20.05.1957
Neðri deild: 101. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

159. mál, skattur á stóreignir

Emil Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. Borgf. virtist vilja draga þá ályktun af því, að enginn úr þingflokki Alþfl. hefði tekið til máls um þetta mál annar en hv. þm. Siglf., að þá væri þingflokkurinn yfirleitt sömu skoðunar og hann um málið. Ég verð nú að hryggja hann með því, að þetta er ekki tilfellið. Hv. þm. Siglf. hefur ekki túlkað skoðanir flokksins í þessu máli, heldur eingöngu sínar eigin skoðanir, og allur þingflokkurinn að honum undanteknum er allt annarrar skoðunar, og mun ég ef til vill koma nánar að því síðar.

Þessar umræður, sem nú hafa farið fram, líkjast eiginlega meir því, að hér væri málið til 1. umr. og væri rætt almennt, frekar en eins og nú er, að um 3. umr. sé að ræða, og einstök atriði þess rædd, áður en það fer út úr þessari hv. deild. (Gripið fram í.) Jú, og það skal líka viðurkennt, að hv. þm. Borgf. var inni á einstökum atriðum og brtt. En mér fannst þó, að þessar stórpólitísku umræður, sem hér fóru fram í kvöld fyrir það hlé, sem gert var á umræðunum, væru meir eins og tíðkast við 1. umr. en að þær líktust nokkru öðru. Þær voru almennar umræður um, hvernig tekið hefði verið á lausn vandamála atvinnuveganna, og um þær aðferðir, sem í því máli hefðu verið farnar fyrir áramótin, og ýmislegt, sem í sambandi við það hefði gerzt síðan. Ég vildi þess vegna með nokkrum orðum í upphafi ræða um þetta mál almennt.

Það er öllum vitanlegt og ljóst, að þegar taka skyldi ákvörðun um, hvernig snúast skyldi við vandamálum þeim, sem leysa þurfti fyrir áramótin, til þess að atvinnuvegir landsmanna stöðvuðust ekki, þá var um tvær leiðir að ræða, annars vegar styrkja- og uppbótaleiðina, sem farin var, og hins vegar gengislækkunarleiðina. Um það, hvora þessa leið skyldi velja, greindi menn að sjálfsögðu nokkuð á. Sumir vildu fara gengislækkunarleiðina, en aðrir vildu fara þá leið, sem farin var, að veita styrki og uppbætur til framleiðslunnar og freista að komast af með það.

Alþfl. hefur aldrei farið dult með skoðun sína í þessu máli. Hann hefur, raunar þvert á móti því, sem hv. þm. Siglf. sagði hér í kvöld, talið, að hagsmunum almennings væri betur borgið með því, að ekki þyrfti til gengislækkunar að koma, ekki þyrfti að grípa til svo róttækra aðgerða eins og gengislækkunin felur í sér, og að það bæri að gera allar hugsanlegar aðgerðir, sem hægt væri, eftir þeim leiðum, sem nú hafa verið farnar, áður en til gengislækkunarinnar yrði gripið. En hins vegar hefur hann gert sér ljóst, að ef ekki væri vissum skilyrðum fullnægt, þá væri ekki hægt að komast hjá því að gripa til þessarar gengislækkunar. Spurningin er þess vegna ekki eins og hv. 1. þm. Reykv. stillti henni upp hér í kvöld, hvort hæstv. ríkisstj. ætlar að fara út í gengislækkun eða ekki. Málið liggur ekki svo einfaldlega fyrir, heldur er spurningin, hvort ríkisstj. muni takast að koma fram því að halda í skefjum kapphlaupinu um launahækkanir og verðlagshækkanir, svo að á þann hátt verði komizt hjá gengislækkun og dýrtíðarhækkun raunar líka. Ef henni tekst ekki þetta, þá sýnist mér ljóst, að ekkert sé eftir nema gengislækkun. En það er og hefur alltaf verið álitið af okkur Alþýðuflokksmönnum algert neyðarúrræði, sem ekki mætti undir neinum kringumstæðum grípa til, fyrr en allt annað væri útilokað. Það er þess vegna þýðingarmikið fyrir þá, sem í raun og sannleika vilja ekki gengislækkun, að það megi takast að halda þessu hvoru tveggja í skefjum, verðlaginu og kaupgjaldinu.

