20.05.1957
Neðri deild: 101. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

159. mál, skattur á stóreignir

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég verð fyrst að láta uppi undrun mína yfir því, að sumir ráðherranna og jafnvel hæstv. forseti sameinaðs Alþingis hafa talað um það hér, að umræðurnar hafi farið nokkuð á við og dreif. Þessum hv. herrum ætti þó að vera kunnugt um, að samkvæmt þingsköpum á við 3. umr. í senn að ræða málin almennt og einstök atriði þeirra, og það hefur einmitt verið gert hér. Umræðurnar hafa ekki á neinn veg af hálfu okkar sjálfstæðismanna farið út fyrir þann ramma, sem stjórnin sjálf hefur sett, þegar hún skýrir þetta frv. á þann veg, að það sé einn liðurinn í dýrtíðarráðstöfunum hennar, einn liðurinn af mörgum framkvæmdum, sem hófust með jólagjafafrv. sæla í desember. Um þessi efni öll hefur því verið óhjákvæmilegt að tala og bein þingmannsskylda okkar að kryfja málin til mergjar á þann veg, til þess að þau yrðu útskýrð, og það sýnist jafnvel ekki veita af fyrir hæstv. ráðherra sjálfa, að þeir athugi málin ögn betur en þeir hafa til þessa gert.

Það er t.d. furðulegt að heyra hæstv. sjútvmrh. koma hér og fullyrða, að þessi skattur komi alls ekki við sjávarútveginn í landinu. Það er öllum kunnugt, að þetta fær ekki staðizt. Vill þá hæstv. ráðh. taka þátt í því að fá einhverja hlutlausa menn til að athuga frv. og kanna það, á hverjum þessi skattur lendir, og vill hann þá standa við sín orð, jafnvel ef ekki er lengra farið fram á við en að hann standi við orðin eina næturstund? Vill hann þá standa við það að kanna nú til hlítar, hvort það er rétt hjá honum, að þessi skattur bitni ekki á sjávarútveginum? Það væri ákaflega mikilsvert, ef hæstv. ráðh. vildi standa við þessa yfirlýsingu sína. En ég er ósköp hræddur um, að þegar á reyni, þá fari í því eins og fleiru hjá þessum hæstv. ráðh., að það verði látið sitja við orðin ein og minna verði um efndirnar.

