða hvort það sé farsælla, að margir íslenzkir aðilar keppi um það að geta selt einum og sama erlenda aðila sömu vöru á sama tíma. Það er það, sem við erum að ræða um. Og mér finnst misskilningurinn hafa komið svo oft fram í þessum tveimur ræðum hæstv. ráðh., að hann er farinn að telja mér trú um það í alvöru, að honum yfirsjáist, um hvað er verið að ræða, að hann skilji ekki sjálfan kjarna málsins.

Hæstv. ráðh. var með dylgjur um það, að ég vildi láta einkasölu ríkja, þar sem ég ætti sérstakra hagsmuna að gæta. Hvaða hagsmuna á ég að gæta um saltfisk meira en ég á um skreið? Vill hann svara því? Er hann að bera á mig einhverja óráðvendni eða eitthvað slíkt í þessum efnum? Ég get reyndar sagt honum, að það gæti vel verið, ef ekki lánið kemur fyrir hann vitinu í þessum efnum og hann leysir upp Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda, að hann gerði mér meiri greiða en hann veit, ef miðað er við mína sérhagsmuni. Félagi, sem áður hefur farið með útflutning á 3/5 hlutum saltfisks, gæti verið vandi að neita að selja fisk. Það gæti verið, að hann sjálfur yrði feginn sem útgerðarmaður að fela þessu félagi að selja fisk. Það gæti komið fyrir hann.

Nei, það er alveg óþarfi að vera með neinar dylgjur í minn garð í þessum efnum. Hann trúir ekki á þær sjálfur og veit, að þær eru líka fullkomlega óverðskuldaðar.

Hann spyr: Af hverju kom þá ekki Ólafur Thors á því kerfi með skreiðina, að þar væri einkasala, úr því að hann hélt fast við það með saltfiskinn? Hann veit miklu betur, ráðherrann, heldur en hann spyr. Hann veit, að mér tókst ekki þrátt fyrir tilraunir og þær margar að fá skreiðareigendur til að verða í einu samlagi og selja allir saman. Ég þurfti ekki að eiga neinn hlut að þessu á seinni árum um saltfiskinn, því að útgerðarmennirnir sjálfir vildu selja saman, með þeim örfáu undantekningum, sem þar kunna að vera og honum er kannske kunnara um en mér. Ég sá vel, að það var heppilegra fyrir útgerðarmenn að selja skreiðina saman heldur en að vera margir um það.

En þessi hæstv. ráðh. þarf ekki að halda, að hann sé með neina stóra speki eða harðar árásir á mig, þó að hann segi, að það sé undarlegt, að maður, sem þykist vera fylgjandi frjálsri verzlun, eins og hann kemst að orði, skuli vilja hafa aðra tilhögun á innflutningi en á útflutningi. Ég hef gert alveg fulla grein fyrir, hvers vegna ég vil hafa innflutninginn frjálsan. Ég hef líka gert alveg fulla grein fyrir, hvers vegna ég tel öðru máli gegna um útflutninginn. Og þó hef ég gert ýtarlegasta grein fyrir, að gefnu tilefni, að ég tel nauðsyn á að hafa samtök um útflutninginn því meiri, sem þau lönd eru fleiri, sem hafa aðeins einn aðila, sem annast innkaupin. Við eigum áreiðanlega eftir að hittast, hæstv. ráðh. og ég, á opinberum fundi með útgerðarmönnum. Ég vona, að hann hlutist til um með mér, að sá fundur verði boðaður og við ræðum þar alveg í bróðerni okkar sjónarmið. Hann á eftir að deila þar við mig um þessi mál og færa rök að því, að það sé farsælast fyrir Íslendinga, að það séu margir aðilar að reyna að selja einum aðila sömu vöru á sama tíma.