Sjálfstfl. hefur farið báðar þessar leiðir. Hann var með í ríkisstj. Stefáns Jóh. Stefánssonar 1948, sem reyndi fyrir sér mjög svipaðar leiðir og nú er gert, og Sjálfstfl. virtist þá una því vel. Stjórnarandstaðan þá hafði að vísu uppi gegn þessu andmæli, sem eru mjög svipuð því, sem Sjálfstfl. hefur uppi nú, að með þessu væri verið að skattpína almenning. En ég held, að það fari ekki á milli mála, að sú leið, sem Sjálfstfl. reyndi 1950, hafi sízt gefið betri raun, því að afleiðingin af henni varð sú, að við sátum bæði með gengislækkunina og með styrkja- og uppbótakerfið í algleymingi. Sannleikurinn er sá, að það verður ekki í þessum málum gert hvort tveggja að halda atvinnuvegunum gangandi og komast hjá því að gera ráðstafanir, sem einhvers staðar koma við. Leiðirnar, sem um hefur verið að ræða, eru raunverulega ekki nema tvær, og menn skulu bara gera það upp við sig, hvora þeirra þeir vilja heldur fara.

Ég hef lýst stefnu Alþýðuflokksins, þeirri sem hann jafnan hefur haft, að ávallt, þegar fært sé og möguleikar eru til, beri að forðast gengislækkunina. Mér finnst þess vegna, að ef Sjálfstfl. í raun og sannleika vill forðast gengislækkun, beri honum að reyna að styðja þær aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem miða í þá átt að koma í veg fyrir þetta. Það dugir ekki að koma hér eins og hv. 1. þm. Reykv. gerði í kvöld og jafnvel láta liggja að því, eins og hann gerði, að hæstv. ríkisstj. væri farin að hvísla því að vinum sínum, að nú ætti að fara fram gengislækkun í haust, til þess að þeir gætu gert viðhlítandi ráðstafanir. Þetta finnst mér næstum því að segja ósæmilegar aðdróttanir að hæstv. ríkisstjórn, því að ég veit, að hv. 1. þm. Reykv. trúir því ekki sjálfur.

Það, sem um er að ræða í þessu máli, er einfaldlega þetta, hvort það tekst að halda uppi því jafnvægi í launagreiðslum og verðlagsmálum, sem dugi til þess að koma í veg fyrir gengislækkunina. Hæstv. ríkisstj. hefur farið þá leið að leita um þetta samvinnu við launastéttirnar og við bændasamtökin. Og hún hefur fengið forvígismenn þessara samtaka beggja til þess að fallast á sín sjónarmið og reyna að vinna að lausn málanna á þennan hátt. Ef nú Sjálfstfl. vildi af heilum hug vinna þessum ráðstöfunum fylgi, sem eiga að miða að því að koma í veg fyrir gengislækkun, þá bæri honum vissulega að reyna að styðja þessa viðleitni ríkisstj., en ekki reyna að gera hana tortryggilega. Og það verður að segjast, að það hefur stjórnarandstaðan og blað hennar, Morgunblaðið, vissulega reynt að gera. Hún hefur reynt að gera allar þær tilraunir, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert í þessu máli, eins tortryggilegar og hún hefur mögulega getað. Og það, sem merkilegra er, það hefur verið í þessu blaði og af hálfu þessa flokks reynt að ýta undir aðgerðir til þess að gera ráðstafanir ríkisstj. óvirkar og reynt að gera þá aðila, sem víssulega þurfa að sætta sig við þessar aðgerðir, óánægða.

Það er alveg augljóst mál, að þegar farið er út í aðgerðir eins og þessar, þá fást ekki allir til þess að vera sammála um þær. Það verða einstakir hópar í þjóðfélaginu, sem hugsa sér að fá sínum hag betur borgið með því að vera á annarri skoðun. Og því er ekki að leyna, að það eru til ýmsir hópar innan launastéttanna t.d., sem telja, að sínum hag mundi vera betur borgið, ef þeir fá einhverja launahækkun. Það hefur komið fram. En það, sem allt veltur á í þessu sambandi, er, að það jafnvægi, sem reynt er að skapa, raskist ekki. Og ef ekki er hægt að tryggja þetta jafnvægi og það fer úr skorðum, a.m.k. svo að nokkru nemi, þá sé ég ekki að annað blasi við en sú gengislækkun, sem sjálfstæðismenn eða stjórnarandstaðan virðist a.m.k. í öðru orðinu ekki telja æskilega.