Það var líka eftirtektarvert, að hæstv. ráðh. var ákaflega loðinn í sínum yfirlýsingum varðandi gengisfellingu fyrirhugaða. Hann var þó sýnu ákveðnari en hæstv. fjmrh. og hæstv. forseti sameinaðs þings, því að þeir gáfu berlega í skyn, að gengislækkun hefði verið tekin til íhugunar og þyrfti í raun og veru ekki að íhuga það svo mjög, því að ef þessar ráðstafanir, sem nú hefðu verið gerðar, dygðu ekki, væri hún óhjákvæmileg. Hæstv. sjútvmrh. ætlar okkur aftur á móti að trúa því, að stjórnin sé svo fyrirhyggjulaus og hann sem sjútvmrh., að hann hafi ekki látið sér til hugar koma, hvað ætti að taka við, ef þetta hrófatildur hryndi, sem allir sjá nú þegar að er hrunið að meira eða minna leyti. Ja, ábyrgðarlaus vissi ég að hann var, en ég vil ekki halda því fram, að hann sé svo ábyrgðarlaus og fyrirhyggjulaus, að hann sé ekki farinn að hugleiða, hvað taka eigi við, þegar þessum ósköpum linnir, sem hann hefur hrúgað upp að undanförnu. Nei, hæstv. ráðh. tekst ekki að komast hjá staðreyndum málsins á svo auðveldan hátt. Honum tekst ekki heldur að komast hjá því að gera grein fyrir þessum sköttum með því að segja: Ja, allir hafa viðurkennt, að það væri nauðsynlegt a~ leggja svona mikla skatta á eða útvega svona mikið fé. — Ja, ég segi: Við sjálfstæðismenn höfum aldrei viðurkennt það, einfaldlega vegna þess að hæstv. ráðh. hefur aldrei gert grein fyrir þörf útvegsins. Hann hefur aldrei gert grein fyrir þörf útvegsins. Það var að vísu sagt, hæstv. forsrh. sagði, að tveir erlendir sérfræðingar, sem komu hér í haust, hefðu komizt að þeirri niðurstöðu, að það þyrfti að eiga sér stað millifærsla í þjóðfélaginu upp á 500 millj. kr. Við höfum óskað eftir því, að það yrði staðið við þau loforð, að sú skýrsla yrði birt, að við fengjum að sjá grg., sem allt þetta er byggt á. Nei, þá er nú fyrst þagað. Sú. skýrsla má ekki sjást. Það var þó talað um það dálítið digurbarkalega, að hún mundi nú verða sýnd síðar, þegar búið væri að breyta henni. En það sýnist þurfa nokkuð langan tíma til að breyta henni á þann veg, að hæstv. sjútvmrh. langi til að sýna almenningi á Íslandi hana. Þó var búið að lofa, að þessi skýrsla skyldi birt, og með henni skyldi fara fram úttekt á þjóðarbúinu í allra ásýnd, gagnstætt því, sem verið hefði, þegar íhaldið illa var við völd áður fyrri. En aldrei hefur annar eins feluleikur átt sér stað eins og nú. Nei, sannleikurinn er sá, að hæstv. sjútvmrh. fékkst alls ekki til þess, þegar lögin voru til meðferðar hér fyrir jólin, jólagjafarlögin, að gera mönnum grein fyrir efni þeirra laga, hvorki hverjar þarfir útvegurinn hefði, hvað hann ætti að fá mikið í sinn hlut og hvað sjómennirnir ættu að fá mikið. Ég fullyrti þá þegar, og ég endurtek þá fullyrðingu nú, að þetta var af ráðnum hug gert, vegna þess að hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. vildi ekki leyfa almenningi að kynna sér, hvernig þessar ráðstafanir væru í raun og veru. Það var fyrirætlun stjórnarinnar að hylja það fyrir stjórnarandstæðingum og fyrir almenningi, hvað verið væri að gera, og það glopraðist aðeins upp úr hæstv. ráðh. síðar í umr. á Alþingi, að sjómenn hefðu fengið jafnmikið og hann fullyrti þá að þeir hefðu fengið.

Nú efast ég mjög um, að sjómennirnir hafi fengið eins mikið og hæstv. ráðh. sagði. Og ég efast ekki síður um það, þó að þessi hæstv. ráðh. segi það, vegna þess að því miður, þó að hann sé um margt geðslegur maður, þá er hann að öðru þekktur frekar en sannsögli.

Eins þori ég að fullyrða, að enn er mjög óvist í flestra huga, jafnvel stjórnarliða, hvað útgerðarmönnum í raun og veru var ætlað með þessum ákvörðunum í desember í vetur, ég efast jafnvel um það, að allir í hæstv. ríkisstj. viti það, og loks efast ég um það, að hæstv. sjútvmrh. hafi til hlítar gert sér grein fyrir, um hvað hann samdi. Og ef hann hefur gert sér grein fyrir því, um hvað hann samdi, og hann hristi höfuðið yfir því, þegar ég bar það upp á hann nú, þá segi ég: þá er hann óorðheldnari en hægt er að trúa, að hann sé, því að hann hefur engan veginn staðið við þau fyrirheit, sem hann gaf. Nei, það má vel vera, að útvegurinn hafi þurft þessa aðstoð. Ég skal ekkert um það segja.

