23.05.1957
Neðri deild: 104. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Frsm. minni hl. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir til 2. umr., var afgr. í miklum flýti frá heilbr.- og félmn. Nd. í gærkvöld. Minni hl. n. hefur hins vegar ekki fyrr en nú nýlega unnizt tími til að vinna að brtt. og séráliti, en því mun væntanlega verða útbýtt nú á fundinum.

Ég mun byrja á því að fara nokkrum orðum um einstakar greinar þessa frv., eins og það liggur hér fyrir.

Minni hl. þykir óeðlileg sú nafnbreyting, sem í 1. gr. frv. er gerð með því að taka upp heitið húsnæðismálastofnun. Enn fremur kemur þar nafnbreyting á varasjóði hins almenna veðlánakerfis, sem nú á að heita skv. frv. byggingarsjóður ríkisins. Í 1. gr. er tekið fram, að fulltrúi Landsbanka Íslands skuli eigi hafa atkvæðisrétt um lánveitingar. Þessi setning þykir okkur í minni hl. mjög varhugaverð, — að taka þannig atkvæðisréttinn af fulltrúa þeirrar peningastofnunar, sem útvegar mikið af fénu, sem verja á til lána í íbúðabyggingar. Þessa atkvæðisréttar mun raunar ekki hafa verið neytt til þessa, en ekkert mun liggja fyrir um það, að fulltrúi Landsbankans óski þess að hafa hann ekki.

2. gr. frv. fjallar að mestu leyti um ýmis atriði, sem þegar eru ákveðin í gömlu lögunum, nr. 55 frá 1955, um þetta efni, en greinin er orðfleiri og nánar fram tekið en nú er ýmislegt varðandi tæknimál. Yfirleitt erum við í minni hl. ekki mótfallin þessum atriðum. Hins vegar er málsgr. í 2. gr. frv., sem við getum alls ekki fellt okkur við, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Húsnæðismálastjórn er heimilt að láta undirbúa byggingu íbúðarhúsahverfa í kaupstöðum með því að láta gera skipulagsuppdrætti af þeim í samráði við skipulagsnefnd ríkisins. Þegar slíkir skipulagsuppdrættir hafa verið samþ. af skipulagsnefnd og félmrh., er viðkomandi bæjarfélagi skylt að heimila byggingarnar og láta af hendi eða útvega landssvæði fyrir þær, ef með þarf með eignarnámi, og fer um eignarnám skv. l. nr. 61 frá 1917. Sömuleiðis er viðkomandi bæjarfélagi skylt að leggja nauðsynlega vegi og leiðslur um slík hverfi innan hæfilegs tíma að mati húsnæðismálastjórnar og félmrh.“

Við teljum mjög varhugaverða þessa beimild til að fela húsnæðismálastjórn í raun og veru yfirráð þess, hvernig fara á með fé bæjarfélaganna, og einnig það ákvæði þessarar málsgr., að skylt sé að leggja nauðsynlega vegi og leiðslur innan hæfilegs tíma að mati húsnæðismálastjórnar. Þetta ákvæði er enn harðara gagnvart bæjarstjórnunum heldur en hið fyrra.

Í grg. frv., eins og það var lagt fyrir Ed., sagði, að þetta ákvæði væri sett í l. til þess að koma í veg fyrir, að viðkomandi bæjarfélag gæti hindrað byggingu íbúðarhúsa, sem húsnæðismálastjórn teldi hagkvæma. Það er ákaflega einkennileg ályktun að ætla, að bæjarfélögum sé það hagsmunamál að hindra byggingu hagkvæmra íhúða. En það verður að telja alls ótækt að fela öðrum aðila, sem alls ekki starfar á vegum bæjarstjórnanna, íhlutun um fjármál þeirra. Þess vegna leggjum við eindregið til, að þessi málsgr. hverfi, eins og raunar þessi grein öll, en fyrir því verður gerð nánari grein hér á eftir.

Um II. kafla frv. er það að segja, að hann er efnislega mjög samhljóða gömlu lögunum um sama efni. Þar er aðeins þetta nýyrði, sem fyrr var getið: „byggingarsjóður ríkisins“, en veðlánakerfi til íbúðabygginga á að verða einhvern veginn skilið frá honum.

5. gr. er einnig samhljóða 5. gr. gömlu laganna að öðru leyti en því, að hér eru ákvæði, sem miðast við greinar í þessu frv., sem við munum leggja til að verði felldar burt, og getum við þess vegna ekki fallizt á þessa grein eins og hún er.

Í 6. gr. um útlánareglur húsnæðismálastjórnar er tekið fram, að lánin skuli greidd lántakendum í peningum. Í eldri lögunum var heimild til að greiða lántakendum lánin í bankavaxtabréfum með samþykki lántakanda. Þetta virðist sumum hafa þótt nokkuð varhugavert ákvæði. Sannleikurinn er sá, að þessu ákvæði hefur verið mjög lítið beitt, og fulltrúi frá Landsbankanum, sem kom til viðtals við heilbrigðís- og félagsmálanefndir beggja deilda, taldi það fremur til bóta að halda ákvæði um, að greiða mætti lánin einnig í bankavaxtabréfum.

Enn fremur gæti hugsazt, að heppilegt væri, að þessi lán mætti einnig veita til gagngerðra endurbóta á húsum, þannig að teljast mætti til nýbygginga. Það er oft svo með mjög gömul hús og úr sér gengin, að þau eru orðin óhæf til íbúðar í því ástandi, sem þau eru, en spara má mikið fé með því að gera á þeim gagngerar endurbætur. Slíkar breytingar eru mjög kostnaðarsamar, og það væri mjög æskilegt, að hægt væri að fá lán úr þessum sjóðum til þeirra hluta.

