26.03.1957
Efri deild: 77. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

206. mál, skattfrádráttur

Frsm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Hæstv. sjútvmrh. hefur nú rakið ýtarlegar en ég gerði í minni framsöguræðu og svarræðu við ræðu hv. þm. V-Sk. (JK) og þm. N-Ísf. (SB) um afstöðu Sjálfstfl. til verkalýðsmála hér á Alþingi fyrr og síðar, og tók hann þar ferskari dæmi og nýrri, sem ættu því að vera mönnum betur í minni. Það, sem ég átti við í minni framsöguræðu og svarræðu, var fyrst og fremst afstaða Sjálfstfl. til þeirra hlunnindamála, sem eru sambærileg við það, sem hér er á dagskrá, t.d. vökulaganna, allan þann tíma, sem þau voru til umræðu hér á hv. Alþingi. Ég álít, að það þurfi ekki að rifja það upp fyrir neinum fulllesandi Íslendingi, hver afstaða Sjálfstfl. var til þessara mála þá.

Um það, hverjir kunni að ljá því atkvæði, að ég sé formaður í mínu stéttarfélagi, og hverjir sitji með mér þar í stjórn, þá hefur Morgunblaðið undir forustu hv. þm. N-Ísf. gert allmargar tilraunir til þess að gegnumlýsa þessa menn, skoðanir þeirra, í skrifum sínum og öðrum þeim tilburðum, og mér er nú ekki grunlaust um, að gegnumlýsingartækin séu ekki í betra lagi nú en þau hafa verið undanfarin ár hjá hv. þm. A.m.k. geigar honum töluvert, ef hann heldur, að sú stjórn, sem nú situr í mínu stéttarfélagi, sé eingöngu studd af sjálfstæðismönnum eða þeim mönnum, sem kunna að ljá Sjálfstfl. atkvæði við almennar kosningar. (Gripið fram í: Það hef ég aldrei sagt.) Ég geri ráð fyrir, að þingræðan muni sanna það á sínum tíma, og ég skal lesa hana yfir með hv. þm., þegar hún birtist, og vona, að ég fari hér með rétt mál. Ef svo er ekki, þá tek ég þessi ummæli mín aftur að sjálfsögðu.

Hæstv. sjútvmrh. rakti enn fremur ýtarlega, hverjar hlunnindabætur er hér um að ræða, og tel ég ekki þörf á því að koma frekar inn á það. Hitt er staðreynd, sem ég hef áður sagt um afstöðu Sjálfstfl. til þessara mála fyrr og síðar hér á Alþingi, og það vita allir, að brtt. þeirra hv. þm. N-Ísf. og 11. landsk. eru eingöngu fram komnar vegna þess, að þeir hafa nú ekki ábyrgð á ríkisstjórn. Það sannar afstaða flokksins fyrr og síðar til hliðstæðra mála. Ég held, að það sé óþarfi að vera að rekja á ný þá sögu, sem var rædd hér í ræðustólnum rétt áðan um afstöðu þessara þm. sjálfra, enda kom áhuginn berlega fram í upphafi þessarar umræðu. Þegar nál. hafði verið útbýtt og framsöguræða flutt fyrir málinu, eru í skyndi settar hér fram skriflegar brtt., sem n. féllst að vísu á að athuga, en áhugi fyrir málinu hafði ekki verið meiri en það, að þeim var ekki komið á framfæri fyrr og eins og venja er til fyrir 2. umr., a.m.k. hefur það ekki sézt hér. Fulltrúi Sjálfstfl. í n. hafði ekki gert neinar brtt. við nál. og skrifaði undir það athugasemdalaust með okkur. Ég held þess vegna, að þetta beri allt að sama brunni hjá hv. þm. N-Ísf. Fortíð Sjálfstfl. og framkoma hv. þm. N-Ísf. ásamt öðrum flokksbræðrum hans til hliðstæðra mála sannar, hver grundvöllurinn er að slíkum till. sem hér eru fluttar, og það var það, sem ég átti við, þegar ég sagði, að grundvöllurinn væri ekki björgulegur, þegar út í verkalýðsmálin væri komið, hjá slíkum mönnum.