Ég endurtek það, sem ég hef ótal sinnum sagt hér í þingsölunum og enn þá oftar utan þingsalanna, að það er nauðsynlegt að halda við arðbærri útgerð á Íslandi, og það er nauðsynlegt að launa sjómannastéttina svo, að menn sækist eftir því að verða sjómenn. En það er nauðsynlegt að gera þetta fyrir opnum tjöldum. Það er nauðsynlegt að gera almenningi grein fyrir því, hverjar þarfirnar eru, hvar veikleikinn, hver er orsök meinsemdanna, því að ef það er hulið, þá fæst lækningin aldrei.

Hæstv. ráðh. spyr: Ja, hverjar eru till. sjálfstæðismanna? Hver eru úrræði sjálfstæðismanna? Ég segi: Úrræði sjálfstæðismanna hvíla á þeim einföldu sannindum, að menn verði að gera sér grein fyrir, að grundvallarframleiðslan í landinu þolir ekki hærra kaupgjald en hún sjálf vinnur fyrir, að úr atvinnuvegunum verður ekki tekið meira en þeir framleiða, og ef annarri stefnu er haldið uppi og þeir eru knúðir til þess að borga hærra kaup en þeir í raun og veru standa undir, þá er farið á villigötur. Og það er gert af pólitískum ástæðum af flokksbræðrum hæstv. sjútvmrh. að koma þessari svikamyllu af stað með því þannig að ná kverkatökum á þjóðlífinu, að fá því áorkað, að almenningur trúi því, að ef þeir séu ekki leiddir til æðstu valda, settir í þá stóla, sem þessir tveir Alþýðubandalagsmenn svokölluðu sitja nú hér í þingsalnum, þá sé þjóðarvoði vís. Það er þessi meinsemd, sem er undirstöðumeinsemdin, og fyrr en menn átta sig á þeim grundvallarsannindum, verða allar leiðir, hverjar sem þær eru, leið til bráðabirgða. Og ég spyr þessa hv. talsmenn stjórnarliðsins, sem nú eru að tala um það, að gengislækkun sé eina úrræðið, ef þetta hrófatildur hrynur til grunna, sem nú stendur, — þá spyr ég: Ja, hverju erum við nær með gengislækkun, hvaða úrræði reyndist gengislækkunin 1950, eins og Alþýðusambandsstjórnin og kommúnistar höguðu sér þá? Alþýðusambandsstjórnin var þó „loyal“ til að byrja með, en þegar hæstv. félmrh. náði völdum og kommúnistar komust undir með . skemmdarverk sín, hverju áorkaði hún þá? Gengislækkun er vitanlega gagnslaus, nema margt annað fylgi með, fyrst og fremst það, að allur almenningur átti sig á þeim undirstöðusannindum efnahagslífsins, sem allt hvílir á. Ef menn eru búnir að átta sig á þeim og skilja, að það verður ekki meira tekið af atvinnuvegunum en þeir raunverulega framleiða, þá er lausnin tiltölulega einföld. En meðan slík svikamylla heldur áfram sem þessir hæstv. ráðherrar hafa öðrum fremur gerzt hér talsmenn fyrir, þá er þetta mál mjög torleyst, og tjáir ekki að láta þannig, að það verði leyst með nokkrum töframeðulum. Veikleiki hæstv. fjmrh. og gremja hans í minn garð áðan kemur af því, að hann, þessi lífsreyndi maður, hélt, að bara með því að taka saman höndum við þessa tvo samráðherra sína væri allur vandi efnahagslífsins leystur, og þá var verið að kenna okkur sjálfstæðismönnum, að það sé okkar vonzku að kenna, að þær kenningar, sem þessir menn eru búnir að eyða allri sinni ævi í að innprenta fólki, eru enn þá of lifandi með þjóðinni. Nei, það þarf sannarlega meira til, og hæstv. fjmrh. hefur gert óhæfilega lítið úr sér með því að ganga svo í þá gildru, sem við vitum að vísu að hann gerði ekki af fúsum vilja, heldur leiddur af öðrum mönnum, en það bætir ekki hans hlut eða gerir hans veg á neinn hátt meiri.