Skattaálögur á almenning eru náttúrlega ekki vinsælt verk, og eins og hér var tekið fram í kvöld, eru miklir skattar lagðir á í þessu landi. En ríkisstj. og þeir flokkar, sem styðja hana, eru þeirrar skoðunar, að hag almennings sé betur borgið með þessari skattaálagningu en ef farin væri gengislækkunarleiðin. Það hefur þess vegna orðið niðurstaðan, að þó að það sé vissulega óæskilegt að leggja á þunga skatta, þá sé það samt léttbærara fyrir almenning í þessu landi en hitt, ef til gengislækkunarinnar hefði orðið að grípa með þeim afleiðingum, sem það hefði haft í för með sér.

Ströng verðlagsákvæði eru líka nauðsynleg til þess að hindra, að vöruverðið fari upp. Og það er annar þátturinn í þessari baráttu, sem ríkisstj. verður að heyja, að reyna að halda vöruverðinu í skefjum með svo strangri verðlagsálagningartakmörkun, að þar sé ekki farið nokkurs staðar lengra en góðu hófi gegnir.

Það hefur verið látið í það skína hér í þessum umr„ að þessi verðlagsákvæði, sem ýmist hafa verið í gildi eða hafa nú verið sett, væru svo ströng, að það væri ómögulegt að reka verzlun eða viðskipti eða jafnvel framleiðslu með þessum verðlagsákvæðum.

Ég skal viðurkenna, að vitaskuld verður að gæta þess, að þessi verðlagsákvæði séu ekki það ströng, að atvinnureksturinn geti ekki verið rekinn með þeim. Hins verður einnig að gæta, að halda verðlaginu svo í skefjum sem frekast er mögulegt til þess að hindra, að réttmætur grundvöllur skapist á þann hátt fyrir frekari kauphækkanir. Og þó að því sé haldið fram, að þessi verðlagsákvæði, sem nú eru í gildi, séu svo þröng, að það sé ekki hægt að reka hvorki viðskipti né framleiðslustarfsemi ýmsa með þeim, þá má nú vera, að minni hyggju, að sá áróður, sem um þetta er rekinn, sé kannske ekki alveg grundvallaður á hreinum tölum, heldur sé það gert vegna þess, að þeir, sem verða fyrir barðinu á þessum ákvæðum, telji hag sínum ekki nógu vel borgið, þó að honum sé kannske á þann hátt borgið, að allt komist af og geti blessazt. En ég vil undirstrika það, að ég er víssulega ekki því sammála, að þessi ákvæði séu höfð svo þröng, að atvinnurekstrinum sjálfum stafi bætta af, enda veit ég eða tel mig vita, að það muni ekki vera ætlun hæstv. ríkisstj.

Úr því að þessi leið var farin, sem farin var fyrir áramótin, varð ekki komizt hjá því að leggja á allþunga skatta. En þessir skattar og þessi afgreiðsla málsins, sem gerð var í samráði við launþegasamtökin og bændur, miðaðist við, að það yrði um leið lagður skattur á stóreignir, og út frá því var gengið, þegar hin almennu lagaákvæði voru sett til bjargar og viðreisnar atvinnurekstrinum í landinu, að stóreignaskattslögin fylgdu á eftir þeirri skattlagningu, sem þá var ákveðin, ekki út af fyrir sig vegna þess, að það fé, sem fengist með stóreignaskattinum, yrði notað í sama tilgangi og hinir skattarnir, sem þá voru á lagðir, heldur til þess að þeir, sem urðu að sætta síg við skattana, fengju ekki það á tilfinninguna, að neinum í þessu þjóðfélagi væri ívilnað, heldur yrðu þeir, sem efni hefðu á því, líka að bera sinn hluta af byrðunum og ekki þann sízta. Þetta er það, sem liggur til grundvallar fyrir þessu frv., sem hér liggur fyrir til umræðu. Og það er vissulega ekki óeðlileg hugsun, þó að sá maður, sem verður að sætta síg við skatt á brýnustu nauðsynjar sínar til þess að halda atvinnuvegunum í landinu gangandi, hafi það ekki á tilfinningunni, að öðrum sé hlíft við skatti, sem betri efni hefur á því að greiða hann. Um þetta voru allir stjórnarflokkarnir sammála, og eru, eftir því sem ég bezt veit, enn, með þeirri undantekningu, sem hér kom fram í kvöld.