Í b-lið 6. gr. segir, að lánsupphæðin megi aldrei nema meiru en 100 þús. kr. á hverja íbúð. Nú er það svo, að ýmsir lífeyrissjóðir hafa heimild til að veita lán allt að 120 þús. kr. út á hverja íbúð, og það væri æskilegt, að þessu væri breytt, því að það er líklegt, að hér sæki í sama horfið og hjá lífeyrissjóðunum, og væri þá umsvifaminna að breyta upphæðinni strax.

í g-lið 6. gr. eru ákvæði um heimild félmrh. til þess að setja nánari ákvæði í reglugerð um veitingu lána og um lánveitingar til einstaklinga, — skuli m.a. setja ákvæði, sem tryggi, að farið sé eftir ástæðum umsækjanda og húsnæði, fjölskyldustærð, efnahag, lánamöguleikum og fleiru, enn fremur um hámarksstærð íbúða, sem veita má lán til.

Eftir þeim hugmyndum, sem komið hefur á daginn að hæstv. félmrh. hefur um æskilega hámarksstærð íbúða, virðist þetta allhæpið ákvæði. Það hefur mjög komið fram hér í umr., að hæstv. núverandi stjórnarsinnar telja það mjög æskilegt, að fólk búi í sem allra minnstum íbúðum. Það er alveg rétt, að það er óþarfi fyrir ungt barnlaust fólk að búa í mjög stórum íbúðum og eins fyrir hjón, sem eru orðin ein á fullorðinsárum, börn þeirra vaxin úr grasi og farin að heiman, enda segja fróðir menn, að hver fjölskylda þurfi. ef vel á að vera, að eiga þrjár íbúðir um ævina; fyrst 2–3 herbergja íbúð, svo stærri íbúð, þar sem hvert barn getur haft sitt herbergi, og síðan aftur íbúð svipaða að stærð og þá fyrstu. En eins og nú háttar um skilyrði fólks til að byggja sér húsnæði, þá er mjög erfitt fyrir það að framfylgja þessari reglu, fyrr en ef til vill börnin eru orðin stálpuð. Það getur haft mjög óheppilegar afleiðingar fyrir fólk, sem hefur komizt af með litla íbúð 4, 5, 6 fyrstu búskaparárin, að búa ekki í stærri íbúð eftir 14–20 búskaparár.

Það hefur verið vitnað hér í þessum umr. til þeirrar stefnu, sem ríki í íbúðabyggingum í Svíþjóð og hafi ríkt þar. Sagt er, að íbúðirnar í Stokkhólmsborg séu að meiri hluta mjög litlar. En nú þykir það komið á daginn, að þessi smæð íbúða hafi mjög óheppileg áhrif þjóðfélagslega, því að unglingar, sem búa í svo litlum íbúðum, hafi ekki svigrúm heima hjá sér til að sinna verkefnum sínum, hvort sem er við skylduvinnu eða tómstundavinnu, og leiti í þess stað mun meira út fyrir heimilið til að afla sér skemmtana. Unglingarnir hafa ekki skilyrði til að sinna starfi og leik heima fyrir, og vettvangur þeirra verður því meira á götunni en annars væri, ef fólk hefði getað eignazt stærra húsnæði.

Í niðurlagi 6. gr. stendur, að heimilt sé að setja það skilyrði fyrir láni, að bygging skuli hafin á tilsettum tíma árs, að bygging sé ekki hafin, áður en skriflegt lánsloforð er gefið, nema leyfi húsnæðismálastjórnar komi til, og að bygging sé undirbúin með þeim hætti, sem húsnæðismálastjórn telur nauðsynlegt. — Þetta ákvæði getur haft mjög óheppileg áhrif, sérstaklega utan Reykjavíkur, því að örðugt er að þurfa að leita til Reykjavíkur í hvert skipti um leyfi til byggingar og til að leita eftir lánsloforði. Þess vegna þætti okkur í minni hl. mjög æskilegt, að sveitarstjórnir utan Reykjavíkur og Hafnarf jarðar hefðu slíka heimild.

Í III. kafla laganna er fjallað um sparnað til íbúðabygginga. Þar er bæði gert ráð fyrir frjálsum sparnaði og skyldusparnaði, sem ætlazt er til að fólk á vissum aldri inni af hendi. Það er sjálfsagt og eðlilegt að örva fólk til að spara fé sitt af frjálsum vilja, en ég hef megna vantrú á því, að hið opinbera skyldi fólk til þess og allra sízt takmarkaðan hóp af fólki, enda er alveg ófyrirséð, hver haldsemi þessa skyldusparnaðarákvæðis til fjáröflunar til íbúðabygginga verður. Mjög víðar undanþáguheimildir eru í 11. gr. frá skyldusparnaðarákvæðunum, svo að ómögulegt er að segja það fyrir, hve mikið fé kann að fást með þessum ráðstöfunum.