Að öðru leyti komu fram eftirtektarverðar yfirlýsingar hjá hæstv. sjútvmrh. Hann hefur lag á því að blanda í sitt mál mjög fróðlegum upplýsingum, sem hann ætlast auðsjáanlega ekki til að komi fram með þeim hætti, eins og t.d. það, að nú væri Hamrafellið búið að lækka fragtina á einni ferð úr 160 shillingum, sem um var samið, niður í 115 shillinga. Því var ekki sagt frá þessu góðfúslega samkomulagi fyrr en þegar ég fór að ganga á eftir því hér í dag, að frá þessu væri skýrt? Og mér kemur það nú til hugar, — ég hélt, að deyfðarsvipurinn á hæstv. fjmrh. undanfarna daga kæmi af öðrum ástæðum, að það væri samvizkan, sem væri farin að óróa hann,en það skyldu þá aldrei hafa verið áhrifin af hinu góðfúslega samkomulagi, sem við höfum þurft að horfa upp á á andliti hæstv. fjmrh. fram til þessa, þar sem hann hefur verið eins og draugur afturgenginn upp úr gröf, þangað til í dag, að hann verður dálítið broshýrri, þegar hann fær að nýju færi á því að leggja skatta á landsfólkið? (Gripið fram í.) Já, það er vist alveg víst.

Ég skal ekki blanda mér í þær innanhúsdeilur, sem orðið hafa á milli stjórnarstuðningsmanna um það, hvaða úrræði séu vænlegust, og allra sízt um það, hvort Alþfl. sé allur nema hv. þm. Siglf. sammála um það, sem gert hefur verið. Hv. 1. þm. Rang. sýndi glögglega fram á það, að hinn nýi varaþm. fokksins, Bragi Sigurjónsson, hefur haldið fram mjög svipuðum kenningum varðandi haldgæði þeirra úrræða, sem hér er um að ræða, í heild, eins og hv. þm. Siglf., svo að ágreiningurinn um það, hvaða úrræði skyldi velja, sýnist óneitanlega vera meiri en hv. þm. Hafnf. vildi halda fram, enda hafa stjórnarsamstarfsmenn þeirra, Alþýðubandalagsmennirnir, hvað eftir annað fullyrt, að bæði Alþfl. og Framsfl. hafi í raun og veru viljað gengislækkun, en það hafi verið hetjurnar í Alþb., sem komu í veg fyrir það. Nú segir hæstv. forseti Sþ., minn ágæti vinur, þm. Hafnf., að þeir hafi alltaf í Alþfl. verið á móti gengislækkun. Ég skal ekki dæma hér um, hvor þeirra segir satt. En það vill löngum fara svo, að þegar menn eru lentir í vandræðum og þurfa að klóra sig út úr því, sem þeir skammast sín fyrir, þá fara þeir að kenna hver öðrum um og allt kemst í mótsagnir.

Út af álagningunni, sem nokkuð hefur verið gerð hér að umræðuefni og hv. þm. Hafnf. sagði um, að hann væri að vísu flokksbróður sínum, hv. þm. Siglf., sammála um það, að lækkun yrði að stilla svo í hóf, að atvinnurekstur yrði ekki skertur, eðlilegur atvinnurekstur, og sagðist trúa því, að ríkisstj. héldi þannig á, þá vil ég benda á ummæli hv. varaþm. Braga Sigurjónssonar um þetta atriði. Alþýðublaðið segir þannig frá ræðu hans, með leyfi hæstv. forseta: „Hins vegar sagði ræðumaður, að stöðvun sú, er gerð var á kaupgjaldi og verðlagi, hefði þótt spor í rétta átt og lækkun álagningar í heildsölu mæltist vel fyrir.“ Ég vek athygli á því, að hv. þm. takmarkar sig hér við það, að ákvæði um álagningu í heildsölu mælist vel fyrir. En af hverju mælast þá ekki ákvæðin um takmörkun álagningar í smásölu jafnvel fyrir? Af hverju er það ekki tekið fram? En kannske gæti hæstv. núverandi forseti, hv. 2. þm. N-M., gefið okkur dálitla skýringu á því, af hverju ýmsir stjórnarsinnar eru ekki sérstaklega glaðir yfir þessum álagningarákvæðum? Það er vegna þess, að þau koma þannig út, að kaupfélögin með sinn fasta rekstrarkostnað, mikla mannafla og þungu stjórn standast álagningarreglurnar jafnvel verr en kaupmenn, sem vinna að þessum störfum sjálfir með sínu skylduliði frá morgni til kvölds. Þess vegna er það, að sambandskaupfélagsstjórum hefur verið hóað hér saman hvað eftir annað, ýmist til þess að veita þeim heimild eða færi á því að gefa útrás reiði sinni, sumpart til að reyna að knýja hæstv. félmrh. til að veita eitthvað, sem þeir kalla leiðréttingu á þeim ákvæðum, sem hér hafa verið sett.

