09.05.1957
Neðri deild: 94. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

150. mál, samþykkt á ríkisreikningum

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það er nú að sjálfsögðu ekki næsta þýðingarmikið að fara í þrætur út af þeim atriðum, sem hér er um að ræða, bæði vegna þess, að nokkuð langt er um liðið frá því ári, sem þessi ríkisreikningur gildir, og í öðru lagi er það svo, að hið ráðandi vald hér á Alþ. og í ríkisstj. hefur það í sinni hendi, hvernig með þessi mál skuli farið.

Ræða hæstv. fjmrh. snerist eins og stundum áður aðallega um það að færa fram afsakanir fyrir þeim ágöllum, sem við teljum vera á stjórn ýmissa þessara hluta, og það er út af fyrir sig ekkert undarlegt við það. Ég skal byrja á að segja örfá orð út af því, sem var næstum seinast í ræðu hæstv. ráðherra, varðandi þær tillögur eða athugasemdir, sem við yfirskoðunarmenn gerum og vísum til aðgerða Alþingis. Það atriði hefur nokkuð verið til meðferðar í Ed., bæði nú og í fyrra, og uppi sú skoðun, að um leið og við vísum aths. til aðgerða Alþingis, beri okkur að gera till. um, hvað Alþ. eigi að gera um þessa hluti.

Nú er það svo, að eftir því sem ég veit bezt, hefur það verið svo frá fyrstu tíð, síðan yfirskoðun ríkisreikninga varð með þeim hætti, sem nú er, sem var sett inn í stjórnarskrána fyrir langa löngu, að það hefur verið regla frá yfirskoðunarmanna hálfu að vísa einstökum atbs. til aðgerða Alþ., sem þeim þótti sérstök nauðsyn til bera, án þess að bera fram till. um það, hvað þeir óskuðu eftir að gert væri. Nú má segja, að það sé í þessu tilfelli næstum að segja tilviljun, að það sé nokkur af yfirskoðunarmönnum í Alþingi. Þeir geta alveg eins verið allir utanþingsmenn, og nú eru tveir þeirra það. Þess vegna er ekki alveg víst, að þeir hafi aðstöðu til þess að gera tillögur um það í Alþingi, hvað gera skuli. En varðandi þau atriði, sem hér er um að ræða, — við skulum taka mál eins og Skipaútgerð ríkisins, — þá er það augljóst mál, hvað við viljum láta gera. Við viljum láta halda sig við fjárlögin, að það sé ekki varið meiru til fyrirtækis eins og skipaútgerðarinnar t.d. en fjárlögin gera ráð fyrir. Hvort það er gert með því að hækka farmgjöldin, með því að draga úr starfseminni eða á annan hátt, það verður auðvitað ráðandi ríkisstj. að hafa í hendi sinni.

Nú er í þessu tilfelli, sem varðar árið 1954, Alþ. búið að gera sínar ráðstafanir í raun og veru, þó að það væri ekki búið að því, þegar við gerðum okkar aths. Það er búið að gera sínar ráðstafanir, og það er að hækka alltaf upp, eins og það hefur gert langa lengi, ekki draga úr starfseminni, ekki hækka farmgjöldin, eftir því sem hæstv. fjmrh. upplýsti. Og það er ekki furða, þó að það vaxi rekstrarhallinn og útgjöld ríkissjóðs með þeim hætti.

Eins er þetta varðandi ríkisútvarpið, að það, sem við ætlumst til að sú ríkisstj., sem ræður, geri, er að fara eftir fjárlögunum. Og frá mínu sjónarmiði lít ég á fjárlögin þannig, að ég tel, að þau séu svo rétthá, að það eigi að fara eftir þeim í öllum aðalatriðum, en að það sé ekki látið ske ár eftir ár, að sömu stofnanirnar fari umfram fjárlög, svo að skipti gífurlegum upphæðum. Þeir koma náttúrlega með sínar afsakanir og segja: Jú, það var nauðsynlegt að ráða þennan mann, það var nauðsynlegt að bæta við þessu starfi, og það var nauðsynlegt að auka við starfsemina. — Við þekkjum þetta allt saman. Það vilja allir fá meiri peninga og meiri gjöld. En til hvers er þá verið að setja fjárlög, ef það má ekki fara eftir þeim?

Eins er það varðandi innheimtuna. Ég játa það með hæstv. fjmrh., að það er mjög mikið vandamál, hvað á að ganga langt í því að ganga hart að af innheimtumönnum ríkisins. Þar segir hæstv. ráðherra: Ja, það mundi þurfa að loka svo og svo mörgum fyrirtækjum, ef það væri gengið svo hart að, að það væri skuldlaust um áramót. — En ég vil nú segja: Það má nú nokkuð mikið mismuna, hvort það er skuldlaust ellegar það eru útistandandi 27 millj. í árslok. Það er miklu hærri upphæð en öll fjárlögin voru um það bil, sem ég kom á þing, og nokkru eftir það, sem þarna er útistandandi bara af árstekjum ríkisins, fyrir utan það, sem er hjá stofnununum. En mín skoðun er sú, að ef menn vilja á annað borð ekki láta fljóta sofandi að feigðarósi, eins og gert hefur verið í fjármálum yfirleitt nú á undanförnum löngum tíma, þá beri að setja hverri stofnun það mark, að hún verði að halda sér við fjárlögin eins og þau eru afgreidd, því að til þess eru fjárlög, að það sé eftir þeim farið.

Að öðru leyti skal ég svo ekki fjölyrða meira um þetta á þessu stigi. Ég veit, að hv. alþm. hafa lesið þessar aths. og þeir hafa lesið allar afsakanir stofnananna, og það er ekkert ný saga. Það eru margar afsakanir fyrir því, að þetta þurfti að gera og þetta þurfti að gera. En annað mál er, hvort það er réttmætt, að þeir, sem ráða yfir viðkomandi stofnunum, láti þeim liðast að halda áfram alltaf að auka meira og meira við. Og það er út af fyrir sig alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að mín skoðun er sú varðandi strandferðirnar, að það ætti að vera óhætt að draga úr þeim, þegar samgöngurnar á landi og í lofti hafa verið bættar svo mikið sem raun hefur á orðið.