18.05.1957
Efri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég held nú, að hv. frsm. minni hl. hafi einmitt staðfest það með sinni ræðu núna, sem ég sagði, að brtt. minni hl. beri keim af því, að þeir hafi sótt efnislega mikið í frv. sjálft, því að hann taldi upp nokkuð mörg atriði, sem væru í frv. og fælust einnig í brtt. þeirra, og í sumu vildu þeir ganga lengra. Þó eru mörg atriði í frv., sem bann ekki nefndi nú, en ganga aftur umrituð í brtt. minni hl. Þetta er ekki nema góðra gjalda vert, því að till., sem þeir flytja sem breytingar á hinni eldri húsnæðismálalöggjöf, hefðu sannarlega puntað verulega upp á þá lagasetningu og verið til bóta.

Þá kemst ég ekki hjá að víkja nokkuð að mínum elskulega vini, hv. þm. N-Ísf., sem nú er genginn út úr deildinni, og láta í ljós hryggð mína yfir skapvonzku hans, geðvonzku hans. Ég er alveg viss um það, að ef hann hefði talið þetta frv., sem hér er til umr., vera mjög til vansa og smánar núv. ríkisstj., þá hefði hann leikið á alls oddi, þá hefði hann verið hinn kátasti. En hvað veldur geðvonzkunni? Auðvitað það, að honum finnst hann ekki geta svalað sér með rökum á því frv., sem hér liggur fyrir, ekki geta gert stjórnina hlægilega eða óvinsæla af efni þessa frv., því að þá mundi hann hafa í gleði sinni haldið ræðu um ókosti og galla þessa frv. og fundið orðum sínum stað. En það var nú eitthvað annað. Hann talaði um, að okkur fyndist að sjálfsögðu okkar fugl fagur, þó að hann væri bæði ljótur og magur. Þetta er eitthvert barnarím, sem hann kann frá bernsku, en að öðru leyti reyndi hann ekki til þess að færa það upp á frv. Það er sannast mála, að við teljum, að mörg merk nýmæli séu í þessu frv., og það hefur ekki verið hrakið. Meira að segja liggur nú augljóslega fyrir, að ýmis af þessum merku nýmælum eru litin slíku girndarauga, að minni hl. tekur efni þeirra upp í brtt. sínar við gildandi húsnæðismálalöggjöf.

Hann taldi, að það væru óvenjulega margar brtt., sem hv. n. hefði gert við frv. Nú skyldu menn gæta þess, að hér er um að ræða allfyrirferðarmikinn lagabálk í mörgum greinum og mörgum köflum, og það var tekið fram í framsöguræðu minni, þegar málið var lagt fyrir þingið, að ég teldi mjög æskilegt, að hv. nefnd athugaði málið vandlega og breytti ýmsu, sem til bóta mætti verða, því að hér væri um frumsmið að ræða og mörg nýmæli, og við yrðum því að reikna með því, að það þyrfti margt að laga af a.m.k. minni háttar atriðum. Þessu bjóst ég þess vegna sannarlega við, og þær brtt., sem hér liggja fyrir, sýna vissulega ekkert annað en það, að nefndin hefur starfað vel.

En þegar það kom út í samlagninguna á breytingartillagnafjöldanum, fataðist mínum reiða vini, hv. þm. N.- Ísf., því að það liggja hér fyrir 16 brtt. frá meiri hlutanum, plús þrjár, sem hann fékk fyrst upp í 27 og seinna, þegar hann varð enn þá reiðari, upp í 30, en aðrir reikna sem 19. Og svona reiðan mann er náttúrlega ekki hægt að taka alvarlega, þegar frumatriði samlagningar í einskonar tölum verða honum að falli.

Hann virtist vilja tala svo sem hann mundi sannfæra hv. þd. um það, að hann hefði aldrei litið á frv., sem hér er til umræðu, því að hann talaði um, að í því væri enginn aðili til þess að auka fé til húsnæðislánanna. Hann getur ekki hafa litið á frv., ef honum er það ekki ljóst, að þar er ríkisstj. búin að lofa því að sjá um, að bankarnir leggi fram á þessu ári 44 millj. kr.. sem er hin fyllsta upphæð, sem nokkrar skuldbindingar lágu fyrir um að yrðu útvegaðar í heild til húsnæðismálanna samkvæmt gildandi löggjöf. Þetta hefur núverandi ríkisstj. lofað að útvega, og ég efast ekki um, að við það verður fyllilega staðið. Þær 44 millj. munu koma frá bönkum og sparisjóðum og tryggingarstofnunum og félögum, eins og gert var ráð fyrir áður, og þetta er m.a. verið að tryggja nú með meðferð þeirra frv., sem umræður hófust um í hv. Nd. í dag. Það verður sannast að segja, að bankastjórar höfðu ekki sýnt á þessu fullan skilning, þegar við þá var rætt í vor, og svipaðar höfðu verið undirtektir þeirra um önnur þjóðnytjamálefni, sem þeir vildu ekki sinna á þann veg, sem ríkisstj. óskaði eftir. Og ein af mörgum ástæðum til þess, að það varð að gera breytingar á bönkunum og bankastjóraskipun þar, var þessi afstaða núverandi bankastjóra til margra helztu nauðsynjamála þjóðarinnar. Það má e.t.v. vera, að hv. þm. N-Ísf. hefði getað gert sér vonir um það, að bankastjórarnir í bönkunum stæðu á móti því, að 44 millj. væru útvegaðar til húsnæðismála að öllu óbreyttu, en hann skal gefa upp þær vonir nú.