Þessir hv. þm. láta svo út í frá eins og allt sé með hýrri há og góðu samkomulagi þeirra á milli. En þegar skrif þeirra eru lesin ofan í kjölinn og menn eru nokkuð kunnugir því, sem á bak við býr, þá sjáum við nú, að þverbrestirnir eru fleiri, jafnvel töluvert fleiri en menn í fljótu bragði skyldu ætla.

Hv. þm. Hafnf. sagði, að það væri nánast ósæmilegt af mér, að ég hefði sagt, að framsóknarmenn, sérstaklega framsóknarmenn, hygg ég, væru að læða því út til sinna vina úti um landið, að kannske mundi verða gengislækkun fyrir haustið. Ja, ég fullyrði að þetta er gert, og ég fullyrði, að þetta hefur verið gert með allsendís ósæmilegum hætti af þessum aðilum í einstökum tilfellum. Og ég bendi á, að það er engan veginn óeðlilegt, þó að slíkur orðrómur komi upp, þegar í Tímanum, aðalmálgagni forsrh. og fjmrh., birtist slík klausa eins og í gær, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta: „Ef til vill geta þeir sjálfstæðismenn áorkað því, að viðreisnarráðstafanirnar, sem gerðar voru um áramótin, missi að einhverju leyti marks og frekari aðgerða verði því þörf. En þær verða þá því auðveldari og skiljanlegri, sem íhaldið lætur verr“ o.s.frv. Þarna er beinlínis verið að boða aðrar ráðstafanir, og það er búið að koma fram hér af hálfu a.m.k. hæstv. forseta Sþ., að ef þessar ráðstafanir dugi ekki, þá sé ekki um neitt annað en gengislækkun að ræða. Halda þessir hv. þm., að almenningur sé svo skyni skroppinn, að hann skilji ekki, hvað hér er á ferðum, og skyldi ekki þessi ofsalega ákefð stillingarmannsins hæstv. fjmrh. um að reyna að kenna sjálfstæðismönnum um það, að þeir væru að eyðileggja þessar framkvæmdir þeirra, koma af því, að hann er sjálfur orðinn sannfærður um, að þetta dugir ekki, og ætlar sér því að stefna út í gengislækkun? Og ætli sá orðrómur sé svo fjarri lagi, að endanlega hafi um gengislækkun verið samið, um leið og um útdeilingu bankaráðs og bankastjóraembætta var samið? A.m.k. hefur hæstv. fjmrh. eftir minni reynslu litla tilhneigingu til þess að láta nokkuð án þess að fá töluvert í staðinn. Ég veit það að vísu, að hæstv. forsrh. fékk það í staðinn að fá að sitja kyrr í sínum stól. Ég veit, að hæstv. fjmrh. er málefnalegri maður, og mér þykir það engan veginn ósennilegt, að hann hafi tekið þessa tvo samráðherra sína og látið þá lofa sér því, áður en hann féllst á að hleypa þeim inn í bankana, að þeir skyldu gera það, sem Vilhjálmur Þór teldi nauðsynlegt í þessu sem aðalbankastjóri, áður en yfir lyki. Og sú afsökun, að sá glundroði, sem nú ríkir, sé sjálfstæðismönnum að kenna, kemur heldur seint fram, því að í Tímanum í marz, 20. marz, hygg ég vera, er forustugrein um aðalfund miðstjórnar, og þar segir: „Þær skoðanir komu fram, að heppilegra mundi hafa verið að gera róttækari og óflóknari ráðstafanir í efnahagsmálunum um seinustu áramót“ o.s.frv. Róttækari og óflóknari ráðstafanir. Þarna gægist þetta sama fram, sem með öðrum orðum og dálítið skýrar er sagt s.l. sunnudag: ráðstafanirnar voru haldlausar, þær voru gagnslausar.

