09.05.1957
Neðri deild: 94. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

58. mál, iðnfræðsla

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Um það frv., sem hér liggur fyrir, hef ég ekki nema allt gott að segja og er ásáttur till. meðnm. minna um að leggja með samþykkt þess. En eins og hv. frsm., hv. þm. Hafnf., gat um, var ég ekki viðstaddur á þeim fundi iðnn., sem um málið fjallaði, og tók því ekki þar afstöðu til málsins. Þar sem ég hef hvað eftir annað í velur látið uppi nokkur vonbrigði yfir því, að þessi ágæta nefnd kæmi sjaldan til fundar, — ég hygg, að þetta sé eini fundurinn á þessu ári, að því er ég bezt man, og kann þó að vera, að mér skjátlist í því, — þá mætti virða það mér til kæruleysis og vanrækslu um þingstörf að nota mér ekki svo einstakt tækifæri og að mæta á fundinum, þegar hann loksins var kallaður saman. En afsökun mín í þeim efnum var einfaldlega sú, að ég fékk aldrei fundarboðið og vissi ekki um, að fundurinn hefði verið haldinn eða til stæði að halda hann, fyrr en eftir að það hafði verið gert.

Ég veit, að það er ekki sök hv. formanns n., að það hafði undan fallizt að boða mig á fundinn, en engu að síður tel ég rétt, að það komi hér fram, að þessi var ástæðan til þess, að ég mætti ekki á fundinum. Af því tilefni vil ég beina því til hæstv. forseta, að það þarf að fylgjast með því betur en gert hefur verið í vetur, að það sjaldan sem nefndir eru kallaðar saman, þá er það gert af slíkri skyndingu yfirleitt, að það er eins og líf liggi við og án þess að venjulegur frestur sé gefinn. Oft fer það þannig, að menn hafa ekki fengið vitneskju um fundina, stundum með engum fyrirvara og yfirleitt ekki með nægum fyrirvara.

Þegar ekki eru haldnir oftar nefndarfundir en einu sinni á mánuði í mesta lagi, þá virðist þó hægurinn hjá, að til fundanna sé boðað með nokkrum fyrirvara, þannig að menn eigi von á jafnnýstárlegum atburði og þeim, að nefnd Alþingis haldi fund, og sé ég ekki, að slíkt mundi verða til tafar, heldur þvert á móti greiða fyrir starfsemi hins háa Alþingis. En í þeim nefndum, sem ég á sæti í, hefur yfirleitt sá háttur verið hafður á, að fundir eru kallaðir saman af skyndingu og oft þannig, að ekki hefur náðst til allra og jafnvei þó að til þeirra hafi náðst, þá með svo stuttum fyrirvara, að menn hafa ekki getað mætt og þá orðið að fresta fundi eða kalla saman fund á ný, sem hefði verið hægt að komast hjá, ef betur hefði verið séð um vinnubrögðin strax frá upphafi. Ég veit, að þetta kemur af því, að svo fá mál hafa komið fyrir nefndirnar, að þær eru í raun og veru afvanar því að starfa og kunna því ekki til vinnubragða, — það er eins og gripur, sem hefur legið lengi og á loksins að bera fyrir sig fæturna, hann kann ekki að gera það, þegar hann loksins á þess kost að standa upp. Eins er það með nefndirnar, að þegar þær fyrst í þinglok fá einhver verkefni, þá virðast þær ekki kunna að bera fyrir sig sína starfsfætur, og því fer jafnóhöndulega og raun ber vitni um. En einmitt af þeim sökum finnst mér hér vera verkefni fyrir okkar ágætu forseta að hafa samráð við formenn þingn. um, að betri háttur yrði á þessu hafður.