Annars virðist vera dálítið á huldu, hvernig beri að skilja þennan skyldusparnað. Ná þessi ákvæði til alls fólks á aldrinum 16–25 ára, hversu lág laun sem það hefur? Fyrir nokkru, þann 11. maí, stóð í stjórnarblaðinu Tímanum eftirfarandi ritstjórnargrein, — hún var tekin upp úr forustugrein Alþýðublaðsins, enda er það ef til vill eðlilegt, að Tíminn beri þarna Alþýðublaðið fyrir sig, þar sem mjög líklegt er, að um blekkingu sé að ræða. Í greininni segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Skyldusparnaði fylgja þau réttindi, að þegar sparifjáreigendur, sem ætla að stofna heimili, þ.e. hjón eða hjónaefni, hafa eignazt innstæðu, sem nemur 25 þús. kr., hafa þau forgangsrétt á láni úr byggingarsjóði, og má lánið nema allt að 2/3 af kostnaðarverði þeirrar íbúðar, sem þau hafa hug á að eignast. Rétt er að líta örlítið nánar á það, hvernig þessi skyldusparnaður verkar. Tökum t.d. ungmenni, sem vinnur sér inn að jafnaði 30 þús. kr. árlega á aldrinum 16–20 ára, eða um 5 ára skeið, en 39 þús. kr. eru lágmarkslaun til að vera skyldur til að spara, en auðvitað er það öllum frjálst.“

Þetta er það, sem mér sýnist að bæði þessi stjórnarblöð hafi misskilið. En sé skilningur þeirra réttur, þá held ég að væri nauðsynlegt að hafa ákvæði laganna um þetta skýrari. Í greininni segir enn fremur, með leyfi hæstvirts forseta:

„Á þessum 5 árum hefur þetta ungmenni lagt árlega til hliðar um 1800 kr., eða 9000 kr. á öllu tímabilinu. Má því gera ráð fyrir, að eftir 5 ár eigi þetta ungmenni inni í byggingarsjóði ekki minna en 12000 kr., er vextir hafa lagzt við. Stofni nú ungmennið ekki heimili við tvítugsaldur eða ákveði að spara áfram til 25 ára aldurs, verður upphæðin orðin yfir 25000 kr., þótt aldrei sé reiknað með meira en 30 þús. kr. lágmarkstekjum, sem að sjálfsögðu er of lágt reiknað, ef um er að ræða fullvinnandi mann, sem kominn er yfir tvítugt. Fleiri slík dæmi mætti nefna. Ungt fólk ætti vissulega að íhuga þessi mál rækilega og vera á varðbergi fyrir þeim, sem eru að reyna að vekja óánægju í sambandi við það.“

Þetta sagði Tíminn 11. maí. Er það mjög eðlilegt, að Tíminn skuli prenta þetta upp úr Alþýðublaðinu, ef til vill í þeirri trú, að þetta sé rétt, til að draga úr þeirri óánægju, sem bv. stjórnarsinnar óttast að sparnaðarskyldan veki hjá ungu fólki. Annars mun ég ræða um greinarnar um sparnaðinn nánar síðar, og við munum leggja fram brtt. þess efnis, að sparnaðurinn verði algerlega frjáls og enginn verði skyldaður til sparnaðar, en fríðindi þeirra, sem vilja spara af frjálsum vilja, verði hins vegar nokkuð aukin frá því, sem nú er.

Heyrzt hefur, að einhverjir óttist, að slíkur frjáls sparnaður til íbúðabygginga mundi draga sparifé frá öðrum peningastofnunum. En það er ekki mikil ástæða til að óttast slíkt, ef sá frjálsi sparnaður er bundinn við vissan tíma, eins og er raunar hér í lögunum, t.d. 5 ár. Fólk mundi alltaf síður vilja binda fé sitt til svo langs tíma, jafnvel þótt með meiri fríðindum væri en eru um venjulegt sparifé.

Þá er 17. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir, að sveitarsjóðir hækki framlag sitt í sjóð til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum. Þessi hækkun er gert ráð fyrir að nemi 1/3 frá því, sem nú er, en það er mjög hæpið, að ýmis sveitarfélög telji sér fært að takast slíkt á herðar.

Loks er 25. gr., sem minni hl. heilbr.- og félmn. er alveg mótfallinn, því að við teljum óþarft að afnema lög nr. 55 frá 1955, um húsnæðismálastjórn o.fl., en mun skynsamlegra að miða form frv. við breyt. á þeim lögum. Í samræmi við þá skoðun okkar gefum við út svo hljóðandi nál., sem ég mun nú lesa, með leyfi hæstv. forseta, af því að ég held að því hafi ekki enn þá verið útbýtt: [Sjá þskj. 606.]

Brtt. þær, sem við flytjum við 2. umr. málsins, eru samhljóða brtt., sem minni hl. heilbr: og félmn. í Ed. flutti við frv. þar, en til frekari glöggvunar á því, hvernig till. okkar mundu verka, ef frv., svo breytt, verður að lögum, mun ég nú reyna að rekja það.

Það er þá fyrst við 1. gr. frv., að 3. málsgr. 1. gr. laga nr. 55, 1955 orðist svo:

„Í húsnæðismálastjórn eiga sæti 5 menn, 4 kosnir hlutbundinni kosningu af Sþ. til 3 ára í senn og einn skipaður af félmrh. samkv. tilnefningu Landsbanka Íslands. Varamenn skulu vera jafnmargir og valdir á sama hátt. Húsnæðismálastjórn skiptir með sér störfum.“

Fyrsta gr. mundi hljóða með þessari breyt. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Setja skal á stofn húsnæðismálastjórn, sem heyrir undir félmrn. Verkefni húsnæðismálastjórnar er að beita sér fyrir umbótum í byggingarmálum og að hafa yfirumsjón lánsfjáröflunar og lánveitinga til íbúðabygginga í landinu.“ Þá fellur hér út næst málsgr. um það, hvernig húsnæðismálastjórn var skipuð, en í staðinn kemur greinin, sem ég las áðan um, að í húsnæðismálastjórn skuli eiga sæti 5 menn, 4 kosnir hlutbundinni kosningu af Sþ. til 3 ára í senn og einn skipaður af félmrh. o.s.frv.

