03.05.1957
Neðri deild: 91. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

126. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. landbn. hefur athugað frv. það, sem hér er til umr., og mælir hún með samþykkt þess ásamt þeim brtt., sem bornar eru sérstaklega fram.

Mér þykir við eiga, þegar þessi mál eru rædd, að rekja nokkuð forsögu þessa máls eða nýbýlamálsins í landinu.

Það mun hafa verið um það bil fyrir 60 árum, að sett voru fyrst lög um nýbýli, en þau komu þó ekki neitt til framkvæmda sem heitir, vegna þess að þau heimiluðu eingöngu stofnun nýbýla á afréttarlandi. Árið 1936 eru síðan sett lög um nýbýli, og fyrir hönd ríkisins var þá Búnaðarfélagi Íslands falin framkvæmd þeirra laga. Skv. þeirri löggjöf voru reist 383 nýbýli, þar af byggt upp á 71 eyðijörð og 312 jörðum skipt. En upphaflega samkv. þeim lögum nam styrkurinn til nýbýlanna 1500 kr. og lánin jafnhárri upphæð. Síðan smáhækkaði styrkurinn upp í 6000 kr. og lánin sömuleiðis. Og þannig var það árið 1946, þegar lögin um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum öðluðust gildi. En höfuðbreytingin frá fyrri nýbýlalögum í þeirri löggjöf var það, að nýbýlin eða landnámið var sett undir sérstaka stjórn, þ.e. nýbýlastjórn, og nýbýlastjórn réð sér framkvæmdarstjóra, sem kallaður hefur verið landnámsstjóri, og hafa nýbýlastjórn og landnámsstjóri farið með framkvæmd nýbýlamálanna s.l. 10 ár. Önnur aðalbreyting, sem var á þeim lögum, var sú, að styrkurinn var afnuminn, en í þess stað veitt mjög hagstæð lán til að reisa og byggja nýbýli, jafnframt því sem þá voru tekin upp hagstæð lán til að endurbyggja á öðrum jörðum.

Samkv. þessari löggjöf hafa verið samþykkt 498 einstaklingsnýbýli, og auk þess hafa verið í undirbúningi 12 byggðahverfi, sem munu geta veitt um 70 bændum jarðnæði. Þrátt fyrir það, að margar jarðir hafa farið í eyði á undanförnum árum, hefur með stofnun nýbýla tekizt að halda nokkurn veginn við tölu byggðra jarða. En það, sem þó er meira virði í þessum efnum, er það, hversu vel hefur til tekizt með að bæta og auka framleiðslu landbúnaðarins. Það er talið, að árið 1900 hafi 71% þjóðarinnar lifað af landbúnaði, en hálfri öld síðar, árið 1950, lifa af landbúnaði og vinna við hann um 13% af þjóðinni. En það eftirtektarverða í þessum efnum er það, að þessi 13% hafa ekki aðeins haldið við framleiðslunni, heldur stóraukið hana, og eftir því sem fróðir menn telja, nemur verðmæti landbúnaðarframleiðslunnar nú um 530 millj. kr.

Það er margt, sem því veldur, að svona vel hefur til tekizt. En þar hygg ég þó að hafi mestu um valdið aukin þekking bænda og búaliðs ásamt aukinni trú á mátt moldarinnar. Þetta hefur velt stórum björgum úr vegi. Sama má segja um bættar samgöngur, nýja tækni, innlenda áburðarframleiðslu og ekki hvað sízt skilning löggjafarvaldsins á því, að bæta þyrfti aðstöðu bændanna í þjóðfélaginu, og vil ég þar til nefna ýmsa merka löggjöf, sem stuðlað hefur að því að bæta aðstöðu þeirra, sem nú búa í hinum dreifðu byggðum. Vil ég þar nefna lögin um afurðasölu, lög um jarðrækt og lánastarfsemi, nýbýli og margt fleira, sem markað hefur djúp spor í framfaraátt.

Þegar við lítum yfir farinn veg á liðnum árum, er ástæða fyrir okkur að gleðjast yfir þeim árangri, sem náðst hefur á sviði umbótanna í sveitunum. Allt frá því að séra Björn í Sauðlauksdal byggði garð mikinn til að hefta sandfok, hefur trúin á mátt moldarinnar dafnað á meðal Íslendinga, eins og grösin dafna í gróðurmoldinni á hlýjum vordögum. Nú minnist enginn á garðinn Ranglát í sambandi við heftingu sandfoks. Túnræktin, sandgræðslan, gróðurhúsaræktin, skógræktin, kornræktin, þetta hefur allt, hvert á sínu sviði, sannað okkur það, að þrátt fyrir eldfjöll og ísa býr land okkar yfir miklum auðæfum, sem enn þá eru óleyst að miklu leyti.

