21.03.1957
Efri deild: 74. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

206. mál, skattfrádráttur

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Mig undrar, hva línlega hv. fjhn. hefur tekið á þessu máli, vitandi, hvernig ástandið er í okkar landi. Hv. frsm. n. skýrði frá því, að hér mundi vera á annað þúsund erlendir menn skráðir á fiskiflotann, og ég bygg, að þetta sé rétt. Og mér er tjáð, að á s.l. ári hafi verið greiddar um 17 millj. kr. í frjálsum gjaldeyri til þessara erlendu sjómanna. Við vitum það allir, að þetta fer stöðugt í vöxt. Þeim fjölgar stöðugt þessum erlendu mönnum, sem sækja sjó hingað, vegna þess að íslenzkir menn fást ekki á skipin. Með þessari tölu, sem nú er skráð af hinum erlendu mönnum á þessi skip, mætti manna helming af okkar togaraflota eingöngu með erlendum sjómönnum. Sjá menn ekki, hvernig þetta ástand er og hvert stefnir, ef þessu heldur áfram? Þessu verður vissulega að kippa í lag. Það verður að búa þannig að sjómannastéttinni, að hún sækist eftir skiprúmi. En nú er þetta þveröfugt. Vinnan í landi er miklu betur launuð, svo að ég tali nú ekki um, að henni fylgir engin áhætta eða svo til engin, og eftir henni sækjast menn að sjálfsögðu.

Ég minnist þess, að fyrir nokkrum árum var ég beðinn að reyna að fá skiprúm á togara fyrir unga menn víðs vegar úti um sveitir og tókst það stundum. Þá var sótzt mjög eftir því að komast í togaraskiprúm. En nú þekkist þetta ekki. Og ef menn hafa lesið grein í Morgunblaðinu í morgun eftir einn ágætan útgerðarmann á Akranesi, þá segir hann, að á flotanum þar séu nær eingöngu miðaldra menn og eldri. Ungir menn sjást þar ekki. Með þetta fyrir augum skil ég ekki, hve tómlega hv. fjhn. lítur á þessi mál. Þessu verður að kippa í lag, því fyrr, því betra. Verði haldið áfram að láta það synda þannig aðgerðarlaust, er ekki langt að bíða þess, að við komum ekki togaraflotanum okkar út og ekki neinum fiskibát, nema því aðeins að einhver þjóð vildi lána okkur menn. En það eru takmörk fyrir því, hvað aðrar þjóðir geta lánað af sínum fiskimönnum.