Loks heldur sér lokamálsgr. þessarar 1. gr.: „Félmrh. ákveður þóknun húsnæðismálastjórnar, en kostnaður af störfum hennar skal greiddur úr ríkissjóði.“

2. gr. þessara laga mundi hljóða svo með þeim breyt., sem við leggjum til að felist í frv.: „Húsnæðismálastjórn skal vinna að umbótum

í byggingarmálum með því m.a.:

1) Að koma á fót og hafa yfirstjórn á leiðbeiningastarfsemi fyrir húsbyggjendur í því skyni að lækka byggingarkostnað og koma á hvers konar umbótum í húsagerð og vinnutækni við húsbyggingar.

2) Að láta fara fram rannsókn og samanburð á byggingarkostnaði húsa víðs vegar á landinu í því skyni að finna, hverjir byggja hús með minnstum kostnaði og hvað veldur þeim mun, sem er á byggingarkostnaðinum.

3) Að gangast fyrir tæknirannsóknum og kynningum nýjunga í byggingariðnaði með sýningum, námskeiðum og útgáfu rita.

4) Að beita sér fyrir útvegun hagkvæmra íbúðateikninga.

5) Að beita sér fyrir endurskoðun byggingarsamþykkta, þar sem þess þykir þörf.“

Þá er gert ráð fyrir, að sú málsgr., sem hér er seinust í 2. gr. laganna, eins og þau eru nú, falli brott, en í staðinn komi áframhaldandi töluliðir:

„6) Að leggja áherzlu á stöðlun (standandiseringu) sem flestra hluta til íbúðabygginga og fjöldaframleiðslu slíkra hluta.“

Þetta ákvæði er raunar í því frv., sem hér liggur fyrir, eins og það er, og væri að sjálfsögðu til mikils hagræðis, ekki sízt fyrir þá, sem annast útveganir hinna ýmsu hluta til húsbygginga.

„7) Að semja og gefa út reglur um lágmarkskröfur um byggingar, sem lán eru veitt til, svo sem um einangrun, lofthæð o.s.frv., sem og leiðbeiningar um undirbúning teikninga og áætlana.

8) Að stuðla að auknum byggingarefnarannsóknum.

9) Að láta fara fram samkeppni um byggingu hagkvæmra íbúða með því að bjóða lán þeim,

sem tekið gætu að sér að byggja flestar hagkvæmar íbúðir af ákveðinni meðalstærð fyrir tiltekna upphæð.

10) Að koma á fót byggingarmiðstöð í samvinnu við framleiðendur og innflytjendur byggingarefna, þar sem væri sýning á byggingarefnum, húshlutum og íbúðateikningum og almenn leiðbeiningastarfsemi fyrir húsbyggjendur færi fram.

11) Að gera grein fyrir raunverulegri þörf landsmanna fyrir íbúðabyggingar á hverjum tíma og gera tillögur og áætlanir um, hvernig þeirri þörf verði fullnægt á sem hagkvæmastan hátt og með sem minnstum tilkostnaði. Félmrh. er heimílt í þessu skyni að fela húsnæðismálastjórn í samvinnu við sveitarstjórnir, fasteignamat ríkisins og hagstofuna að koma upp spjaldskrá yfir allt íbúðarhúsnæði í landinu.“

Í stað 2. málsgr. þessarar gr., eins og hún er nú í lögunum, komi síðan þrjár nýjar málsgr., er orðist svo:

„Setja skal á fót tækniráð húsnæðismálastjórnar, er sé skipað fulltrúum frá eftirtöldum aðilum: Húsnæðismálastjórn, iðnaðardeild atvinnudeildar háskólans, húsameistara ríkisins, Iðnaðarmálastofnun Íslands, skipulagsstjóra ríkisins, teiknistofu landbúnaðarins, Landssambandi iðnaðarmanna, Félagi íslenzkra iðnrekenda, byggingarvörudeild Sambands íslenzkra samvinnufélaga og Félagi íslenzkra byggingarefnakaupmanna.

Verkefni tækniráðs er að vera húsnæðismálastjórn til ráðgjafar í tæknimálum og eiga frumkvæði að tillögum, er til umbóta og framfara horfa í byggingarmálum, og leggja fyrir húsnæðismálastjórn til ákvörðunar.

Félmrh. ákveður þóknun til meðlima tækniráðs og setur reglugerð um starfsemi þess að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar.“

Í þessum till., sem ég hef nú rakið, eru tvö höfuðnýmæli, sem gert er ráð fyrir að komi inn í 2. gr., annað um byggingarmiðstöð. Ég hef orðið þess vör, að sumir hafa misskilið dálítið þessa hugmynd, en gert er ráð fyrir, að byggingarmiðstöð sé fyrirtæki, þar sem húsbyggjendur geti leitað sér upplýsinga um þá hluti, sem til eru á markaðnum til húsbygginga, og fengið ýmsar upplýsingar um notkun þeirra, gæði, verð o.s.frv. Þannig væri á einum stað sýnishorn af ýmsum tegundum af gólfdúk, binum og þessum tegundum af málningu og þess háttar, svo að dæmi séu nefnd. Húsbygging er fjárfrekt og tímafrekt fyrirtæki, en um þessi efni er fjöldi fólks, sem Leggur út í húsbyggingar, þó alls ófróður. Þess vegna mundi slík byggingarmiðstöð spara húsbyggjendum almennt mikinn tíma og þá mikið fé um leið.