Það er trú mín, að þegar aldir líða, verði þessi auðæfi gróðurmoldarinnar notuð í miklu ríkara mæli en nú er. Aðrar þjóðir rækta lönd, sem eru miklu erfiðari til ræktunar en mýrarnar okkar, sem bíða þess, að þær verði numdar til fullnustu. Gróðurmoldin skapar okkur á komandi árum timbur í hús, korn í brauð og suðræn aldin á borð.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða mikið um aðalbreytingarnar á þessu frv. frá þeirri löggjöf, sem verið hefur, því að hæstv. forsrh. gerði ýtarlega grein fyrir því, þegar hann hafði framsögu fyrir þessu máli hér í hv. deild. Hann ræddi um það, hversu nýbýlingum og jarðyrkjumönnum eru veitt mikil og aukin réttindi frá því opinbera við stofnun nýbýla og endurræktun túna. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það hér, en mun gera nokkra grein fyrir þeim brtt., sem n. hefur borið fram á sérstöku þingskjali.

Varðandi fyrstu brtt. um kosningu nýbýlastjórnar þótti n. ekki ástæða til að breyta því kosningafyrirkomulagi, sem verið hefur, og er það því aftur tekið hér upp í brtt. nefndarinnar.

Um aðra brtt. er það að segja, að það þykir betur við eiga í þessu frv., þegar rætt er um framkvæmd þessara laga, að nefna landnámsstjóra og nýbýlastjórn heldur en ríkið, þar sem ríkið hefur falið nýbýlastjórn og landnámsstjóra að sjá um þessa framkvæmd fyrir sína hönd.

Ein af aðalbreytingunum á frv., sem n. hefur gert, er við 14. gr., og þótti n. rétt að útiloka ekki skipulagsskyld sveitarþorp frá því að njóta réttinda til gróðurhúsabygginga, þ.e.a.s., ef fullnægt er þeim reglum og skilyrðum, sem ræktunarsjóður Íslands setur, varðandi veðhæfi ræktunarlands og lóða. En skv. 14. gr. verður nýbýlastjórn að vega og meta aðstöðu einstakra aðila og skapa sér reglur út frá fenginni reynslu, því að hér er ekki hægt að kveða svo nákvæmlega á um einstök atriði, að það verði ekki alltaf frá þeim að víkja, ef ríkar ástæður eru fyrir hendi, enda er það nú svo í þessu frv., eins og reyndar hefur verið í lögum áður, að frávikin eru svo mörg, að það hljóta alltaf ýmis atriði að koma að verulegu leyti undir dóm nýbýlastjórnar. Hygg ég, að það hafi sýnt sig, að nýbýlastjórn hafi vel komizt frá þeim málum á undanförnum árum, því að aldrei hafa risið upp þau deilumál, að hún hafi ekki getað nokkurn veginn leyst þau, svo að allir hafi við unað.

Þá er breytingin á 25. gr. frv. sú að gera landnámi ríkisins að skyldu að veita einstaklingsnýbýlum sömu réttindi og þeim, sem reisa nýbýli í byggðahverfum, en hingað til hefur sá háttur verið á hafður, að þetta var aðeins heimild, sem þó mun hafa verið notuð sem skylda væri. En hér þykir ekki ástæða til að gera upp á milli, svo að við höfum gert það að skyldu, í staðinn fyrir að þetta var áður heimild í lögum og einnig heimild í frv., þegar það var lagt fyrir þingið.

Þá þótti rétt að nema úr ræktunarsjóðslögunum þau ákvæði, sem heimila lán til íbúðarhúsabygginga, því að ræktunarsjóður mun oftast nær hafa átt erfiðara með að sinna sínu hlutverki en byggingarsjóðurinn, sem jafnan hefur getað sinnt sínu hlutverki mjög vel, og því ekki ástæða til að láta það ákvæði standa þarna. Samamáli er að gegna um þau ákvæði í ræktunarsjóðslögunum um að veita einstökum sveitabæjum og sveitahlutum lán til rafstöðvabygginga, að þau ákvæði eru numin burt, þar sem fyrir þessu er séð með sérstökum lögum, lögum um raforkusjóð.

Þá þótti n. nauðsynlegt að setja ákvæði til bráðabirgða um að heimila nýbýlastjórn að veita þeim, sem þegar hafa fengið samþykkt nýbýli, en ekki lokið þeim, hjálp skv. ákvæðum þessa frv. um aukinn stuðning.

Þá vil ég geta þess að lokum, að n. hefur leitað álits landnámsstjóra um þær breytingar, sem fram eru bornar við frv., og enn fremur hafa mætt á fundum hjá n. garðyrkjumenn, sem hafa skýrt sín sjónarmið varðandi gróðurhúsaræktun. Ég vil geta þess, að tveir nm. bera fram brtt., sem þeir munu gera sérstaklega grein fyrir. Að öðru leyti er n. sammála um frv. og mælir með því, að það verði samþ. ásamt þeim brtt., sem lagðar eru fram á sérstöku þskj.