15.03.1957
Efri deild: 70. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

128. mál, tollskrá o. fl.

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að þakka bv. fjhn. fyrir það, að hún hefur í brtt. sínum við frv. það, sem hér liggur fyrir, tekið nokkurt tillit til breytingartillagna þeirra, sem fólust í frv. mínu og hv. 6. þm. Reykv. (GTh), sem flutt var fyrr á þessu þingi, um niðurfellingu tolls af hljóðfærum.

Hv. fjhn. leggur til í brtt. sinum við þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., að upp í það verði teknar till. um að lækka toll á flygelum og píanóum, hlutum til flygela og píanóa, enn fremur af . orgelum og harmoníum, hlutum til þeirra og strengjahljóðfærum og hlutum til þeirra. Enn fremur er lagt til, að fjmrn. verði heimilað að fella alveg niður verðtoll af orgelum til kirkna og hljóðfærum, sem flutt eru inn til notkunar við kennslu í skólum.

Þessi brtt. mun þýða það, að verðtollur á fyrrgreindum hljóðfærum og hlutum til þeirra lækkar úr 50% í grunn í 30% í grunn.

Fyrir þessar till. vil ég þakka hv. fjhn. Ég harma að vísu, að ekki hefur náðst samkomulag um að fella algerlega niður tolla af þessum menningartækjum. Ég hef bent á það í sambandi við þetta mál, að bækur, bæði skólabækur og allar aðrar bækur, sem inn eru fluttar, eru algerlega tollfrjálsar.

Það væri mjög eðlilegt, að sami háttur yrði á hafður um hljóðfærin og hluta til þeirra og enn fremur um hljómlistartæki eins og grammófóna. Hv. frsm. fjhn. vildi nú, að því er mér virtist, ekki telja slík tæki til hljómlistartækja og taldi algerlega ástæðulaust að fella niður af þeim toll. Sama taldi hann gilda um harmonikur.

Ég get nú ekki fallizt á þessa skoðun. Grammófónar eru ákaflega þýðingarmikil og áhrifamikil tónlistartæki. Einmitt þeir hafa gefið almenningi kost á að njóta ágætrar og sigildrar tónlistar, sem ekki er yfirleitt kostur á að heyra leikna hér heima. Það er óhætt að fullyrða það, að aukin almenningseign á grammófónum hefur mjög stuðlað að þroska tónlistarsmekks í landinu, sem birtist m.a. í því, að sífellt er keypt meira og meira af grammófónplötum með sígildri og góðri tónlist.

Og svo ég taki einnig upp hanzkann fyrir harmonikuna, þá hefur hún um langt skeið verið eitt vinsælasta alþýðuhljóðfæri hér á landi og raunar viðar. Ég verð að segja það, að mér finnst það fyllilega eðlilegt, að hún fylgi með, þegar gerð er till. um það hér á hv. Alþingi að létta tollum af hljóðfærum.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en ég endurtek þakklæti mitt til hv. fjhn. fyrir það, að hún skuli hafa komið þetta til móts við okkar till. Ég vænti hins vegar, að þróunin muni ganga í þá átt, að þessi menningartæki öll verði gerð gersamlega skattfrjáls eins og bækur, sem fluttar eru til landsins frá útlöndum.

Fyrsta sporið hefur verið stigið. Ísinn hefur verið brotinn. Það, sem á eftir kemur, verður vænti ég í nánustu framtíð algert tollfrelsi hljóðfæra og að það verði á þau litið sem menningartæki, sem hinu opinbera beri frekar að stuðla að, að þjóðin eignist, heldur en að hindra allan almenning í því að kaupa þau með gífurlegum tollaálögum.

Ég geri mér von um það, að alveg á næstunni muni nýir sigrar vinnast í baráttunni fyrir því, að almenningur á Íslandi geti eignazt hljóðfæri, geti þroskað sinn hljómlistarsmekk og geti notið yndis af því að iðka tónlist.