Hitt nýmælið er tillaga um tækniráð. Það var hugmynd, sem kom fram frá fulltrúum sjálfstæðismanna í húsnæðismálastjórn í vetur, og gagnsemi þess að hafa slíka menn til ráðuneytis í þessum efnum liggur í augum uppi. Því tókum við tillögu fulltrúa flokks okkar í húsnæðismálastjórn hér upp.

Þá er brtt. við 3. gr. frv. um að hún verði 4. gr. Ég ætla að lesa alla gr. í gömlu lögunum, eins og hún verður með þessari breytingu:

„Í varasjóð hins almenna veðlánakerfis rennur:

a) Afborganir og vextir lána, sem veitt hafa verið og veitt verða af framlögum ríkisins til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum.

b) Eignir lánadeildar smáíbúða, þegar greiddar hafa verið skuldir hennar.

c) Lántökugjald af lánum veðdeildarinnar samkv. lögum þessum.

d) Höfuðstóll og vaxtafé, sem komið er í gjalddaga til útborgunar, sé þess eigi vitjað innan 20 ára frá gjalddaga, sbr. 18. gr. laga 55/1945.

e) Lán ríkisins til lánadeildar smáíbúða.

f) A-flokka bréf ríkisins, er keypt voru fyrir tekjuafgang ríkissjóðs 1955.

g) 2/3 af stóreignaskatti samkv. lögum frá 1957.

h) 1% álag, er innheimta skal aukalega á tekju- og eignarskatt, stríðsgróðaskatt og aðflutningsgjöld samkv. tollskrá með gildandi viðaukum.

Varasjóður þessi skal vera í vörzlu veðdeildar Landsbanka Íslands.“

4. brtt. okkar er við 4. gr. frv. um, að hún verði 3. gr. og orðist svo:

„2. og 3. málsgr. 3. gr. laga nr. 551 1955 orðist svo:

Í þessu skyni skal veðdeild Landsbanka Íslands vera heimilt að gefa út bankavaxtabréf, samtals allt að 100 millj. kr. á ári, næstu 10 ár. Vaxtabréf þessi skulu vera þannig, að annar hlutinn, A-flokkar, verði með föstum vöxtum og afborgunum, en hinn hlutinn, B-flokkar, allt að 50 millj. kr. á ári, verði með vísitölukjörum, þannig að greiðslur afborgana og vaxta séu bundnar vísitölu framfærslukostnaðar. Eigi skal öðrum en veðdeild Landsbanka Íslands heimilt að gefa út vísitölubundin verðbréf, nema sérstök lagaheimild komi til.“

Þessar tvær málsgr. breyta hinum tveimur núgildandi málsgr. í 3. gr. laga nr. 55 frá 1955, enda voru þau aðeins miðuð við skamman tíma eða 2 ár.

Þá er lagt til, að 5. gr. frv. falli niður, og við 6. gr. er lagt til, að hún verði 5. gr. og fjalli um breyt. á 6. gr. l. nr. 55/1955, sem kemur til með að hljóða svo eftir breytinguna:

„Almennar útlánareglur veðlánakerfisins samkv. 3. gr. eru þessar:

a) Lánin veitast aðeins til byggingar íbúða, meiri háttar viðbygginga eða kaupa á nýjum íbúðum. Þau skulu greidd lántakendum í peningum. Þó skal heimilt að greiða lánin í bankavaxtabréfum, ef lántakandi er því samþykkur. Heimilt er að lánin komi til útborgunar í hlutfalli við það, hversu langt er komið byggingu húsnæðis, eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð.

Ef byggingarfélag er lántakandi, skal láninu skipt að byggingu lokinni á hlutaðeigandi íbúðir. b) Lánsupphæð nemi samtals allt að 2/3 hlutum verðmætis íbúðar samkv. mati trúnaðarmanna veðdeildar Landsbanka Íslands, þó ekki meiru en 100 þús. kr. út á hverja íbúð. Ef fleiri íbúðir eru í sama húsi, má lána út á hverja íbúð fyrir sig.

c) Lán til hverrar íbúðar skal vera í tvennu lagi, A- og B-lán. Allír, sem hafa fengið A-lán, skulu eiga rétt til að fá B-lán allt að sömu upphæð. Lántökugjald skal vera 1%.

d) A-lánin skulu tryggð með 1. veðrétti, en B-lánin með 1. samhliða veðrétti eða 2. veðrétti í hlutaðeigandi íbúð.

e) A-lánin skulu vera jafngreiðslulán (annuitetslán) með 7% ársvöxtum til allt að 25 ára, og skulu jafngreiðslurnar inntar af hendi mánaðarlega, nema öðruvísi sé ákveðið. Þegar Alán er veitt af andvirði seldra bankavaxtabréfa, mega vextir vera 1/4 % hærri en vextir bankavaxtabréfanna fyrir kostnaði veðdeildarinnar. A-lán skulu færð sérstaklega í reikning lánsstofnana, og skulu þær gefa veðdeildinni árlega skýrslu um þau.

f) B-lánin skulu vera með hliðstæðum kjörum og vísitölubundin verðbréf, sem út verða gefin. Vextir mega vera 1/4 % hærri en vextir hinna vísitölubundnu bankavaxtabréfa fyrir kostnaði veðdeildarinnar.

g) Veðdeildinni er heimilt að breyta vaxtakjörum og lánstíma á nýjum lánum að fengnu áliti húsnæðismálastjórnar og samþykki ríkisstjórnar.“

Hér er lagt til að h-liður bætist við:

„Félmrh. skal að fengnum till. húsnæðismálastjórnar setja með reglugerð nánari ákvæði um úthlutun lána, er húsnæðismálastjórn hefur með höndum.“

Síðan leggjum við til, að 7. og 8. gr. frv. falli niður og 9. gr. verði 6. gr. frv. og orðist svo: „9. gr. laga nr. 55/1955 orðist svo:

Setja skal á stofn undir yfirstjórn húsnæðismálastjórnar og veðdeildar Landsbanka Íslands sérstakt form spariinnlána í bönkum og sparisjóðum, er nefnist húsinnlán.