Það, sem sérstaklega rökstyður það, eftir mínu viti, að það er réttmætt, að þessi skattur sé á lagður, er, að hér hefur orðið ámóta verðbreyting á hlutum í þessu landi síðan 1950, að síðast var farin þessi leið, sem fullkomlega jafngildir stórkostlegri gengislækkun, sem þá var talin rökstuðningur fyrir því, að skatturinn var lagður á 1950, því að þetta er ekki í fyrsta skipti, sem þessi skattur er lagður á. Hann var einnig lagður á 1950 og af þeim mönnum, sem nú gagnrýna þessa skattlagningu hvað mest.

1950 var lagður skattur á alla eign einstaklinga, sem var umfram 300 þús. kr. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er ráðgert, að 1 millj. kr. verði undanþegin skattinum. Hjá félögum var samkvæmt lögunum frá 1950 gert ráð fyrir, að skatturinn væri tekinn af öllum eignunum, eins og þær lögðu sig, undantekningarlaust, þannig að það virðist ekki, að með því frv., sem hér liggur fyrir í dag, sé farið lengra, heldur skemmra en gert var ráð fyrir í lögunum frá 1950. Að vísu má segja, að skattstiginn á fyrstu 200 þúsundirnar frá einstaklingum, frá 300 þús. kr. og upp í 500 þús. kr., hafi verið lægri en skattstiginn er lægstur nú, eða 10% og 15% upp í 500 þús. kr. og 1 millj., en af 1 millj. til 11/2 millj. reiknaðist 20%, nákvæmlega eins og í þessu frv., og síðan 25%, eins og líka er gert ráð fyrir í frv. því, sem hér liggur fyrir, þannig að ég sé ekki, að hér sé, eins og hv. þm. Borgf. sagði, um hættulegt fordæmi að ræða. Fordæmið er vissulega fyrir hendi og fordæmið er gefið af Sjálfstfl. og Framsfl. 1950. Rökin fyrir þessum skatti 1950 voru þau fyrst og fremst, að með gengislækkuninni væri gert ráð fyrir mikilli verðhækkun, sem rétt væri að gera að grundveili fyrir skattinn. En hér er vissulega ekki verið um að ræða neina væntanlega verðhækkun, því að verðhækkunin hefur orðið gífurleg á öllum hlutum í þessu landi, siðan gengislækkunin var framkvæmd 1950 og eftir að gefizt var upp við gengislækkunarleiðina og farið inn á hina fyrri styrkja- og uppbótaleið, svo að sá grundvöllur, sem var til staðar 1950 fyrir þessa skattaálagningu, er vissulega til enn í dag.

Því hefur verið haldið fram, að þessi skattur, ef krafinn yrði, mundi ríða atvinnuvegina ýmsa gersamlega á slig, koma á stað atvinnuleysi, sem aftur gæti velt upp á sig meira atvinnuleysi og svo koll af kolli, þannig að við værum að komast út í hreint öngþveiti í atvinnumálum, ef þessi skattur yrði lagður á.

Ég held, að þeir, sem halda þessu fram, hafi ekki gert sér þá grein fyrir þessum hlutum sem skyldi, og ég vil bara nefna eina staðreynd, sem sýnir ljóslega, hvað þessi hugsun er fráleit. Ríkissjóður tekur í dag af þjóðinni í kringum 600 millj. kr. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að taka af þjóðinni í kringum 80 millj. kr., og þessi 80 millj. kr. upphæð á að takast á 10 árum, þannig að það komi 8 millj. á ári, og trúi því hver sem vill, að það ríði atvinnuvegi þjóðarinnar á slig, ef tekjur ríkissjóðsins eru hækkaðar um 8 millj. kr. með þessari skattheimtu eða um tæpan 11/2%. Ég trúi því a.m.k. ekki, að þetta geti haft nein úrslitaáhrif. Það eru líka ýmsar ráðstafanir gerðar í frv. til þess að koma í veg fyrir þetta. Það eru gerðar þær ráðstafanir, eins og ég sagði áðan, að lágmarkið, sem skatturinn er tekinn af, er hækkað stórkostlega frá því, sem var í lögum Sjálfstæðisflokksins frá 1950. Þá var lágmarkið, eins og ég sagði, 300 þús. kr. hjá einstaklingum og núll hjá félögum, en lágmarkið í dag samkvæmt þessu frv. er sett við 1 millj. kr. hjá öllum.