Við skulum líka muna eftir því, sem hæstv. fjmrh. sagði á fyrra stigi málsins hér á Alþ. Hann tók alls ekki að sér að verja þessar ráðstafanir í raun og veru. Hann sagði bara: Beztu ráðstafanirnar eru þær, sem verkalýðurinn sættir sig við. — Ja, verkalýðurinn, það er þá verkalýður, sem situr þarna. Það er tími til kominn, að þessir hv. berrar átti sig á því, að þeir eru alveg í sama skipi og Lúðvík sálugi 14., sem sagði : „Ég og ríkið, við erum eitt“ Hann fékk að reyna betur og hans afkomendur, þeir góðu menn, að þetta var alger misskilningur. Þó að þessir menn hafi í bili náð tökum á verkalýðshreyfingunni og misnoti hana sér til hags, þá á verkalýðurinn og þeirra hagsmunir ekkert skylt við þetta fólk — ekki nokkurn skapaðan hlut. Fólkið heldur áfram að hugsa alveg eftir sem áður, þó að þessir menn séu komnir til valda. Ég met það að vísu til trygglyndis íslenzkrar alþýðu, að hún hefur ekki strax snúið bakinu við þessum mönnum, eftir að hún sá, hvernig þeir hegðuðu sér, þegar þeir komust til valda. Það er þessi rótgróna trú fólksins að vilja trúa því bezta hjá þeim, sem maður hefur treyst í lengstu lög. Þess vegna hafa þessir menn enn þá meiri áhrif en maður skyldi ætla eftir þeirra framkomu. En vonbrigðin hjá þeirra fylgjendum eru miklu meiri en þessir menn ætla. Og ég segi hæstv. fjmrh. það alveg satt, að hann telur bæði mín áhrif og mín ráð miklu meiri og dýpri en þau eru, ef hann heldur, að ég geti hvort tveggja í senn stjórnað því, að Eimskipafélagsstjórnin sýni ósáttfýsi, og fengið húskarla mína, eins og hann orðaði það, til þess að heimta ógurlegar kaupkröfur, — kaupkröfur, sem voru þannig, að ef þeir hefðu fengið að greiða atkv., sem ekki komu til Reykjavíkur og enginn gat haft áhrif á, vissu allir, að seinasta till. sáttasemjara í farmannadeilunni hefði verið felld, og einmitt þess vegna var hún borin upp á fundi, og þar munaði aðeins 7 atkv. Ætlar hæstv. fjmrh. að telja mönnum trú um, að Bjarni Benediktsson, þótt bæði illur sé og undirhyggjumaður, að því er virðist að hans hyggju, hafi slík völd, jafnvel yfir mönnum úti í sjó, að ríkisstj. verði að beita öllu sínu valdi til þess að koma í veg fyrir, að mennirnir úti á hafi fái að greiða atkv. um sín eigin mál, til þess að þessi illi maður, Bjarni Benediktsson, geti ekki spillt þeim? Nei, þetta er of fáránleg kenning til þess, að slíkur maður eins og hæstv. fjmrh. láti sér hana um munn fara; enda sýnir það, að honum er allbrugðið, þeim góða manni, sem hefur allra manna mest gaman af fornum sögum og fróðleik og hefur það sér helzt til ágætis, hvað hann er vel að sér í þeim hlutum, að það er hans aðalákæruefni á mig, að ég skyldi koma hér upp í ræðustólinn áðan og segja sögur. Hann sagði ekki, að ég hefði sagt ósannar sögur, enda gat hann ekki haldið því fram, af því að hvert orð, sem ég sagði, var satt. En hann finnur það sjálfur, ef sannar sögur eru sagðar af því, sem hann hefur verið að burðast við að gera og hans félagar undanfarið, þá leiðir þar af í hans eigin samvizku, að fólkið segir: Ja, af hverju á ég ekki að fá kauphækkun eins og hinn? — Þess vegna þorir hann ekki, að sannleikurinn sé sagður. Þess vegna skýtur hann sér undir þögnina, undir það að þegja fyrir þingheimi, þessi að ýmsu leyti grandvari maður, að þegja fyrir þingheimi um ýmsar þær ráðstafanir, sem hann er að gera, og forðast að láta blað sitt segja frá þeim í þeirri fáfengilegu trú, að kjósendur austur á landi fái ekki að vita sannleikann, bara af því að Tíminn þegi um hann nokkra mánuði. Það tekst kannske að blekkja menn dálitla stund, en það verður ekki ýkja lengi. Og hæstv. ráðh. sagði, að það skyldi verða gert mönnum kunnugra en ég vildi, hvað ég hefði verið að aðhafast. Ég skal óhræddur mæta þessum hæstv. ráðh. og tala við hann, og hans gremja kemur af því, að hann veit, að það er ég, sem segi satt og held mér við sannleikann, en hann er nú í þeim félagsskap, þar sem sannleikurinn er hataður og fyrirlitinn.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði ekki sagt alla söguna um kauphækkun Sambandsins. Ég vil leggja áherzlu á, að hann staðfesti allt, sem ég sagði. Hann staðfesti, að Sambandið hefði s.l. haust, meðan kaupbindingarlögin voru í gildi, hækkað kaupið. Hann sagði að vísu: Það var gert til samræmingar. — Við hvað? Ja, við það, sem hann sagði í öðru orðinu, að aðrir hefðu gert löngu áður. Það var mikil óheppni og mikil óforsjálni af þessum hæstv. ráðh. að vera ekki búinn að veita Sambandsfólkinu þessa nauðsynlegu leiðréttingu, áður en hann beitti sér sjálfur fyrir því, að kaupbindingarlögin voru sett. Hann segir: Bókstafurinn bannar það ekki. — Nei, það er auðvitað það sama og okrararnir segja. Þeir passa alltaf að hafa sitt okur þannig, að bókstafurinn banni það ekki. En verknaðurinn er sá sami. Hæstv. ráðh. verður að skilja það, að hann sleppur ekki með þessum refjum frá sínum verknaði. Og ég spyr hæstv. ráðh.: Hvenær hefur kauphækkun verið gerð hér, svo að ekki sé sagt, að hún sé til samræmingar við eitthvað annað? Hvenær hefur hún verið gerð? Og ég spyr hæstv. sjútvmrh.: Var það ekki ástæðan til þess, að ríkisstj. ætlaði sér að leyna því, hvað útvegsmenn og sjómenn raunverulega áttu að bera úr býtum samkvæmt jólagjafarákvæðunum, að þeir vissu, að ef það yrði heyrinkunnugt, mundu þessar samræmingarkröfur rísa upp með ómótstæðilegum krafti? Auðvitað vitum við allir, að þetta var ástæðan. Því í ósköpunum eru mennirnir að gera sig að þeim börnum, fávitum í okkar augum að vera að neita þessu, sem allir vita?