Húsinnlán skulu vera samningsbundin spariinnlán einstaklinga, er leggja inn fé af atvinnutekjum sínum, minnst 5 þús. kr. á ári í a.m.k. 5 ár.

Húsinnlán skulu bera 1% hærri ársvexti en almennir sparísjóðsvextir Landsbanka Íslands eru á hverjum tíma, og skal það fé, sem sparað er á þennan hátt, vera undanþegið tekjuskatti og útsvari, þó ekki yfir 5 þús. kr. á ári.

Bankar og sparisjóðir skulu skyldir að taka við peningum til húsinniána. Það fé, sem innborgast til húsinnlána, skal ganga til kaupa á Á-bankavaxtabréfum hins almenna veðlánakerfis.

Húsinnlán skulu færð á sérstakan reikning lánastofnana, og skulu þær gefa húsnæðismálastjórn skýrslu um þau.

Húsinnlán fást útborguð að minnst 5 árum liðnum frá því að innlög hófust. Öðlast þá eigendur þeirra rétt til að fá íbúðarlán hjá hinu almenna veðlánakerfi, allt að 25% hærra en venjnlegt lánshámark er, þó aldrei yfir 2/3 hluta af matsverði viðkomandi íbúðar, og skylt er að láta þá sitja fyrir um lán.

Um framkvæmd þessarar greinar fer að öðru leyti eftir því, sem nánar verður ákveðið í reglugerð um húsinnlán, sem félmrh. skal setja að fengnum till. húsnæðismálastjórnar og veðdeildar Landsbanka Íslands.“

Loks leggjum við til, með því að gert er ráð fyrir í þessum brtt. okkar, að lögin nr. 55 frá 1955 haldi gildi sínu svo breytt, að 10., 11., 12., 13., 14. og 15. gr. frv. falli niður og að 16. gr. verði 7. gr. frv. og orðin „allt að 3 millj. kr. á ári næstu 5 árin“ í 13, gr. laga nr. 55 frá 1955 falli niður.

Þá leggjum víð til, að 21., 22., 23. og 24. gr. falli niður, og í samræmi við þetta leggjum við svo til breyttar kaflafyrirsagnir.

Loks er 22. gr. brtt. um, að fyrirsögn frv. orðist svo: „Frv. til laga um breyting á lögum nr. 55 frá 1955, um húsnæðismálastjórn, veðlán til íbúðabygginga og útrýming heilsuspillandi íbúða, breyting á I. kafla l. nr. 36/1952 o.fl.“

Nú hefur þessi hæstv. ríkisstj. setið að völdum í um það bil 10 mánuði, og það er fyrst nú, sem fyrir liggur frv. um húsnæðismál, sem lengi hefur verið beðið eftir. Fyrir seinustu alþingiskosningar áfelldust núverandi stjórnarflokkar sjálfstæðismenn mjög í öðru orðinu fyrir það að bera ábyrgð á fjárfestingu, sem var taumlaus að þeirra dómi. Sú fjárfesting var, eins og hv. þdm. vita, að langmestu leyti fólgin í íbúðarhúsabyggingum. Um leið lágu þeir í hinu orðinu Sjálfstfl. á hálsi fyrir, að lánsfé væri hvergi nærri nægjanlegt til íbúðabygginga, að húsnæðismálin væru í algerum voða og á því þyrftu „umbótaflokkarnir“ eða eftir atvikum Alþýðubandalagið að ráða bót strax eftir kosningar.

Það er ekki hægt um það að deila, að eina varanlega úrræðið í húsnæðismálum er það að byggja nægilega mikið af nýju húsnæði til að mæta fólksfjölguninni og endurnýja úr sér gengið og heilsuspillandi húsnæði. Við þetta miðuðust þær ráðstafanir, sem sjálfstæðismenn stóðu að, þegar vinna við eigin íbúðir var gerð skattfrjáls, lögin um lánadeild smáíbúða voru sett 1954 og lögin um húsnæðismálastjórn og almennt veðlánakerfi til íbúðabygginga 1955. Veðlánakerfið tók ekki til starfa fyrr en í nóvember 1955, svo að þess var engan veginn að vænta, að full festa væri komin á starfsemi veðiánakerfisins fyrir ári, þegar mest bar á staðhæfingum hv. núverandi stjórnarsinna margra um það, að með lögunum um hið almenna veðlánakerfi hefði landsfólkið verið blekkt til að hefja íbúðabyggingar með gullnum loforðum um lán. Samningar um fjáröflun til íbúðabygginga samkv. þessum lögum voru hins vegar gerðir til 2 ára, og áætlað lánsfé var 200 millj. kr. Það hlaut þess vegna að vera verkefni þeirrar ríkisstj., sem var við völd, hvort heldur það var ríkisstj. sjálfstæðismanna og framsóknarmanna eða þá sú ríkisstj., sem nú situr, — það hlaut að verða eitt hennar höfuðverkefni að afla fjár til íbúðabygginga. Það er hins vegar mikil blekking að halda því fram, eins og þráfaldlega hefur heyrzt bæði í ræðu og riti fjölmargra hv. fylgismanna núverandi ríkisstj., að áætlun þessi hafi hvergi nærri staðizt, heldur var staðreyndin sú, að lánveitingar fóru langt fram úr áætlun og námu um það bil 230 millj. kr. En hins vegar varð ekki það séð fyrir fram, hve mikill fjöldi fólks mundi sækja um þessi lán, og fljótlega kom í ljós, að ekki yrði unnt að fullnægja eftirspurninni, nema séð yrði fyrir auknu lánsfé, enda var það svo, að þörfin fyrir byggingar íbúðarhúsnæðis hafði hlaðizt upp lengi vegna skorts á fjármagni til slíkra hluta í mörg ár áður. Hins vegar var það aðeins eitt, sem var örugg leið í þessu, og það var, að sú stjórnarstefna ríkti, sem hefði getað haldið við bjartsýni fólksins og örvað það til frjálsrar sparifjármyndunar, en síðari hluta ársins 1956 var efnahagsástandið allt í mikilli óvissu og óðfluga dró úr sparifjáraukningunni, og hefur við svo búið staðið til skamms tíma.