Þá er enn í þessu frv. gert ráð fyrir því, að skattinum á félögin verði skipt upp, alveg eins og gert var ráð fyrir í lögunum frá 1950. Þá var hreinum eignum félags skipt niður á þá einstaklinga, sem áttu félagið, og félagið látið greiða fyrir þá skattinn. En hversu miklu þetta munar fyrir félagið, skilja menn kannske bezt á því, að mér hefur sagt ráðamaður úr Eimskipafélagi Íslands, að ef skatturinn hefði verið lagður beint á það félag og ekki skipt upp á hluthafana, þá hefði skatturinn orðið 10 millj. kr., sem Sjálfstfl. lagði á 1950, en vegna þess að honum var skipt upp, varð hann ekki nema 2 millj. Nú er ég út af fyrir sig ekkert spenntur fyrir því að leggja skatt á Eimskipafélagið, og ég hef verið með því ávallt, að þeim væru gefin mikil skatthlunnindi, á meðan fram á það var farið, en mér þykir það ekki ýkja mikið, þó að félag eins og Eimskipafélag Íslands greiði á þennan hátt, eins og það gerði 1950, eftir að það hafði notið skatt- og útsvarshlunninda jafnan, 2 millj. kr. úr sjóði sínum í þennan stóreignaskatt. Nú má vel vera að vísu, að þessi upphæð verði eitthvað hærri, vegna þess að eignir félagsins hafa bæði vaxið raunverulega og hækkað í verði síðan, en ég trúi því þó ekki, að hann verði það mikill, og vona það vissulega, að hann verði ekki það mikill, að hann þurfi að hafa nein úrslitaáhrif á rekstur félagsins.

Þá eru enn gerðar ráðstafanir í frv. til þess að draga úr því, að skatturinn komi illa við þar, sem kannske sízt skyldi og hætta er á því, að hann geti gengið nærri möguleikum atvinnurekenda, á þann hátt, að eignir þær, sem skatturinn er greiddur af, eru færðar það niður í mati, að mér finnst þar gengið mjög langt. Samkvæmt þeim brtt., sem við berum fram í meiri hl. fjhn. um þetta efni, er gert ráð fyrir, að fiskiskip verði talin til eignar með verði, sem sé vátryggingarverðið að frádregnum 40% og tilsvarandi lægra á verzlunarskipum, eða 331/3%, en með þessu eru eignirnar færðar það langt niður í verði, að ég tel, að þeir, sem þar eiga hlut að máli, megi mjög vel við una.

Við athugun málsins í fjhn. hafa verið gerðar á frv. nokkrar breytingar, eins og ég hef að nokkru leyti lítillega minnzt á. Í 2. gr. frv. voru ákvæði um það, að endurskoða mætti mat á einstökum lóðum í kaupstöðum og kauptúnum. Ég skal gjarnan viðurkenna, að mér þótti þetta ekki nægilega skýrt a.m.k., svo að ég hafi nú ekki um það önnur orð, og að sú framkvæmd, sem á þessari lagasetningu byggðist, gæti ef til vill orðið nokkuð tilviljunarkennd. Þess vegna hefur þetta verið numið í burtu og greinin umorðuð, þannig að það mat, sem þar er um að ræða, verður almennt og því aðeins tekið til hækkunar á fasteignamatinu, sem skýrt er frá annars staðar, hvernig með skuli fara, að sú nefnd, sem um þetta fjallar, telji, að lóðamatið sé í ósamræmi við matsverð á öðrum fasteignum, og ég tel þessa breytingu til verulegra bóta. Sömuleiðis hef ég minnzt á þær breytingar, sem gerðar eru á matsverði skipa, að frádráttarheimildin er hækkuð og skipin þar af leiðandi lækkuð í verði.