Það getur vel verið, að það hafi verið rétt og nauðsynlegt að láta Sambandsfólkið fá hátt kaup og hæstv. fjmrh. hafi verið tregari til að gjalda því kaup en ríkisstarfsmönnum, þó að það sé nú kannske ekki sennilegt, þegar til þess er litið t.d., að bændur landsins furða sig mjög á því, hvað hann býr ólíkt betur að þeim skóla, sem Sambandið heldur uppi, varðandi húsakost og annað slíkt, en búið er að bændaskólum og öðrum skólum, sem ríkið á að sjá fyrir. Það getur skeð, að peningarnir séu fengnir með því að halda í kaupið við Sambandsfólkið í lengstu lög. En þarna var þá haldið í kaupið lengur en hægt var að gera, ef átti að byrja kauphækkunarskriðuna hjá Sambandinn, meðan þessir herrar höfðu sett kaupbindingarlög á allan almenning í landinu. Og hæstv. ráðh. komst ekki hjá því að staðfesta það, sem ég sagði um 7 aurana, sem hann ákvað að greiða niður til viðbótar úr ríkissjóði á mjólkurlitra. Hann var að fara í kringum það, að ég hefði sagt, að það hefði átt að balda þessu leyndu. Samt hef ég lesið þetta í blöðum. Hæstv. ráðh. veit, að þjóð veit, þá þrír vita, og það sýnir þá barnalegu einfeldni, sem hefur gripið þennan annars áður svo greinda mann, að honum skyldi detta í hug, að það væri hægt að halda því leyndu bara með því, að hann þegði um það fyrir okkur og léti Tímann þegja um það enn í dag, að þessir 7 aurar væru greiddir. Það er svo skrýtið, að mönnum sýnist bregða. Það er sagan um skemmda eplið, sem alltaf kemur fram. Það er auðvitað ekki nóg til að leysa vandamálin að hafa góðan vilja til þess, eins og ég efast ekki um að þessir hæstv. ráðleysingjar hafi. En það bara nægir ekki, og það nægir ekki, þó að Tíminn þegi um staðreyndirnar, þær breytast ekki vitundar ögn við það. Ef við ætlum að lækna meinsemdirnar, þá er það fyrsta að gera okkur grein fyrir, hverjar staðreyndirnar eru, og gera öllum landslýð ljóst, hverjar þær eru og við hvað er að glíma. Ef menn hafa ekki kjark til þess að gera það og tala síðan hreinskilnislega um vandamálin, þá hafa þeir lagt í vonlausa baráttu.