Eitt þeirra stefnumála, sem mjög voru höfð í hámælum, þegar hæstv. núverandi ríkisstj. komst til valda, var varanleg lausn húsnæðismálanna, enda gengu hin fyrstu bráðabirgðalög þessarar hæstv. ríkisstj. einmitt í þá átt að dómi hæstv. félmrh. Fyrstu bráðabirgðalögin voru um það, að fjölga skyldi mönnum í húsnæðismálastjórn úr 5 mönnum í 7, væntanlega vegna mjög mikilla verkefna húsnæðismálastjórnar, þannig að 5 mönnum væri ofviða að sinna þeim, en jafnframt var svo 3 mönnum falið að annast allar framkvæmdir á vegum húsnæðismálastjórnar til þess að útiloka þá menn frá áhrifum, sem ekki fylgdu hæstv. núverandi félmrh. að málum. Næsta stórframkvæmdin í húsnæðismálum var, þegar bráðabirgðalögin um afnot íbúðarhúsa voru sett og voru samþ. á þessu þingi, að ég þó hygg með miklum semingi af hálfu margra stjórnarsinna, enda voru þau einhver einstrengingslegustu lög um þessi mál, sem hér hafa ríkt; ég veit ekki til, að svona einstrengingsleg lög hafi gilt í þessum málum nokkurn tíma hér á landi. En margir hv. stuðningsmanna hæstv. ríkisstj. greiddu þessu frv. þó atkv., með því að þeir töldu, að ákvæði þess mundu úr gildi falla við setningu ákaflega víðtækrar húsnæðismálalöggjafar, sem hefur staðið til að setja í allan vetur, en ekki hefur komið fram enn, ekki a.m.k. sú löggjöf, sem felur í sér eða afnemur ákvæði þessara bráðabirgðalaga. Frá því að þessi bráðabirgðalög voru sett, líður og bíður og mikið vatn rennur til sjávar í heilan vetur, og ekki sáust hin nýju úrræði, fyrr en loks þetta frv., sem hér liggur fyrir, er lagt fram, þ.e. að mestu leyti önnur útgáfa á eldri lögum um sama efni nokkuð aukin eða orðfleiri þó. Þessi orðmarga aukning er þó að mestu fólgin í upptalningu ýmissa framkvæmdaatriða, sem er í rauninni ekki nauðsynlegt að hafa í lögunum, en í mörgum tilfellum meinlaust þó. Og margt það, sem hæstv. félmrh. kallar nýmæli í l., er ný nöfn á gömlum hlutum: húsnæðismálastjórn á nú að heita húsnæðismálastofnun, varasjóður hins almenna veðlánakerfis á nú að heita byggingarsjóður ríkisins, svo að dæmi séu nefnd.

Eitt er það nýmæli, sem hæstv. félmrh. hefur þráfaldlega lýst gleði sinni yfir og enn fremur lýst því yfir, að ekki ein einasta óánægjurödd hafi heyrzt um. Þetta er ákvæðið um skyldusparnaðinn. Nú veit ég ekki, hversu vel hæstv. félmrh. hefur getað gefið sér tíma til að lesa blöðin í þessum mánuði, en það voru ekki liðnir nema 3 dagar af maímánuði, þegar birtist í víðlesnasta blaði landsins grein á síðu, sem er málgagn fjölmennustu æskulýðssamtaka landsins, rödd, sem ég vil leyfa mér að lofa hæstv. félmrh. að heyra, með leyfi hæstv. forseta. Greinin hljóðar svo:

„Eins og kunnugt er, var fyrir nokkru lagt fram á Alþ. stjórnarfrv. um húsnæðismálastjórn o.fl. Frv. í heild mun ekki verða tekið til meðferðar að þessu sinni, heldur getið lítillega um þann hluta þess, sem fjallar um skyldusparnað. Samkv. frv. skal öllum einstaklingum á aldrinum 16–25 ára skylt að leggja til hliðar 6% af launum sínum, sem greidd eru í peningum eða sambærilegum atvinnutekjum, í því skyni að mynda sér sjóð til íbúðabygginga eða til bústofnunar í sveit. Þá er ákvæði um, að spariféð sé undanþegið tekjuskatti og útsvari. Þeir, sem náð hafa 25 ára aldri eða ganga í hjónaband og stofna heimili, eiga þess kost að fá sparifé sitt endurgreitt að viðbættum þeim vöxtum og uppbót vegna vísitöluhækkunar, sem greidd er af vísitölubundnum verðbréfum á innlánstímanum. Enn fremur skulu þeir, sem spara, að öðru jöfnu sitja fyrir um lán til íbúðabygginga frá húsnæðismálastjórn, og mega þau lán vera allt að 25% hærri en almennt gerist. Þessi forgangsréttur til lána er þó bundinn því skilyrði, að sparifjársöfnun þeirra, sem að byggingu íbúða standa, nemi samanlagt a.m.k. 25 þús. kr. Undanþegnir sparnaðarskyldu eru: gift fólk, sem stofnað hefur heimili, skólafólk, sem stundar nám í skóla a.m.k. 6 mánuði á ári, iðnnemar og þeir, sem hafa börn eða aðra skylduómaga á framfæri sínu og minna en 30 þús. kr. í tekjur á ári. Þetta eru meginatriði þess kafla frv., sem fjallar um skyldusparnað.

