29.03.1957
Efri deild: 79. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

137. mál, happdrætti

Fram. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Árið 1933, með lögum nr. 44 frá því ári, var stofnað til happdrættis fyrir Ísland, þ.e.a.s. ríkisstj. veitt heimild til þess að veita Háskóla Íslands einkaleyfi til að starfrækja happdrætti. Þetta happdrætti háskólans hefur nú starfað í nær aldarfjórðung og orðið til mikils gagns og góðs. Fyrir ágóðann af happdrættinu skal samkv. lögunum reisa hús handa háskólanum, og hefur bæði háskólabyggingin sjálf og aðrar hyggingar á háskólalóðinni verið reistar fyrir þetta fé. Enn fremur hefur af þessum ágóða verið varið stórum fúlgum til lagfæringar á háskólalóðinni. En nú stendur fyrir dyrum fyrst og fremst bygging náttúrugripasafns, sem háskólinn hefur tekið að sér að reisa fyrir ágóða af happdrættinu. Ýmsar aðrar byggingarframkvæmdir standa fyrir dyrum, svo sem bygging fyrir læknadeildina, en nú er orðið fullþröngt um hana í háskólabyggingunni sjálfri, enda þörf á húsrúmi þar til annarra nota.

Í lögunum var upphaflega ákveðið, hver hámarkstala hluta í happdrættinu skyldi vera. Þessi hámarkstala hefur verið hækkuð öðru hverju síðan, og nú síðast fyrir tveim árum var hún hækkuð upp í 40 þús. Háskóli Íslands hefur óskað eftir því, að þessi hámarkstala yrði enn hækkuð og upp í 55 þús., þannig að hann hefði heimild til útgáfu svo margra hluta, í von um, að þeir seljist að verulegu leyti.

Þetta frv. er stjórnarfrv., flutt að tilmælum Háskóla Íslands, og fjhn. mælir einróma með því, að það verði samþykkt.