Hæstv. fjmrh. hóf mál sitt á því að býsnast mjög yfir því, að ég hefði gengið eftir því hér, að hann og fleiri ráðh. væru við umr. Ég tel það þingræðislega skyldu ráðh. að vera við umr. meiri háttar mála á Alþ. Það er þeirra embættisskylda, til þess eru þeir launaðir, og þó að þeir hafi öðrum embættisstörfum að gegna, þá verða þeir að haga þeim þannig, að við umr. um hin mest varðandi mál séu þeir viðstaddir. Við, sem höfum lagt það á okkur að sitja hér á þingbekkjum í vetur, vitum, að þessir hæstv. herrar hafa mjög sjaldan sézt hér, þ. á m. hæstv. fjmrh., sem áður fyrri stundaði sín þingstörf með prýði. Það er í því eins og öðru, að honum hefur farið aftur, og það er meðal annars þess vegna, sem hann saknaði þess að hafa ekki séð sinn gamla húsbónda, Ólaf Thors, það er vegna þess að þeir hafa litzt hér svo sjaldan, að þegar Ólafur hefur verið hér, þá hefur Eysteinn verið í burtu, svo sem oftast er. Og ég heyrði, að það var sannarlegur saknaðarblær í rödd ráðh., hann nærri viknaði og komst við, þegar hann lýsti sorg sinni yfir því að hafa ekki séð sinn gamla húsbónda. Ég vonast til þess, að það verði áður en langt um líður, að þeir hittist, og ég vonast nú ekki eftir því, að það þurfi á miklu samstarfi við hæstv. fjmrh. að halda í bili, en ég hygg, að honum væri eftir sem áður holl handleiðsla sér betri og vitrari manna.