Ég hef svo lýst yfir, að ef sú skoðun, sem hann lýsir nú vera sína skoðun og ég ærlega talað trúi ekki að sé hans skoðun, — kannske gæti ég líka vottfest það, ef hann langar til, — en ef sú skoðun er ofan á hjá útgerðarmönnum, þá hef ég lýst því, að það skal ekki standa á mér, af því að ég vil ekki, að það opinbera taki völdin af þeim.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði verið að gera því skóna, að meginkjarni þessa frv. væri sá að setja á laggirnar nefnd, sem hefði marga starfsmenn í sinni þjónustu. Ég viðurkenni, að samkv. lögunum, sem nú gilda, gat hann gert þetta. Hitt kann svo að hugsast, að ráðh. hefði átt erfiðara með eftir eldri lögunum að hafa þessa hjörð nógu mannmarga, vegna þess að hann hefði þurft að spyrja félaga sinn í ráðuneytinu um leyfi, áður en hann réð þessa menn, því að sú skipan gildir nú, að einstakir ráðh. mega ekki ráða menn til starfa nema með samþykki fjmrn. Það verður auðvitað nokkru skýrara, þetta eina ákvæði um fjölgun manna, ef það eru sett um það ný lög, heldur en ef ætti að styðja það við eidri lög, 17 ára gömul.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði oft verið sett nefnd á laggirnar af minna tilefni, enda gæti það ekki gengið, að einn maður réði svo miklu sem hér væri um að ræða. En allt valdið endar nú að lokum hjá einum manni, hjá ráðh., sem getur í þessu efni ráðið því, sem hann vill, og hvort hann fær um það till. frá einum manni eða þremur, sem kannske eru þá ókunnugri en sá eini, sem fram að þessu hefur farið með það, það skiptir kannske ekki alltaf öllu máli.

Ráðh. sagði, að það væri tilgangur þessa frv. að koma á réttlátari skipan. Ég er búinn að margbenda á það með ótvíræðum rökum, sem ráðh. hefur ekki gert tilraun til þess að hrekja, og nú áðan ítrekaði hv. 5. þm. Reykv. fsp. um það, hvað væri nýtt í þessu frv. og hvernig stæði á því, að ráðh. gæti komið á réttlátri skipan samkv. því frv., en ekki samkv. gildandi lögum. Ef það er rétt, að ekkert nýtt sé í frv., og ráðh. verður að benda á, hvað það er, ef það er eitthvað, þá er þetta bara sýndarfrv. Ef ráðh. gat komið fram öllum sínum vilja samkv. eldri lögum, hví er hann þá að bera þetta fram? Er það aðeins til að sýnast, er það til að þóknast einhverjum öðrum, sem minna vit hafa á málunum heldur en hann? Hvað annað getur það í raun og veru verið?

Ég vil svo í tilefni af því, að hæstv. ráðh. sagði í lok sinnar seinni ræðu, að flestir framleiðendur séu á þeirri skoðun, að bezt sé að hafa hæfilega samkeppni eða nokkra samkeppni á útboðum á íslenzkri vöru, biðja hann að vera minnugan þessara orða og að færa þeim stað, eins og ég áður hef beðið hann um, því að okkar afstaða margra hér á þingi veitur á þessu. Við skulum ekki hafa þetta í neinum flimtingum, því að mér er það full alvara, að ég skal beygja mig undir vilja útgerðarmanna, ef hann upplýsist á þá lund, sem hæstv. ráðh. hefur sagt. Og hann hefur í dag hvað eftir annað tekið það fram, að margir útgerðarmenn vildu breyta um þetta og hafa meiri samkeppni í sölu afurðanna en verið hefur.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta. Ég lýk mínu máli á því, að ég hef ekki komið auga á, að neitt nýtt sé í þessu frv. Ég endurtek þess vegna, að hér var engin þörf fyrir ráðh. að hera neitt frv. fram. Það er ekkert nýtt í því, og það er engin sannfæring á bak við orð og ummæli ráðh. né málflutninginn í heidd í þessum efnum.