Þá var líka nokkuð um það rætt í nefndinni, að ef eignir félags eru metnar - eða gerðar upp, kannske réttara sagt — á þann hátt, að nettóeign félagsins er látin koma fram til ákvörðunar stóreignaskattsins, þ.e. hrein eign umfram hlutafé sé lögð til grundvallar, þá geti þetta haft þær afleiðingar, ef féð verður endurkrafið af eigendum hlutabréfanna, að þeir komi til með að greiða ósanngjarnlega háan skatt fyrir sín bréf, vegna þess að bréfin þurfa ekki - og alls ekki — að vera þeim jafnmikils virði og hrein eign félagsins gefur til kynna. Þess vegna tók nefndin það upp í brtt. sínum á þskj. 552 að heimila þeim, sem þannig væri ástatt um, að endurgreiða félaginu í hlutabréfum, sem þá væru metin á sama verði og eignir félagsins eða í samræmi við eignamat félagsins sjálfs. Þetta tel ég líka til verulegra bóta eða geta mætt sanngjörnum óskum þeirra, sem hér eiga hlut að máli.

Umfram þessar till. frá meiri hl. n. hafa hv. sjálfstæðismenn í fjhn. borið fram nokkrar brtt. á þskj. 558, sem mér sýnist aðallega fjalla um það að draga enn frekar úr, þar sem greiðslutíminn er t.d. lengdur úr 10 í 15 ár og til greiðslu á skattinum yfirleitt megi nota eignir með því matsverði, sem ákveðið verður samkv. þessum lögum, og ýmislegt fleira.

Ég get, eins og hv. frsm. meiri hl. n. hefur lýst hér áður, ekki fallizt á þessar till. og mun því ekki treysta mér til þess að greiða þeim atkvæði.

Ég held, að það liggi alveg ljóst fyrir, að með þessari skattheimtu, þessum skatti á stóreignir, sem hér er gert ráð fyrir, sé ekki stofnað til neinna vandræða fyrir atvinnulíf þjóðarinnar. Það hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir í því sambandi, eins og ég nefndi hér áðan, lágmarkið sett við 1 millj. kr., skattinum skipt upp, þegar um félög er að ræða, en langflestir eigendur þessara atvinnutækja eru félög, og matið á eignum í flestum tilfellum, að ég tel mig þora að fullyrða, lægra en raunverulegt verð þessara eigna eða söluverð þeirra og greiðslutíminn 10 ár, þannig að ég tel ekki, að hér sé stofnað til neinna vandræða.

Hv. þm. Borgf. gat þess í sinni ræðu, að menn mættu gæta sín á því að meta ekki húsakost, vélar og lóðir útvegsmanna það háu verði, að skatturinn gæti stöðvað eða dregið úr þeirra rekstri, og þetta er vissulega rétt, og það er áreiðanlega ekki ætlun frv., að með því verði dregið úr rekstrinum. Ég held, að með þeim ráðstöfunum, sem frv. felur í sér, sé engin hætta á því, að það verði gert. En á það vil ég benda hv. þm. Borgf., að það mun ekki vera ótitt, að ýmsir af þessum mönnum, sem þarna er um að ræða, hafi byggt sín hús á miklu ódýrari tíma en við höfum nú. Þeir hafa sjálfsagt byggt verulegan hluta af þessum húsum sínum og keypt talsverðan hluta af þessum vélum sínum með lánsfé og kannske að öllu leyti fyrir lánsfé, en sá skuldabaggi, sem hvílir á þeim nú, miðað við sömu eign, er ekki sá sami sem hvíldi á þeim, þegar til þessara verka eða til þessara fyrirtækja var stofnað. Skuldabyrðin hefur létzt með hækkandi verðlagi í landinu, og það er þess vegna ekki ósanngjarnt, að hið opinbera taki einhvern hluta af því, sem þeir eingöngu vegna vaxandi verðbólgu í landinu hafa unnið, í sinn hlut, því að það er áreiðanlegt, að sá arður eða sú eignaaukning, sem þeir á þennan hátt hafa fengið, er ekki þeim að þakka, heldur er hún því að þakka, að verðlagið hefur breytzt, svo að skuldirnar, sem á þessum eignum hvíldu, miðað við verðmæti eignanna, eru orðnar miklu minni. Þetta réttlætir vissulega, að það sé farið inn á þessa braut, enda var alveg sama hugsunin, sem vakti fyrir Sjálfstfl. 1950, þegar hann setti sín lög um skatt á stóreignir.