Auk þess verður svo ekki fram hjá því komizt, ef menn hafa lesið frv., að þarna eru lögð drög að því, að myndaður verði 118 millj. kr. stofnsjóður, byggingarsjóður ríkisins, sem ekki var til áður, að skyldusparnaðurinn gefur mikið fé, að stóreignaskatturinn að 2/3 hlutum gefur mikið fé. Ekkert af þessu rann til húsnæðismálanna áður. 1% af stofntekjum ríkissjóðs kemur hér inn einnig sem nýtt fé.

Það er þess vegna öllum augljóst, sem lesið hafa frv., að það er með öllu tryggt, að það rennur til húsnæðismálanna nú meira en tvöfalt það fé, sem rann til þeirra á s.l. ári samkvæmt gildandi lögum.

Fjas hans um það, að það hafi kippt úr sparifjársöfnun, síðan núverandi stjórn tók við völdum, — það er betra að láta skýrslur tala um það mál heldur en manninn, sem ekki gat lagt saman 16 og 3, og fékk út úr því 30. Ég tek ekki hátíðlegar fullyrðingar um tölur frá svoleiðis manni. Hann virðist vera sanntrúaður á það, að sú stjórnarstefna, sem spanaði upp verðbólgu og dýrtíð, hafi skapað slíka trú almennings á verðgildi peninganna, að það mundi streyma inn sparifé í bankana, meðan sú stjórnarstefna var í heiðri höfð. En þegar stjórnarstefnan reynir að spyrna við fótum gegn verðbólgu og dýrtíð, þá á allt í einu að skapast vantrú á verðgildi peninganna, og þá á að stöðva inniagnir á sparifé í bankana. Það er ekkert skynsemissamhengi á milli þessa. Einmitt væri full ástæða til þess að ætla, að menn fengju aukna trú á verðgildi peninganna við það, að öll stjórnarstefnan miðast við að spyrna við fótum gegn vaxandi dýrtíð og verðbólgu, því að vissulega er verðgildi peninganna því háð.

Nú dettur hv. þm. N-Ísf. allt í einu í hug, að það hefði verið kominn tími til þess að lækka vexti frá því, sem fyrrverandi ríkisstj. ákváðu. Á síðustu þingum bar ríkisstj. Ólafs Thors fram hvert frv. á fætur öðru um hækkun vaxta upp í það, sem nú er. Það er rétt, að við töldum ekki fært að stíga það spor, þótt full ástæða væri til að lækka vexti á ný, og það er miðað hér í þessu frv. við sömu vexti og lögin um húsnæðismálastjórn ákveða nú. En þó er í frv. heimild til þess að lækka vexti, og vonir standa til, að það kunni að verða hægt við eflingu byggingarsjóðs ríkisins. Það er einmitt hann og vöxtur hans, sem gæti skotið stoðum undir þá von, að hægt yrði með eflingu hans að lækka vexti til íbúðarhúsnæðismála, og sú heimild er til í lögunum.

Það særir ekki mig, og það er alveg í rakaleysi sagt, þegar talað er um getuleysi núverandi ríkisstj. til að ráða fram úr húsnæðismálunum og afla þeim fjár. Það eru einmitt í þessu frv. gerðar margvíslegar ráðstafanir til að afla aukins fjár, auk alls þess fjár, sem áður átti að renna til húsnæðismálanna.

En í till. hv. minni hl. held ég að séu engar viðbótartill. um öflun fjár til þessara mála. Mér hefur þá alveg skotizt yfir þær. En hinu verður hins vegar ekki neitað, að tillaga þeirra um frjáls húslánainnlög í banka gefur enga tryggingu fyrir því, að þær upphæðir verði eins miklar og af skyldusparnaði unga fólksins.

Ég vil svo enda mál mitt á því að láta í ljós undrun mína og hryggð yfir geðvonzku hv. þm. N-Ísf. Og af því að ég vil honum allt hið bezta og veit, að þetta er drengur hinn bezti, sem ætti betri örlög skilið en að drafna niður í geðvonzku og úrillsku, þá vil ég flytja honum þessa alkunnu bæn:

Illa dreymir drenginn minn.

Drottinn, sendu engil þinn

vöggu hans að vaka hjá

og vondum draumum stjaka frá,

og láttu hann dreyma um líf og yl

og ljós og allt, sem gott er til.

Og þá verður hann ekki svona geðillur, og þá kann hann betur að greina góð mál frá vondum málum og veita stuðning þeim betri og taka afstöðu gegn þeim verri.