Það er mjög mikilsvert atriði í fjármálalífi hvers þjóðfélags, að takast megi að örva sparnaðarhneigð fólks sem mest, sér í lagi er slíkt mikilsvert á verðbólgutímum. Það verður helzt gert með því, að fólk öðlist trú á verðgildi peninganna. Það er augljóst, að núverandi ríkisstj. hefur ekki trú á, að aðgerðir hennar í efnahagsmálum veki traust fólks á verðgildi peninga og orsaki þar með almenna sparifjársöfnun. Þess vegna tekur hún það til bragðs að þvinga fólk til sparnaðar. Það er þó ekki gert til að draga úr verðbólgunni, eins og bezt sést á því, að ætlunin er að verja sparifénu jafnóðum til óarðbærra framkvæmda eins og húsbygginga.

Þessa þvingun er reynt að fegra með ýmsu móti. Sérstaklega er ætlazt til, að ákvæðið um forgangsrétt til lána gangi í augun á fólki. Ef það atriði er skoðað ofan í kjölinn, verður töluvert annað upp á teningnum. Forgangsrétturinn er sem sé bundinn því skilyrði, að sparifjársöfnun viðkomandi nemi a.m.k. 25 þús. kr. Til að ná því marki þurfa tekjur einstaklings á níu ára sparnaðartímabili, 16–25 ára, að nema ca. 420 þús. kr., eða ca. 47 þús. kr. að meðaltali á ári. Óhætt mun að fullyrða, að sá kvenmaður er ekki til, sem möguleika hefur til að ná því marki. Má í því sambandi benda á, að meðallaun stúlkna, sem vinna í verzlunum, eru um 30 þús. kr. á ári. Afgreiðslustúlkan væri því í 14 ár að öðlast hinn marglofaða forgangsrétt. Það má því strax reikna með, að það séu eingöngu karlar, sem möguleika hafa til að öðlast forgangsréttinn, eða um 50% af þeim, sem hefja söfnun. En nú eru ákvæði um, að þeir, sem ganga í hjónaband og stofna heimili, eigi þess kost að fá sparifé sitt endurgreitt. Nú giftast ca. 40% karlmanna innan 25 ára aldurs og vafalítið að þeir munn taka út fé sitt, en á hinn bóginn vonlítið, að þeim hafi þá þegar tekizt að höndla forgangsréttinn. En aðalatriðið er þó það, að aðeins 10–15% karlmanna á aldrinum 16–25 ára hafa 47 þús. kr. á ári og þar yfir að meðaltali. Og enn er að því að gá, að 8/9 hlutar þess fólks, sem nú hefur söfnun, er meira en 16 ára gamalt. Hvað skyldu þeir svo verða margir, sem að lokum öðlast þenna frábæra forgangsrétt? Þetta er gáta handa Hannibal, sem hann hefur þó sennilega ráðið, áður en frv. var flutt.

Enn er eitt atriði í þessu sambandi, sem er þess vert, að minnzt sé á. Þess eru fjölmörg dæmi, að fátækir efnismenn hafa unnið árum saman að því að afla sér fjár með það fyrir angum að afla sér menntunar síðar meir. Nú er einn steinninn enn lagður í götu þeirra, með því að ekki eru þeir undanþegnir sparnaðarskyldunni, og svo er um fleiri, enda er hér að vissu leyti um beina skattlagningu að ræða. En það eru svo sem fordæmi fyrir slíkum skyldusparnaði. Það er langt síðan Rússar komu á skyldusparnaði hjá sér. Það þótti að sumu leyti myndarlegt bragð, en óánægju hefur að vísu gætt, aðallega vegna þess, að spariféð hefur ekki veríð endurgreitt svo sem ráð var fyrir gert.“

Þetta voru orð þess unga manns, sem skrifaði greinina um skyldusparnaðinn. Ég tel fullvíst, að það sé margt ungt fólk, sem taki í þennan sama streng. Áð minnsta kosti finnst því óviðfelldið að láta þvinga sig til sparnaðar, þó að eðlilegt sé og sjálfsagt, að unglingar venji sig á sparsemi.

Hæstv. félmrh. hefur haldið því fram, að skyldusparnaðurinn sé unga fólkinu til mikils góðs, og telur, að hann hafi góð uppeldisáhrif, en ég get ekki fallizt á það, að hinu opinbera verði falið að annast það uppeldi. Hæstv. ráðh. virðist starfa í anda kenninga Friðriks mikla, en hann sagði: „Ég stjórna þegnunum eins og þeim er fyrir beztu, hvort sem þeim líkar betur eða verr: Sannleikurinn er sá, að unga fólkið nú og á dögum Friðriks mikla og almenningur yfirleitt treystir sjálfu sér betur til að finna, hvað því er fyrir beztu, heldur en stjórnarherrunum, hvort sem þeir bera nafn Friðriks mikla eða Hannibals Valdimarssonar.