Því var haldið fram af hv. 1. þm. Reykv. (BBen), að það mætti vara sig á því að setja svona lög, vegna þess að það gæti lamað sparnaðarviðleitnina í landinu, og raunar vildi hann nú helzt slá því föstu, að mér skildist, að um slíka viðleitni yrði ekki að ræða, þegar skattur slíkur sem þessi væri tekinn. En ég held, að þarna verði að líta á fleira og að það sé ekki eins mikil hætta á þessu og hann vildi vera láta, aðallega vegna þess, að skatturinn nær ekki til þeirra í þessu landi, sem almennt leggja fram sparifé. Spariféð leggja fram þeir smáu, sem geyma sér skilding til elliára eða síðari tíma og síðari nota, en það eru áreiðanlega fáir, sem safna spariskildingum í þessu landi, sem geta komið þeim á þann hátt upp fyrir milljónina. Það verður þá eitthvað meira að koma til, og skatturinn á þá, sem eiga meira en 1 millj. kr., verður ekki fyrst og fremst á sparifjármyndunina.

Ég veit ekki, hvort það er fleira, sem ég þarf hér að ræða. Það hefur verið talað til ýmissa annarra en til mín í þessum umr. hér í dag og kvöld, og ég veit, að þeir, sem eftir eiga að tala hér, munu svara þeim ásökunum, sem fram hafa verið bornar, t.d. þeim ásökunum hv. 1. þm. Reykv., að hæstv. ríkisstj. sjálf hefði unnið að því að hækka laun í þessu landi. Ég held, að hann vaði þar að verulegu leyti í villu og svíma. Það, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, er, að hún hefur neyðzt til að framkvæma ýmsar samræmingar. Hún hefur líka, eins og ríkisstj. hafa áður gert, veitt fyrirgreiðslu í sambandi við kaupdeilur, sem er ekki óþekkt fyrirbæri. Mér virtist t.d. hv. þm. hneykslast mjög á því, að hæstv. ríkisstj. hefði veitt flugmönnum einhver gjaldeyrisfríðindi í sambandi við sínar kaupkröfur. En þetta er sannarlega ekki í fyrsta skipti, sem það hefur verið gert. Bæði ríkisstj., sem hann hefur verið í sjálfur, og margar aðrar fleiri hafa oft gripið inn til þess að hjálpa til með að komast af án verulegra kauphækkana með því að veita ýmiss konar þess háttar fríðindi. Annars veit ég, að hæstv. ríkisstj. muni geta svarað þessari hlið málsins betur en ég hef aðstöðu til, vegna þess að ég er ekki nógu vel inni í því.

Ég skal að lokum segja það, til þess að það verði á engan hátt dregið í nokkurn vafa, að Alþfl. hefur ákveðið að fylgja þessu frv., vegna þess að hann taldi það vera í ósamræmi við ráðstafanirnar fyrir áramótin, ef það yrði ekki gert og ef þetta frv. næði ekki fram að ganga, úr því að sú leið var farin í lausn efnahagsmálanna, sem farin var.

Það er tiltölulega auðvelt verk og ég vil segja ekki sérstaklega stórmannlegt að ganga á móti nauðsynlegum skattaálögum bara af því, að menn vilja ekki líta raunsætt á hlutina og koma sér hjá þeim óþægindum, sem því fylgja, vitandi þó, að það var nauðsynlegt til þess að firra öðru, sem verra var. Það, sem verið er að gera með þessari skattálagningu hæstv. ríkisstj. eða var verið að gera um áramótin, og það sem er verið að gera nú í framhaldi af því, er að koma í veg fyrir það, sem verra var. Hvað lengi það tekst, það veit enginn, hvorki ég né aðrir, og ég býst við, að hæstv. ríkisstj. hafi heldur enga möguleika til þess að gera sér grein fyrir því á þessu stigi málsins. Það verður að fara eftir því ástandi, sem í landinu skapast, hvort menn vilja una þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið, eða hvort þeir með aðgerðum, sem fara í gagnstæða átt við stefnu hæstv. ríkisstj., vilja vera með í því að framkalla annað, sem er enn þá verra.